07.04.1976
Sameinað þing: 77. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. orkuráðh. fyrir þá skýrslu sem hann gaf hér á Alþ. í gær.

Undanfarnar vikur hefur verið miklu moldviðri þyrlað upp umhverfis þessa virkjun, og áreiðanlega eru þeir margir sem ekki átta sig á því hvað snýr upp og hvað snýr niður í öllum þessum gauragangi. Það var því þörf á þessari skýrslu og umr. um hana til að hreinsa andrúmsloftið. Allur þessi mikli gauragangur út af Kröfluvirkjun á sér þó að nokkru leyti eðlilegar orsakir, bæði náttúrufræðilegar og tæknilegar, þótt saman við blandist ýmsar annarlegar hvatir, svo sem æsifréttamennska í fréttaþyrstum síðdegisblöðum og áberandi viðleitni eins stjórnmálaflokksins til að nota þetta mál, sem í eðli sínu er ekki flokkspólitískt, til að reyna að krafla sig upp úr þeim pytti sem hann er dottinn í.

Hins vegar er það síður en svo neitt einkennilegt að menn þurfi mikið að ræða um Kröfluvirkjun. Við erum að stíga fyrstu sporin til að nýta mestu orkulind íslendinga, gufuþrýstinginn í jörðinni, til raforkuframleiðslu, og þar koma upp ýmis tæknileg vandamál sem sérfróða menn getur greint á um, hvað þá leikmenn. En auk þess erum við svo merkilega seinheppin að þegar framkvæmdir standa sem hæst kemur upp gos á svæðinu, annað gosið sem verður í þessari eldstöð í 1100 ár, svo að sögur fari af. Samt sem áður virðast vísindamenn sammála um að engin orsakatengsl geti verið milli virkjunarframkvæmda og gossins, þetta virðist aðeins merkileg tilviljun, en auðvitað kemur á menn nokkurt hik um framhaldið, a.m.k. fyrst í stað. Til viðbótar þessu hafa almenn viðhorf í orkumálum breyst hvað eftir annað ótrúlega snöggt á undanförnum árum. Fyrirsjáanleg nýting orkunnar hefur sveiflast upp og niður með óvæntum hætti og raskað fyrri áætlunum.

Með þessu er ég þó ekki að segja að hæstv. orkuráðh. beri enga ábyrgð á þeim vanda sem við blasir og lýsir sér einkum í lélegri nýtingu framleiddrar orku á næstu árum. Hvað sem líður öllum ásökunum á yfirstjórn orkumála út af Kröfluvirkjun, ásökunum sem menn hljóta að miklu leyti að vísa á bug sem órökstuddum, þá er hitt ljóst, að ríkisstj. hefur skort heildarstefnu í orkumálum og hana má ásaka fyrir ýmislegt annað í raforkumálum en byggingu Kröfluvirkjunar. Þar á ég fyrst og fremst við nýtingu orkunnar, ekki orkuöflunina.

Bygging orkuvera við Sigöldu og Kröflu var tvímælalaust nauðsyn í ljósi þeirra viðhorfa sem við blöstu fyrir rúmu einu ári, og sama gildir um byggingu byggðalínunnar. En sá þátturinn, sem snýr að nýtingu orkunnar, hefur bersýnilega farið nokkuð úrskeiðis og ég mun víkja að því atriði síðar. En fyrst vil ég snúa mér beint að þessu margrædda máli, Kröflumálinu. Og þá er kannske réttast að byrja þar sem þingmenn allra flokka höfðu einum rómi samþykkt lög um Kröfluvirkjun og þar með lýst samþykki sínu við þau yfirlýstu áform Magnúsar Kjartanssonar þáv. iðnrh. að ráðist yrði í þessa virkjun svo fljótt sem auðið yrði.

