08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

229. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. í fjarveru heilbr.- og trmrh., sem er utanbæjar í dag, vil ég leyfa mér að fylgja þessu frv. úr hlaði með því að taka upp og flytja þá grg. sem ráðh. flutti með frv. við 1. umr. um það í Ed.:

„Það frv. til l. um breyt á l. um almannatryggingar, sem hér er lagt fram, er einn þátturinn af því samkomulagi sem ríkisstj. gerði við aðila vinnumarkaðarins í sambandi við lausn kjaradeilunnar í febrúarmánuði s.l. Frv. felur það í sér að frá og með 1. júlí n.k. er hækkað það tekjumark sem lífeyrisþegar mega hafa án þess að til skerðingar tekjutryggingar komi. Er gert ráð fyrir að þetta mark hækki úr 46 380 kr., eins og það er í dag, í 120 þús. kr. fyrir einstakling. Þessi breyting er gerð til þess að bæta hag þeirra lífeyrisþega sem fá bætur úr lífeyrissjóðum eða samkv. lögum um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, en jafnframt er gerð breyting á þeim lögum til þess að bæta aðstöðu þeirra er þaðan njóta bóta. Þessi atriði eru rakin í aths. með frv. og hirði ég ekki um að greina nánar frá því hér.

Hins vegar er rétt að benda á að þessi breyting hlýtur að hafa í för með sér verulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð þar eð fleiri munu nú njóta fullrar eða einhverrar tekjutryggingar en áður hefur verið. Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna breytingarinnar nemi 200–250 millj. kr. á heilu ári, en erfitt er að segja fyrir um það fyrr en athugun skattaframtala ársins 1975 hefur farið fram. Í þessu sambandi verður ekki komist hjá að minna á að sú breyting, sem hér er rætt um, hefur aðeins í för með sér bót á lífeyrisréttindum fyrir þann hóp fólks sem einhverjar tekjur hefur annaðhvort úr lífeyrissjóðum eða af starfi. Lagabreytingin felur ekki í sér neina bót fyrir þá, sem eingöngu njóta grunnlífeyris og tekjutryggingar, þ.e. þá sem raunverulega eru verst settir hvað lífeyrismálum viðkemur.

2. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir breyt. á 78. gr. almannatryggingalaga þar sem nánar er kveðið á um en nú er heimild ríkisstj. til þess að breyta fjárhæðum tekjutryggingar til samræmis við aðrar bótaupphæðir. Ég tel rétt að vekja athygli á því, að í því samkomulagi, sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu, komu þeir sér saman um að þeir muni vinna saman að endurskipulagningu lífeyriskerfisins. Markmið þessarar endurskipulagningar á að vera í fyrsta lagi að samfellt lífeyriskerfi taki helst til allra landsmanna, að lífeyrissjóðir og almannatryggingar tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífeyri er fylgi þróun kaupgjalds á hverjum tíma, að auka jöfnuð og öryggi meðal landsmanna sem lífeyris eiga að njóta, að lífeyrisaldur geti innan vissra marka verið breytilegur eftir vali hvers og eins lífeyrisþega, en án þess að það hafi áhrif á útgjöld kerfisins, þ.e.a.s. lífeyrir verði því lægri sem taka hans hefst fyrr, að reynt verði að finna réttlátan grundvöll fyrir skiptingu áunninna lífeyrisréttinda á milli hjóna.

Til þess að semja till. um nýskipan lífeyrismála í samræmi við þessa yfirlýsingu munu aðilar nefna 6 menn: 3 frá Alþýðusambandi Íslands, 2 frá Vinnuveitendasambandi Íslands og 1 frá Vinnumálasambandi samvinnufélaga til þess að starfa með fulltrúum ríkisstj. og öðrum aðilum sem hagsmuna eiga að gæta á þessu sviði. Á grundvelli þessara tillagna og að lokinni nægilegri kynningu þeirra í aðildarfélögunum verði síðan unnið þannig að málinu að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga á Alþ. vorið 1977 og nýskipan lífeyriskerfisins taki síðan gildi 1. jan. 1978.

Í nýgerðum kjarasamningum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands við kaupskipaútgerðina er gert ráð fyrir því að sambandið eigi aðild að lífeyrissamkomulaginu, þannig að það hefur þegar verið gert ráð fyrir 7 fulltrúum frá þessum aðildarfélögum launþega. Til greina kemur einnig að skipa fulltrúa frá fleiri aðildarsamböndum, eins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Sambandi bankamanna og Lífeyrissjóði bænda. — Auk þess verða fulltrúar ríkisstj. sem væntanlega verða þá fulltrúar fjmrn., heilbrrn., og vonandi einnig sérstakur fulltrúi eða fulltrúar Tryggingastofnunar ríkisins. Nú liggur fyrir að ríkisstj. komi til með að skipa þessa n. mjög fljótlega, og verður sennilega um 15 manna n. að ræða, sem er ekki lítill fjöldi. En ég vil bæta því við að það munu vera 3–4 nefndir starfandi nú sem vinna að undirbúningi lífeyrissjóðamála, og ég tel fyrir mitt leyti bæði eðlilegt og sjálfsagt að umboð þeirra nefnda falli niður.

Það er að mörgu leyti óhentugt þetta form, að allir hópar þurfi að eiga fulltrúa alls staðar. En hér er um samning og samkomulag að ræða sem auðvitað verður að standa við. Hins vegar mun auðvitað hvíla á herðum sérfræðinga sem viðkomandi nefnd fær til þess að vinna að þessum málum.“

Hér er um að ræða staðfestingu á því sem lofað var frá hendi ríkisstj. við lausn kjaradeilunnar. Læt ég með þessum orðum lokið tilvitnun í framsöguræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. víð 1. umr. um þetta mál í Ed. og legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. hv. deildar.