08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

236. mál, skotvopn

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Ed., fjallar um meðferð á skotvopnum, skotfærum, sprengiefni og skoteldum svo og um innflutning, framleiðslu og verslun með þessar vörur.

Löggjöf um þetta efni er að meginstofni til orðin 40 ára gömul. Með l. nr. 69 frá 1936 voru fyrst sett ákvæði um skráningu skotvopna, um innflutning og sölu á þeim og sölu á skotfærum og sprengiefnum. Einnig er að finna ákvæði um sprengiefni og skotelda í lögum um brunavarnir og brunamál. Enda þótt þessi ákvæði hafi á sínum tíma svarað kröfum tímans, þá gera þau það ekki lengur. Kemur þar margt til: Aukin þörf á strangara eftirliti með sölu þessara efna og tækja vegna aukinnar notkunar og breyttra þjóðlífshátta og samneytis við aðrar þjóðir. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um ýmis atriði sem nauðsynlegt er að skýr ákvæði séu um, og um önnur atriði er þörf ítarlegri ákvæða. Sé lítið til nágrannaþjóða hefur löggjöf um þetta efni nú á síðustu árum mjög víða verið tekin til endurskoðunar, og stefnt er alls staðar að auknu eftirliti með sölu og notkun þessara efna og tækja.

Ég mun nú stuttlega víkja að nokkrum höfuðatriðum í frv. og helstu nýmælum sem í því er að finna.

Frv. skiptist í 7 kafla.

I. kaflinn fjallar um gildissvið frv. Þar er merking hugtakanna skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skoteldur afmörkuð. Í 3. gr. er ráðh. heimilt að setja reglur um önnur efni en þau sem frv. tekur til samkvæmt eldri skilgreiningu, ef þau hafa svipaða eiginleika og verkanir, svo sem ýmis önnur vopn en skotvopn og ýmis efni sem teljast ekki vera sprengiefni eða skoteldur, en hafa svipaða eiginleika. Aðstæður geta komið upp sem gera nauðsynlegt að setja um þessa hluti reglur, og er því talið rétt að ráðh. sé veitt þessi heimild.

Í Il. kafla frv. er fjallað um innflutning, útflutning, framleiðslu og verslun með nefndar vörur. Í gildandi lögum eru ófullkomnar reglur um framleiðslu á þessum vörutegundum. Það má segja að það hafi ekki komið svo mjög að sök til þessa þar sem til skamms tíma hefur engin slík framleiðsla verið í landinu. Nú eru hins vegar starfandi a.m.k. tvær flugeldaverksmiðjur hér og er því þörf á að settar séu reglur um framleiðslu þessa.

Frv. gerir ráð fyrir þeirri breytingu frá núverandi framkvæmd varðandi innflutning til landsins að leita þurfi leyfis fyrir hverri og einni vörusendingu, Þetta er mikilvægt til þess að tryggja að ekki séu aðrar vörur fluttar inn en þær sem leyfðar eru til sölu innanlands, og einnig veitir það stjórnvöldum tækifæri til að fylgjast á hverjum tíma með innflutningnum. Gert er ráð fyrir að meira eftirlit verði með verslunum. Lögð er ríkari skylda á verslunareigendur en áður að þeir afhendi ekki öðrum vörur en þeim sem sanni að þeir megi kaupa.

III. kafli frv. fjallar eingöngu um skotvopn og skotfæri. Þar er kveðið á um það hverjir geti fengið leyfi til þess að kaupa skotvopn og skotfæri. Nokkuð ýtarlegri ákvæði eru um þetta í frv. en nú eru í gildandi lögum. Samkvæmt gildandi lögum ern að vísu allströng ákvæði um það hverjir geti fengið leyfi til þess að eiga skotvopn, en ef til vill hefur ekki tekist að fylgja þeim ákvæðum í framkvæmd sem skyldi. En í núgildandi lögum segir að það skuli vera aðalregla, að þeim einum sé veitt heimild til þess að hafa í vörslum sínum skotvopn sem sýni skilríki fyrir því að þeim sé það gagnlegt eða nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar. Svipað ákvæði er í frv., en auk þess eru tilgreind ákveðin skilyrði sem leyfishafi þurfi að fullnægja, svo sem ákveðinn lágmarksaldur, 20 ár. Gerðar eru kröfur um að viðkomandi hafi þekkingu á skotvopninu og kunni skil á hættueiginleikum þess, og almennt er gert að skilyrði að menn hafi ekki gerst brotlegir við almenn hegningarlög, áfengislög eða lög er varða meðferð skotvopna, nema brot sé smávægilegt.

Það nýmæli er í frv. að gert er ráð fyrir að skotvopnaleyfi séu ekki gefin út til lengri tíma í senn en 10 ára. Ætti þetta að auðvelda lögregluyfirvöldum að hafa eftirlit með skráningu skotvopna, og það auðveldar þeim að fylgjast með því að leyfishafar fullnægi nauðsynlegum skilyrðum á hverjum tíma.