Magnús Kjartansson skipaði Kröflunefnd 21. júní 1974, og hann fól henni í erindisbréfi að hraða sem mest byggingu þessarar virkjunar fyrir hönd rn. og í samstarfi við það og önnur yfirvöld orkumála. Því hefur verið haldið fram að skipun þessarar n. hafi verið mistök, þetta sé pólitísk n. og það eigi ekki við í slíkum málum. T.d. segir Þorleifur Einarsson í Þjóðviljanum 1. apríl s.l., og í það var vitnað við umr. um málið hér s.l. fimmtudag og ég endurtek það hér, með leyfi forseta: „Mér finnst pólitísk Kröflunefnd mistök.“ Hvenær er nefnd pólitísk og hvenær er hún það ekki? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur hann hann ekki? Þannig geta menn auðvitað velt vöngum. Virkjun af þessu tagi er auðvitað viðfangsefni fjöldamargra sérfræðinga. Það eru mörg sérfræðisviðin sem koma við sögu þegar virkjun er gerð. Hvers konar menn eiga þá að skipa slíka n.? Það er hlutverk stjórnmálamanna að sitja á Alþ. og taka þar ákvarðanir um fjöldamörg sérfræðileg efni. Eins er um fulltrúa í bæjarstjórnum eða í óteljandi starfsnefndum. Það er hlutverk þessara aðila að tengja saman sérfræðilegar upplýsingar sem þeir safna úr ýmsum áttum. Ég held að engum hafi dottið það í hug að kirkjumrh. þurfi nauðsynlega að vera prestur eða samgrh. þurfi að vera verkfræðingur. Viðfangsefni slíkrar stjórnarnefndar eru að sjálfsögðu að ráða til sín sérfræðinga og taka ákvarðanir á grundvelli allra upplýsinga. Allar ákvarðanir, sem teknar hafa verið í Kröflunefnd, hafa verið byggðar á ráðum ráðgjafarverkfræðinga og þar hafa færustu vísindamenn, innlendir og erlendir, komið við sögu. Auðvitað er alltaf hugsanlegt og alls ekkert óeðlilegt að fram komi aðrar skoðanir um það hvernig hafi átt að leysa þessi vandamál. En það, sem er óvenjulegt í þessu máli, er að ágreiningur um þessi tæknilegu atriði skuli vera gerður að opinberum pólitískum þrætum, eins og hefur gerst í þessu máli. Og ég vil spyrja, þegar menn ræða um það hvort Kröflunefnd sé pólitísk nefnd, n. sem að vísu er skipuð 3 alþm. og 2 verkfræðingum: Hvers vegna dettur mönnum ekki í hug þá að slöngva slíku fram varðandi aðrar stjórnarnefndir ríkisins? Hvernig er t.d. með Landsvirkjun? Skyldi þar vera pólitísk n. eða sérfræðinganefnd? Ég get upplýst hv. alþm., ef þeir kynnu að vera ófróðir um það, hverjir sitja í stjórn Landsvirkjunar. Auk stjórnarformannsins, Jóhannesar Nordals, eru þar frá Sjálfstfl. Árni Grétar Finnsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson og Geir Hallgrímsson, frá Alþfl. Baldvin Jónsson, frá Framsfl. Einar Ágústsson og frá Alþb. Guðmundur Vigfússon. Þetta eru þeir sem stjórna framkvæmdum við Sigöldu. Hvers vegna talar enginn um að þetta sé pólitísk stjórnarnefnd? Að sjálfsögðu vegna þess að slík fullyrðing er innantóm, hefur ekki nokkra praktíska merkingu.

Önnur ásökun, sem fram hefur komið, er sú, að framkvæmdum við Kröflu hafi verið hraðað óeðlilega og það hafi haft í för með sér aukinn kostnað við virkjunina. Án þess að fjölyrða um þessa ásökun get ég látið mér nægja að benda á að þetta er gjörsamlega ósönnuð fullyrðing. Það er rétt, að það var ákveðið að hraða virkjunarframkvæmdum til þess að a.m.k. einhver hluti hennar gæti komið í gagnið sem fyrst, og það er margt sem bendir til þess að þessi ákvörðun muni gera virkjunina ódýrari en ella hefði verið. Hröðun framkvæmda við byggingu virkjunarinnar mun að sjálfsögðu leiða til þess að hún kemst fyrr í gagnið, fer fyrr að skila tekjum. Það þýðir þá um leið lækkun vaxta á byggingartíma sem ævinlega sparar mikið fé ef á sama tíma er unnt að ná hagstæðum samningum, og ég get leyft mér að fullyrða að það hefur tekist í öllum meginatriðum.

Enn ein ásökunin er sú, að virkjunin sé langtum stærri en lögin hafi heimilað og hér sé um að ræða 70 mw. virkjun í staðinn fyrir 55, Í því sambandi má kannske vitna til eins helsta gagnrýnanda þessarar virkjunar, Þorleifs Einarssonar, í grein sem lesin var hér upp í þinginu fyrir fáum dögum, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Í þáltill. um heimild til gufuaflsvirkjunar við Kröflu er talað um 55 mw. og þá miðað við eina vél. Síðar var svo ákveðið að hafa þar tvær vélar, sem framleiða ættu 70 mw.“

Þetta mun vera dæmi um það sem ég nefndi hér á fimmtudaginn að væri ofsagt, vegna þess að það er rangt — ja, það er auðvitað í fyrsta lagi rangt að hér hafi verið um þáltill. að ræða, það er nú aukaatriði. Í öðru lagi er rangt að það hafi verið ákveðið í lögunum að um yrði að ræða eina vél. Það var hvergi á það minnst í lögunum. Og í þriðja lagi er það ekki rétt, strangt tekið, að hér sé um 70 mw. virkjun að ræða, því að ástimplað afl vélanna er 60 mw., enda þótt það sé í þessu tilviki eins og fjöldamörgum öðrum, þar sem aflvélar eiga í hlut, að hámarksafköst vélanna geta orðið 70 mw. Það, sem veldur því að um var að ræða 60 mw. vélar, en ekki 55, var að við útboð og leitun eftir tilboðum í vélarnar hljóðaði ekkert tilboðið upp á vélar af stærðinni 40, 45, 50 eða 55 mw., heldur var þar um þann einn kost að ræða, ef um yrði að ræða virkjun af þessari stærðargráðu, að keyptar yrðu tvær 30 mw. vélar. Hins vegar er það staðreynd að tilboðið, sem tekið var, skar sig úr hvað þetta snerti, að enda þótt vélin væri hönnuð sem 60 mw. vél. þá hafði hún hámarksafköst 70 mw., sem hinar vélarnar höfðu ekki, og kannske var það einmitt þetta sem réð úrslitum um það meðal annarra atriða að þessi vél varð fyrir valinu.

