07.04.1976
Efri deild: 87. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm, meiri hl. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna þess, sem fram kom hjá hv. 10. landsk. þm., vil ég taka það fram að ég ræddi við bæjarstjórann í Hafnarfirði einmitt um þetta mál og tjáði honum að ég mundi sem formaður iðnn. gjarnan ræða við fulltrúa hafnfirðinga á milli 2. og 3. umr, ef þess væri óskað og ekki frá samningum gengið. Hitt vil ég taka fram, að samningar við hafnfirðinga eru raunar óháðir samþykkt þessa frv. að mínu mati. Það er alveg ljóst að það verður að breyta aðild hafnfirðinga að skatttekjum þessa fyrirtækis, en það er hins vegar sjálfstæður samningur á milli hafnfirðinga og íslenska ríkisins. Aftur á móti verður þessi samningur ekki undirskrifaður án þess að lokið sé samningum við hafnfirðingana. Þannig tengjast þessi mál og því þarf ekki að hraða afgreiðslu þessa máls á þingi meira en þeim samningum líður. En ég tel rétt að hæstv. iðnrh. svari þeim spurningum, sem fram hafa komið um þessa samninga. Þeir eru algjörlega á hans vegum, að sjálfsögðu ekki á vegum iðnn.

Í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. kom ýmislegt fram sem mætti flytja um langt mál. Ég fagna því að hann tók fram að ég hafi verið viljugur að verða við óskum hans um hinar og þessar upplýsingar til hv. iðnn. og að kalla menn á okkar fund. En mér þykir því leiðara að ekkert virðist hafa síast inn í kollinn á honum af því sem ég vildi að þangað kæmist. Ég ætla nú ekki að fara að leiðrétta nema örlítið af því sem fram kom hjá hv. þm. Ég veit að hann við er í hjarta sínu andsnúinn stóriðju. Það er mál út af fyrir sig, og það má ýmislegt um það ræða. Og ég held að hann verði það alltaf, alveg sama hvað ég segi og hvað ég reyni að skýra þau atriði sem hér eru til umr.

Hér er fyrst og fremst verið að ræða um breytingu á þeim samningi sem hefur verið gerður, og við þurfum að gera það upp við okkur hvort þessi breyting sé til bóta. Gamli samningurinn getur vitanlega staðið. Við erum samningsbundnir, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég held að hv. þm. ætli ekki íslendingum að ganga á bak orða sinna og rjúfa gerðan samning. Ég hef aldrei heyrt hann segja það og aldrei staðið hann að neinu slíku. Hér varð því að ná samkomulagi við hinn samningsaðilann, og það samkomulag liggur hér fyrir. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki hafi verið unnt að ná skárra samkomulagi, og ég tel að hér sé um að ræða verulega bót á samningnum, sem nú er í gildi, og því rétt að staðfesta þessar breytingu á samkomulaginu, Þetta er aðalatriði málsins.

Hv. þm. sagði að það væri dæmalaust, að 14–16 kg af flúor slyppu út fyrir hvert tonn sem framleitt er í álbræðslu og væri hvergi í heiminum. Þetta er alrangt, eins og greinilega kom fram m.a. hjá Eyjólfi Sæmundssyni sem mætti á fundi n. Þetta er frekar regla heldur en undantekning. (Gripið fram í.) Við erum ekki að tala um nýja verksmiðju, við erum að tala um 6 ára gamla verksmiðju. og í 6 ára gömlum verksmiðjum er þetta frekar regla heldur en undantekning, Norðmenn t.d. hafa ekki sett sinar reglur, þeir eru að því. Norsku ríkisverksmiðjurnar hafa ekki hreinsitæki. Bandaríkjamenn hafa ekki sett sinar reglur, þeir eru að því. Þetta kom greinilega fram hjá Eyjólfi Sæmundssyni sem mætti á fundum n. Það eru til nýjar verksmiðjur í Noregi með fullkomnum hreinsitækjum, eins og t.d. í Lista. Hv. þm. getur lesið um það í skýrslu fulltrúa Náttúruverndarráðs sem þangað fóru, þar sem þeir lýsa þeirri verksmiðju sem algjörlega til fyrirmyndar. Hún er þar í blómlegu 8 þúsund manna héraði og aðstaðan slík að þeir hæla henni mjög í skýrslu sinni, sem ég hygg að hv. þm. hafi fengið. Hér er verið að setja þessar reglur, og þær verða, eins og greinilega kom fram hjá fulltrúa Heilbrigðiseftirlitsins, svipaðar ef ekki þær sömu og settar verða í Noregi og Bandaríkjunum.

