07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Orkumál Vestfjarða hafa verið til meðferðar að undanförnu. A því er enginn vafi að margir vestfirðingar hafa talið að um undanfarið áraskeið hafi Vestfirðir orðið nokkuð útundan í orkumálum þjóðarinnar, þó að ýmislegt hafi þar verið gert til framfara og bóta, og telja vestfirðingar að meira hefði þurft að gera bæði varðandi rannsóknir og framkvæmdir í þeim efnum. Í annan stað hafa komið fram að undanförnu eindregnar óskir frá vestfirðingum um skipulagsmál á Vestfjörðum varðandi orkumál. Af þessum ástæðum var ákveðið á s.l. sumri að skipa sérstaka n. manna til að fjalla um þessi mál.

Það var 23. júlí 1975 sem ég skipaði 7 manna n. til að vinna að orkumálum Vestfjarða og kanna viðhorf sveitarfélaga á Vestfjörðum til stofnunar Vestfjarðavirkjunar. N. var falið að gera till. um hvernig staðið skyldi að stofnun Vestfjarðavirkjunar sem verði sameign ríkisins og sveitarfélaganna þar og hafi það verkefni að annast framleiðslu og dreifingu raforku og hagnýtingu jarðvarma í þessum landshluta. Nokkrum árum áður, eða í aprílmánuði 1971, hafði Alþ. gert ályktun þar sem ríkisstj. var falið að kanna óskir sveitarfélaganna á Vestfjörðum um þátttöku í virkjunarframkvæmdum með það fyrir augum að stofna sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna. Sú ályktun hafði ekki komið til framkvæmda, en þessi nefndarskipun var gerð með hliðsjón af þeirri stefnumörkun sem kom fram í þessari ályktun Alþ. frá 1971.

Í þessa n. voru skipaðir Engilbert Ingvarsson rafveitustjóri, Snæfjallahreppi, Guðmundur H. Ingólfsson bæjarfulltrúi á Ísafirði, Ingólfur Arason hreppsnefndarmaður, Patreksfirði, Jóhann T. Bjarnason framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, Karl E. Loftsson oddviti í Hólmavík, Ólafur Kristjánsson forseti bæjarstjórnar í Bolungarvík og Þorvaldur Garðar Kristjánsson formaður orkuráðs, og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar.

Það er skemmst frá því að segja að n. hefur starfað af frábærum dugnaði. Hún hefur gert sér ítarlega grein fyrir þeim vandamálum sem hér var um að ræða, kvatt sér til aðstoðar marga hinna færustu sérfræðinga á þessum sviðum. Niðurstaðan hefur orðið frv. það sem hér liggur fyrir með grg. og mjög ítarlegar áætlanir um orkuframkvæmdir á Vestfjörðum næsta áratug.

Ég vil leyfa mér að þakka n. og alveg sérstaklega formanni hennar, hæstv. forseta þessarar d., fyrir mjög vel unnin störf. Þótt margt væri hér bæði um skipulagsmál og framkvæmd orkumála sem gera mátti ráð fyrir að orkaði tvímælis og ágreiningur kynni að vera um, þá tókst svo giftusamlega að nm. náðu allir samkomulagi og fullri samstöðu um þessar till., bæði varðandi frv. um skipulag mála og einnig hvernig staðið skyldi að framkvæmdum orkumála á næsta áratug. N. kynnti till. sínar áður en endanlega var frá þeim gengið og nál. skilað. N. kynnti hugmyndir sínar og till. fyrir vestfirðingum og hafði fundi með öllum sveitarstjórnum á Vestfjörðum og var þar einróma fylgi við þessar hugmyndir og till. Ég tel því að hér hafi verið vel að verki staðið um allan undirbúning og mikilvægt hversu góð samstaða hefur náðst.

