09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég sagði hér nokkur orð í umr. um þetta mál síðast þegar málið var á dagskrá, hvort sem það var nú í gær eða fyrradag, en ég fór þá ekki efnislega út í málið vegna þess hversu tíminn var naumur, fundartími var raunar þrotinn þegar ég hóf mál mitt. Ég skal nú verða við þeim tilmælum hæstv. forseta að teygja ekki lopann of lengi.

Ég get sagt það í upphafi, að þau sjónarmið, sem ég styð í þessu máli, hafa komið mjög rækilega fram hjá ýmsum hv. ræðumönnum, og þá alveg sérstaklega hlýt ég að benda á skýrslu hæstv. orkumrh., því að hún var þannig að ég hlýt að taka undir allt meginefni hennar. Og ég hygg að einmitt á þeirri skýrslu sé eðlilegast að byggja skynsamlega afstöðu til þessa máls og vísa hv. þm. alveg sérstaklega til skýrslu orkumálaráðh.

Ég tel þó rétt, að undirstrika viss atriði sem mér eru ofarlega í huga í sambandi við þetta mál, og það var einmitt þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs, ekki vegna þess að ég treysti mér til að upplýsa neitt nýtt í þessu máli. Ég tel að þau sjónarmið, sem ég styð, hafi komið rækilega fram og mitt erindi verður fyrst og fremst, að undirstrika víss atriði.

Ég kemst nú ekki hjá því, þó að leitt sé, að minnast svolítið á þann áróður og þá andstöðu sem komið hefur fram gegn Kröfluvirkjun. Ég held að það sé óhætt að segja að þessi andstaða og þessi áróður eigi tæpast nokkra hliðstæðu í sögunni. Ég minnist þess yfirleitt ekki að það hafi nokkru sinni, nema ef vera skyldi í upphafi aldarinnar þegar símamálið var mest umdeilt, — ég efast um að það hafi komið upp nokkur slík andstaða gegn mikilvægri framkvæmd og framfaramáli eins og nú hefur verið að gerast hjá vissum öflum í þjóðfélaginu gagnvart Kröfluvirkjun. Og mér verður á að spyrja: Hvað er þér á seyði? Hvað er hér yfirleitt að gerast? Er ekki æskilegt að við reynum að gera okkur grein fyrir því hvert sé upphaf þessa áróðurs, m.a. hverjir hafa komið þessum áróðri af stað. Það er sjálfsagt mikill vandi að segja til um það, af hverju það stafar að þetta mál hefur orðið að slíku andstöðumáli vissra manna og áróðursmáli, vil ég segja.