Það hefur margoft komið fram að Norðurland vantar afl alveg sérstaklega. Aflskorturinn er meiri en orkuskorturinn í sjálfu sér. Það mun því áreiðanlega koma sér vel síðar meir að fyrir valinu varð vél sem hafði mikið afl.

Því hefur verið haldið fram af ýmsum aðilum að rannsóknir á svæðinu hafi verið ófullnægjandi. Nú er það að vísu svo að þetta atriði er ekki á verksviði Kröflunefndar, heldur er þessi þáttur málsins algjörlega á sviði Orkustofnunar og er því kannske ekki ástæða til að fjölyrða ýkjamikið um hann. Ég get þó ekki látið hjá líða, vegna þess að hér var lesið upp úr grein Þorleifs Einarssonar s.l. fimmtudag einmitt þessu atriði viðvíkjandi, þar var lesið upp: „Það var gerð frumrannsókn á svæðinu, jarðfræði- og jarðeðlisfræðileg, og nauðsynlegar mælingar í því sambandi. Hins vegar er allri annarri forrannsókn að virkjuninni sleppt. Ekkert var því vitað um afkastagetu svæðisins utan það að hún var talin mikil. Hitastig var ekki þekkt né heldur hlutfallið milli gufu og vatns, en það ræður mestu um gerð vélanna.“ Þetta las ég upp, vegna þess að hér er mikill misskilningur á ferðinni, einn af fleiru sem ég nefndi í minni örstuttu ræðu hér á fimmtudag.

Mér kemur það mjög spánskt fyrir sjónir að fræðimaður, sem gagnrýnir rannsóknir á þessu svæði, skuli láta þess algjörlega ógetið að boraðar voru tvær rannsóknarholur á svæðinu, og það skal upplýst hér að okkur var tjáð, Kröflunefndarmönnum, hvað eftir annað að þessar rannsóknaholur mundu segja það sem þyrfti að vita áður en ákvarðanir væru teknar um vélakaup. Við óskuðum eftir því á vissu tímabili að boruð yrði ein vinnsluhola, en því miður var ekki hægt að koma því við og fullyrt var að allar þær upplýsingar, sem nauðsynlegar væru, mundu koma í ljós við þessar rannsóknarholur. Nú get ég ekki um það dæmt hver fari með rétt mál í sambandi við þann ágreining sem nú löngu siðar hefur komið upp, þar sem nokkrir starfsmenn stofnunarinnar gagnrýna það að ekki hafi legið fyrir vinnsluhola þegar ákvarðanir voru teknar um kaup á vélum.

Í yfirlýsingu fimm starfsmanna Orkustofnunar, sem birt var í Morgunblaðinu í gær og í fleiri blöðum í morgun, kemur fram sú gagnrýni og sú ábending að rannsóknarholur af þessu tagi geti ekki komið í stað vinnsluhola vegna þess að vinnsluholan gangi dýpra niður og sé því ljóst að meðan vinnsluhola hafi ekki verið boruð sé rannsókn í raun og veru ekki fulllokið. Ekki skal ég mæla á móti því að hér eru röksemdir á ferðinni sem engin leið er að vísa á bug, og þetta kann að vera út af fyrir sig ekki fráleit afstaða. Ég ætla sem sagt ekki að blanda mér í þessa deilu út af fyrir sig sem verður auðvitað fyrst og fremst að fara fram milli þeirra sérfræðinga sem hér eiga hlut að máli. En ég vil taka fram, og það er það sem máli skiptir í þessu sambandi, að þessi sjónarmið voru ekki kynnt meðlimum Kröflunefndar áður en hún tók ákvarðanir sínar. Þessi sjónarmið hafa komið fram síðar og allt of seint. Í þessu sambandi vil ég upplýsa að ég ræddi þessi mál allítarlega við orkumálastjóra í gær og hann leyfði mér að hafa það eftir sér að yfirlýsing þessara fimm starfsmanna Orkustofnunar túlkaði ekki viðhorf Orkustofnunar, Hann sagði að enda þótt allir gætu verið út af fyrir sig sammála um það, að þegar um væri að ræða byggingu virkjunar og borun færi fram á sama tíma og uppsetning véla, þá væri tekin einhver áhætta um að ekki yrði um að ræða fyllstu nýtingu. En hann lagði hins vegar á það sérstaka áherslu, og það vil ég að menn geri sér fullkomlega ljóst, að hann teldi að það væri engin ástæða til að ætla að þær vélar og búnaður, sem keypt hefði verið til virkjunarinnar, yrðu ekki nothæf vegna þess að eitthvað annað kæmi í ljós en ætlað hefði verið. Hann taldi það fráleitt með öllu.

Í þessu sambandi er rétt að geta þeirrar gagnrýni, sem kom einnig fram hér í þinginu s.l. fimmtudag, þar sem því er beinlínis haldið fram að vélarnar séu gerðar fyrir 270 stig og bundnar við það hitastig. Þessi fullyrðing er einnig höfð úr grein Þorleifs Einarssonar í Þjóðviljanum s.l. fimmtudag og er enn eitt dæmið um að nokkuð er ofsagt í þeirri grein.