Það, sem hér liggur fyrir, er frv. til l. um Orkubú Vestfjarða, þ.e.a.s. um skipulag þessara mála. Hv. alþm. hafa fengið heildarálit n. með grg. og áætlunum um framkvæmdir. Þær liggja ekki fyrir til ákvörðunar Alþ. að sinni, heldur verður það verkefni þessa nýja fyrirtækis, Orkubús Vestfjarða, og stjórnar þess að undirbúa og gera till, um framkvæmdir og þá leita til þings og stjórnar eftir því sem við á og nauðsynlegt kann að vera.

Ég vil taka fram að þetta frv. og sú grg., sem því fylgir og lögð hefur verið fyrir þessa hv. d., er samið af orkunefndinni.

Það kom strax fram að samstaða væri um það meginatriði í skipulagi þessara mála að stofnað yrði til orkufyrirtækis, sameignarfélags, þar sem sveitarfélögin vestra og ríkissjóður væru eigendur. Í l. gr. frv. segir svo: „Ríkissjóður Íslands og sveitarfélög á Vestfjörðum skulu setja á stofnorkufyrirtæki er nefnist Orkubú Vestfjarða.“ Gert er ráð fyrir því í 3. gr. frv. að þetta Orkubú sé sameignarfélag ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum, eignarhluti ríkisins skuli vera 40%, en eignarhluti sveitarfélaganna skuli samtals nema 60%. Varðandi eignarhlutdeild sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að þar skiptist hlutir innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna.

Rétt er að taka það fram, sem sagt er í grg. þessa frv. um 1. gr., að hér er gert ráð fyrir að stofnun Orkubúsins grundvallist á frjálsum samningum þannig að ekkert sveitarfélag er skyldað til að vera aðili að fyrirtækinu, en aftur á móti er þess vænst að öll sveitarfélögin sjái sér hag í því að eiga aðild að Orkubúinu, og benda undirtektir sveitarfélaganna á þeim fundum sem n. hefur haldið með þeim, eindregið til þess.

Varðandi hlutdeildina er rétt að taka fram, að þegar rætt hefur verið áður um slík sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, hefur stundum komið fram og ég ætla t.d. að það hafi verið stefna fyrrv. iðnrh., að ríkissjóður ætti 50%, e.t.v. meira, en a.m.k. 50% í slíkum fyrirtækjum. Strax í fyrstu viðræðum um stofnun slíks fyrirtækis, þ.e.a.s. varðandi Norðurland eða Norðurlandsvirkjun, tók ég fram við stjórn Fjórðungssambands Norðurlands að frá minni hendi væri ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélögin ættu meiri hluta í slíkum sameignarfyrirtækjum, ekki síst ef það gæti orðið til þess að greiða fyrir þeim málum og leysa ýmis vandamál sem heima fyrir væru og innbyrðis milli sveitarfélaganna og varðandi þær virkjanir sem fyrir væru. Sama sjónarmið hef ég að sjálfsögðu frá upphafi látið í ljós við þá n. sem hefur undirbúið þetta frv. Niðurstaðan hefur orðið þessi, að lagt er til að eignarhlutur ríkissjóðs skuli vera 40%, en sveitarfélaganna 60%. Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel eðlilegt að sveitarfélögin eigi hér meiri hluta og ráði þar með miklu um starf og stefnu þá sem þetta fyrirtæki mun taka, en um leið og ég segi þetta geng ég að sjálfsögðu út frá því að hið besta samstarf takist í þessum efnum milli fulltrúa ríkisins og sveitarfélaganna. Ég held að fordæmi í þessu efni bendi líka til þess. Má þar nefna Sogsvirkjun fyrst og síðan Landsvirkjun og Laxárvirkjun, en öll þessi félög hafa verið sameign ríkis og sveitarfélaga, og hef ég ekki orðið þess var að þar hafi orðið ágreiningur eða árekstrar milli fulltrúa sveitarfélaga og ríkis. Ég vænti þess að sama verði upp á teningnum í þessu efni.