Ég ætla ekki hér úr ræðustóli á Alþ. að gefa neina fullnægjandi skýringu á því hvert sé upphafið að því að þetta mál er orðið að slíku gerningaveðri sem raun ber vitni. Þó hef ég fyrir mig mínar skýringar á því, og það getur vel verið að einhvern tíma reki ég það nánar. En ég tel nú samt að á þessu stigi sé ekki ástæða til þess úr ræðustóli á Alþ. að fara mikið út í slíkar hugleiðingar, en ég segi það, að ég hef mína skoðun á því. Það er ekki eðlilegt hvernig þetta mál hefur borið að, en hitt er víst og það liggur skjallega fyrir og meira en það, að alþfl.-menn hafa ástundað skipulega áróðursherferð gegn Kröfluvirkjun og þeim sem að henni standa. Þetta liggur örugglega fyrir, og ég segi: skipulega áróðursherferð. Það þarf ekki annað en benda á ályktun kjördæmisráðs Alþfl. í Norðurlandskjördæmi eystra í fyrrasumar, þar sem andstaðan gegn Kröfluvirkjun er gerð bókstaflega að pólitísku stefnuskráratriði Alþfl. Ég veit ekki hvort menn hafa nokkru sinni kynnst öðru eins ofstæki og jafnfáránlegum ályktunum, pólitískum ályktunum, en þetta er staðreynd. Alþfl.- menn hafa gert andstöðuna gegn Kröfluvirkjun að sérstöku pólitísku stefnuskráratriði. Þið skuluð veita því athygli. Þetta gerist á kjördæmisfundi Alþfl. á Norðurlandi, í Norðurlandskjördæmi eystra, s.l. sumar. Ég skal ekki rekja þessa sögu lengra aftur í tímann um þessa skipulegu herferð. En í sögunni er líka til forsaga, og það er áreiðanlega einhver forsaga að því, að Alþfl. tekur upp þetta mál sem sérstakt stefnuskráratriði sitt pólitískt. Og ég hefði gaman af því að spyrja forustumann Alþfl. á Norðurl. e. um það, hver er ástæðan fyrir því að þeir gera þetta að pólitísku stefnuskráratriði sínu. Raunar er það svo, að ég efast um að hv. þm. Bragi Sigurjónsson sé nokkur upphafsmaður þessarar fráleitu ályktunar Alþfl. á Norðurlandi. Ég hef ekki trú á því að hv. þm. sé jafnóðfús í það að berjast gegn norðlenskum hagsmunum eins og þeir ofstækismenn sem ímynda sér að þeir geti lyft Alþfl. upp úr lægðinni, sem hann er í, með æsilegum yfirlýsingum og slúðurfréttum. En ræða sú, sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson flutti fyrr í þessum umr., bar þess hins vegar órækt vitni að hann hefur gerst dyggur málsvari hinna óábyrgu öfgamanna sem nú móta stefnu og viðhorf Alþfl., þ. á m. á Norðurlandi, í öllum rólegheitunum og kyrrðinni þar.

Ég veit að ræða hv. þm. og allur málflutningur miðast við það að fullnægja því fáránlega stefnuskráratriði Alþfl. að berjast gegn Kröfluvirkjun og gera málið sem tortryggilegast. Öll ræða hans var þannig, að greinilegt var að „nálin hafði fest í plötunni“, svo ég noti hans eigin samlíkingu.

Nú kann að vera að einhverjir líti svo á að hv. þm. Bragi Sigurjónsson sé að lýsa sjónarmiðum sem eigi hljómgrunn meðal norðlendinga. Því vil ég mótmæta harðlega. Hæstv. orkumrh. las hér upp um daginn ályktanir frá Húsavík og Skútustaðahreppi um þessi efni. Ég ætla ekki að endurtaka þann upplestur, það tel ég óþarfa. En ég hygg að þær ályktanir sýni hver er hinn raunverulegi hugur norðlendinga í þessu máli. Ég held að það hafi verið hv. þm. Bragi Sigurjónsson sem bar það upp á okkur hv. 2. þm. Norðurl. e. að við hefðum pantað þessar yfirlýsingar. Þetta er svona á borð við aðra fréttamennsku alþfl: manna nú í dag. Þetta er það sem þeir lífa á. Það er að koma með einhverjar æsiyfirlýsingar og slúðurfréttir. Þetta er einn parturinn af því. Við höfum ekki pantað neinar slíkar ályktanir frá einum eða neinum. Þess hefur ekki þurft. En vegna þess að einhverjir kunna nú kannske að halda að hv. þm. Bragi Sigurjónsson sé að tala hér fyrir munn norðlendinga yfirleitt, þá leyfi ég mér að mótmæla því og ég ætla í því sambandi — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér svolítinn kafla úr leiðara sem birtist í stærsta blaði norðlendinga, Degi á Akureyri, og ég hygg að það blað túlki ekki síður skoðanir norðlendinga heldur en hv. þm. Bragi Sigurjónsson gerir og þeir sem nú ráða ferðinni í stefnumótun Alþfl. Ég vil leyfa mér að lesa hér stuttan kafla úr leiðara Dags frá því í ágúst í sumar. Þar segir svo um Kröfluvirkjun:

„Ein eftirtektarverðasta virkjun, sem nú er unnið að í landinu, er jarðgufuaflstöð við Kröflu í Mývatnssveit. Af tvennum ástæðum aðallega er virkjun þessi athyglisverð. Í fyrsta lagi er hér um að ræða fyrstu stóru jarðgufuvirkjun á Íslandi. Í öðru lagi er þetta stærsta orkuver sem reist hefur verið á Norðurlandi til þessa. Raunar er líklegt að orkuverið við Kröflu sé mesta einstakt mannvirki sem nokkru sinni hefur verið reist í Norðlendingafjórðungi. Með Kröfluvirkjun er lagt í framkvæmd hér í fjórðungnum sem lengi hefur verið beðið eftir. Hér er um stórvirkjun að ræða á íslenskan mælikvarða, 60 mw. stöð, sem fullnægir um árabil þörfum íbúa Norðurlands og Austurlands fyrir örugga og næga raforku og opnar nýja möguleika varðandi raforkunotkun í sýslum og landshlutum sem nánast hafa verið í orkusvelti undanfarin ár. Það hlýtur því að vera norðlendingum öllum mikið fagnaðarefni að ráðist hefur verið í að koma upp þessu myndarlega og sérstæða raforkuveri. Ber að þakka öllum sem unnið hafa að því að koma þessu máli fram, enda er um að ræða eitt af mestu framfaramálum norðlendinga.“

Þetta er forustugrein úr blaðinu Degi á Akureyri, stærsta blaði og víðlesnasta sem gefið er út á Norðurlandi og utan Reykjavíkur yfirleitt. Þessi stutti kafli, sem ég hér las, held ég að lýsi betur viðhorfum norðlendinga til Kröfluvirkjunar heldur en sá málflutningur sem hafður er uppi af hv. þm. Braga Sigurjónssyni, og skal ég nú láta útrætt um þetta.

En þó get ég ekki stillt mig um í þessu sambandi að minna hér enn á nokkuð sem bendir til þess að akureyringar og norðlendingar leggi ekki fast að hv. þm. Braga Sigurjónssyni um það að berjast gegn Kröfluvirkjun. Ég hef hér í nýjasta Degi á forsíðu viðtal við Val Arnþórsson, forseta bæjarstjórnar Akureyrar, en Valur Arnþórsson hefur einnig þá stöðu að vera formaður í Laxárvirkjunarstjórn sem hefur verið aðalorkuöflunarfyrirtæki á Norðurlandi og er enn. Ég ætla ekki að lesa allt þetta viðtal, en blaðamaðurinn gefur þessu viðtali fyrirsögn sem er svona: „Hvorki hitaveituframkvæmdir né virkjun við Kröflu má tefja, segir Valur Arnþórsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar.“ Og svo er haft þannig eftir Val í greininni með leyfi hæstv. forseta:

„Maður verður var við það að verið er í þessu máli að stilla upp algerum andstæðum, þeim að hægt verði að halda áfram að bora eftir heitu vatni á Syðra-Laugalandi, og því, að unnt verði að bora nægilega margar holur fyrir Kröfluvirkjun. Borinn Jötunn átti að fara austur í Kröflu að aflokinni borun annarrar holu á Syðra-Laugalandi. Ég held að það sé mikill misskilningur að vera að stilla þessu upp sem andstæðum. Þeirrar lausnar verður að leita, sem gerir báðar framkvæmdirnar mögulegar, að bora hina þriðju og nauðsynlegu holu á Syðra-Laugalandi og einnig við Kröfluvirkjun, svo virkjunin geti tekið þar til starfa á fyrirhuguðum tíma með sem allra minnstum lágmarkstöfum.“

Þetta er álit forseta bæjarstjórnar Akureyrar, Vals Arnþórssonar, sem einnig er formaður í Laxárvirkjunarstjórn.