Ég vil í þessu sambandi fyrir þá, sem vilja hafa skoðanir fræðimanna um þetta atriði á hreinu, benda á grein Valdimars Kr. Jónssonar í morgunblaðinu í gær, þar sem hann gerir einmitt grein fyrir þessu atriði. Til þess að lengja ekki ræðu mína um of, þá ætla ég ekki að fara að lesa þessa grein, a.m.k. ekki hvað snertir þetta atriði, en einungis benda á að í greininni, sem er skrifuð af tvímælalaust mjög svo sérfróðum manni á þessu sviði, manni sem hefur gefið sér margra mánaða tíma til þess að kynna sér nákvæmlega það atriði sem hér er um fjallað og er prófessor í þessum fræðum við Háskóla Íslands, þar upplýsir hann fáfróðan almenning um að þessi fullyrðing sé röng, vélarnar séu ekki bundnar við þetta hitastig. Auk þess fjallar hann í alllöngu máli um að það sé misskilningur á ferðinni í grein Þorleifs Einarssonar að vélarnar taki vatn inn á sig, eins og skilja mátti af greininni.

Í sambandi við jarðskjálftaþol byggingarinnar hafa orðið nokkrar umr, og m.a. er eitt af því, sem var lesið upp á Alþ. fyrir nokkrum dögum, eitt af mörgu sem haft var eftir Þorleifi Einarssyni að væri heldur miður í fari Kröflunefndar, að hún hefði gefið villandi eða rangar upplýsingar um jarðskjálftaþol byggingarinnar. Ég vil benda á það að í grein Valdimars Kr. Jónssonar í Morgunblaðinu í gær er einmitt fjallað mjög ítarlega um þetta atriði og gerð grein fyrir þeim misskilningi, sem bersýnilega er á ferðinni í grein Þorleifs Einarssonar. Þar er lögð á það áhersla að þær upplýsingar, sem áður höfðu verið gefnar um að hönnun stöðvarhússins hefði verið miðuð við það jarðskjálftaþol sem jafna mætti við jarðskjálfta 7 stig á Richterskvarða í námunda við stöðvarhúsið, þær upplýsingar stæðust fullkomlega, væru réttar og það væri rangt, sem haldið væri fram, að engin hús hefðu verið byggð svo sterk að þau þyldu 7 stiga jarðskjálfta á upptakasvæði hans. Því er sem sagt haldið fram af Valdimar Kr. Jónssyni og stutt allgóðum rökum, að hús hafi verið hönnuð með tilliti til Richterskvarða hvað jarðskjálftaþol snertir. Tel ég ástæðulaust að orðlengja um þetta atriði, vildi bara vekja athygli á því að þessu hefur verið fullsvarað, svo getum við látið fræðimönnunum eftir að halda áfram að rökræða um þetta mál. Það segir sig sjálft að hvorki ég né aðrir nm. Kröflunefndar, við getum talið okkur neina endanlega dómara um það hvort einn sérfræðingurinn er öðrum fremri í þessu efni. En við teljum að þær upplýsingar, sem við höfum byggt á, séu studdar fyllstu sérfræðilegu rökum, og meðan annað hefur ekki komið fram, sem hnekkir þeim, teljum við að þær séu fullnægjandi.

Þá er komið að því atriði sem er kannske hvað mest um rætt í þessu sambandi, en það er að orkumarkaðurinn sé ekki nægilega stór fyrir Kröfluvirkjun, og þá alveg sérstaklega slagorðið, sem glymur stöðugt í eyrum manna, að byggðalína geti leyst þennan vanda og það sé því eins gott að fresta Kröfluvirkjun. Ég vil biðja menn að hverfa aftur til ársins 1974 þegar stórákvarðanir voru teknar um að halda áfram Sigölduvirkjun og um að byggja byggðalínuna og Kröfluvirkjun. Á árinu, sem fylgdi þar í kjölfarið, 1975, var tekin ákvörðun um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Lágmark þess orkumagns, sem afhenda þurfti málmblendiverksmiðjunni, var 260 gwst. af forgangsorku og 137 gwst. af afgangsorku, en þetta er um það bil helmingur af því orkumagni sem fæst frá Sigöldu. Jafnframt var um svipað leyti gert ráð fyrir því að hraða nýtingu rafhitunarmarkaðarins, samfara línulögn til Vestfjarða og Austfjarða. Var augljóst af þeim gögnum sem þá lágu fyrir að Kröfluvirkjun varð áð hraða sem mest. Ég vil í þessu sambandi benda á orkuspá sem alþm. fengu í hendur árið 1975, fyrir einu ári, þar sem sýnt var fram á að Sigölduvirkjun yrði ekki fær um að anna orkueftirspurn án Kröfluvirkjunar, en með aðstoð byggðalinu, nema á árinu 1977, því að þegar á árinu 1978 yrði mikill orkuskortur án Kröfluvirkjunar, sem næmi 160 gwst., og á árinu 1979 401 gwst. Þetta kom fram í orkuspá sem okkur alþm. var afhent fyrir einu ári. Og það er fyrir einu ári sem allar helstu ákvarðanir um byggingu þessarar virkjunar voru teknar. Eftir það varð tæpast aftur snúið þar sem menn höfðu bundið sig í föstum samningum um kaup á öllum helsta búnaði og tækjum virkjunarinnar.