Það er sagt að sérfræðingar hafi vélað hæstv. iðnrh. viðreisnarstjórnarinnar — ég var einn af þeim — að ganga ekki nógu dyggilega frá þessum ákvæðum. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það ákvæði í gamla samningnum, sem segir að þeir skuli hlíta þeim reglum sem tíðkast í iðnvæddum löndum eða kunna að verða teknar upp í iðnvæddum löndum, sé mjög gott ákvæði, og ég vil hrósa mér fyrir að eiga nokkurn þátt í því. Ég fór til Noregs, ræddi þar við fjölmarga menn í þessum iðnaði, það gat enginn gefið mér upp neinar reglur þar, en þeir sögðu: Það er enginn vafi á því að þessar reglur koma. Við getum bara ekkert sagt um það hverjar þær verða. — Þess vegna var gripið til þessa ákvæðis, og það er enginn vafi á því að það er þetta ákvæði sem knýr ÍSAL til þess að hlíta þeim reglum sem hér verða settar og verða í samræmi við það sem gildir í öðrum löndum. Það kom einnig greinilega fram hjá t.d. ráðuneytisstjóra heilbrn. og kemur greinilega fram í fréttatilkynningu, sem fyrrv. hæstv. iðnrh. gaf út, að fyrirtækið mun hlíta þeim reglum sem hér verða settar. Það hefur ekki mótmælt því á nokkurn máta. Allt þetta kom fram og ég gerði raunar grein fyrir þessu í framsöguræðu minni, það kom greinilega fram hjá t.d. ráðuneytisstjóra heilbrn. að ekki væri ástæða til að óttast að þarna yrði ekki farið að þeim reglum sem verða um málið settar. Þetta er aðalatriði málsins og það mikilvægasta.

Mikið var rætt um raforkuna og þar vísað mjög í norðmenn, en hvers vegna ekki líka að rekja sögu norðmanna í stóriðju? Þeir byrjuðu um aldamótin. Þeir veittu einkaleyfi til 50 ára. Sum slík einkaleyfi eru enn þá í gildi. Sá iðnaður, sem hefur þessi einkaleyfi, er með raforkuverð jafnvel fyrir neðan 1 mill. kannske niður í 10–12 aura/kwst. Því hefur ekkert verið breytt. Norðmenn eru enn þá að semja við erlenda aðila um stóriðju, hafa gert það til þessa dags. Þeir eiga hins vegar orðið lítið af hagkvæmum virkjunarmöguleikum. Norðmenn hafa ekki hækkað raforkuverð sem byggt er á eldri samningum, þeir hafa ekki gert það, og þar er raforkuverð byggt á nýlegum samningum, eftir 1960, kringum 2–3 mill mjög algengt. Að sjálfsögðu var það verð ákveðið með tilliti til virkjunarkostnaðar á sínum tíma. Um það má vitanlega deila.

Ég fyrir mitt leyti fellst á að í raforkuverði beri að taka tillit til hækkandi verðs á raforku með nýjum virkjunum, og ég get fullkomlega fallist á að raforkuverð það, sem um var samið þegar upphaflegi samningurinn var gerður, 1966, er of lágt miðað við núverandi aðstæður. Þess vegna er verið að endurskoða raforkuverðið. Ég vil hins vegar leyfa mér að fullyrða að Búrfellsvirkjun hefði ekki verið reist á þann máta a.m.k. sem gert var eða með þeim hraða sem gert var án samnings um sölu á verulegum hluta af raforkunni. Samanburður er því ákaflega óraunhæfur. Við hefðum ekki Búrfellsvirkjun með sama raforkuverði ef við hefðum ekki gert svona samning. Það er sannfæring mín og ég held að hún fái sannarlega staðist, verði varla hrakin.

