08.04.1976
Neðri deild: 89. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3176 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

230. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðason:

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, felur í sér tiltölulega veigalitla breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og er, eins og kom fram í framsögu hæstv. forsrh., vegna samkomulags, sem gert var í síðustu kjarasamningum, og einn liður þess samkomulags.

Það má segja að um fyrri efnisþátt 1. gr. hafi í raun og veru veríð heimild í lögum til þess að það væri gert, en viðbótin er að hér sé einnig um önnur námskeið að ræða, námskeið á vegum verkalýðssamtakanna, almenn námskeið sem miði að aukinni hæfni starfsmannsins. Það hefur verið skilningur á því að ef menn notuðu þann tíma, sem þeir eru atvinnulausir, til slíks náms og þjálfunar, þá skerti það ekki bætur viðkomandi og jafnvel ætti að rétta þeim hjálparhönd að öðru leyti. Þetta er sem sagt ákaflega lítilvæg breyting, eins og málum er komið, og mjög í takt við það sem gert hefur verið.

En hv. 4. þm. Reykn. braut hér upp á öðrum og miklu stærri atriðum sem hann taldi að þyrftu breytinga við á þessum lögum. Það er ákaflega margt í þessum lögum sem menn hafa gegnum árin verið að fást við. Mörgu hefur verið breytt og lögin hafa tekið mjög miklum breytingum frá upphafi, bæði að því er varðar ýmis réttindi og bótaupphæðir o.s.frv.

Það er einkum fyrra atriðið sem hv. þm. kom inn á sem er mjög stórt mál og hefur oft verið rætt. Ég hef því miður ekki lögin hér við höndina, en þegar ákveðið var um skólafólkið að þeir, sem lokið hefðu námi, skyldu ekki þurfa sama tíma til þess að vinna sér inn réttindi eins og aðrir, þá var látinn nægja 6 mánaða skólatími og þriggja mánaða vinna, þ.e.a.s. sá sem hafði unnið 3 mánuði sumarið áður, síðan verið í skólanum allan veturinn, ef hann hafði lokið skólanámi um vorið, þá átti hann rétt á atvinnuleysisbótum. Þetta var ætlunin með þessari breytingu. Það hafa ýmsir viljað lesa annað út úr breytingunni eða þessari lagagr. eins og hún er núna, en ég fullvissa hv. þm. um að það var ætlun löggjafans að réttindi skólafólksins yrðu með þeim hætti sem ég var nú að lýsa. Ef atvinnuleysistryggingarnar ættu að taka á sinar herðar atvinnuleysi skólafólks almennt yfir sumarmánuðina, þá er það áreiðanlega og gæti orðið þyngri baggi en svo að Atvinnuleysistryggingasjóður stæði undir því. Vissulega er þetta stórt vandamál, en ég held að það væri rétt og miklu eðlilegra að þjóðfélagið og löggjafinn sæju fyrir þeim málum á annan hátt en að borga þessu fólki aðeins atvinnuleysistryggingar. Það er fyrst og fremst launað starf sem þetta fólk þarf að hafa.

En sem sagt, þessi grein sem hann gerði þarna að umræðuefni, það er ekki neinn misskilningur og ég fullyrði engin mistúlkun á lögunum, það sem stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur látið frá sér fara í þessum efnum alveg einróma. Hins vegar hafa menn deilt um hvað væri að hafa lokið námi. Það hefur komið til álíta hvort það ætti að þýða lokapróf eða jafngildi þess, og þar hefur verið farið eftir þeirri reglu að ef nemandinn hættir skólavist, hættir við að fara í skóla að hausti, þá nýtur hann þessara réttinda, sem sagt ef hann hefur hætt við skólanámið og er kominn á vinnumarkaðinn, þá hefur hann öðlast réttinn eins og lagagr., sem hér var lesin upp, segir til um.

Varðandi síðara atriðið sem hv. 4. þm. Reykn. gat hér um, þ.e. viðmiðunina þegar sá, sem sækir um atvinnuleysisbætur, á maka sem er með tiltekin laun, er um allt annað mál að ræða og vissulega má veita þessu fyrir sér. Sannleikurinn er sá, að eins og mál öll hafa þróast hjá okkur í þessari miklu verðbólgu, þá er það fjær en það kannske nokkru sinni hefur verið að dagvinnukaup geti verið nokkur skynsamleg viðmiðun þegar um almennt verkafólk er að ræða. Það eru tekjur sem eru svo lágar að á því lifir enginn. Þess vegna er tekjuöflunin, ef nokkur möguleiki er á því, yfirleitt miklu meiri en það sem dagvinnukaupið sjálft segir til um. Þetta er mál sem hefur komið mjög til umr., bæði þetta og raunar önnur viðmiðun í lögum sem þyrfti að endurskoða. En ég vil vara við því að sú breyting, sem felst í frv. því sem hér er lagt fyrir, verði tafin með því að fara að taka lög um atvinnuleysistryggingar til meiri háttar endurskoðunar.