Hæstv. iðnrh. flutti í upphafi þessara umr. ítarlega skýrslu um Kröfluvirkjun og framgang þess máls. Það er ekki ástæða til þess af minni hálfu að ræða efni þessarar skýrslu enda er ég í öllum meginatriðum sammála því sem þar kom fram. Ég vil aðeins leyfa mér að taka undir við hæstv. ráðh. um mikilvægi virkjunarinnar og um það að virkjunarframkvæmdirnar fái eðlilegan framgangsmáta. Ég sé einnig ástæðu til þess að þakka hæstv. iðnrh. fyrir ötula forustu í þessu máli eftir að hann tók við starfi sínu sem ráðh. En ég vil ekki síður færa fyrrv. iðnrh., Magnúsi Kjartanssyni, sem því miður á ekki sæti nú á þingi vegna veikinda, — ég vil færa honum alveg sérstakar þakkir fyrir frumkvæði hans í þessu máli, og ég held að hans hlutur sé geymdur, en ekki gleymdur.

Í þessum umr. hefur komið fram að ástand raforkumála á Norðurlandi hefur um árabil verið í megnasta ólagi. Er engin ástæða til að draga úr þeirri staðreynd að Norðurland hefur búið við einstakt öryggisleysi í raforkumálum og beinan orkuskort, sem með réttu hefur verið kallað orkusvelti. Öryggisleysið í raforkumálum Norðurlands hefur birst í ýmsum myndum. Í fyrsta lagi hefur Laxárvirkjun reynst óörugg vegna tíðra rennslistruflana sem valdið hafa stórskertri afkastagetu virkjunarinnar tímunum saman vetur eftir vetur. Má með sanni segja að akureyringar og aðrir norðlendingar, sem háðir eru Laxárvirkjun, hafi litið á það sem óumflýjanlegt náttúrulögmál að þola sífellda rafmagnsskömmtun vegna lélegra afkasta Laxárvirkjunar. Það hefur líka átt sinn þátt í erfiðleikum norðlendinga í rafmagnsmálum að línukerfið hefur lengst af og er enn ófullkomið og illa hæft til þess að standast þá vetrarveðráttu sem oft verður á Norðurlandi. Og loks bætist það við að fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir hafa farist fyrir og runnið út í sandinn, sbr. fyrirhugaða stækkun Laxárvirkjunar sem menn muna að olli heiftarlegum deilum, og þessar deilur urðu ekki leystar nema með afarkostum, hvernig sem menn annars líta á það mál. Sjálfur er ég ekki í vafa um það að forustumenn raforkumála og þáv. ríkisstj. héldu óhöndulega á málum, sem varð til þess að magna deilur fram yfir það sem vera þurfti. Og það þori ég að fullyrða, að forustumenn Alþfl. á Akureyri stóðu dyggilega þar í fararbroddi, að magna þær deilur sem allra mest, og verður þess lengi minnst og kann að vera að þar megi að einhverju leyti finna ástæðuna fyrir því að þeir hafa fengið Kröfluvirkjun á heilann.

