07.04.1976
Neðri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3126 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

212. mál, upptaka ólöglegs sjávarafla

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. áður en það fer í væntanlega nefnd.

Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð, sem hv. 2. þm. Austurl. hafði hér um, og til frekari undirstrikunar langar mig til að benda á að það er e.t.v. hæpið að fara þessa leið, þó að hún virðist girnileg, og það er hæpið að beita þessari reglu varðandi brot á landhelgislögunum. Mér fyndist eðlilegra að þarna væri það haft til viðmiðunar, sem kom raunar fram í umr. fyrr á þessu þingi, að samkv. íslenskum lögum er enginn sekur fyrr en búið er að sanna á hann sökina. Menn skulu hafa það í huga, þegar þau lög eru brotin sem sett eru til þess að vernda sjávaraflann, að þó okkur þyki súrt í broti að geta ekki náð til allra þeirra sem ólöglegir eru á því sviði, þá verður samt að fara þar með varúð vegna þeirra ákvæða í hegningarlögum sem fjalla um almennan persónurétt.

Ég vil vekja athygli á því, að sú stétt manna, sem lendir í því að brjóta þau lög sem varða landhelgi okkar, þ.e. sjómannastéttin og þá skipstjórar sérstaklega, er eina stétt manna í landinu sem liggur undir því að nöfn þeirra eru birt í fjölmiðlum áður en búið er að sanna á þá sekt. Ég er ekki viss um að allir kærðu sig um að slík framkvæmd yrði á höfð gagnvart öllum lagabrotum.

Það eru rök út af fyrir sig og náttúrlega veigamikil rök, sem ráðh. flytur hér frv. til stuðnings, að það hrannist upp svo mikið af málum að vart gefist tími til þess að vinna úr þeim gögnum sem til þurfi, það sé því eðlilegt að hægt sé að úrskurða skyndidóm og hlutaðeigandi eigi þá rétt á að skjóta málinu til æðri dómstóla. Það eru afar mörg tilfellin í margs konar afbrotamálum þar sem þetta væri ósköp auðvelt og kannske að mörgu leyti sjálfsögð leið að fara. Ég skal taka sem dæmi brot á skattalöggjöfinni. Það er alltaf verið að tala um að það hrannist upp svo mikið af alls konar málum fyrir dómstólum að það vinnist ekki tími til þess að taka þau til meðferðar fyrr en eftir langan tíma. Hvernig ætli mönnum fyndist það ef einhver, sem álitinn væri brotlegur við skattalöggjöfina, væri á stundinni dæmdur til þess að greiða ólöglegan afla, ólöglegan feng? Ég er hræddur um að það þætti mörgum illa að sér vikið, og ég vil biðja hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að íhuga það gaumgæfilega.

Ég er ekki að átelja Ed. Ég geri ráð fyrir að málið hafi verið skoðað þar frá ýmsum hliðum. En ég er ekki kunnugur því hvort málið hefur verið skoðað í því ljósi að þarna sé veríð að velja sérstaka leið gagnvart þessari einu stétt manna sem kemur til með að vera brotleg við þessi lög, þ.e. skipstjórum á fiskiskipaflotanum.