09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fara nokkrum orðum um það hvernig að þessum umr. hefur verið staðið. Þetta er nú í þriðja sinn sem skýrsla hæstv. orkuráðh. um málefni Kröflu er tekin til umr. hér á Alþ. Það munu hafa talað fimm hv. þm.: orkuráðh. hæstv., þrír Kröflunefndarmenn, raunar einn af þeim þremur tvisvar, en aðeins verið rúm fyrir einn þm. sem hefur einhverjar athugasemdir að gera við þeirra málflutning. Það er e.t.v. ekki að ástæðulausu sem búið var að ganga frá því áður en umr. hófust hér að þeir Kröflunefndarforsprakkar röðuðu sér á mælendaskrá. Nú í þriðja sinn sem þetta mál er tekið fyrir, þegar loksins þeir Kröflunefndarmenn eru búnir að ljúka sér af, þá mælist hæstv. forseti til þess af skiljanlegum ástlæðum að menn fari nú heldur að stytta mál sitt.

Það er fjöldamargt sem komið hefur fram í þeim umr., sem hér hafa orðið, sem væri ástæða til. þess að minnast á. Undanskil ég þó þar ferðasögur hv. þm. Jóns G. Sólness. Það er alltaf gaman að hlusta á slíkar ferðasögur. Hv. þm. var kominn suður til Ítalíu og á sjálfsagt alllangt mál eftir ef hann ætlar að greina frá öllum slíkum sögum. Ég hlakka til að hlusta á það, því að mér finnst ólíkt skemmtilegra að hlusta á slíkar ferðasögur heldur en leynilögreglusögur af því tagi sem hv. síðasti ræðumaður byrjaði ræðu sina hér á.

Það hefur líka komið fram í umr. hér frá þeim hv. þm., sem talað hafa og eiga sæti í Kröflunefnd, að þeir rúðast mjög harkalega á Alþfl. fyrir það að hann skuli gagnrýna þessar framkvæmdir. Hv. þm. Ragnar Arnalds lýsti þannig, ef ég man rétt, að með því að gagnrýna Kröflu ætluðu alþfl.- menn að hefja sig upp úr því díki sem flokkurinn væri sokkinn í. Þetta segir nú sitt af hverju um hvaða álit hv. formaður Alþb. hefur á vígstöðunni, fyrst hann telur það líklegt til árangurs fyrir Alþfl. að hefja sig upp úr því díki, sem hann segir að flokkurinn sé sokkinn í, með því að gagnrýna Kröflu. Ekki er nú trúin á málstaðinn, sem hv. þm. mælir fyrir, ýkjasterk.

En það var ýmislegt annað sem hv. þm. Ragnar Arnalds ræddi um. Ég fékk ekki betur heyrt heldur en hv. þm. ætlaði að gera þetta Kröflumát að hreinu flokksmáli með því að fullyrða að það hafi verið fyrrv. orkumrh., Magnús Kjartansson, sem hefði ásamt þeim Kröflunefndarmönnum staðið að þessari framkvæmd og borið fulla ábyrgð á henni. Ég er nú ekki alveg viss um að allir flokksmenn formanns Alþb. vilji skrifa undir þessa söguskoðun hans, en það kemur e.t.v. fram í umr. hér á eftir, ef verður leyft að halda áfram, hvort hv. þm. Ragnar Arnalds, formaður Alþb., hefur stuðning í sínum flokki við þessa stefnu eða hvort sumum af hans flokksmönnum finnst líklegra til árangurs að taka undir gagnrýni okkar alþfl.manna um Kröflu og það sé meira vit fólgið í okkar gagnrýni heldur en í því sem formaður Alþb. heldur fram.

Einnig vil ég mjög átelja það sem kom fram í hans ræðu þegar hann var að afsaka skort á undirbúningsrannsóknum með því að segja að það væri sérfræðingunum að kenna ef eitthvað hafi á skort af því tagi. Þetta er nefnilega ljóslegt dæmi um það hvað gerist þegar sérfræðingar þegja of lengi um sítt álit. Það liggur nú fyrir að þeir sérfræðingar, sem hv. þm. vitnaði til, telja að það hafi verið framkvæmdahraði Kröflunefndar sjálfrar sem hafi gert það að verkum að skortur var á undirbúningsframkvæmdum. En nú þegar Kröflunefnd er komin í klípu, þá á að varpa sökinni yfir á sérfræðingana fyrir að hafa þagað. (Gripið fram í.) Það er þetta sem ég held að þessir sérfróðu menn geti dregið nokkurn lærdóm af, vegna þess að það er rétt út af fyrir sig að þeir hafa þagað of lengi. Að vísu hafa þeir verið fúsir til að gefa okkur ýmsar upplýsingar nú um nokkuð langa hríð, en þeir hafa ekki viljað láta hafa það eftir sér opinberlega. Nú hafa þeir þó breytt þeirri stefnu. En þessi málflutningur hv. þm. Ragnars Arnalds sýnir að þarna eru víti að varast fyrir sérfræðingana þegar pólitískur framkvæmdaraðili ætlar að gera þá ábyrga fyrir atriðum sem þeir vöruðu víð fyrir löngu, löngu, en var ekki á hlustað af þeim aðila sem annaðist framkvæmd málsins.

