05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

42. mál, söluskattur

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta misskilning hv. þm., 5. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar. Það frv., sem ég flutti hér í fyrravetur, var um söluskatt á fargjöldum með flugvélum. Það er hins vegar ljóst, að það er allmikill munur á því, hv. þm. Stefán Jónsson, ef ég mætti útskýra það, að það eru mjög fáir aðilar í landinu sem selja slíka þjónustu. Og þegar sú þjónusta er ekki lengur söluskattsskyld, þá er engin þjónusta söluskattsskyld hjá þessum fyrirtækjum. En aftur á móti er um það að ræða í sambandi við undanþágur í versluninni að hluti er söluskattsskyldur og hluti er söluskattsfrjáls, og þar er vandamál að skilja á milli.

Ég ætla ekki að fara lengra út í að útskýra hvers vegna þetta er vandamál. Þetta er vandamál og það er staðreynd. Ég vil aðeins benda hv. þm. á, ef hann er í vafa um það, að ræða um þessi vandamál og kynna sér þau hjá rannsóknadeild ríkisskattstjóra eða skattalögreglunni, því að þar starfa þeir menn sem best kynni hafa af þessum málum og geta væntanlega leitt hann í allan sannleika um þau vandamát sem þarna eru fyrir hendi. Við hljótum að hafa það einnig í huga þegar við fjöllum um þessi mál, jafnvel þótt við séum sammála um þau markmið sem við stefnum að.