Það er staðreynd að lán til Búrfellsvirkjunar voru bundin því skilyrði að sýnt yrði fram á öruggan og hagstæðan markað fyrir mjög verulegan hluta af raforkunni. Alþjóðabankinn taldi Búrfellsvirkjun of mikla byrði fyrir lítið íslenskt þjóðfélag án þess að hafa slíka tryggingu.

Ég vísa því algjörlega á bug að það raforkuverð, sem þá var samið um, standi ekki undir kostnaði við Búrfellsvirkjun að sínu leyti. Það stendur ekki undir kostnaði við raforkukerfið eins og það er orðið nú með sínum hluta, það er rétt.

Af því að ég minntist á norðmenn áðan, þá mætti náttúrlega einnig rekja þróunarsögu norðmanna í stóriðjumálum. Þar er hægt að vekja athygli á fjölmörgum ritgerðum, ræðum og fleira sem norðmenn hafa látið frá sér fara um mikilvægi erlendrar stóriðju fyrir þjóðarbúskap norðmanna. Þeir hafa sýnt fram á það í fjölmörgum ritgerðum að með þessu móti hefur þeim tekist að treysta efnahagsgrundvöll sinn, og þetta á að dómi þeirra verulegan þátt í traustu efnahagslífi norðmanna í dag.

Þetta er ekki heldur í fyrsta sinn sem við íslendingar eigum samskipti við erlent fjármagn. Erlent fjármagn átti stóran þátt í að byggja upp síldarverksmiðjur okkar og margt fleira sem nú er eða var öflugt í okkar landi. Þetta er þróun sem ég fyrir mitt leyti tel að við eigum að ganga í gegnum. En ég tek undir það að við þurftum vitanlega að takmarka slíka stóriðju mjög og gæta þess ávallt að hún verði ekki óeðlilega stór hluti í þjóðarbúskap okkar íslendinga. Það er ekki nóg að vísa eingöngu í það sem norðmenn gera í dag við ákvörðun raforkuverðs fyrir nýjar verksmiðjur. Við verðum einnig að gæta þess sem þeir hafa gert áður og við verðum þá að líta á dæmið í heild sinni. Við getum ekki notað norðmenn aðeins til þess að andmæla þeim samningi sem nú er verið að gera. Við skulum líta á samanburðinn allan.

Samanburður var gerður við raforkuverðið í Reykjavík og þar var nefnt að nýja orkan kosti 97 aura kwst. Ég hef satt að segja ekki séð það verð. Ég hélt að meðalverðið á nýju orkunni væri um 4 mill og það eru ekki 97 aurar, en hvað um það. Hins vegar var rætt mjög um afgangsorku í þessu sambandi og fullyrt að afgangsorkan til ÍSALs væri afhent með sömu skilyrðum og forgangsorkan er afhent til Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þetta er alrangt. Í 2. málsgr. á bls. 47 í fylgiskjölum með frv. segir, með leyfi forseta:

„Að áskildu því, sem mælt er í neðanskráðum ákvæðum þessarar bókunar, skal Landsvirkjun heimilt hvenær sem er og á hverjum tíma að skerða eða rjúfa algjörlega afhendingu afgangsrafmagns, svo fremi að sú skerðing eða rof minnki eigi þá afgangsorku, sem tiltæk verði í heild á neinu einu almanaksári, niður fyrir 50% þeirrar árlegu afgangsorku sem tilgreind er í 1. málsgr.

