07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja með því að lýsa mikilli ánægju minni yfir því að frv. þetta skuli vera komið til kasta Alþ. og vera hér til umr. í dag. Hæstv. félmrh. gerði ítarlega grein fyrir máli þessu og hann lét falla þakkar- og viðurkenningarorð til þeirrar n. sem vann að samningu þessa frv. Ég vil færa hæstv. ráðh. þakkir fyrir hönd allra nm., en sérstaklega vil ég þakka honum fyrir forustu hans í þessu máli. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Eins og segir í grg. með frv. þessu er það hæstv. félmrh. sem skipaði n. þá sem samið hefur frv. þetta. Þá vil leyfa mér að þakka hv. 2. þm. Vestf. fyrir hans vinsamlegu viðurkenningarorð um það verk, sem unnið hefur verið við samningu þessa frv.

Það er ástæða til þess í þessu sambandi að leggja áherslu á það, sem kom fram hjá hæstv. félmrh., að það er víðtæk samvinna um þetta mál á Vestfjörðum og hjá fulltrúum vestfirðinga á hinu háa Alþ. Allir þm. Vestf. hafa samþykkt á fundum okkar Vestfjarðaþm. að styðja af alefli að því að mál þetta nái fram að ganga. Þar er engin undantekning. Vestfjarðaþm. standa saman í þessu máli, einn fyrir alla og allir fyrir einn.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. talaði hér í umr. Mér þykir rétt að það komi skýrt fram og raunar er ég búinn að segja það, að það er eins með hans flokksmenn, hv. 5. þm. Norðurl. v., formanns Alþb., eins og aðra forustumenn Vestfjarða í þessum málum, að þeir standa saman með okkur hinum og hlutur þeirra hefur í engu legið eftir í þessu máli.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. kom með ýmsar hugleiðingar og aths. í sambandi við þetta mál, en hann tók fram að hann væri ekki að lýsa andstöðu sinni við þetta frv. Hv. þm. tók það skýrt fram. Hins vegar varpaði hann fram ýmsum hugmyndum og aths. Frá mínu sjónarmiði var ekkert óeðlilegt að hv. þm. gerði það, því að það er auðvitað margt sem kemur til athugunar og er þess vert að leiða hugann að þegar ráðið er fram úr slíkum málum sem gert er ráð fyrir að þetta frv., sem hér er til umr., geri.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. vék að því í upphafi sinnar ræðu að það þyrfti að bæta skipulagið á orkumálunum, það væru of margir aðilar t.d. við rannsóknarstörf og stundum vissi hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerði. Það er mikið til í því að þetta hafi ekki á undanförnum árum verið alls kostar nógu gott. Og við skulum vona að á þessu verði ráðin bót. Stofnun Orkubús Vestfjarða gerir lítið til eða frá í þessu efni. Heildarskipulag á rannsóknarmálunum verður að mínu viti að vera á vegum Orkustofnunar og þannig einn aðili að stjórna þessari mikilvægu starfsemi.

Það segir í 2. gr. þessa frv. að vísu um tilgang og verkefni Orkubús Vestfjarða: „Fyrirtækið skal annast virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir eftir því sem ákveðið er hverju sinni.“ Ég skal skýra hvers vegna þetta ákvæði var sett inn. Það var alls ekki hugsað þannig að Orkubú Vestfjarða færi að standa þannig að þessum málum sem sjálfstæður aðili. Það var hins vegar talið æskilegt að ef verður, sem við vonum, af stofnun þessa fyrirtækis, þá verði meira um tæknimenntaða menn á þessu sviði að ræða búsetta á Vestfjörðum og meira og minna á vegum þessa fyrirtækis. Þá væri það ekki óskynsamlegt undir vissum kringumstæðum að fela þeim eitthvað af þessum störfum ef svo ber undir. En það er eins og segir í frvgr. að það mundi að sjálfsögðu verða ákveðið hverju sinni, ákveðið af þeim sem færu með heildarstjórnina.