Staðreyndin er sú að í öllum þeim útreikningum, sem fram fóru áður en ákvarðanir voru teknar um vélastærð þessarar virkjunar, var reiknað með byggðalínunni til viðbótar við Kröfluvirkjun. Ég get í þessu sambandi, ef ég gæti leyft mér að taka hér ótakmarkaðan tíma, lesið hér upp löng bréf frá ráðgjafarverkfræðingum Kröfluvirkjunar þar sem þeir benda á að þrátt fyrir það að byggðalínan komi að fullum notum, þá sé mjög hæpið að byggja virkjunina í tveimur áföngum. Ég vil nú leyfa mér að lesa hér upp smáklausu úr bréfi sem n. fékk 4. mars 1975, þar sem þetta atriði er einmitt tekið til skoðunar, en þar segir, í bréfi ráðgjafarverkfræðinganna:

„Samkvæmt beiðni n. höfum við athugað áhrif þess að byggja virkjunina í tveimur áföngum í stað eins, eins og gert hefur verið ráð fyrir. Niðurstaða okkar er sú, að slíkt sé mjög óhagkvæmt þar sem í fyrsta lagi gefi orkuspá til kynna þörf fyrir seinni áfanga mjög fljótlega, í öðru lagi verður rekstraröryggi fyrsta áfanga lítið þar sem ekki er varaafl fyrir hendi, og enn fremur minnkar greiðslubyrðin lítið þó þetta sé gert.

Ætli þetta bréf sýni ekki mjög skýrlega hvernig viðhorfin blöstu við Kröflunefndarmönnum þegar um þessi mál var fjallað fyrir einu ári. Það er hins vegar öllum ljóst að aðstæður hafa töluvert breyst síðan þetta var og orkuspár eru sennilega ekki jafnháar tölulega séð og þær voru fyrir einu ári. Þar kemur t.d. til álita hitaveitan á Akureyri, þar kemur til álíta hægari aukning orkunotkunar en áður var reiknað með, hvort sem sú spá er raunhæf eða ekki, og þar kemur einnig inn í dæmið það atriði að málmblendiverksmiðjunni var frestað. En í kjölfar þessara breytinga hefur þróunin orðið sú, að byggðalinan er ekki sú lína sem gert var ráð fyrir fyrir 2–3 árum. Eins og hún er nú upp byggð og verður á næstu mánuðum, þá mun hún ekki flytja nema brot af þeirri orku sem hún kann að flytja einhvern tíma síðar meir þegar hún verður fullbyggð.

Ég vil taka þau orð, sem lesin voru og höfð voru eftir Þorleifi Einarssyni í þinginu hér á fimmtudaginn var, til marks um endurtekin slagorð í þessum efnum, þar sem hann segir: „Það er ljóst að með lagningu byggðalínunnar verður komið í veg fyrir raforkuskort á Norðurlandi, en hún á að geta flutt 8–10 mw. næsta haust.“ Þetta er einfaldlega rangt. Ég gæti fært ýmis rök máli mínu til stuðnings og þ. á m. hef ég orð orkumálastjóra fyrir því að byggðalínan nægir ekki til þess að koma í veg fyrir orkuskort næsta vetur. Hann tjáði mér í viðtali mínu í gær við hann að við bestu aðstæður á mjög góðum vetri væri hugsanlegt að byggðalínan gæti flutt 70% af því afli sem hún þyrfti að flytja, að sjálfsögðu miklu minna í vondu ári og enn minna ef orkunotkunin yxi meir en ætlað hefur veríð. Ég get líka bent hér á ummæli Valdimars Kr. Jónssonar í grein hans í gær þar sem hann segir, með leyfi forseta: „Afl Kröflu verður fullnýtt 2–3 árum eftir að hún fer í gang, og á ég ekki von á að norðlendingum finnist neitt mikið í lagt þó svo sé, miðað við ástand undanfarinna ára og samanborið við hvað gert er sunnanlands.“

Hitt er svo allt annað mál, og um það getum við öll verið sammála, að orkan frá Sigöldu og Kröflu verður ekki vel nýtt fyrstu 2–3 árin eftir að þessar virkjanir fara í gang. Það verður um að ræða umframorku á Suðurlandi og Norðurlandi. Í þessu sambandi vil ég alveg sérstaklega benda mönnum á að umframorkan verður ekki síður á Suðurlandi. Það er ekki síður að Sigölduvirkjun sé vel víð vöxt á fyrsta árinu heldur en Kröfluvirkjun. En þetta er ekkert nýtt, og það er alveg laukrétt, sem hæstv. orkumrh, benti á, að oftast hefur þetta verið svo, að virkjanir hafa verið byggðar vel við vöxt og fyrst í stað hafa þær því e.t.v. ekki verið sérlega hagkvæmar í rekstri. Þetta hefur hins vegar það í för með sér, að það líður lengri tími þar til þörf verður á næstu virkjun.