Hversu einkennilegar sem ræður þeirra hv. þm., sem í Kröflunefnd eru, — hversu einkennilegar sem þessar ræður þeirra voru, þá var þó ræða hæstv. orkumrh. enn einkennilegri. Það hefði mátt halda að sú ræða hefði verið samin í fyrra eða hittiðfyrra, því að í þeirri ræðu var bókstaflega ekkert tillit tekið til þeirra upplýsinga, sem fram hafa komið á síðustu vikum og mánuðum, og þeirra aðstæðna sem skapast hafa, nýrra og breyttra. Það var t.d. ekki minnst einu orði í skýrslu hæstv. ráðh. á byggðalínuna. Það var ekki minnst einu orði á að framkvæmdum hefði verið frestað við Grundartangaverksmiðjuna. Hæstv. ráðh. flutti ræðu sina eða skýrslu eins og hann hefði ekki hugmynd um að þetta hefði gerst. Þessi skýrsla var út af fyrir sig ágæt, en hún átti ekki erindi inn á Alþ. á árinu 1976. Hún hefði getað verið flutt með fullum sóma fyrir 6 mánuðum eða heilu ári, en ekki á þeim tíma sem hún var flutt.

Þá furða ég mig á ýmsu sem hæstv. orkuráðh. lét í ljós. Hann virðist halda það, hæstv. ráðh., að þingmenn séu ekki aðeins skilningssljóir, heldur ólæsir líka. Hann fullyrti það í ræðu sinni að framleiðslukostnaður á kwst. frá Kröflu væri kr. 1.80 eða gæti verið það. Þar miðar hann að sjálfsögðu við það að öll orkan frá Kröflu sé seld allt árið um kring. En látum svo vera. Það Liggur fyrir og hefur birst opinberlega á prenti í Morgunblaðinu, að Jóhannes Nordal áætlar að greiðslubyrðin á selda kwst. frá virkjunum norðan-, vestan- og austanlands verði árið 1977 kr. 8.03 og árið 1978 kr. 8.24. Hvernig á svo að halda því fram í alvöru, sé greiðslubyrði á selda kwst. sem hér segir, kr. 8.03 1977 og kr. 8.24 1978, að þá sé hægt að selja út kwst. af þessari orku undir 2 kr.? Hvernig er hægt að standa frammi fyrir þingheimi og halda slíkri firru fram? Hver á að jafna þann mismun sem þarna er? Auðvitað verður að jafna hann. Það verður ekki gert nema annaðhvort með niðurgreiðslum á orkunni í formi skattlagningar eða einhvers konar öðrum slíkum ráðstöfunum. En að halda fram, þegar greiðslubyrði á selda kwst. samkvæmt útreikningum eins fremsta sérfræðings okkar íslendinga í efnahags- og orkumálum er kr. 8.03, að þá sé hægt að selja kwst. út á 1.80, þetta fæ ég ekki séð hvernig saman getur farið. (Gripið fram í: Hver hefur sagt það?) Ég hafði það eftir hæstv. ráðh., að hann sagði að framleiðslukostnaður á kwst. frá Kröflu væri kr. 1.80. Og ég hafði það líka eftir hæstv. orkuráðh. að hann ræddi um að það væri mikil eftirspurn eftir umframraforku frá Kröflu á Akureyri. Til þess að geta sett hana í staðinn fyrir svartolíu sem þar er notuð, þarf að selja kwst. frá Kröflu undir 2 kr. til þess að hún sé samkeppnisfær. Gott og vel, við skulum ekki miða við kr. 1.80, eins og ég gerði, við skulum miða við það verð sem þarf að vera á þessari orku til þess að hún sé samkeppnisfær við svartolíu. Það eru 2 kr. eða undir því á hverja selda kwst. Hvernig á að selja þá orku á 2 kr. kwst. sem ber greiðslubyrði á kr. 8.03 á selda kwst. árið 1977 og kr. 8.24 á hverja selda kwst. árið 1978?

Þá furða ég mig einnig mjög á því, sem hæstv. ráðh. hélt fram, og skil raunar ekki að hann skuli geta ætlast til þess að þm. trúi því, — ég er alveg sannfærður um að hann trúir því ekki sjálfur, — að halda því fram að það sé ekki halli á rekstri RARIK vegna þess að það hafi gleymst að taka tillit til verðjöfnunargjalds. Hvað er verðjöfnunargjald? Það er skattur sem lagður er á landsmenn til þess að jafna hallarekstur RARIK. Hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram að það verði ekki halli á Rafmagnsveitum ríkisins af því að það hafi gleymst að taka tillit til tekna RARIK af verðjöfnunargjaldi? Þetta er algjörlega út í hött. Þetta er svipað eins og halda því fram að það sé ekki halli á ríkissjóði vegna þess að hann sækir sér fé til Seðlabankans. Svona getur fyrrv. fjmrh. alls ekki talað. Og hæstv. orkuráðh. er allt of greindur maður til þess að mér detti í hug að hann trúi þessu sjálfur.

