08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

230. mál, atvinnuleysistryggingar

Gunnar Sveinsson:

Virðulegi forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að taka aðeins til máls um þetta mál, sem hér er til umr., út af því að ég hef starfað um töluvert langan tíma í úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta og fundið vel fyrir því hvernig þessi lög verka í reynd. Það var gerð siðast breyting á lögum þessum 3. maí 1974. Þær breytingar, sem þá voru gerðar, voru mjög til bóta. Þó eru nú tvö ákvæði í þessum lögum sem ég teldi rétt að breyta og ætla ég að fara nokkrum orðum um þau atriði.

Ég veit náttúrlega ekki hvað ríkisstj. leggur mikla áherslu á að ljúka þessu máli vegna samkomulagsins við verkalýðsfélögin, en varla verður því lokið fyrir páska, þannig að það ætti að vera þó nokkur tími til að athuga það þangað til þing kemur næst saman.

Það er þá IV. kafli laganna, um bótarétt, í 15. gr. Þar stendur: „Skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu, telst hafa fullnægt ákvæði þessa stafliðs hafi það á s.l. 12 mánuðum stundað vinnu a.m.k. í 3 mánuði og skólanám í 6 mánuði.“

Þetta hefur verið túlkað þannig hjá okkur í okkar nefnd að við teljum, að ef nemandi hefur stundað vinnu s.l. sumar í 3 mánuði, verið svo í skóla í 6 mánuði, þá eigi hann fullan rétt á bótum. En stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur úrskurðað að með þessum staflið: „Skólafólk, sem stundar vinnu að námi loknu“ — sé átt við það þegar menn hafa lokið námi í viðkomandi skóla, þannig að þegar hefur reynt á þetta hjá okkur. Við höfum orðið að fella menn, sem hafa fullnægt að öðru leyti skilyrðum laganna, en hafa ekki lokið námi í skóla. Ég tel að þegar löggjafinn setti þessi lög, þá hafi hann ábyggilega átt við þá túlkun sem við höfum samþykkt í okkar n., að þetta sé þannig að ef menn hafi unnið í 3 mánuði og séu svo 6 mánuði í skóla, þá hafi þeir öðlast rétt þótt þeir hafi ekki lokið námi í viðkomandi skóla.

Þá er í 16. gr. laganna undir g-lið, þar stendur: „Bætur greiðast ekki þeim, sem ... g) á maka, sem á síðustu 12 mánuðum hefur haft og hefur hærri tekjur en sem svarar tvöföldum dagvinnutaxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í Reykjavík.“ Þetta tekjutakmark, sem hefur verið framkvæmt af flestöllum úthlutunarnefndum, tel ég að sé orðið of lágt, því að það er staðreynd að þetta bitnar fyrst og fremst á duglegasta fólkinu. Enda kom bað í ljós í síðustu vinnudeilu og sérstaklega var um það rætt í sambandi við deiluna á Akranesi, að verkakonur, sem þar voru í verkfalli, töldu að bætur atvinnuleysistrygginga kæmu þeim ekki til góða vegna þess að eiginmenn þeirra væru komnir yfir þetta tekjumark. En tekjumarkið miðast við síðustu 12 mánuði, þannig að í okkar verðbólguþjóðfélagi, þegar verðlagið hækkar svo ört, þá verður þessi tekjuviðmiðun mjög lág og mig minnir að fyrir síðustu samninga verkalýðsfélaganna væri þetta tekjumark hjá maka um 1 millj. 50 þús. kr., þannig að ef eiginmaðurinn hafði þénað rúmlega 1 millj., þá gat kona hans ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna þess hvað hann hafði háar tekjur. Það má segja að þeir, sem hafa tvöfaldar Dagsbrúnartekjur í dagvinnu, hafi sæmilega góð laun. En við vitum að tekjur manna nú eru mikið til komnar vegna eftirvinnu og þess vegna kemur þessi tekjuviðmiðun að mínu áliti ekki nægilega að gagni. Ég tel að réttlátt væri að hækka þessa tekjuviðmiðun þó nokkuð mikið og það ætti ekki að miða hana við maka, heldur ætti að miða hana við tekjur hjónanna beggja, þannig að þegar bæði hjónin, húsbóndinn og húsmóðirin, hafa náð vissum tekjum sameiginlega, þá komi þetta skerðingarmark til greina. Ég tel að með því mundi fást betri jöfnuður á þessi mál. En við sjáum að það eru margar stéttir sem eiginlega hverfa út úr því að fá úthlutað atvinnuleysisbótum. Það eru t.d. konur allra togarasjómanna á minni togurunum, það eru konur kennara og fleiri og fleiri sem detta þarna alveg út. Þetta er einmitt duglegt fólk sem vill drýgja tekjur sínar, en það nýtur ekki þess að fá atvinnuleysisbætur þegar það þarf á því að halda. Það hefur kannske ekki reynt svo mikið á þetta, vegna þess að atvinna hefur verið nokkuð góð undanfarin ár. En hver veit nema að því komi að við þurfum á þessu að halda?

Ég vildi aðeins minnast hér á þetta og biðja hv. heilbr.- og trn. að taka þetta til athugunar þegar þetta fer til hennar og hún taki þessar tvær ábendingar sérstaklega til athugunar um leið og þær breytingar eru gerðar á frv. sem hér liggja fyrir.