Það er alveg ljóst að þegar áformin um stækkun Laxárvirkjunar urðu að engu, þá myndaðist alvarlegt tómarúm í virkjunarmálum norðlendinga. Það var engan veginn auðleyst að fylla upp í þetta tómarúm. Allt Norðurland var í orkusvelti. Laxárvirkjun og Rafmagnsveitur ríkisins gátu ekki fullnægt sjálfsögðustu kröfum almennings um raforku. Það var sett bann á húshitun á Akureyri og annars staðar á Laxárvirkjunarsvæðinu. Iðnaðarrafmagn var mjög ófullnægjandi og það dró úr iðnaðarvexti Norðurlands. Fjöldi sveitabæja var afskiptur um rafmagn að meira eða minna leyti, heilu sveitirnar, a.m.k. sveitarhlutar. Og einmitt þegar þetta ástand stóð sem hæst skall orkukreppan á á árinu 1973, þegar olíuverð rauk upp úr öllum veðrum og gerði erlenda orkugjafa nánast ókaupandi. Þá vöknuðu menn upp við vondan draum, og menn urðu sammála um nauðsyn þess að nýta betur innlenda orkugjafa, hvort sem það nú var vatnsafl eða varmaorka. A.m.k. er víst að akureyringar stóðu þá mjög illa að vígi. Bærinn var þá og er enn í örri þróun. Þar er mikil og ör fólksfjölgun, mikil byggingarstarfsemi og áhugi á iðnaðarvexti. En skortur innlendrar orku var og er tilfinnanlegur í Akureyrarbæ. Húshitun þar hefur lengi verið þannig fyrir komið að ýmist eru hús hituð með rafmagni eða þá með erlendri olíu. Á þessum tíma, sem ég er hér sérstaklega að minnast á nú, þ.e.a.s. fyrir tveimur árum, 2–3 árum, þá var talið næstum útilokað að hitaveita yrði lögð á Akureyri. Ef þar væri hægt að nýta innlenda orkugjafa, þá væri það rafmagnið eitt sem til greina kæmi. Það eru ekki nema um það bil tvö ár síðan menn töldu hitaveitu fjarlægan draum á Akureyri. Það talaði enginn um hitaveitu í alvöru á Akureyri fyrir um það bil tveimur árum og laklega það. Og þetta ætla ég ekki að útlista neitt frekar. En það mega vera gleymnir menn sem ekki muna að á þessum tíma var dökkt útlit í rafmagnsmálum akureyringa og annarra norðlendinga sem svipað voru settir.

Að vísu voru og eru tæknilegir möguleikar til virkjunar vatnsfalla á Norðurlandi mjög miklir. Það var tæknilega mögulegt að virkja Laxá í Þingeyjarsýslu. Það var tæknilega mögulegt. En önnur sjónarmið réðu því að í frekari virkjun var þar ekki ráðist. Jökulsá á Fjöllum er eitthvert mesta fljót á landinu og þar má virkja stórt og mikið, en tæpast verður ráðist í virkjun þar nema til komi stóriðja af einhverju tagi. Skjálfandafljót má virkja, að ógleymdum Jökulsám í Skagafirði og Blöndu. En virkjun þessara vatnsfalla er þrátt fyrir allt býsna fjarlægt mál. bæði vegna þess að þar skortir rannsóknir og undirbúning og eins vegna þess að þessar virkjanir flestar eru svo stórar í sniðum að þær kalla yfirleitt á samhliða aðgerðir í stóriðnaðarmálum. En um þau mál er ekki samstaða í landinu, og að mínum dómi a.m.k. er óálitlegt að byggja á slíkum grunni.