Verðjöfnunargjaldið er skattur sem lagður er á landslýðinn til þess að standa undir hallarekstri Rafmagnsveitna ríkisins, og sá skattur verður ekki til þess að sá hallarekstur falli niður, síður en svo. Hallarekstur RARIK á s.l. ári nam 800 millj. kr. Hallareksturinn í ár er spáð að hann nemi 1000 millj. kr. Þar af fullyrti hæstv. ráðh. að verðjöfnunargjaldið mundi gefa 700 millj. kr. tekjur. Og þá standa enn þá 300 millj. kr. út af. Ég get enn fremur upplýst að miðað við þær áætlanir, sem ég veit að gerðar hafa verið um rekstur Kröflu og byggðalínuna, þá þarf til þess að jafna hallann á raforkukerfinu — ekki verðjöfnunargjald að upphæð 700 millj. kr. sem samsvara 14 þús. kr. orkuskatti á hverja meðalfjölskyldu í landinu, það þarf að hækka þennan orkuskatt á meðalfjölskylduna úr 14 þús. kr. og upp í 40 þús. kr. Það þarf að hækka verðjöfnunargjaldið um 26 þús. kr. á hverja meðalfjölskyldu í landinu til þess að standa undir hallarekstri raforkukerfisins eftir að byggðalínan og Krafla hafa báðar komið til notkunar.

Það hefur verið látið í veðri vaka að undanförnu í blaðaskrifum, þó einkum og sérstaklega í skrifum ákveðinna aðila að gagnrýnin, sem við alþfl. menn höfum haft uppi á Kröfluvirkjun, sé nýtilkomin. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þessi gagnrýni hafi verið skipulögð af einhverjum óviðkomandi aðilum úti í bæ, og jafnvel gengið svo langt að fullyrða að einhverjir dularfullir guðfeður skrifuðu ræðurnar fyrir okkur alþfl.-menn á bak við byrgða glugga. Það eitt út af fyrir sig, eins og raunar kom fram hjá hv. þm. sem talaði hér áðan, að hann var að orða einhverja kenningu á þessa leið, — það eitt út af fyrir sig lýsir harla undarlegu sálarástandi, ef mönnum kemur það fyrst í hug ef einhver alþm. leyfir sér að gera athugasemdir við stefnu stjórnvalda eða embættisfærslu ráðh., að þá hljóti þar að baki að búa annaðhvort samsæri einhverra pólitískra tilræðismanna eða þá verðlaun, sem boðin eru, upp á gull og græna skóga. Svo að dæmi sé tekið, þá hlýtur það að vera harla merkilegt rannsóknarefni að kynna sér viðbrögð þeirra manna sem færa það fram að þm., sem gagnrýnir embættisfærslu ráðh., hafi aðeins gert það vegna þess að honum hafi verið boðin bankastjórastaða eða önnur slík hlunnindi fyrir, eða að blaðamaður hafi skrifað gagnrýni á opinbert stjórnvald vegna þess eins að honum hafi verið lofað fyrir þetta og þetta miklu af illa fengnu og skattsviknu fé. Sérhver maður hlýtur að draga nokkurn dám af sínu umhverfi og sýna það í allri sinni hegðan, og ég spyr: Í hvers konar pólitísku umhverfi spretta þeir menn úr grasi sem kemur ekki til hugar annað en að einhver slík mútustarfsemi hafi átt sér stað, — kemur ekki til hugar annað, ef menn hafi skoðanir á hlutunum, en að þá hljóti þeir að hafa fengið borgað fyrir það, og því ákveðnari skoðanir, þeim mun hærri er mútugreiðslan.

Gagnrýni á ráðh. fyrir embættisfærslu í blaðagrein er verðlögð á háar skattsviknar fjárhæðir. Gagnrýni á embættisfærslu ráðh. af þm. á Alþ. er verðlögð á bankastjórastöðu. Hvert er það pólitíska andrúmsloft, það pólitíska umhverfi sem alið hefur upp menn sem sjá engar aðrar skýringar á slíkum hlutum en þessar? Hvers konar starfsháttum eiga þeir að venjast sem telja með öllu útilokað að menn geti haft skoðanir öðruvísi en að hafa fengið borgað fyrir að hafa þær? Að sjálfsögðu er með öllu tilgangslaust að ræða við þannig hugsandi menn, hvort heldur er um Kröflu eða önnur mál, og ég ætla ekki heldur að reyna að gera það. Það er ekki hægt að fá sannfærða þá menn sem hafa þann hugsunarhátt, hvorki með orðum né rökum, heldur að því er virðist aðeins með því, sem annaðhvort mölur eða ryð fá grandað.