Ég held að hv. þm. skilji ekki hvað þarna er við átt. Ég skal reyna að skýra það. Þarna er við það átt að Landsvirkjun getur rofið þessa afgangsorku í helminginn af tímanum á einu ári. Hún getur t.d. afhent enga afgangsorku í 6 mánuði, en þá fulla í 6 mánuði. Þarna er verið að setja sem sagt neðri mörk á það, sem afgangsorkan verður rofin, til að veita fyrirtækinu eitthvert öryggi með þessa orku. Ég held að það þætti saga til næsta bæjar ef Landsvirkjun afhenti Reykjavíkurborg enga orku í hálft ár, bókstaflega enga orku í hálft ár, en það væru sömu skilyrði og hér er um að ræða. Ég held því að hv. þm. hafi hlotið að fara einhvers staðar málsgreinavillt þegar hann gerði þennan samanburð. Það, sem hv. þm. las upp, voru ákvæði, sem oft eru nefnd force majeur og eru í þessum samningi hér um forgangsorkuna, — ákvæði sem ekki eru á valdi seljanda og geta valdið því hins vegar að hann getur ekki staðið við gerð samninga. Þetta gildir um forgangsorkuna bæði til ÍSALs og til Reykjavíkurborgar, en afgangsorkan er sem sagt bundin þessum sérstöku afhendingarskilmálum sem ég las nú og fjallað er um þarna nánar yfir lengra tímabil. Þetta er sem sagt munurinn á afgangsorkunni og forgangsorkunni. Forgangsorkuna má rjúfa ef sérstakar aðstæður valda því að ekki er unnt að afhenda hana, force majeur ákvæði, en afgangsorkan er miklu frjálsari.

Hv. þm. ræddi mjög um Íslenska járnblendifélagið. Ég vildi óska þess að hann gæti haldið svo sem eina ræðu á þessu þingi án þess að minnast á það fyrirtæki. Ég held að það sé alveg óþarfi að blanda því inn í bókstaflega öll mál. Ég lái honum e.t.v. ekki við þessa umr. að gera þar einhvern samanburð á, Það er t.d. enginn vafi á því að raforkuverðið til járnblendifélagsins er stórum hagstæðara en það sem hér um ræðir. Hann sagði að okkur hefði verið nær að fá lánsfé til að dreifa raforkunni um landið og nota til upphitunar húsa. Það var mikill hugur í mönnum hér þegar olíuverðshækkunin varð í lok ársins 1973 að ráðast í slíkar framkvæmdir, og þá var gerð áætlun af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Var áætlað að eingöngu styrking dreifikerfisins mundi kosta um 4000 millj. kr. Svo mikill hugur var í mönnum að þá var rokið til og ákveðið að virkja Kröflu, ákveðið að leggja byggðalínu, ákveðið að virkja Bessastaðaá, Suðurfossá og ég veit ekki hvað og hvað fleira. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég fagna því hálft í hvoru að ekki var ráðist í allar línubyggingarnar um leið. Mér skilst á síðustu áætlunum að þessar 4000 millj. séu nú nær 20 þús. millj., og staðreyndin er sú, sem betur fer, að þeim stöðum hefur stöðugt fjölgað sem notað geta jarðvarma til upphitunar og þurfa ekki raforku. T.d. er nú komið í ljós á Vestfjörðum, þar sem enginn taldi slíkt líklegt, að þar má örugglega fá jarðvarma á nokkrum stöðum og jafnvel mörgum til upphitunar. Breytir það mjög öllum forsendum fyrir línubyggingu inn á það svæði, og svo er víðar. Það er alveg vafalaust að jarðvarminn er stórum hentugri til upphitunar heldur en raforka. Það er raunar alveg vafalaust líka að raforkan á ýmsum fjarlægari stöðum er ákaflega dýr orka til upphitunar og jafnvel ódýrara að nota olíu og losna við kostnaðarsama endurbyggingu línukerfis í mesta dreifbýli á sumum stöðum, þannig að þessi fullyrðing er alls ekki einhlít og þarf að skoðast langtum betur.

Ég ætla ekki að eyða hér meiri tíma í þessar skýringar. Ég vil endurtaka það að mér eru sannarlega vonbrigði, eftir að hafa gert ítrekaðar tilraunir í iðnn. til þess að leiða hið sanna í ljós, að fá að heyra svo mikinn — ég vil kalla það misskilning frá hv. þm. í sambandi við þennan samning. En ég geri mér grein fyrir því að það er alveg tilgangslaust fyrir mig að reyna að leiðrétta það. Það hefur mistekist í fyrri tilraunum og ég ætla ekki að gera fleiri.