06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

178. mál, veiting prestakalla

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég er ekki nálægt því nógu vel að mér í innviðum samvinnuhreyfingarinnar til þess að geta vitnað bókstaflega til þeirra reglna sem þar gilda um kosningar, en mér skildist á samtali manna hér í hinni hv. d., að jafnvel deildarstjórar séu kjörnir af deildum, það sé það mikið lýðræðisfyrirkomulag þar að deildir fái að kjósa sér deildarstjóra. Og þá sjá menn í svo miklu stærra máli eins og kosningu prests, hvort það sé ekki meira en eðlilegt að þar sé um almennar kosningar að tefla.

Mér þótti þetta afbragðsræða hjá hæstv. utanrrh., og svo fer það náttúrlega eftir þroska manna á hinu háa Alþ. hvort þeir leggi að jöfnu lestur upp úr lagasafni og Gagn og gaman, en hann kom alveg að meginmáli þess sem hér er til umr.

Það var vegna orða hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar þegar hann vildi leiða rök að því að við í máli okkar, hv. þm. Karvel Pálmason og ég, hefðum eiginlega verið til viðræðu um það og talið eðlilegt að samþykkja þessa till., þar sem víð gerðum því skóna að vel mætti líta á ýmislegt í þessu til endurskoðunar, sem gerði það að verkum að ég sá mig til knúinn sérstaklega að standa hér upp, vegna þess að ég tók skýrt fram sem og hann gerði, hv. þm.

Karvel Pálmason, að við gætum ekki fylgt þessari till. þar sem forsendur hennar væru þær að hrinda núverandi fyrirkomulagi um veitingu prestakalla, um hina almennu kosningu presta. Það kom fram við upplestur hæstv. utanrrh, að lögin, eins og menn vissu, fjalla einvörðungu um þetta fyrirkomulag og ekkert annað er þarna í boði en að hrinda þessari aðferð sem við er höfð. Það getur enginn, sem ekki vill breyta til í þessu efni samþykkt þessa till. þar sem hún gengur út á ekkert annað. Það er verið að reyna að skáskjóta henni hérna í gegnum þingið. Menn athugi að það er verið að reyna að setja á laggirnar u., sem endurskoði þetta, og vinna málinu þann veg framgang. Ekkert annað er hér á ferðinni. Grunntónninn, segir hv. þm. Gunnlaugur Finnsson, er endurskoðun á þessu fyrirkomulagi. Það er allur tónninn, það er öll hljómkviðan í þessu tali hjá þeim sem fylgja vilja þessari breytingu. Þar er lagið sungið til enda, þar sem lögin, sem á að endurskoða, fjalla um ekkert annað en þetta fyrirkomulag. Og eins og kom fram í upplestri hæstv. utanrrh., þá er öll aðferðin við kosninguna sjálfa og framkvæmd hreint aukaatriði sem engum manni dettur í lifandi hug að leiða hugann að að þurfi endurskoðunar við, — að sjálfsögðu ekki.

En ég legg alveg sérstaka áherslu á þetta, að bað verði ekki snúið út úr því sem skýrlega kom fram í mínu máli og raunar hv. þm. Karvels Pálmasonar, að ástæðurnar til þess. að ekki kemur til greina að við getum samþykkt þessa þáltill., eru forsendur till. sem snúast um ekkert annað en að afnema almennar prestskosningar.

Ég vil svo, herra forseti, fara þess á leit að umr. um þessa þáltill. verði frestað. Enda þótt ég ætti ekki von á því að tala mig dauðan í þessu máli, þá er nú samt svo komið, en ég vildi af sérstökum ástæðum óska þess við herra forseta að hann frestaði umr. og afgreiðslu till.