Alþfl. hefur frá upphafi verið gagnrýninn á framkvæmdirnar við Kröflu. Hér er ekki um neina nýtilkomna afstöðu að ræða, síður en svo. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvaða skoðanir við alþfl.-menn höfum haft á þessari framkvæmd alveg frá upphafi. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hvaða skoðun hv. þm. Bragi Sigurjónsson hefur haft á þessu máli frá upphafi. Það hefur ekki heldur farið fram hjá neinum hv. þm. að í umr. um stefnuræðu forsrh. í haust lýsti formaður þingflokks Alþfl. Kröflumálinu sem stórkostlega hættulegu ævintýri og fjármálahneyksli. Það hefur væntanlega ekki heldur farið fram hjá neinum að Alþýðublaðið, málgagn Alþfl., hefur mánuðum saman, jafnvel árum saman verið gagnrýnið á þessa framkvæmd. Hér er ekki um neina nýtilkomna afstöðu að ræða, heldur afstöðu sem við höfum haft mjög lengi, alþfl.-menn, og ýmsir sérfræðingar og valinkunnir vísindamenn, hafa nú verið að staðfesta.

Í sjálfu grundvallaratriðinu, byggingu orkuversins hefur átt sér stað grófleg misbeiting valds. Í lögum um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu er skýrt tekið fram í 1. gr.ríkisstj. sé heimilt að láta gera þarna virkjun með allt að 55 mw. afli — með allt að 55 mw. afli. Sú virkjun, sem verið er að reisa við Kröflu, mun hins vegar skila afli frá 60 og upp í 70 mw. Það er sem sé af handhöfum framkvæmdavaldsins og Kröflunefnd verið að ráðast í framkvæmdir sem engin lagaheimild er fyrir.

Það er út af fyrir sig skiljanlegt að n. kunni að hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri nauðsynlegt að reisa 60 mw. aflstöð eða 70 mw. aflstöð í stað þeirrar 55 mw. aflstöðvar sem lögin heimila. En ef þessi n. hefði viljað virða þær leikreglur sem okkur er ætlað að virða, þá hefði hún að sjálfsögðu að fenginni þeirri niðurstöðu átt að fá hæstv. ráðh. til þess að leggja fram hér á hinu háa Alþ. brtt. við þessi lög, þess efnis að Alþ. heimilaði smiði virkjunar af þessari stærð. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Með því hefur grundvallarleikreglum lýðræðislegra og þingræðislegra stjórnarhátta verið misboðið, og þetta er því miður alls ekki ný bóla nú orðið. Framkvæmdavaldið er farið að taka upp á þeim sið að hlaupa hringinn í kringum löggjafarsamkomuna og virða hana gjörsamlega að vettugi. Við skulum taka annað nýlegt dæmi, þar sem eru samningarnir við belga um veiðar innan fiskveiðilögsögu. Íslenska stjórnarskráin mælir svo fyrir að samningar sem slíkir, sem að skuldbinda ríkið öðrum ríkjum, megi ekki taka gildi fyrr en Alþ. hefur staðfest þá. Það er byrjað að framkvæma þessa samninga fyrir lifandi löngu, en það hefur enn ekki verið leitað eftir staðfestingu Alþ., eins og sjálf stjórnarskráin þó mælir fyrir um. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er ekki rangt. Alþ. hefur ekki enn þá staðfest þessa samninga, og ég hef orð valinkunnra prófessora við lagadeild Háskóla Íslands fyrir því að þetta sé brot á íslensku stjórnarskránni.

Þannig eru framkvæmdaaðilarnir farnir að hlaupa hringinn í kringum löggjafarstofnun þjóðarinnar og virða að vettugi þær leikreglur sem okkur er ætlað að virða. Og þetta eru alls ekki einu dæmin. Þingmenn þekkja sjálfir fjölmörg slík dæmi, t.d. þeir þm. sem sitja í fjvn. Er það kannske líka tilviljun að nú á örfáum víkum hafa þrír hæstv. ráðh. þurft að standa frammi fyrir dómstólum ákærðir um valdbeitingu eða annað slíkt athæfi? Hæstv. menntmrh. er ákærður og dæmdur fyrir misbeitingu valds er hann vék úr embætti hátt settum opinberum starfsmanni sem hafði það eitt til saka unnið að leyfa sér að gagnrýna yfirvöld menntamála í landinu. Landbrh. hæstv. er stefnt fyrir dóm af hreppsnefnd í hans eigin kjördæmi fyrir að hafa misbeitt valdi sínu til þess að útvega ákveðnum einstaklingi ábúð á ríkisjörð. Og hæstv. dómsmrh. er nú siðast dæmdur fyrir fjölmæli og virti ekki einu sinni þær leikreglur að mæta eða láta einhvern mæta fyrir sig í þeim réttarhöldum, heldur flutti fram málsvörn sina í opnu bréfi í dagblaði og studdi hana gróusögum og falsfréttum úr ekki merkari blöðum en Mánudagsblaðinu. Þannig er farið að virða leikreglur í okkar landi af þeim mönnum sem eiga að stýra þjóðarskútunni og sjá þjóðinni farborða. Krafla er síður en svo eina dæmið, en hún er eitt dæmanna.