Í 2. gr. frv. segir að tilgangur þess sé að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum þar sem hagkvæmt þykir. Orkubú Vestfjarða skuli eiga og reka vatnsorkuver og dísilorkustöðvar til raforkuframleiðslu ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar. Fyrirtækið skuli eiga og reka jarðvarmavirki og nauðsynlegt flutningakerfi og dreifikerfi .fyrir heitt vatn. Skal fyrirtækið og eiga og reka fjarvarmakyndistöðvar ásamt nauðsynlegu dreifikerfi. Þá skal fyrirtækið annast virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því að ríkið og orkuveitur sveitarfélaga á Vestfjörðum afhendi Vestfjarðavirkjun mannvirki á Vestfjörðum í raforkuverum, rafstöðvum, kyndistöðvum og jarðvarmavirkjunum ásamt tilheyrandi flutnings- og dreifikerfi, enda yfirtaki fyrirtækið skuldir sem svara til stofnkostnaðar af mannvirkjum þeim sem það tekur við.

Þá er svo fyrir mælt í 7. gr. frv. að stjórn Orkubúsins skuli skipuð 5 mönnum og skuli sveitarfélögin velja 3. en ríkið 2.

Í 10. gr. er gert ráð fyrir að stjórn Orkubúsins setji gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda, og þar er sett fram sú almenna regla að gæta skuli almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár, en hún síðan borin undir iðnrh, til staðfestingar.

Í 12. gr. er gert ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilt að takast á hendur ábyrgð á lánum sem Orkubúið tekur til raforkuframkvæmda og einnig sé ríkisstj. heimilt að taka lán er kæmi að hluta eða öllu leyti í stað ábyrgðar.

Í 15. gr. frv. segir að eftir gildistöku laganna skuli iðnrh. gangast fyrir því að sameignarsamningur verði gerður milli aðila og stofnfundur fyrirtækisins haldinn, skuli þessu lokið á árinu 1976 og síðan skuli iðnrh. setja reglugerð þar sem nánar sé kveðið á um framkvæmd laganna og starfsemi Orkubúsins.

Ég tel að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða og vænti þess að það hljóti góðar undirtektir þessarar hv. d. Ég tel að með þessu sé rétt stefnt, að stofna til samstarfs milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna, og að slík skipulagsleg uppbygging eins og hér er gert ráð fyrir, þar sem íbúarnir taka á sig skyldur samfara rétti til að ráða eigin málum á samvinnu við og með aðstoð ríkisvaldsins, sé besta tryggingin fyrir hagkvæmri skipan orkumálanna í þessum landshluta. Sú stefna, sem hér er mótuð, er í samræmi við vilja og ályktanir Sambands ísl. sveitarfélaga. Þegar það samband hefur unnið, eins og það hefur gert mjög rækilega, að till. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er eitt af meginatriðum í till. Sambands ísl. sveitarfélaga að þessum málum, orkumálunum, sé ráðið á þann veg sem hér er gert, þannig að þar komi ríkið og sveitarfélögin til samstarfs. Í till. Sambands ísl. sveitarfélaga er lagt til að orkuöflun verði í höndum sameignarfyrirtækja ríkis og sveitarfélaga. Sama má segja um Samband ísl. rafveitna. Það hefur á ráðstefnum um skipulag orkumála markað fyrir sitt leyti þá meginstefnu að orkuvinnslufyrirtæki séu sameign sveitarfélaga og ríkis og að framtíðarskipun yrði sú að landinu yrði skipt í svæði, hvert með sitt landshlutafyrirtæki í orkumálum. Má þar sérstaklega nefna niðurstöður á ráðstefnu Sambands ísl. rafveitna 1972.

Eftir að þessar till. orkunefndar Vestfjarða lágu fyrir og höfðu verið afhentar mér hefur stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða haldið fund um málið og gert einróma ályktun þar sem óskað er eftir því við iðnrh., að þetta frv. verði lagt fyrir Alþ. það sem nú situr, og látin í ljós sú ósk, að það megi hljóta atgreiðslu fyrir þinglok.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.