07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3092 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

238. mál, ferðamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 494 er frv. til l. um skipulag ferðamála. Þetta frv. eða frv. um svipað efni hefur verið flutt tvisvar á þingum að undanförnu, þingunum 1972–1973 og 1973–1974, náði þá ekki fram að ganga, en gerðar voru ýmsar athugasemdir við það. Hins vegar sýndi það sig að það var áhugi á að koma skipulagi á þessi mál og nú er gerð tilrann til þess að svo megi verða. Ég vona að því hv. Alþ., sem nú stendur yfir, takist að leysa þetta mál, svo sem brýna nauðsyn ber til.

Ríkjandi skipulag yfirstjórnar íslenskra ferðamála komst á með l. nr. 29 30. apríl 1964. Fyrir þann tíma giltu um þessi efni l. nr. 33 frá 1. febr. 1936, um Ferðaskrifstofu ríkisins, ásamt breyt. á þeim l. nr. 20 frá 12. mars 1947. Lögin frá 1936 veittu Ferðaskrifstofu ríkisins einkarétt til starfrækslu ferðaskrifstofu fyrir erlenda menn með takmörkuðum undantekningum. En sakir gífurlegra þjóðfélagsbreytinga í samgöngumálum, batnandi lífskjara og frítíma voru þau löngu orðin úrelt þegar lögin frá 1964 voru samþ. á Alþingi.

Eins og áður segir eru lögin frá 1964 stofn gildandi lagasetningar um skipulag ferðamála. Að sjálfsögðu komu í ljós ýmis atriði sem talin var þörf á að breyta, og því skipaði samgrn, hinn 2. febr. 1972 nefnd til að endurskoða lög um ferðamál frá 1969. Skyldi n. í tillögum sínum taka sérstakt tillit til endurskipulagningar og uppbyggingar á starfsemi Ferðamálaráðs og Ferðaskrifstofu ríkisins. Í þessari n. áttu sæti Brynjólfur Ingólfsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður n., Heimir Hannesson lögfræðingur og Lúðvík Hjálmtýsson framkvæmdastjóri. En starfsmaður n. var Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri. N, samdi frv., sem hún sendi rn. með bréfi dags. 8. des. 1972, og var það síðan lagt fram á 93. löggjafarþingi, en varð ekki útrætt. Frv. var lagt fram að nýju haustið 1973 óbreytt að öðru leyti en því að gildistökuákvæði 34. gr. var breytt, einnig ákvæði til bráðabirgða II um boðun til ferðamálaþings. Umr. var ekki lokið er þingið var rofið vorið 1974.

Við umr. um frv. á Alþ. og meðal þeirra aðila, sem málið snerti mest, komu fram athugasemdir og ábendingar varðandi einstaka þætti þess sem ástæða hefur þótt til að kanna nánar. Jafnframt hefur þróun í ferðamálum verið svo ör á undanförnum árum að einstök atriði í frv. þurfa fyrir þær sakir breytinga við. Samgrn. skipaði því með bréfi, dags. 18. ágúst 1975, nýja n. til endurskoðunar á gildandi lögum um ferðamál. Skyldi endurskoðunin grundvölluð á frv. því, sem áður er nefnt, en jafnframt mæltist rn. sérstaklega til að n. hefði eftirtalin atriði í huga við endurskoðun sína:

1) Yfirstjórn verði gerð einfaldari og viðaminni en frv. gerði ráð fyrir, m, a. með niðurfellingu ákvæða um árlegt ferðamálaþing, en hins vegar, ef um ferðamálaþing væri að ræða, yrði það á u.þ.b. 4 ára fresti eða eftir hverjar alþingiskosningar, og ákvæði sett í frv. hvernig það skuli upp byggt. Auk þessa verði yfirstjórn ferðamálanna þannig að hægt sé að sameina þar hugmyndina um stjórn Ferðamálastofnunar og Ferðamálaráðs. Hlutverk þessarar yfirstjórnar er að sjálfsögðu stefnumótun í ferðamálum.