Þá hafa einnig við undirbúning þessarar virkjunar átt sér stað margvísleg mistök og mikil vanræksla. Engin útboð áttu sér stað, heldur voru verktakar og viðskiptaaðilar valdir af pólitískri Kröflunefnd og þar með brotnar venjur sem skapast hafa í opinberum framkvæmdum. En það var þó ekki alvarlegasti hluturinn í sambandi við þetta allt. Mun alvarlegra er það, að í virkjun af þessu tagi, sem er algert nýmæli, er ráðist þannig að vanræktar eru nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir. Það þarf ekki að hafa lengur orð leikmanna fyrir því. Sérfræðingarnir hafa loksins verið reiðubúnir til þess að staðfesta það opinberlega sem þeir hafa fram til þessa ekki viljað láta í ljós nema í einkasamræðum mánuðum saman. Þetta kemur m.a. fram í yfirlýsingu fimm sérfræðinga Orkustofnunar sem birst hefur í blöðunum. Þessir sérfræðingar eru Stefán Arnórsson jarðfræðingur, Hrefna Kristmannsdóttir jarðfræðingur, Jens Tómasson jarðfræðingur, Axel Björnsson jarðeðlisfræðingur og Ingvar Birgir Friðleifsson jarðeðlisfræðingur. Þessir sérfræðingar segja, með leyfi forseta:

„Það hefur jafnan verið skoðun okkar að sá framgangsmáti hafi verið óeðlilegur að leggja í byggingu stöðvarhúss og vélakaup áður en fullnægjandi upplýsingar lágu fyrir um eiginleika gufunnar og fyrsta reynsla var fengin af vinnsluborunum. Vegna þessa framgangsmáta hefur skapast óvissa um hvernig tekst til með virkjunina frá tæknilegu sjónarmiði. Okkur er ekki kunnugt um að svona hafi verið staðið að byggingu jarðgufuvirkjunar áður. Undirbúningur að nýting jarðgufu til raforkuframleiðslu krefst umfangsmikilla rannsókna, m.a. með borunum. Það er alþekkt staðreynd meðal jarðhitasérfræðinga að vandasamasti þátturinn við byggingu jarðgufuaflstöðva er sjálf gufuöflunin. Þekking á því sviði er ung. Aðrir þættir við virkjunarframkvæmdir byggja á gömlum merg hefðbundinna olíu- og gasraforkuvera.“

Síðar gera þessir fimm sérfræðingar Orkustofnunarinnar grein fyrir því hvernig átt hefði að standa að þessum undirbúningi þrep fyrir þrep, segja síðan:

„Vegna raforkuskorts á Norðurlandi hefur verið lagt allt kapp á að hraða byggingu Kröfluvirkjunar. Því var hafinn undirbúningur að byggingu stöðvarhúss, vélar pantaðar og gufuveita hönnuð áður en fyrstu vinnsluholur höfðu verið boraðar, þ.e. farið beint úr áfanga II í áfanga IV hér að framan“ — sem sé sleppt áfanga III sem þeir telja nauðsynlegan til undirbúnings slíkum framkvæmdum.

Síðan segja þessir sérfræðingar:

„Undirrituð hafa alla tíð verið mótfallin þessum framgangsmáta, og er þeim ekki kunnugt um að áhættan, sem í þessari ákvörðun fólst, hafi verið metin. Niðurstöður borana, sem framkvæmdar hafa verið eftir að framangreind ákvörðun var tekin og vélar pantaðar, benda eindregið til þess að innstreymishitastig í vinnsluholur verði hærra en best hentar þeim vélum sem keyptar hafa verið. Getur vel farið svo að sú hönnun gufuveitu, sem nú er miðað við, henti alls ekki.“

Þetta er dómur fimm sérfræðinga Orkustofnunar. Það þarf ekki lengur að hafa leikmannsorð fyrir því.

En það hefur líka komið nú upp á siðkastið frekari rökstuðningur og frekari gangrýni á sjálfan þennan undirbúning. Segir m.a. svo í viðtali við Þorleif Einarsson jarðfræðing í Þjóðviljanum, með leyfi forseta, — Þorleifur segir að gerð hafi verið frumrannsókn á svæðinu, jarðfræði- og jarðeðlisfræðileg, og nauðsynlegar mælingar í því sambandi, svo segir Þorleifur, með leyfi forseta:

„Hins vegar er allri annarri forrannsókn að virkjuninni sleppt. Ekkert var því vitað um afkastagetu svæðisins utan það að hún er talin mikil. Hitastig var ekki þekkt né heldur hlutfallið milli gufu og vatns, en það ræður mestu um gerð vélanna. Fyrir bragðið renndu menn blint í sjóinn með starfrækslu virkjunarinnar, pöntuðu vélar um sama leyti og boranir hófust, og það meira að segja mjög nákvæmar vélar, þar sem hitastig og hlutfall milli gufu og vatns verður að vera innan þröngra marka. Það er því óvíst að vélarnar fari í gang þegar þar að kemur.“

Þetta sagði Þorleifur Einarsson jarðfræðingur og einn sérfræðingurinn til. (Gripið fram í.) Fyrst hv. þm. vill fleiri sérfræðiálit, þá er nóg til af þeim. Enn fleira kemur í ljós af álitsgerðum sérfræðinga við allan undirbúning virkjunarinnar. Í grein eftir Jónas Elíasson prófessor í Dagblaðinu nú nýverið segir m.a. svo um hvernig Krafla var ákveðin, með leyfi forseta:

„Það er von að menn spyrji hvernig sú ákvörðun var tekin að byggja virkjun fyrir norðan sem er í engu samræmi við þá þörf sem fyrir hendi er.“

