05.11.1975
Neðri deild: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Mér er tjáð að að undanförnu hafi farið fram allmikil umr. um þetta mál sem hér er á dagskrá, Framkvæmdastofnun ríkisins, þar hafi margur þanið skeiðið og ýmsir allvíxlgengir á þeim spretti. Ég kann af skiljanlegum ástæðum lítil skil á umr. þar sem ég hef verið fjarverandi. Ég hugðist kynna mér nokkuð af þeim umr. í gær, en varð þá á að fletta fyrst upp ræðu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur og þar gefur á að líta, að umr, hafi verið „óþinglegar, ábyrgðarlausar, heldur heimskulegar og fram úr máta leiðinlegar“. Ég hef ekki þorað til við þessar bókmenntir síðan ég las þetta. En ég sé að hér hafa langar ræður verið fluttar, bæði af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og hv. þm. Ellert B. Schram og ég er að velta því fyrir mér að leggja — (Gripið fram í.) Hvað sagði hann? (Gripið fram í.) Ja, hún gæti átt við fleiri. Ég er að veita því fyrir mér að lesa og glugga í þessi fræði einhvern tíma þegar mér leiðist hvort sem er. En þótt ég sjái ekki ástæðu til þess að hneigja mörgum orðum að málinu, þá fæ ég á því gott færi innan tíðar þegar hæstv. ríkisstj. rís úr sínu bosi og flytur till. um ný lög fyrir Framkvæmdastofnun ríkisins, eins og hún lýsti yfir í stjórnarsamningi við stjórnarmyndun og hæstv. forsrh. hefur endurtekið síðan.

Ég hef enda átt hlut að því að endurskoða núv. lög um Framkvæmdastofnun ríkisins, skila ríkisstj. till. um breyt. sem trúnaðarmáli og á því óhægara um vik en ella að ræða málið efnislega í smáatriðum, þar sem ég hlyti þá að teljast vera að brjóta trúnað í því máli sem mér var falið að vinna ásamt þeim hv. þm. Tómasi Árnasyni, Ingólfi Jónssyni og Steingrími Hermannssyni. En ég held ég ljóstri ekki upp neinu leyndarmáli þótt ég skýri frá því hér að meðal annarra brtt. sem við gerðum, og það er líðið meira en heilt ár síðan við afhentum hæstv. forsrh. brtt., — meðal annarra brtt. er till. um, að brott úr lögunum séu numin þau ákvæði sem veita hinum svonefndu kommissörum hið sérstæða mikla vald sem að vísu hefur ekki verið notað eftir hljóðan laganna. Við höfum farið í framkvæmdinni eftir því sem við álítum að þetta ætti að vera og sanngjarnt að væri, en ekki eftir orðanna hljóðan, m. a. því, sem segir í lögunum að engir geti borið fram till., hvað þá meira, á stjórnarfundum stofnunarinnar nema hinir svonefndu kommissarar.

