05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

42. mál, söluskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þótt ég eigi sæti í þeirri n., sem mun fá frv. þetta til athugunar, vildi ég fara um það nokkrum orðum.

Það er alveg ljóst að söluskattur í núverandi mynd kemur á margan hátt mjög ranglátlega niður í þjóðfélaginu. Og það er staðreynd að eftir því sem skattur þessi hefur hækkað, þeim mun betur hafa gallar söluskatts komið í ljós. Það er alveg ljóst að hér er hreyft máli þar sem óréttlæti ríkir. En spurningin er aðeins sú: Á hvern hátt verður það best lagfært?

Nú eru menn farnir að tala um virðisaukaskatt. Virðisaukaskattur er þannig upp byggður — og hafa margir hv. alþm. tjáð sig fylgjandi slíkum skatti — að þar mega helst engar undanþágur vera. Það er einnig ljóst að það söluskattskerfi, sem við búum nú við, hefur gengið sér til húðar. En ef við ætlum að lagfæra þetta söluskattskerfi, þá er mjög líklegt að við verðum að fella út úr því ýmsar undanþágur, þótt undanþágur þessar séu í sjálfu sér mjög réttlátar og megi rökstyðja þær, og það er einfaldlega vegna þess að okkar menn, sem vinna að skatteftirliti í þessu landi, ráða einfaldlega ekki við með litlum mannafla, að fylgjast nægilega vel með innheimtu og skilum á þessum skatti. Og eftir því sem undanþágurnar verða fleiri, þeim mun erfiðara reynist þetta þeim.

Þetta er sú reynsla sem við höfum fengið af söluskattinum. Það er ekki lagður söluskattur á vöruflutningagjöld, heldur eru vöruflutningagjöld líður í útsöluverði vörunnar og síðan er lagður söluskattur á útsöluverð vörunnar. Ef vöruflutningagjöld væru undanþegin, þá kæmi það þannig fram að útsöluverð vörunnar væri að hluta söluskattsskylt og mundi í mörgum tilfellum reynast mjög erfitt að fylgjast með skilum í slíku kerfi. Þetta er sú staðreynd sem við verðum að hafa í huga.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að núv. söluskattskerfi sé orðið úrelt og við þurfum að endurbæta það og við þurfum að taka það allt saman til alvarlegrar endurskoðunar. Ef ekki er hægt að koma þessu við á þann hátt að undanþiggja vöruflutningagjöld og aðra liði út úr útsöluverðinu, á hvern hátt er þá hægt að koma á jöfnuði? Þetta er að sjálfsögðu liður í stærra máli, sem er jöfnun vöruverðs í landinu. Ef við ætlum að gera alvarlegar tilraunir til þess að jafna vöruverð í landinu er ljóst að það þarf að skipuleggja alla vöruflutninga mun betur og gera þá hagkvæmari, og það er í sjálfu sér mjög sorglegt, að það skuli í raun og veru vera eins mikið um flutninga á landi og raun ber vitni í dag. Skip Skipaútgerðarinnar eru ekki fullnýtt, það er ódýrara að flytja með þessum skipum og okkur ber að efla vöruflutninga á sjó.

En ég er þeirrar skoðunar að það megi koma á jöfnuði á ýmsan annan hátt, t. d. í tekjuskattskerfinu. Sú breyting, sem varð á lögum um tekjuskatt á s. l. vetri, gerir okkur kleift að koma á jöfnuði í hinum ýmsu landshlutum á þann hátt t. d. að hafa mismunandi persónuafslátt í hinum ýmsu byggðarlögum á landinu.

Ég held að ég geti verið sammála flm. um þann tilgang og þau markmið, sem þeir vilja ná með þessu frv. En ég er ekki fullviss um að þetta sé sú leið., sem best hentar. Við verðum að taka tillit til þess að við þurfum að koma okkar söluskattskerfi þannig fyrir, að það sé unnt fyrir skatteftirlitsmenn í landinu að vinna við eftirlitið. Við megum ekki hér á hv. Alþ. eyðileggja þetta kerfi, það litla sem er eftir af því. Ég er ekki að segja að það gerist með samþykkt á þessu frv., en eftir því sem við bætum meiru og meiru við undanþágurnar, þá munum við smátt og smátt leggja það endanlega í rúst. Það er þetta, sem okkur ber að hafa í huga, okkur ber skylda til þess. Við getum verið sammála um markmiðið, en við þurfum að velja réttu leiðirnar.