Það fór því ekki á milli mála að eins og á stóð, þá var meðalstór gufuaflsvirkjun á Norðurlandi langbesti virkjunarkosturinn. Háhitasvæðið norður og austur af Mývatnssveit var þá vel kannað og fyrir lá ítarleg áætlun um raforkuver á þessum slóðum. Þannig verður hugmyndin um Kröfluvirkjun til. Sú saga hefur verið rakin svo ítarlega hér í þessum umr af hæstv. iðnrh., að ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það. Ég vil aðeins undirstrika það að Kröfluvirkjun er orðin til fyrir nauðsyn. Hún er orðin til á þeim tíma þegar raforkuskorturinn herjaði mest á Norðurlandi, sem hann raunar gerir enn. Kröfluvirkjun er orðin til fyrir þá nauðsyn að leysa Norðurland úr orkusvelti, og hún er liður í því að nýta innlenda orkugjafa í stað innfluttrar orku. Kröfluvirkjun fyllir upp í tómarúmið sem varð í virkjunarmálum Norðurlands þegar áform um Laxárvirkjun III urðu að engu. En gildi Kröfluvirkjunar er miklu meira en að sjá núverandi Laxárvirkjunarsvæði fyrir nægri raforku. Kröfluvirkjun er fjarri því að vera einskorðuð við þarfir þessa svæðis, og á þetta atriði vil ég leggja alveg sérstaka áherslu. Mér finnst að það hafi ekki komið nógu vel fram að Kröfluvirkjun er ekki einskorðuð við þarfir núverandi Laxárvirkjunarsvæðis. Þeir, sem meta gildi Kröfluvirkjunar út frá því sjónarmiði einu saman, hljóta að komast að rangri niðurstöðu. Í fyrsta lagi hefur Kröfluvirkjun gildi fyrir allan Norðlendingafjórðung, allt úr Hrútafirði austur á Langanes. Kröfluvirkjun er þannig í sveit sett að hún getur þjónað Austurlandi til jafns við Norðurland, enda gera lögin um Kröfluvirkjun ráð fyrir því að svo geti orðið. En Kröfluvirkjun hefur einnig viðtækara gildi heldur en það að þjóna Norður- og Austurlandi. Með samtengingu allra raforkuvera í landinu og allra landshluta í eitt samvirkt raforkukerfi mun öryggisgildi jarðgufustöðvar á borð við Kröfluvirkjun koma vel í ljós. Það mun sýna sig að það er hagkvæmt af öryggisástæðum að geta tengt slíka gufustöð inn á kerfi sem annars er að mestu byggt á vatnsaflsvirkjunum. Gildi Kröfluvirkjunar felst ekki síst í vetrarörygginu, þegar frost og ístruflanir hrjá vatnsaflsvirkjanir. Því miður hafa hinir sjálfskipuðu andstæðingar Kröfluvirkjunar gert sig seka um þá blekkingu í málflutningi sínum að slíta þessa framkvæmd úr öllu samhengi við raforkukerfið í heild. Það er því ekki að furða þó að niðurstaða þeirra verði neikvæð.

Eitt aðalásökunarefni andstæðinga Kröfluvirkjunar er að halda því mjög ákaft fram að með tilkomu hennar um eða upp úr næstu áramótum, ef allt tekst vel til verði umframorka fyrir hendi, þá verði mikil umframorka fyrir hendi. Að sjálfsögðu hafa menn ætið gert sér ljóst að um tiltekinn tíma yrði umframorka fyrir hendi frá Kröfluvirkjun. En er ekki rétt að athuga það mál í réttu ljósi? Er ekki rétt að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort sé þjóðhagslega hagkvæmara að reisa orkuver við vöxt að vissu marki eða hafa þau svo lítil og aflrýr að þau séu ekki fyrr tekin til starfa en orkuskortur heldur á ný innreið sína? Ef síðari kosturinn er valinn er stefnt áfram á braut orkuskortsins sem margsannað er að dregur úr iðnaðarframförum og heldur niðri almennri eftirspurn eftir raforku. Að sjálfsögðu skapar umframorkan rekstrarvanda hjá virkjunarfyrirtækinu um sinn. Frá hagnaðarsjónarmiði virkjunarfyrirtækis kann að vera hagkvæmt að reka orkusveltisstefnu. En slíkt er nokkuð einhlíða sjónarmið og þjónar ekki öðrum mikilvægum hagsmunum, þ.e.a.s. hagsmunum iðnaðar og hagsmunum vegna almennrar eftirspurnar eftir raforku. Við þekkjum vel afleiðingar orkusveltisstefnunnar. Afleiðingarnar eru þær að hún stendur framförum fyrir þrifum og hún kemur niður á almenningi. Hins vegar geri ég mér fyllilega ljóst að um sinn mun skapast rekstrarvandi hjá Kröfluvirkjun. En ég legg áherslu á að sá vandi þarf ekki að standa lengi. Menn hafa nefnt 2–3 ár. Ég hef þá skoðun að 2–3 ár sé ofsagt, það mætti allt eins segja 1–2 ár. Það fer m.a. eftir því hvenær Austurlandsveita verður tengd virkjuninni, og það held ég að sé mikið nauðsynjamál og ætti að skoða sem fyrst, enda veit ég að hæstv. iðnrh. gerir sér grein fyrir nauðsyn þess máls. Og ég vil í þessu sambandi hreyfa því að mér finnst meira en tímabært að austfirðingar og norðlendingar taki upp frekari samvinnu í þessu máli, því að mér sýnist að þeir eigi þarna sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Ég hef í ræðu minni fyrst og fremst viljað benda á að í Kröfluvirkjun var ráðist vegna brýnnar nauðsynjar norðlendinga um að verða leystir úr orkusvelti. En ég hef líka sýnt fram á að Kröfluvirkjun er ekki einskorðuð við þarfir Norðurlands. Austfirðingar eiga hér hagsmuna að gæta engu siður en norðlendingar, og raunar er gildi Kröfluvirkjunar enn viðtækara, eins og ég hef stuttlega drepið á.