Þess vegna er það að ég mun geyma mér að ræða ítarlega um þetta mál sem mönnum er svo tungutamt nú. En það, sem gefur mér einna helst ástæðu til þess að taka til máls nú, eru upplýsingar sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason fór fyrst með í útvarpið s. l. föstudagskvöld þar sem hann upplýsti um lánveitingar Byggðasjóðs og Framkvæmdasjóðs. Hv. þm. minntist á það áðan að ekkert samræmi væri í útlánastefnu ríkisbankanna og Framkvæmdastofnunarinnar. Hv. þm, lætur svo sem hann viti ekki hverjir það eru sem taka ákvörðun um það lánsfé sem til reiðu er í þessum tveimur sjóðum. Hv. þm. veit fullvel að það er hið háa Alþ. sem ákvað hvaða fé skyldi vera til ráðstöfunar í Byggðasjóði, og svo láta menn sem þeim sé það allsendis ókunnugt og beina gagnrýni á Framkvæmdastofnunina fyrir að ráðstafa því fé og með þeim hætti að með ódæmum er. Ekki nóg með það að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason mistúlki þær tölur sem hann er troðinn út með af Seðlabankanum, heldur misles hann greinilega líka. Hann lýsti því yfir í útvarpinu og þykist vera að gera grein fyrir því í Morgunblaðinu í morgun að útlánaaukning Framkvæmdasjóðs hefði numið 104%. Stendur í þessari svokölluðu leiðréttingu hans þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Atvinnuvegasjóðir, þ. e. sjóðir sem fá lán hjá Framkvæmdasjóði.“ Og þar er hækkunin 104%. Hverjir eru þeir sjóðir. Það er að sjálfsögðu ekki Framkvæmdasjóður. Þetta eru atvinnuvegasjóðir sem fá lán úr Framkvæmdasjóði, eins og Fiskveiðasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Iðnlánasjóður, Lánasjóður sveitarfélaga og ýmsir smærri sjóðir. Þetta er útlánaaukning þeirra.

Það er í þessu eins og svo mörgu öðru sem mig hefur undrað á því hvernig á því stendur að aðalgagnrýnendur þessarar stofnunar hafa aldrei lagt lykkju á leið sína til þess að kynna sér málin hjá stofnuninni sjálfri, þar sem við erum vel menntir af embættismönnum sem þeir sjálfsagt mundu trúa, því að ekki mundi ég sérstaklega panta það að sitja fyrir svörum hjá þessum háu herrum. Aldrei verður þeim það úr vegi að leita upplýsinganna, og ef nú hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason væri of fínn til þess að leggja leið sína þangað, þótt ekki væri nema slá á þráðinn. Til þess að fá staðfest að gróusögum hefði verið laumað í eyra hans í gær um launakjör þarna, þá gæti hann þó a. m. k. snúið sér til hv. þm. Benedikts Gröndals, form. Alþfl. og stjórnarmanns í Framkvæmdastofnun ríkisins frá upphafi. Hann gæti upplýst hann um allt þetta. Hann gæti upplýst hann um að í fyrra voru lánaðar úr Framkvæmdasjóði 2160 millj. Hann gæti upplýst hann um að upphaflega var áformað — af ríkisstj. að sjálfsögðu — að útlán hans nú yrðu 3 650 millj. kr., en fyrirsjáanlega verða þau ekki nema 3 250 millj kr. Hækkun úr 2 160 millj. kr. í 3 250 millj eru rétt 50%, enda stendur ekkert í þessu seðlabankaplaggi um að hækkun útlána Framkvæmdasjóðs nemi 104%, heldur að meðaltali útlánaaukning atvinnuvegasjóðanna sem Framkvæmdasjóður lánar til.

Ég sá þetta blað það seint, þessar upplýsingar sem birtast í Morgunblaðinu, að mér vannst ekki tími til þess nákvæmlega að kljúfa niður með hvaða tölur þarna er farið hvað varðar Byggðasjóð. Þó býður mér í grun að þar sé um að ræða að lagðar séu saman allmargar fjárhæðir sem ekki teljast til ráðstöfunarfjár Byggðasjóðs. Öðruvísi getur þetta ekki verið fundið út. (Gripið fram í.) Þessi tala sem segir um hækkun á útlánum Byggðasjóðsins, um 160%. Ég skal reyna að gefa nú strax einhverjar skýringar á því. Túlkun þeirra talna, sem hv. þm. hefur verið troðinn út með af Seðlabankanum, mun verða troðin öfugt ofan í hann og að því er nú unnið inni í hinni frægu stofnun. Hv. þm. Benedikt Gröndal hefði getað fullvissað þennan hv. þm. um að í fyrra voru heildarútlán Byggðasjóðs 661 millj. kr. Nú, 10 mánuði af árinu, hefur verið tekin ákvörðun um réttar 800 millj. kr. í lánveitingum. Þessi hækkun er 21%, sem hagfræðiprófessorinn hlýtur að geta reiknað út sjálfur. Það er ekki von á góðu efnahagsástandi í þjóðfélaginu ef menn koma brautskráðir úr skólum frá mönnum sem fara þann veg með tölur eins og hér ber raun vitni um. (Gripið fram í.) M. a. gæti ég trúað því.