Ég vil benda hv. alþm. á þá grundvallarstaðreynd í þessu máli, að afl á sameinuðu Kröfluvirkjunar- og Sigölduorkuveitusvæði, þ.e.a.s. á öllu orkuveitusvæðinu hér sunnanlands, vestan og norðan, það verður þrotið á árunum 1980–1981 skv. nýlegri skýrslu sem dreift hefur verið á borð alþm. og þeir geta flett upp þar sjálfir. Ég held satt að segja að mönnum hætti dálítið til þess að vera of nærsýnir í þessum efnum. Og ég er sannfærður um að þó að það verði kannske nokkuð ískyggilegur orkuafgangur á næstu tveimur, þremur árum; þá má reikna það út eftir svo sem 10–15 ár, að það hefði ekki verið miklu hagstæðara að virkja smærra þar fyrir. En þó er það staðreynd, sem ég hef hér rætt um, að orkuframboðið er fullmikið, og það er rétt að horfast í augu við þessa staðreynd. Orkan verður illa nýtt næstu 3–4 árin og það getur valdið vissum erfiðleikum.

Það er hér sem við hljótum að beina athygli okkar að gerðum núv. ríkisstj. Ég held að það fari ekkert á milli mála að áætlanir um nýtingu orkunnar hafa farið nokkuð úrskeiðis. Menn spyrja: Hvað hefði átt að gera, hvað hefði þurft að gera? Og því skal ég svara. Það, sem hefði þurft að gera í orkumálum íslendinga og þarf enn að gera, er þetta:

Í fyrsta lagi hefði þurft fyrir löngu, eins og við alþb: menn höfum margsinnis lagt til, að gera vandaða áætlun um nýtingu innlendra orkugjafa til húsahitunar, bæði varðandi raforku og jarðvarma. Hvarvetna í þéttbýli, þar sem einhver vafi gæti leikið á hvort nægur jarðhiti fengist siðar, en þó fyrir hendi einhver von, virðist eðlilegasta lausnin að byggð sé fjarhitun sem notað gæti hvort heldur sem væri ódýrt næturrafmagn og afgangsorku, svartolíu eða jarðhita þegar hann væri fenginn. Að þessu hefði þurft að stefna eftir að orkukreppan lá fyrir á árinu 1974 og ljóst var að olía mundi ekki lækka í verði. Sérstaklega hefði þurft að taka þessa stefnu upp hvað snertir nýbyggingar og ný íbúðarhverfi á stöðum sem ekki hafa hitaveitu. En því miður hefur lítið verið gert í þessa átt og menn hafa beðið eftir frekari jarðhitarannsóknum. Að þessu leyti tel ég að ríkisstj. hafi brugðist forustuskyldu sinni, enda er ljóst að litlir þéttbýlisstaðir úti um land ráða ekki við slík viðfangsefni án mikillar fyrirgreiðslu ríkisins. Á þeim stöðum, þar sem vonlaust er að jarðvarmi verði nýttur til húsahitunar, og það á að sjálfsögðu einkum við um sveitirnar, er hins vegar sjálfsagt að ganga markvisst til verks og skipta úr olíuhitun í rafhitun í samræmi við fyrirframgerða áætlun. En þetta er einnig mikið verkefni og kostar ekki aðeins fjármuni til uppbyggingar á dreifikerfinu, heldur einnig forustu og frumkvæði iðnrn. Þessu verki hefur seinkað óhæfilega og enn liggur ekkert fyrir um að þessu verki verði hraðað.

Í öðru lagi er sjálfsagt að undirbúið verði svo fljótt sem verða má að lögð verði stofnlína, 130 kw. lína eða jafnvel 220 kw., frá Kröflu til Grímsárvirkjunar á Austurlandi. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á að þeir arðsemisútreikningar um mikinn taprekstur við Kröflu á fyrstu árum virkjunarinnar, sem allir þm. Alþfl., sem tóku hér þátt í umr. s.l. fimmtudag, átu upp hver á eftir öðrum og höfðu úr einhverju blaðinu, þessir arðsemisútreikningar eru eingöngu byggðir á því að Kröfluvirkjun verði rekin ein sér án nokkurra tengsla við orkuveitusvæði í. öðrum landshlutum, en það er að sjálfsögðu fráleitt. Ég þykist vita að hæstv. orkumrh. hafi fullan skilning á því að lína til Austfjarða verði að koma sem fyrst, og það kom raunar fram í ræðu hans hér í gær. En slík línulögn tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma vegna nauðsynlegra rannsókna, og er ekki að leyna að undirbúningur að Austfjarðalinu hefur dregist úr hömlu. Héðan af verður sú lína a.m.k. einu ári seinna á ferðinni en fyrsti áfangi Kröfluvirkjunar. Kannske er þar við einhverja aðra að sakast en hæstv. orkumrh., það þekki ég ekki. En hitt er ljóst, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir bera ábyrgðina.

Í þriðja lagi þarf að framkvæma ítarlega markaðskönnun vegna hugsanlegrar sölu á afgangsorku og annarri ódýrri orku til iðnaðar vegna fyrirtækja sem þegar eru fyrir hendi og nota nú olíu til orkuframleiðslu, t.d. á Akureyri. Þessi könnun mun vera að hefjast um þessar mundir. En fyrirtækin verða þá um leið að fá um það glöggar upplýsingar á hvaða verði væri hugsanlegt að fá slíka orku keypta. Þessi könnun mun hins vegar vafalaust breyta verulega fyrirliggjandi orkuspám sem nú eru hafðar til viðmiðunar í öllum umr. um þetta mál.