Því er ekki að neita að Kröfluvirkjun hefur orðið deilumál, og sjálfsagt er eitthvað gagnrýnisvert í sambandi víð þessar framkvæmdir. Það er síður en svo að ég telji alla þessa gagnrýni órökstudda. Kröfluvirkjun er ekki frekar en önnur mannanna verk hafin yfir gagnrýni og margt hefði sjálfsagt mátt betur fara. En ég held að það sé mikið óþurftarverk, sem vissir aðilar hafa unnið, að gera þessa merkilegu framkvæmd tortryggilega í augum almennings, og þá beini ég enn sökinni einkum að Alþfl. og forustu hans. Sú iðja þessara manna og þá fyrst og fremst alþfl.-manna verður ekki þoluð mótmælalaust, og henni verður mótmælt svo lengi sem þeir halda þessu áfram. Að vísu er það svo, að „nálin hefur fest í plötunni“ hjá þessum ágætu mönnum, en þrátt fyrir það, á meðan ískrar í fóninum, þá verður þeim svarað.

Ég vil í þessu sambandi mótmæla harðlega öllum kröfum um frestun framkvæmda við Kröfluvirkjun. Til þess liggja engin rök. Vissulega hlutu menn í alvöru fyrr á þessum vetri, þegar náttúruhamfarir áttu sér stað á virkjunarsvæðinu, að hugleiða frestun af þeim sökum, en þá af þeim sökum einum. En ég mótmæli öllu ráðslagi um frestun af öðrum ástæðum, eins og fjárhagsástæðum. Alþ. og ríkisstjórn hafa tekið löglegar og réttar ákvarðanir um framkvæmd virkjunarinnar, ekki einasta þær framkvæmdir sem Kröflunefnd sér um, heldur einnig þær framkvæmdir sem Orkustofnun hefur með höndum svo og Rafmagnsveitur ríkisins. Allar þessar framkvæmdir eru líður í virkjuninni fullbúinni. Einn þátturinn getur ekki án annars verið. Og í þessu sambandi ætla ég að benda á, eins og fram kom í viðtalinu við Val Arnþórsson, formann Laxárvirkjunarstjórnar og forseta bæjarstjórnar Akureyrar,— ég ætla að benda á að það er ekki frambærilegt né sómasamlegt að stilla heitavatnsborun í Eyjafirði í þágu hugsanlegrar hitaveitu fyrir Akureyri og borunarframkvæmdum við Kröflu upp sem andstæðum. Þörf hitaveitunnar fyrir bor verður að leysa án þess að það skaði Kröfluvirkjun. Ég ætla ekki að fara út í neinn samanburð á því hvor framkvæmdin sé brýnni eða mikilvægari. Þær eru báðar mikilvægar. En ég kemst ekki hjá að minna á að Kröfluvirkjun er löngu ákveðin og ákvörðuð og að henni er unnið samkvæmt framkvæmdaáætlun. Öll röskun á þeirri áætlun er óeðlileg og á ekki að koma til greina.