08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

238. mál, ferðamál

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hygg að það hljóti að hafa verið óvenjulega ánægjulegt fyrir hæstv. samgrh. að hlýða á ræður þær sem hér hafa verið haldnar. Ég minnist þess vart að hafa heyrt hv. þm. Helga F. Seljan hrósa ráðh. í núv. ríkisstj. af annarri eins einlægni og hann gerði áðan. Nú vill svo vel til fyrir hæstv. ráðh., að ég hygg að hann eigi í þessu tilfelli lofið skilið, að frv., sem var bætt í meðferð Ed. stórlega, hefur enn þá haldið áfram að batna í skúffu ráðh. Er svo gjarnan um ýmislegt það sem gott er að það batnar með aldrinum. Svo er með frv. að það er ekki einsdæmi, að því lengur sem það dregst að þau verði að lögum, því betra. Ég hygg nú samt að telja megi þessu frv. það til kosta, að hér er gert ráð fyrir því að komið verði skipulagi á mál sem nú eru í miklu óefni vegna skipulagsleysis.

Ég hef látið þau orð falla að ég vilji ekki bregða fæti fyrir samþykkt þessa frv. En ég hef óljósan grun um það, að þó að það hafi batnað svona mikið í meðferð Ed. fyrst og síðan í meðferð hæstv. ráðh., þá kunni e.t.v. að vera hægt að bæta það enn. Svo ég nefni breyt., sem orðið hefur á frv., sem ég er ekki alveg viss um að sé til bóta, þá er það sú að fellt er niður ákvæði um að forstöðumaður ferðaskrifstofu hafi til að bera ákveðna þekkingu. Það getur varla komið í staðinn að hann hafi í þjónustu sinni einhvern mann sem hafi slíka þekkingu til að bera. Sé erfitt að fylgja því fram að forstöðumaður ferðaskrifstofu hafi þessa þekkingu til að bera, svo ekki verði sniðgengið, þá má það verða erfiðara að fylgja því fram að hann hafi í þjónustu sinni slíkan mann sem þessa þekkingu hafi til að bera. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að nokkuð mikið sé í húfi að þeir menn, sem falið er að leiða útlenda ferðamenn, sem hafa keypt sér far hingað til lands skv. auglýsingum, inn í helgidóm íslenskrar náttúru, — það sé talsvert í húfi að það séu góðir menn sem annist þessa leiðsögn.

Ég tel það til mikilla bóta að mega nú sjá von í því að farið verði að stemma stigu við örtröð ferðamanna á ýmsum fegurstu stöðum landsins. Það er ekkert leyndarmál að í sumar leið var náttúru spillt stórkostlega í Herðubreiðarlindum með ágangi útlendinga á vegum íslenskra ferðaskrifstofa og þó fyrst og fremst einnar ferðaskrifstofu. Það er ekkert leyndarmál heldur að fuglaparadísin víð Mývatn hefur verið í hættu vegna ágangs ferðamanna. Og hér komum við að því sem gjarnan verður, að annars vegar höfum við hagsmuni mannanna sem græða á því, stunda þá atvinnu að flytja ferðamenn þúsundum saman um landið og sýna þeim fegurð þess, og svo eru hins vegar hagsmunir mannanna sem þurfa að bæta tjón, leggja af mörkum fé til þess að bæta um það sem spillt er, og þó umfram allt eru það hagsmunir mannanna, sem eiga þau verðmæti sem þarna er verið að selja, því nú er það þannig að þar er verið að koma í peninga þarna ekki aðeins fegurð, sem fyrir augum ber, heldur líka ró og kyrrð ýmissa fegurstu og friðsælustu staða landsins. Og þegar kominn er rútubíll á þennan stað, fullur af útlendingum, þá er þessi ró úr sögunni. Það er verið að selja burt að vissu leyti verðmæti sem við eigum. Og er þá það enn ótalið með hvaða hætti ýtt hefur verið undir það með auglýsingum af hálfu þeirra, sem tekjur hafa af ferðamálum á Íslandi, að hingað komi menn til að kaupa upp í eiginlegri merkingu ýmis þau verðmæti sem þegnar þessa lands hafa setið einir að fram að þessu. Á ég þar m.a. við útlendingabraskið með veiðiárnar okkar þar sem íslenskum þegnum er gert að keppa við erlenda auðjöfra með verðtilboðum í veiðileyfi til þess að veiða í ám okkar og vötnum.

Ég er nú ekki alveg víss um með hvaða hætti talnafróðir menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að 4% af þjóðinni lifi af ferðamálum og að 7% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar komi frá ferðamálum. Ég veit ekki hvernig þetta dæmi er reiknað, en þykist þess alveg fullviss að hér sé um að ræða brúttótekjur, en ekki nettó.

Enn segi ég það, að ég tel frv. vera til bóta frá skipulagsleysinu, en ég óska eindregið eftir því að það verði nú enn athugað í n., þó að ég vilji gjarnan stuðla að því að það verði afgr. sem fyrst. Ég tel gott að fá löggjöf um ferðamál, en ég vil heldur að það dragist fram á haustþingið að samþ. hana ef þess er nokkur kostur að bæta hana frá því sem nú er. Ég vil að ferðamálalöggjöf okkar miði að því í fyrsta lagi að tekið verði tillit til hagsmuna þeirra manna sem hafa lagt fjármuni sína í hótelbyggingar hérna og hafa gert móttöku gesta og fyrirgreiðslu að ævistarfi. Í öðru lagi vil ég að löggjöfin miði að því að tekið verði sómasamlega á móti þeim erlendum gestum, sem koma hingað til lands, og þeim gerð vistin hér notaleg, svo sem gestrisinni þjóð hæfir. En ég vil ekki að þessi löggjöf miði að því að auka umfram allt straum erlendra ferðamanna til landsins, jafnvel hið gagnstæða.