Þetta segir prófessorinn við Háskóla Íslands. „Svarið liggur engan veginn á lausu, en helstu atburðir eru nokkurn veginn sem hér segir:

Orkustofnun leggur fram í sept. 1973 skýrslu með frumkönnun á ð, 12, 16 og 55 mw. virkjun við Námafjall eða Kröflu. Hér virðast menn hafa verið þeirrar skoðunar, að 8, 12 eða 16 mw. möguleikarnir væru hagkvæmir fyrir markaðinn eins og hann er, en 55 mw. möguleikinn tekinn með til að hafa eitthvað ef stóriðja væri ákveðin fyrir norðan. Stjórnmálamönnum leist vel á hugmyndina og samþ. voru heimildarlög á Alþ. fyrir 55 mw. virkjun, stærðin líklega höfð þessi til að loka ekki stóriðjudyrunum. Síðan gerist það merkilega að ákveðið er að nota heimildarlögin, sýnilega án þess að athuga hvort 55 mw. stærðin sé hagkvæm eða ekki, og Kröflunefnd falið að koma virkjuninni upp. Hún setur sér síðan það mark að klára virkjunina haustið 1976, ræður verkfræðinga og setur allt í gang, og bygging 70 mw. virkjunar er hafin við Kröflu með ótrúlegum hraða.“

Siðar segir þessi sami prófessor, með leyfi forseta:

„Það hefur einnig farið í taugarnar á mörgum að virkjunin er byggð 70 mw., með allt of mikla orkuvinnslugetu fyrir Norðurlandsmarkaðinn, en þar að auki með of lítið afl til að koma orkunni á markað yfirleitt nema til stóriðju. En það stangast óneitanlega á við þá staðreynd að fyrir norðan er engin stóriðja né heldur ákveðnar áætlanir um að koma henni upp. Þar fyrir utan hefur virkjunin hækkað úr 1480 millj. kr. í u.þ.b. 6000 millj., að því er talið er nú, en það er meðalhækkun sem nemur 1 milljón á fjögurra tíma fresti. Auk alls þessa veit enginn enn í dag hver á að reka Kröfluvirkjun, enda framtíðin fjárhagslega dökk fyrir hvern þann sem það reynir.“

Ég er með fjöldann allan af tilvitnunum fyrir hv. þm. Ingvar Gíslason að moða úr. T.d. hefur því verið haldið fram, m.a. af hv. þm. Ragnari Arnalds í ræðu hans hér um Kröflumál, að það hafi aldrei komið til greina að reisa virkjun af stærðinni 5, 16 eða 18 mw., og hv. þm. fullyrti það og hafði sjálfsagt eftir einum af verkfræðilegum ráðunautum Kröflunefndar að slíkt hefði ekki einu sinni verið orðað, engin tilboð um slíkar vélar gerð né heldur eftir þeim óskað. Í Morgunblaðinu nú nýverið birtir Karl Eiríksson framkvæmdastjóri fyrirtækisins Bræðurnir Ormsson aths. við þessar yfirlýsingar hv. þm. Ragnars Arnalds og Valdimars Jónssonar verkfræðilegs ráðunautar Kröflunefndar, Þar segir Karl Eiríksson, með leyfi forseta:

„Þarna fer prófessor Valdimar með rangt mál. Hið rétta er að þann 28. nóv. 1974 var haldinn fundur á skrifstofu Bræðranna Ormsson hf. að Lágmúla 9 þar sem lagt var fram tilboð í vélar fyrir væntanlega Kröfluvirkjun, og var það tilboð í vélar af 16 mw. stærð. Á fyrrgreindum fundi voru mættir eftirtaldir menn: dr. Valdimar K. Jónsson prófessor“ — sem ekkert kannaðist við þetta mál siðar — „á vegum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, Páll Lúðvíksson verkfræðingur á vegum Orkustofnunar, Ingeniör Senker á vegum AEG-fyrirtækisins og annar sérfræðingur erlendur á vegum sama fyrirtækis, Ásgeir Höskuldsson tæknifræðingur á vegum Bræðranna Ormsson hf., Karl Eiríksson framkvæmdastjóri á vegum Bræðranna Ormsson hf. Tæknilegar upplýsingar þessa tilboðs voru sérstaklega útskýrðar fyrir prófessor Valdimar og tók hang einmitt með sér af fundinum tilboðið ásamt þeim upplýsingum.“

Þá segir Karl Eiríksson ennfremur, að Knútur Otterstedt verkfræðingur, framkvæmdastjóri Laxárvirkjunar, hafi aflað tilboðs í 3 og 6 mw. gufuhverfil sem hann óskaði eftir að fá að festa kaup á. Síðan segir Karl, með leyfi forseta:

„Ekki hef ég trú á að prófessor Valdimar hafi verið ókunnugt um þetta mál. En hann virðist hafa gleymt því, þessi ágæti prófessor, þegar hann skrifaði sína grein í Morgunblaðið, að hann hafi setið þennan fund.“ Og sama máli gegnir um hv. þm. Ragnar Arnalds sem talaði hér í gær eða fyrradag.