Mörg önnur nýmæli eru í þessum kafla frv. er miða að því að koma í veg fyrir misnotkun skotvopna. Öll þessi ákvæði setja ákveðnar hömlur við sölu skotvopna án þess þó að koma í veg fyrir eðlilega og nauðsynlega notkun þeirra. Benda má á í þessu sambandi að viða um lönd er, eins og ég drap á áðan, verið að herða ákvæði um sölu og meðferð skotvopna og stafar m.a. af síauknum ofbeldishvötum og hryðjuverkum.

IV. kafli frv. fjallar um sprengiefni, hverjir megi kaupa það og hverjir megi nota, um geymslu sprengiefnis og meðferð. Til þessa hefur skort reglur um þetta efni. Ófullkomnar reglur eru til um það hvar og hvernig megi geyma sprengiefni. Mjög fábrotnar reglur eru í gildi um flutning á því og meðferð þess. Þótt í frv. séu ákvæði um þetta er gert ráð fyrir að ítarlegri ákvæði verði sett í reglugerð, enda er það æskilegra þar sem hér er að verulegu leyti um tæknileg atriði að ræða.

Notkun skotelda hefur ekki valdið verulegum vandræðum hér. Þó er það svo að á hverju ári slasast menn af völdum skotelda. Því er talið nauðsynlegt að settar séu um þetta fyllri reglur en nú gilda. Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að ekki megi selja yngri mönnum en 16 ára skotelda. Á sama hátt og um sprengiefni er þörf á setningu reglugerðar um þetta efni.

Í VI og VIII. kafla frv. er fjallað um heimild stjórnvalda til þess að svipta leyfishafa leyfi, um refsingar, eignarupptöku, stjórnvaldskæru o.fl. Refsimörk eru hækkuð talsvert frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum varða brot á nefndum vörum sektum allt að 10 þús. kr. Samkvæmt frv. getur brot varðað allt að eins árs fangelsi, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Í sumum nágrannalöndum eru refsimörkin hærri, svo sem í Daumörku og Svíþjóð, en þar er gert ráð fyrir að brot við samsvarandi lögum geti varðað allt að tveggja ára fangelsi. Í Noregi og Finnlandi eru hins vegar refsimörkin nokkru lægri.

Ætlast er til þess að leyfissviptingum verði beitt í ríkari mæli en nú er gert. Allítarleg ákvæði eru um þetta í frv. og hvernig fari um sölu á varningi sem leyfishafi skal skila þegar hann er sviptur leyfi, ef ekki eru jafnframt fyrir hendi skilyrði til eignarupptöku. Bæði hækkun refsinga og beiting ákvæða um sviptingu leyfa í ríkara mæli en nú er gert ættu að leiða til meiri aðgæslu hjá þeim sem fara með og nota þessa hluti.

Enda þótt frv. sé mun viðameiri en gildandi lög eru, þá er þörf á setningu reglugerðar sem kveði nánar á um ýmis atriði, svo sem geymslu og flutning á sprengiefni og um fleiri atriði.

Rétt er að benda á í þessu sambandi að hvergi er í frv. tiltekið hvaða efni og tæki megi flytja til landsins eða framleiða í landinu til almennrar sölu. Það þótti ekki henta að binda þetta í lögum, heldur er ráðh. gefin heimild til þess að kveða á um þetta með reglugerð.

Gert er ráð fyrir að öll skotvopnaleyfi, sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku laganna, svo og öll önnur leyfi er varða þessa hluti, svo sem verslunarleyfi, verði felld úr gildi. Þetta er nauðsynlegt til þess að koma lagi á skráningu skotvopna í samræmi við ákvæði frv. og tryggja að leyfishafar fullnægi settum skilyrðum. Gefinn er allrúmur frestur eða um eitt ár til endurnýjunarbeiðnar.

Ég ætla ekki að hafa þessa framsöguræðu öllu lengri. Ég hef drepið í örstuttu máli á höfuðatriði þessa frv., en frekari skýringar er að fá í aths. með frv. Ég geri ráð fyrir að flestir hv. þdm. séu þeirrar skoðunar að þörf sé fyrir ítarlegri ákvæði um þessi efni en nú eru í lögum og að þörf sé á strangara eftirliti og aðhaldi í þessum efnum en tíðkast hefur. Ég álít að í frv. felist mikil réttarbót að þessu leyti til og að það veiti færi á því að koma við því nauðsynlega aðhaldi sem þörf er á í þessu sambandi. En auðvitað er það svo með þessi lög eins og önnur, að það fer mikið eftir framkvæmdinni og það fer mikið eftir því að framkvæmdin sé samræmd og sé hin sama hvarvetna á landinu, og að því eiga ákvæði þessa frv. að miða.

Ég tel þörf á því, að þetta frv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi, og vil mælast til þess að vinnubrögðum verði hagað á þá lund við athugun frv. að þess verði kostur.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska þess að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.