2) Öll sölustarfsemi, þar með talinn rekstur Ferðaskrifstofu ríkisins og sumarhótela, verði eins og nú er sérstök stofnun sem heyri beint undir samgrn.

3) Reynt verði sérstaklega að finna leiðir til að girða fyrir ólögmætan ferðaskrifstofurekstur einkaaðila.

4) Réttur leiðsögufólks verði tryggður í lögunum að því leyti er ferðaskrifstofur nota leiðsögu í ferðir sínar.

Umrædd n., en í henni voru þau Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri, sem var formaður, Birgir Þorgilsson sölustjóri, Heimir Hannesson lögfræðingur, Vigdís Finnbogadóttir leikhússtjóri og Þorvarður Elíasson framkvæmdastjóri, skilaði till. sínum til rn. og er frv. það, sem hér er flutt, óbreytt að mestu ef frá eru taldar nokkrar minni háttar lagfæringar sem rn. hefur gert.

Frv. er skipt í 6 kafla, auk þess sem þar eru ákvæði til bráðabirgða.

I. kaflinn er um tilgang og yfirstjórn og kemur þar fram að við þróun og skipulagningu ferðaþjónustu skuli höfð hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd.

Í II. kafla frv. er fjallað um Ferðamál Íslands en ráðið skal fara með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgrn, Er það sama fyrirkomulag og nú ríkir, en samsetning ráðsins er nokkuð breytt, þannig að þar sitji fyrst og fremst fulltrúar þeirra aðila sem beinna hagsmuna hafa að gæta og starfa beint að ferðamálum. Undantekning frá þessu meginsjónarmiði er þó aðild Náttúruverndarráðs og Sambands ísl. sveitarfélaga, en kostir náins samstarfs við Náttúruverndarráð og sveitarfélögin með mótun ferðamálastefnu eru augljósir, auk þess sem mörg ferðamálafélög starfa á vegum sveitarfélaga og er því rétt að veita þeim aðild að ráðinu.

Í frv. er lagt til að Ferðamálaráði skuli skipa sérstaka stjórn sem í eigi sæti þeir tveir ráðsfulltrúar sem samgrn. skipar beint svo og fulltrúar þeir í Ferðamálaráði sem tilnefndir eru af Félagi ísl. ferðaskrifstofa, Flugleiðum og Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda. En þessir þrír aðilar eru fulltrúar stærstu atvinnugreina í ráðinu. En jafnframt yrði ráðinn sérstakur ferðamálastjóri sem mundi taka við embætti núv. framkvæmdastjóra Ferðamálaráðs auk annarra og nýrra verkefna sem honum yrðu falin.

Gert er ráð fyrir að kostnaður af starfsemi Ferðamálaráðs verði greiddur úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum, en einnig er gert ráð fyrir að á vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík verði lagt sérstakt gjald, sem nemi 10% af árlegu söluverðmæti, og skuli fé, sem þannig er aflað, ráðstafað til landkynningarstarfsemi á vegum ráðsins. Um þennan þátt vil ég segja það, að mér finnst ekki óeðlilegt að nokkuð af þessum fjármunum sé notað til landkynningarstarfsemi vegna rekstrar Keflavíkurflugvallar. Hins vegar orkar það tvímælis að hafa hér um markaðan tekjustofn að ræða, því að yfirleitt er ég nú andstæður þeim, en taldi samt rétt af þessari ábendingu að láta við svo búið sitja.