Hv. þm. ræddi um það að fram undan væri heildarsamsetning raforkukerfis landsins. Um það er ég honum sammála. Ég veit ekki betur en allir séu sammála um að það sé það sem eigi að stefna að og sé sjálfsögð þróun í þessum málum. En spurningin er hvort þetta tæknilega atriði, samsetning orkuveranna í landinu, hafi áhrif á hina skipulagslegu hlið þessara mála. Það er annað mál. Mér virtist sem hv. þm. talaði svo sem þetta færi saman, þ.e. ef um eitt samtengt kerfi væri að ræða, þá væri eðlilegast að það væri eitt fyrirtæki orkuöflunar. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig og sjálfsagt hægt að færa ýmis rök fyrir þessari skoðun. Hins vegar er líka óhætt að fullyrða að þetta þarf ekki að fara saman og hin tæknilegu mál í þessu sambandi.

Það skýrir þetta best að vekja athygli á því hver er skipan þessara mála á Norðurlöndum. Í Danmörku er það svo að ríkið á hvorki framleiðslu- né dreifingarfyrirtæki í raforkuiðnaðinum. Það eru sveitarfélög, það eru hlutafélög, það eru sjálfseignarstofnanir og fleiri félög og aðilar sem eiga þetta. Þetta eru sjálfstætt rekin fyrirtæki. Í Noregi er það svo að ríkið á ekkert í dreifingunni, en í framleiðslunni á það milli 20 og 30%. Hitt, 70–80% framleiðslunnar, er á vegum einstakra fyrirtækja, sveitarfélaga, hlutafélaga o.s.frv. Í Svíþjóð er það þannig að ríkið er með innan við 10% af dreifingunni, en í framleiðslu raforkunnar er ríkið með rúmlega 40%. Hitt er á vegum ýmissa félaga, margra félaga. Í Finnlandi er það svo að ríkið er með enga dreifingu, en í framleiðslunni er það með rúmlega 40%. Hitt er á vegum sveitarfélaga og annarra slíkra aðila. Þannig er þessum málum skipað á Norðurlöndum. Raforkukerfin þar eru samtengd, ekki alveg í Noregi, en í Danmörku og ég má segja í Svíþjóð og að ég ætla víðast hvar um allt landið í Finnlandi, allt samtengt. Þykja engin vandkvæði að hafa þetta svo, samtengingu, þó að hinir einstöku orkuframleiðendur séu margir og félagsform fyrirtækjanna sé margs konar.

Ég hygg að það þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta til þess að við getum verið allir sammála um að við erum ekki með því að stofna landshlutafyrirtæki í orkuiðnaðinum á Íslandi að gera neitt sem hindrar í fyrsta lagi samtengingu og í öðru lagi heildarstjórn og skynsamlega hagnýtingu orkunnar. Það gefur auga leið að ef landshlutafyrirtæki eru stofnuð og orkuframleiðslan og kannske dreifingin verður að öllu leyti á hendi þessara aðila, þá þarf að sjálfsögðu einhverja heildarstjórn. Ég held að allir, sem hafa hugleitt þetta mál, hafi gert ráð fyrir því að það þurfi heildarstjórn. Það þarf einhvers konar nefnd, ráð eða stjórnkerfi til þess að tryggja hina bestu nýtingu orkunnar. Ég er þess vegna í raun og veru alveg sammála hv. 5. þm. Norðurl. v. um þetta mikilvæga efni. Við höfum kannske nálgast þetta frá mismunandi sjónarmiðum. Og auðvitað er hægt að líta á þetta frá fleiri en einni hlið.