Þetta voru aðeins örfá orð um hvernig að undirbúningnum sjálfum var staðið af hálfu Kröflunefndar, og vil ég enn og aftur benda á það að nú þurfa menn ekki lengur að hafa leikmannsorð fyrir því. Þeir, sem ég vitnaði hér til, eru meðal helstu sérfræðinga á þessum sviðum hérlendis og m.a. menn sem mikil afskipti hafa haft af þessu Kröflumáli.

En í sambandi við það, sem ég hóf mína ræðu á, um orkuverðið og annað fleira, þá langar míg til þess að beina þeim tilmælum til Kröflunefndar og hæstv. ráðh. hvort ekki sé mögulegt að þing og þjóð fái nú að sjá í fyrsta sinn greiðsluáætlun og rekstraráætlun fyrir þessa virkjun. Því hefur verið haldið fram að í þessa einhverja mestu stórframkvæmd, sem íslenska þjóðin hefur ráðist í, hafi verið ráðist án þess að greiðsluáætlun eða rekstraráætlun hafi verið gerð, og mér er spurn, hvort búíð sé virkilega að standa í þessum framkvæmdum allan þennan tíma án þess að slíkar áætlanir hafi verið samdar. Hvernig stendur á því að eftir allar þær umr., sem orðið hafa á opinberum vettvangi og í blöðum um málefni Kröflu, þá skuli hæstv. orkuráðh., þegar hann flutti sina skýrslu hér á Alþ., ekki hafa lagt fram þessi grundvallarplögg í málinu, greiðsluáætlunina og rekstraráætlunina um virkjunina? Hafa þessar áætlanir ekki enn verið gerðar? Ég óska eindregið eftir því að þessar áætlanir verði lagðar fram, því að þá og þá aðeins geta menn séð það svart á hvítu hver rekstrarafkoma þessarar virkjunar muni verða og hver greiðslubyrði af þessum framkvæmdum muni verða. Ég óska þess enn og aftur og lýsi eftir að þessar áætlanir verði birtar.

Þá hefur hæstv. ráðh. einnig haldið því fram, að ef ekki verði af áætlunum um gerð orkuhús norðlendinga eða sameignarorkufyrirtækis á Norðurlandi, þá komi til mála að Laxárvirkjun taki að sér rekstur Kröfluvirkjunar. Mér er kunnugt um að þessi hugmynd hefur aldrei verið rædd á fundi stjórnar Laxárvirkjunar. Hún hefur aldrei verið þar rædd og aldrei komið þar á dagskrá og engin ákvörðun verið um það tekin, þannig að það liggur ekkert fyrir um það hvaða aðili muni taka að sér að reka þessa virkjun. Það er sem sagt ekkert vitað um greiðsluáætlanir, ekkert um rekstraráætlanir og ekkert um það hver á að reka mannvirkið.

Þá kom það einnig fram í sjónvarpsþætti í vetur, þar sem hv. þm. Jón G, Sólnes sat fyrir svörum sem form. Kröflunefndar, að hann var spurður að ákveðnum upplýsingum um breyttar aðstæður til orkuöflunar á svæðinu sem fyrirspyrjandinn, Valdimar Jóhannesson blaðamaður, hafði komist á snoðir um. Hv. þm. afneitaði þá öllum þessum upplýsingum sem röngum og hefur skýrt frá því að hann hafi ekki betur vitað, og er að sjálfsögðu rétt að taka fullt mark á þeirri skýringu. Hins vegar kom nokkru siðar út skýrsla frá Orkustofnun sem staðfesti allar þær upplýsingar sem blaðamaðurinn byggði spurningar sinar á. En hvað sagði hv. þm. Jón G. Sólnes þegar þessar spurningar voru lagðar fyrir hann? Ég fékk útskrift á sínum tíma, hljóðsegulbaslsútskrift af þessum sjónvarpsþætti, sem ég síðan birti í Alþýðublaðinu. Hv. þm. Jón G. Sólnes, form. Kröflunefndar, sagði þar orðrétt, — ef upplýsingar blaðamannsins reyndust réttar, þá sagði hv. þm., með leyfi forseta:

„Ég dreg þetta ákaflega mikið í efa, að þessar upplýsingar séu réttar, og ég óska bara eindregið eftir því, — ég endurtek það hér í áheyrn og ásjón alþjóðar, að ég óska eindregið eftir því að fyrirspyrjandi upplýsi hver hafi gefið þessar upplýsingar. En ef þetta er rétt, sem fyrirspyrjandi spyr um, þá er það ábyrgðarskylda hlutaðeigandi rn., sem í þessu tilviki er okkar yfirmaður, þeim ber skylda til þess að láta stöðva þessar framkvæmdir.“

Þetta sagði hv. þm. Jón G. Sólnes orðrétt í sjónvarpsþættinum í vetur. Ef þær upplýsingar, sem blaðamaðurinn, Valdimar Jóhannesson,byggði sinar spurningar á, væru réttar, þá bæri yfirmanni framkvæmdanna, væntanlega hæstv. orkuráðh., að stöðva þegar í stað þessar framkvæmdir. Nú hefur það komið í ljós að upplýsingar blaðamannsins voru réttar, en það er hv. þm. Jón G. Sólnes sem virðist hafa breytt afstöðu sinni sem var skýr og ljós í þessum sjónvarpsþætti.