III. kafli frv. fjallar um Ferðaskrifstofu ríkisins og er gert ráð fyrir því í 10. gr. að hún annist alla almenna starfsemi ferðaskrifstofa, en þó þykir rétt að starfsemi hennar taki ekki frekar en nú þátt í samkeppni um sumarleyfisferðir íslendinga til útlanda, heldur skuli starfsemi hennar fyrst og fremst beinast að því að skipuleggja ferðir fyrir íslenska og erlenda ferðamenn um Ísland og greiða fyrir slíkum ferðalögum. Annað skilyrði fyrir rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins er að henni er gert að starfrækja sumarhótel í húsnæði heimavistarskóla, eins og Ferðaskrifstofan hefur raunar gert í allmörg ár. Þessi rekstur er nauðsynlegur til þess að geta haldið uppi eðlilegum áföngum í ferðum hópa um landið. Yfirleitt hefur ekki verið um það að ræða að rekstur Edduhótelanna hafi verið í beinni samkeppni við hótel sem rekin eru allt árið. Sjálfsagt er að Ferðaskrifstofan forðist líka samkeppni, en láti heils árs hótel njóta viðskipta eftir því sem unnt er, enda er rekstur slíkra hótela jafnan erfiður, hvar á landinu sem er, eins og kunnugt er, og rekstur yfir veturinn gjarnan byggður á arðbærum rekstri yfir sumartímann.

IV. kaflinn fjallar um almennar ferðaskrifstofur. Eru þar helstu breytingar frá gildandi lögum þær að fellt er niður skilyrði sem forstöðumaður ferðaskrifstofu þarf að uppfylla samkvæmt gildandi lögum um lágmarksaldur, nám og starfsreynslu við ferðaskrifstofustörf, enda er ljóst að auðvelt er að sniðganga þessi ákvæði. Er því brugðið á það ráð að setja í staðinn ákvæði um að einn eða fleiri af starfsmönnum hverrar ferðaskrifstofu skuli á hverjum tíma hafa að baki staðgóða þekkingu og reynslu í ferðamálum, og leggur rn. mat á þau atriði í hverju einstöku tilfelli. Ég held að hér sé um breytingu að ræða sem er mjög til bóta, því að það er óeðlilegt að setja það að skilyrði að forstöðumaður ferðaskrifstofu þurfi að hafa þessa þekkingu. Það nægir að starfsmaður í skrifstofunni hafi hana.

Leyfi til rekstrar ferðaskrifstofu er nú bundið því skilyrði að lögð sé bankatrygging sem eigi sé lægri en 11/2 millj. kr., og er löngu ljóst að sú upphæð er allt of lág. Hér er því gert ráð fyrir að upphæðin nemi ekki minna en 7 millj. kr., og er það í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á verðgildi íslenskrar krónu frá því að þetta ákvæði kom fyrst inn í lög. Enn fremur eru settar nánari reglur um greiðslu þessa fjár, en þær hefur vantað í gildandi lög. Er hér átt við það ákvæði að ef ferðaskrifstofu brestur getu til þess að flytja farþega heim, sem hún hefur séð um flutning á út úr landinu, þá skuli grípa til þess fjár.

Ég tel að nauðsyn beri til í sambandi við þessa grein að athuga um ákvæði að heimilt sé að endurskoða verðgildi fjárins á einhverju árabili, t.d. á þriggja ára fresti, og mun ég benda n. á það við meðferð málsins hér í hv. deild.

Ég vil bæta því við í sambandi við þessa grein, að frá því er nú horfið að gera að skyldu að ferðaskrifstofur skili rn. reikningum sínum og þannig hafi rn. eftirlit með þeim, enda hefur reynsla af því ekki gefist vel. Er því ákvæðið um að nota þessa fjármuni, tryggingarfjármunina, til þess að skila farþegum heim sett inn í staðinn.

V. kafli frv. hefur að geyma ákvæði um Ferðamálasjóð. Er þar gert ráð fyrir nokkru víðtækara starfssviði sjóðsins en nú er. Samkvæmt gildandi ákvæðum má sjóðurinn lána til framkvæmda við gisti- og veitingastaði og hefur hann því raunar starfað frekar sem hótelsjóður, en ekki sem almennur ferðamálasjóður. Með þessu fyrirkomulagi hafa vissir þættir ferðamála orðið útundan við fjárfyrirgreiðslu. Er því lagt til að sjóðnum verði heimilað að veita lán gegn fullum tryggingum til annarra þátta ferðamála en framkvæmda við gisti- og veitingastaði enda verði með lánveitingunum staðið að þróun íslenskra ferðamála. Tekjum sjóðsins er breytt á þann hátt að gert er ráð fyrir að árlegt framlag úr ríkissjóði hækki í 40 millj. kr., auk þess sem lánsheimild sjóðsins verður hækkuð í allt að 300 millj. kr. Gildandi reglur um lán úr sjóðnum hafa þótt nokkuð þungar í vöfum og er því gert ráð fyrir einfaldari aðferð í frv., þannig að sérstök n., sem í eigi sæti tveir fulltrúar frá Ferðamálaráði og einn frá rn., fjalli um allar umsóknir um lán úr sjóðnum og geri till, þar um. Í sambandi við framlag ríkisins vil ég geta þess að það mun vera 16 mill,j. á fjárlögum nú, en gert er ráð fyrir með bráðabirgðaákvæði að það fari upp í 25 millj. á næsta ári og þar næsta svo upp í 40 millj.