Í fjórða lagi verður að hraða uppbyggingu nauðsynlegra iðnfyrirtækja í eigu landsmanna sjálfra, fyrirtækja sem nýta mikla orku og mundu spara erlendan gjaldeyri í stórum stíl. En ég verð að segja eins og satt er, að í þessu efni hefur þróunin gengið allt of hægt.

Í fimmta lagi er ljóst að skipulag raforkumála hér á landi er í molum og verður að stokkast upp. Núverandi kerfi með Landsvirkjun og Laxárvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun, fjórar stofnanir sem unnið hafa að því hver í samkeppni við aðra að hanna rafvirkjanir, þetta er vonlaust skipulag. Tilvist Kröflunefndar er að sjálfsögðu afsprengi af þessu skipulagsleysi, bráðabirgðaráðstöfun sem var ákveðin til þess að hraða byggingu þessarar virkjunar meðan verið væri að endurskipuleggja skipulag raforkumála. Engum datt í hug að Kröflunefnd ætti að starfa mjög lengi. Skipun n. var aðeins til bráðabirgða. Nú fer virkjunin senn að framleiða orku og því miður verður að segjast eins og er að þessi mál hafa ekki enn skýrst.

Það er skoðun mín að þegar búið er að tengja landið allt saman í eitt orkuveitusvæði, þá hljótum við að virkja hverju sinni með hliðsjón af heildarþörfum kerfisins, þar sem hagkvæmast er talið, en ekki fyrst og fremst með þarfir ákveðinna landshluta í huga. Þess háttar ákvarðanir eru og verða geysistórt og mikið reikningsdæmi sem unnið verður í tölvu, eins og þegar er farið að gera, og af þeim vinnubrögðum leiðir að ákvarðanir um virkjanir og hönnun þeirra verða að vera teknar á einum stað og í einni miðstöð. Allt annað eru fráleit og gersamlega úrelt vinnubrögð. En af þessu hljótum við að draga þá ályktun að heppilegast sé að öll meiri háttar orkuöflun á landinu verði á einni hendi og hjá einu orkuöflunarfyrirtæki. Það er um leið eina færa leiðin til að ná því sjálfsagða markmiði að orkan verði seld á sama verði um allt land.

Ég segi það hreinskilnislega hér og nú, að ég er ekki sérlega hrifinn af því að farið verði að stofna sérstök sjálfstæð fyrirtæki í hverjum landshluta sem hvert um sig taki að sér orkuöflun og sjálfstæðar orkurannsóknir og fari síðan að keppa hvert við annað, eins og nú er verið að undirbúa og m.a. kemur fram í frv. sem var dreift á borð hv. þm. í gær um Orkubú vestfirðinga. Afleiðingin getur ekki orðið önnur en sú að enn meiri munur verði á söluverði raforku eftir landshlutum en nú er og þar af leiðandi enn verri byggðavandamál að glíma við en nú er við að kljást. Ég skil í sjálfu sér mjög vel þá eðlilegu ósk, sem margir hafa sett fram, að fulltrúar fólksins í hinum ýmsu landshlutum fái hlutdeild í ákvörðunum um orkuöflun og orkudreifingu. En orkumál á Íslandi eru löngu komin á það stig að ákvarðanir verða að miðast við heildarhagsmuni landsmann, en ekki við staðbundnar óskir manna á ákveðnum landssvæðum. Ég vil einnig benda á að jafnvel þótt við setjum alla raforkuöflun í landinu undir eina stjórn, þá er fátt því til fyrirstöðu að í hverjum landshluta verði eftir sem áður starfræki orkufyrirtæki með aðild heimamanna sem annist einhver ákveðin, afmörkuð verkefni, og gæti út af fyrir sig verið hlutverk Orkubús vestfirðinga að hafa ákveðin, tiltekin verkefni að glíma við. Ég t.d. tel það mjög jákvætt í sambandi við frv. um Orkubú vestfirðinga að farið verði að sameina margar rafveitur og orkuöflunarfyrirtæki í eitt fyrirtæki. En það fráleita í þessu efni — og það vil ég undirstrika — er að mörgum sjálfstæðum aðilum verði falið að annast virkjunarframkvæmdir og virkjunarrannsóknir og orkuöflun, eins og nú virðast hugmyndir uppi um.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta atriði málsins og fer nú að stytta mál mitt. Eins og menn sjá er sú gagnrýni, sem fram hefur komið á Kröfluvirkjun, fyrst og fremst tæknilegs eðlis, og það verðum við auðvitað að viðurkenna, stjórnendur þessa verks, hvort heldur er í Kröflunefnd eða iðnrn., að ekki stöndum við jafnfætis sérfræðingum og vísindamönnum þegar þeir fara af stað með sín fræði. En ég legg á það áherslu hér að engar ákvarðanir hafa verið teknar án þess að ítarlegar sérfræðilegar álitsgerðir lægju fyrir og ákvarðanirnar hafa ævinlega verið í samræmi við það sem okkur hefur verið ráðlagt af þessum ágætu sérfræðingum. Öllum þeim tæknilegu gagnrýnisatriðum, sem hefur verið beint að Kröflunefnd, hefur verið svarað með fullum rökum. Ágreiningur um efni af þessu tagi getur að sjálfsögðu alltaf komið upp í sambandi við allar framkvæmdir, og það óvenjulega er að þessi ágreiningur skuli hafa verið gerður að miklu pólitísku hitamáli.

