06.04.1976
Sameinað þing: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

178. mál, veiting prestakalla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég má til að segja örfá orð í viðbót, þó ekki sé til annars en að fagna því innilega að vinur minn, hæstv. utanrrh., er ekki enn þá svo illa haldinn af embættisáhyggjum að hann geti ekki brugðið á leik eins og stundum í gamla daga og farið á kostum hér í ræðustól. En í ræðu sinni tókst honum að sanna að það má breyta öllum greinum laganna sem hann las upp, því að hann endaði jafnan á því: Þessu má sjálfsagt breyta.

Það eru ekki mín orð að hv. alþm. séu skyldugir til að fara í einu og öllu að vilja Kirkjuþings. Það er fjarri því, eins og lá þó í orðum hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég veit líka að mörg atriði í löggjöf kirkjunnar eru orðin mjög gömul og þarfnast vafalaust endurskoðunar og athugunar. En ég verð að ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að lög um Kirkjuþing eru þó ekki eldri en frá 1957, og það var í 14. gr. þeirra laga sem ég leyfði mér að vitna í í ræðu minni áðan. Kirkjuþing er skipað bæði lærðum og leikum, og það stendur beinlínis í þeirri löggjöf að það eigi ráðgjafaratkvæði og tillögurétt, m.a. um mál sem heyra undir verksvið löggjafarvaldsins.

Um þessa till. hefur orðið algjör eining í allshn. Ef hv. alþm. eða allstór hópur þeirra er áfjáður ? að fella þessa till. hv. allshn., þá vil ég benda þeim á hvort ekki er eins gott hreinlega að afnema lög um Kirkjuþing, ef við eigum að láta eins og vind um eyru þjóta það sem þar er samþykkt og ítrekað á hverju Kirkjuþinginu eftir annað. Hitt er svo annað mál, hvort hv. alþm. vilja fara eftir lögum um Kirkjuþing. Við verðum þó að viðurkenna að við höfum sjálfir sett þau lög, eða a.m.k. allstór hópur þeirra, sem nú sitja hér á Alþ., hefur sett lögin frá 1957, og þau ber að virða eins og önnur lög sem hv. Alþ. setur.