Þetta eru staðreyndir sem hann gat fengið upplýsingar um, hv. þm. rétt eins og hann hefði getað gengið úr skugga um þetta bæði hjá Framkvæmdastofnuninni sjálfri og hv. þm. Benedikt Gröndal, form. Alþfl. Hann hefði getað gengið úr skugga um það þegar í stað og slúðrinu var dælt í hann hér í báðum d. í gær um launakjörin í þessari stofnun að þar var farið með alrangt mál. Hann kaus bara miklu heldur að viðra þetta hér. Það var í stíl þessarar kerlingar sem hv. þm. Tómas Árnason nefndi hér á dögunum, að vísu veit ég ekkert um hvernig klæði fara á henni nú. Þetta er staðreynd sem hann getur fengið staðfesta, teknar hafa verið ákvarðanir um 300 millj. kr. lánveitingar, 661 millj. í fyrra. Það, sem hér er lagt saman, er sjálfsagt um greiðslustöðu sjóðanna. Sjálfsagt eru lagðar við 300 millj. kr., sem voru ekki veittar af Byggðasjóði, heldur hafði Byggðasjóður að nafninu til fyrirgreiðslu með, og 10% lánasjóður vegna nýsmíði fiskiskipa. Hvernig eru þessar 300 millj. tilkomnar? Alþ. ákvað sjálft vegna ráðstöfunar gengishagnaðar að verja 800 millj. kr. til að lána fyrirtækjum í sjávarútvegi til hinna svonefndu skuldabreytinga. Bankakerfið setti sér þær reglur að því tókst aðeins að skuldbreyta sem svaraði 305 millj. kr. Nokkru var varið við lausn togaraverkfallsins af þessari fjárhæð. Ríkisstj. þótti nauðsyn bera til að standa við hin gefnu loforð um fjárveitingar til skuldbreytinganna og ákvað þess vegna að fara fram á það við Byggðasjóð að hann hefði afgreiðslu á þeim lánum með höndum, 300 millj. kr. Allar þær lánveitingar voru ákveðnar af viðskiptabönkunum. Þær niðurstöður og till., sem niðurstöður voru byggðar á um útlán, voru unnar af viðskiptabönkunum, Útvegsbankanum og Landsbankanum, nær alfarið. Ég held ég muni það rétt, að aðeins eitt útgerðarfyrirtæki, Útgerðarfélag Skagfirðinga, hafi verið á vegum Búnaðarbankans. Tölur höfðu verið þrautkannaðar, en náðu ekki undir skuldbreytingu vegna þeirra ströngu reglna sem skuldbreytinganefnd hafði sett sér og Seðlabankinn hafði yfirstjórn á. Þetta var ekki ráðstöfunarfé Byggðasjóðs, þó að það kunni svo að vera að það sé lagt saman í þessum upplýsingum. Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason veit betur en ég hversu tölur eru varasamar og þarf að kryfja til mergjar hvað þær í raun og veru þýða.

Þá er til viðbótar þessu 10% nýbyggingar sjóður vegna fiskiskipa. Byggðasjóður hvorki útvegar fé til þess né tekur ákvarðanir um þau lán. Það gerði hæstv. fyrrv. ríkisstj. sem lofaði til viðbótar fyrirgreiðslu Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs sérstökum lánum í þessu skyni. Þótt hæstv. fyrrv. ríkisstj. tækist ekki að útvega fjármagn til þessara hluta, þá hefur hæstv. núv. ríkisstj. gert það, og ef svo mætti segja er sveitfesti þessa sjóðs í Byggðasjóði. En þetta á ekkert skylt við ráðstöfunarfé hans fremur en þær 300 millj. sem hæstv. ríkisstj. bað Byggðasjóð um formlega að hafa með höndum afgreiðslu á, en engin afstaða tekin til málsins að kalla önnur en sú að veita þessa fyrirgreiðslu.