Þá skal ég að lokum aðeins víkja að einu atríði sem hv. þm. kom inn á og var ekki óeðlilegt að hann gerði frekar en var um önnur atriði sem hann vék að. Ég vil taka það fram að öll þessi atriði, sem hv. þm. vék að, eru einmitt atriði sem sú n., sem samdi og undirbjó þetta frv., eyddi miklum tíma og fyrirhöfn til þess að athuga og ræða frá margs konar hliðum. En síðasta atriðið, sem ég ætlaði að víkja að, var þessi spurning sem hv. 5. þm. Norðurl. v. kom inn á, hvort það væri rétt að koma á fót landshlutafyrirtæki á Vestfjörðum áður en séð yrði hverju fram yndi í þessum málum í öðrum landshlutum. Það er nú fyrst að minna á í þessu sambandi að við höfum nú þegar fyrir tvö eða jafnvel fleiri landshlutafyrirtæki í orkumálunum fyrir stórt landssvæði. Þar á ég við Landsvirkjun, og Laxárvirkjun, sameignarfyrirtæki Akureyrar og ríkisins. Það má minna á Hitaveitu Suðurnesja og það mætti nefna fleira. Ég held að það verði aldrei komið upp heildarskipun á þessum málum þannig að skipulagið fæðist einn góðan veðurdag alskapað. Ég held að þessi mál séu það margslungin, að það verði ekki, það verði að byggja þetta upp smám saman, eins og raunar er byrjað á og þau landshlutafyrirtæki, sem ég nefndi, eru vottur um. Ég held að það sé ekki hægt að gera þetta á annan veg. Ef á að stofna þessi landshlutafyrirtæki á frjálsum grundvelli með samkomulagi milli viðkomandi sveitarfélaga og ríkisvaldsins, þá verður það samkomulag að mótast af aðstæðum í hverjum landshluta. Það eru mismunandi sjónarmiðin. Þó að þau séu mismunandi kunna þau að meira eða minna leyti að eiga öll rétt á sér. Þess vegna held ég að við séum á réttri leið með því að fikra okkur svo áfram sem nú horfir ef Alþingi fellst á að afgreiða þetta frv. sem lög á þessu þingi.

Ég held meira að segja að það sé hugsanlegt að einmitt þetta frv. og hvernig vestfirðingar hafa tekið á málinu geti e.t.v. verið eitthvert fordæmi á einhverjum sviðum við meðferð þessara mála annars staðar. Og þá er kannske þýðingarmesta fordæmið það sem gefur þessum hugmyndum öllum þann grundvöll sem nauðsynlegt er að standa á ef eitthvað á að verða af þessu, ef þetta á nokkuð að verða nema orðin tóm, að það sé samstaða hjá viðkomandi sveitarfélögum og fólkinu í þessum byggðarlögum um það sem gera skal. Að mínu viti er ekki hægt að gera þetta nema þetta sé fyrir hendi.

Nú er þetta fyrir hendi á Vestfjörðum. Ég er ekki að segja — ég vil taka það skýrt fram — að á Vestfjörðum, ef frv. verður samþ. nú fyrir þingslit, verði strax búið að ganga frá þessum hlutum. En það er samstaða um þessa stefnu, sem frv. boðar, í meginatriðum. En hvert sveitarfélag tekur ekki endanlega afstöðu til þessa eða ríkið fyrr en viðkomandi aðilar skrifa undir sameignarsamning.

Sú samstaða, sem nú er, er ákaflega þýðingarmikil og allir þeir, sem hafa komið nálægt þessum málum við undirbúning þessa frv., og þeir eru margir, hafa þá von og ósk fram að færa að það geti orðið af framkvæmdum í þessu efni. Ég sagði að þeir væru margir sem beinlínis hafa komið nálægt þessum málum. Sú n., sem vann að samningu þessa frv., hafði fundi með sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum þar sem nær allir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum mættu — nær allir. Það er þess vegna nú að okkar dómi alveg sérstakt tækifæri til þess að koma þessu máli í framkvæmd. Það er fyrir hendi þar nauðsynleg samstaða í málinu.