Í sambandi við útlánareglur Ferðamálasjóðs er sú breyting gerð að stjórnin ákveði einstakar lánveitingar, en þær skuli hins vegar hljóta staðfestingu ráðh.

Í VI. kaflanum eru ýmis ákvæði. Er það nýmæli að heimilt sé að leggja þá skyldu á herðar þeim aðilum, sem skipuleggja hópferðir um Ísland, að þeir kaupi tryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi vegna kostnaðar sem hljótast kann af leit eða björgun farþega sem ferðast á þeirra vegum. Mjög algengt er að gera þurfi út björgunarleiðangur til þess að leita að týndum ferðamönnum eða til flutnings á slösuðu ferðafólki á sjúkrahús. Þessi störf hafa hingað til að mestu eða öllu leyti verið unnin í sjálfboðavinnu, að sjálfsögðu með verulegum kostnaði fyrir viðkomandi aðila. Eðlilegt er að þeir aðilar, sem skipuleggja hópferðir, beri fjárhagslega ábyrgð á slíkum tilvíkum og tryggi sig gegn þeim. Því er þetta heimildarákvæði sett í frv., en nánari skilgreining þarf í reglugerð. Til þess að koma í veg fyrir framangreind óhöpp ber brýna nauðsyn til að leiðsögumenn séu með í ferðum, sérstaklega í óbyggðum landsins, og þeir séu fyllilega starfi sínu vaxnir. Töluvert virðist algengt að svo sé ekki, ekki síst þegar erlendir hópar ferðast hér um með erlenda leiðsögumenn sem ekki hafa nægilega þekkingu á íslenskum staðháttum og íslensku veðurfari. Því er í kafla þessum ráðherra heimilað að ákveða að í nánar tilteknum ferðum séu hafðir leiðsögumenn sem hlotið hafa sérstaka þjálfun til slíkra starfa.

Ákvæði til bráðabirgða nr. I, II og III eru sett til þess að auðvelda breytingu frá núverandi ástandi til þess sem frv. gerir ráð fyrir að verði þegar það hefur verið samþykkt.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir frv., sem hér liggur fyrir, og mun við starf n. víkja að nokkrum atriðum sem ég vildi benda á. T.d. vil ég koma því að við meðferð þessarar hv. d. í sambandi við fjármál þessara ferðaskrifstofa að þeim sé skylt að hafa löggilta endurskoðendur og samgrn. geti krafist reikninga þeirra ef ástæða þykir til að einhverjum sérstökum ástæðum.

Ég vil leyfa mér að fara þess á leit við formann samgn. þessarar hv. d., sem fær þetta mál til meðferðar, að hann og n. leiti eftir samstarfi við samgn. hv. Nd. til þess að þær geti unnið að þessu máli saman, því að mín löngun er að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Ég tel að það séu í því margir þættir sem nauðsyn beri til að koma nú í framkvæmd, ferðamálin séu og eigi að vera verulegur þáttur í okkar þjóðarbúskap og því verði sem fyrst að ganga frá löggjöf sem sé í samræmi við ákvæði frv. Yfirleitt var samstaða um flest þau atriði sem í frv. eru. Þó er þar undantekning, eins og með stjórn stofnunarinnar, en það getur að sjálfsögðu orðið athugað í nefnd.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.