Spurningin er auðvitað sú, hvort Byggðasjóður er alfarið ábyrgur fyrir þessu láni varðandi skuldbreytinguna. Framkvæmdastofnunin gerði fyrirvara á um það við ríkisstj., að ef til kæmi að hallaðist á vegna þessara lánveitinga, þá hlyti að verða lítið svo á að hæstv. ríkisstj. útvegaði fjármagn til þess að standa undir því. En úr þessu fæst skorið þótt síðar verði, enda vil ég nú aðeins rifja upp og það mundi kannske gleðja gömul eyru hv. þm. Jóns Skaftasonar og hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar að upplýsa hér hvernig þessum 300 millj. kr. var varið. Þær runnu allar til viðskiptabankanna eins og þær lögðu sig til þess að bæta stöðu viðkomandi fyrirtækja við bankana, bæta stöðuna vegna þess sjálfsagt að viðskiptabankar þessir hafa verið búnir að lána fyrirtækjunum of mikið, kannske á árinu 1974, enda æddi þá útlánastarfsemi þessara banka upp með ótrúlegum hraða, svo að slík dæmi eiga aldrei eftir að finnast hjá Framkvæmdastofnuninni, um slíka óráðsíu. Af þessum 300 millj. kr. runnu 25.3% til Suðurnesja, langhæst, — og þar með sjá menn sönnun fyrir því að hér var ekki um að tefla útlánastarfsemi á vegum Byggðasjóðs, enda hefði það ekki staðist þar sem útlánastarfsemi hans eftir lögum er með allt öðrum hætti, þótt undantekning hafi verið gerð vegna færanlegra framleiðslutækja eins og fiskiskipa og einnig vegna þess að fiskiskip eru byggð annars staðar á landinu en á þessu svæði fyrir Reykjavík og Reykjanes, — 25.3%, og Reykjavík 15.7% eða þessi kjördæmi 41% af þessum 300 millj. kr. Ég vona að það verði ekki lastað að Byggðasjóður hljóp undir bagga með að afgreiða formlega þessi lán sem koma þá væntanlega þessum sveltu kjördæmum til góða að þessu leyti.

21% aukning er hjá Byggðasjóði. Allt þetta gat hv. þm. gengið úr skugga um ef honum hefði sýnst svo, ef hann hefði ekki viljað halla réttu máli til þess að auka ófræginguna um þessa stofnun. Þetta er alveg augljóst mál.

Það var ótrúlega margt fleira í ræðu hv. þm. sem hefði verið svaravert, en ég fæ til þess, eins og ég segi, miklu betra og eðlilegra tækifæri síðar, þegar hæstv. ríkisstj. flytur frv. sitt til nýrra laga fyrir stofnunina, og ætla þess vegna ekki á þessu stigi að eyða að þessu fleiri orðum. En ég endurtek það og skora á þá hv. þm., sem æða á veggina í gagnrýni sinni á þessari stofnun, að leggja nú lykkju á leið sína í stofnunina og kynna sér af eigin raun starfsemi hennar. Það er öllum opið í stóru og smáu. Þeim verða veittar allar upplýsingar. Framkvæmdastofnunin er ein af örfáum stofnunum sem birtir hvert einasta lán sem á vegum hennar er veitt í ársskýrslum sínum, nafn á öllum lántakendum og allar fjárhæðir. Þetta geta menn allt saman lesið. Það er ekkert það atriði í starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar, hvorki varðandi lánveitingar né áætlanagerð eða annað, sem nokkru máli skiptir, sem ekki er meira en sjálfsagt að allir hv. þm. verði upplýstir um.