Ég vil að lokum vara hv. alþm. við því að sökkva sér allt of mikið niður í aukaatriði þessa máls. Ég vil biðja menn að missa ekki sjónar á aðalatriðum þess. Þeir, sem ímynda sér í góðri trú að unnt sé að spara mikið fjármagn á þrengingartímum með því að slá Kröfluvirkjun á frest í eitt eða fleiri ár, þeir verða að horfast í augu við þá staðreynd að það er löngu liðin tíð að unnt sé að spara fjármuni með því að stöðva virkjunarframkvæmdir. Allt tal um sparnað í þessu sambandi er einfaldlega út í bláinn. Það er löngu búið að festa kaup á yfir 90% af öllum tækjum og búnaði í virkjunina, og jafnvel þó að bygging stöðvarhúss og niðursetning véla sé stöðvuð ern allir sérfræðingar Orkustofnunar sammála um það, hvað sem öllum öðrum ágreiningi líður, að sjálfsagt sé að bora á svæðinu í sumar af fullum krafti. Borkostnaður verður því ekki heldur sparaður. Hitt er svo auðvelt að benda á, að margt yrði miklu dýrara og kostnaðarmeira ef virkjunin yrði stöðvuð, eins og skýrt kom fram í ræðu hæstv. orkumrh. í gær, og flest bendir til þess að frestun framkvæmda yrði beinlínis eyðsla á fjármunum, en ekki sparnaður.

Eins er með þá sem ímynda sér að byggðalínan geti leyst þann vanda sem við blasir. Þeim ber skylda til að kynna sér hvað um er að ræða, og þá munu þeir sjá m.a., ef þeir kynna sér þær röksemdir sem ég hef hér flutt, að þessi fullyrðing er út í bláinn. Til þess að byggðalínan leysi vandann þarf hún mjög mikla viðbótarfjárfestingu ofan á þá fjárfestingu sem komin er, því að sú gerð af byggðalínu, sem væntanlega kemst í samband síðar á þessu ári, flytur aðeins brot af því afli sem Norðurland þarf á að halda næsta vetur. Eru þeir, sem vilja stöðva framkvæmdir við Kröflu, reiðubúnir að taka á sig þá ábyrgð að norðlendingar standi uppi næstum orkulausir í hörðum vetri? Með byggðalínu og mikilli dísilkeyrslu gæti þetta að vísu sloppið næsta vetur ef við fengjum jafngóðan vetur jafn-óvenjulega mildan og þessi vetur hefur verið. En vetur á borð við þá, sem komu á Norðurlandi á seinni hluta síðasta áratugs, mundu skapa næstum óleysanleg orkuvandamál á þessu svæði, og víst er að þá yrðum við tilneyddir að brenna dísilolíu og eyða í það gjaldeyri fyrir langtum, langtum hærri upphæðir en menn þykjast nú geta sparað með því að fresta framkvæmdum.

Hafa þeir, sem heimta frestun, hugsað þessa hugsun til enda og eru þeir reiðubúnir að taka á sig ábyrgðina,? Ég vil sérstaklega beina máli mínu til þeirra alþfl.-manna sem undanfarið hafa hamast mest í þessu máli gegn Kröfluvirkjun. Telja þeir það verjandi að rótast um í þessum tæknilegu viðfangsefnum í flokkspólitískum tilgangi og eiga á hættu, ef þetta uppþot þeirra tekst, að iðnrh. neyðist til að stöðva þessa framkvæmd og norðlendingar lendi af þeim sökum í gífurlegum orkuskorti á komandi vetri, jafnvel tvo næstu vetur? Væri þeim ekki nær að lyfta sér upp úr þessu lágkúrulega þrasi, þar sem allt er tínt til sem hægt er að láta sér detta í hug á móti þessari virkjun, og snúa sér að því í samvinnu við aðra stjórnarandstæðinga að móta nýja stefnu í orkumálum? í stað þess að fárast yfir því að of mikil orka verði í landinu, þá væri Alþfl. að sjálfsögðu nær að standa með Alþb.í því að krefjast þess að fáanleg orka sé hagnýtt á skynsamlegan hátt til að auka tekjur þjóðarinnar. Í stað þess að standa með núv. stjórnarflokkum að því að fleygja hundruðum millj. kr. í einskisnýtar mógrafir á Grundartanga í stað þess að samþ. 8-10 þús. millj. kr. erlenda lántöku til að kosta málmblendiverksmiðjuna, þá hefði þm. Alþfl. að sjálfsögðu verið nær að styðja þá kröfu okkar alþb -manna, sem fram var sett aftur og aftur við umr. í þinginu í fyrra, að fáanlegt fjármagn yrði fyrst og fremst hagnýtt til að hraða nýtingu innlendra orkugjafa. Sem sagt, í stað þess að þenja sig út af tæknilegum atriðum sem eru tiltölulega léttvæg þegar á heildina er litið, væri þá ekki réttara fyrir hv. þm. Alþfl. að snúa sér að því með okkur alþb.mönnum að leysa stóru málin með því að gera þá kröfu að fáanleg orka verði hagnýtt á skynsamlegan hátt svo fljótt sem unnt er og að skipulag raforkumála verði endurskoðað í grundvallaratriðum?