Og það er ýmislegt meira sem rétt er að vekja athygli á í þessu sambandi. Það kemur hér fram líka, sem okkur hefur alltaf uggað, alþfl.-menn, að með því að velja þessa tegund af virkjun hafi verið valin óeðlileg virkjun á Norðurlandi. Því hefur verið haldið fram af hv. þm. Ingvari Gíslasyni og fjölmörgum öðrum sem hér hafa talað, að meginvandamál í raforkumálum Norðurlands væri orkuskortur. Þetta er rangt. Meginvandi Norðurlands í raforkumálum er ekki orkuskortur, heldur aflskortur. Virkjanir á Norðurlandi skortir afl til þess að fullnægja eftirspurninni á mestu eftirspurnartímunum, en ekki orku til þess að fullnægja orkueftirspurn allt árið. Þetta hefur t.d. komið glöggt í ljós í vetur, vegna þess að það hefur margoft komið fyrir að engin dísilkeyrsla hafi átt sér stað á Norðurlandi, t.d. yfir helgar. Það er afl sem skortir, en ekki orka. Þetta kemur líka glögglega fram af þeirri einföldu staðreynd, að afl þeirra dísilstöðva, sem keyrðar hafa verið á Norðurlandi, er 10 mw., en orkan, sem seld hefur verið frá þessum orkustöðvum yfir árið, hefur ekki numið nema 20 gwst., en það er u.þ.b. 1/4 af orkuvinnslugetu þessara aflstöðva. Þannig er það ekki orkan sem Norðurland skortir, heldur afl til þess að mæta eftirspurninni þegar eftirspurnin er mest. Að áliti Jónasar Elíassonar prófessors, sem einnig hefur komið fram opinberlega, þá er hann eindregið þeirrar skoðunar að virkjun Kröflu falli mjög illa inn í raforkukerfið á Norðurlandi. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta, eins og ég hef hér rökstutt:

„Rafmagnsþörfin á Norðurlandi er fyrst og fremst fyrir afi, en ekki fyrir orku. Kröfluvirkjun hefur mikla orkuvinnslugetu, en tiltölulega lítið afl í samanburði við orkuvinnslugetuna. Það verður því ekki hægt að nýta orkuvinnslugetu Kröflu að fullu án þess að hafa meira afl, þ.e. að hafa fleiri mw. til þess að nota meðan álagið er mest“.

Að skoðun þessa prófessors við Háskóla Íslands fellur Kröfluvirkjun sem sé ekki inn í raforkukerfið á Norðurlandi. Hún er ekki virkjun af því tagi sem norðlendinga vantar, eða öllu heldur, hún er ekki framkvæmd í orkumálum af því tagi sem norðlendinga vantar.

Þá er eitt atriði í þessu sambandi sem mér finnst allundarlegt og hef spurt um áður úr þessum ræðustól, en ekki fengið svar við, og vil ítreka þá fsp. mína, en það er að um miðjan vetur, nánar tiltekið í janúarmánuði s.l. kom það í ljós að jarðfræðingar höfðu frá því um miðjan sept. eða í septemberbyrjun á s.l. hausti átt von á náttúruhamförum á Kröflusvæðinu, og vegna þess að þeir áttu von á því, þá fjölguðu þeir mjög jarðskjálftamælum á þessu svæði og gerðu almannavarnanefndum viðvart, sem varð til þess að þessar n. flýttu sínum áætlunum, og enn fremur vissi stjórnstöð Almannavarna í Reykjavík af þessu. Hins vegar hefur ekki komið fram hvort Kröflunefnd hafði vitneskju um þetta, iðnrh. eða orkumrn., og mér finnst það harla undarlegt ef jarðfræðingarnir hafa sniðgengið þessa aðila. Ef Kröflunefnd og orkuráðh. hafa vitað um það, sem í aðsigi var á Kröflusvæðinu, og vitað það síðan seint í sumar eða í haust, þá hafa þessir aðilar vísvitandi þagað yfir því, og þeir hafa gert meira, því að á tímabilinu fullyrtu talsmenn þessara aðila að engar slíkar náttúruhamfarir þyrfti að óttast.

Ég spurði að því þegar þessi mál voru til umr. hér siðast utan dagskrár, hvort Kröflunefnd hefði vitað af þessum niðurstöðum jarðfræðinganna.

Ég hef ekki fengið svar við því. Ég ætla að ítreka fsp. nú og ekki beina henni bara til Kröflunefndar, heldur jafnframt til hæstv. orkuráðh.

Enn má geta þess, að eftir að þessi vitneskja lá fyrir tóku þessir aðilar ekki meira tillit til hennar heldur en það, að þeir settu allt á fullt í skuldbindingum varðandi þessa virkjun. Það er t.d. búið að ganga frá kaupum á báðum vélunum sem þar á að setja niður. Mér er kunnugt um að önnur kemur í júní og hin seinni er væntanleg í ágústmánuði á þessu ári, Þá veit ég einnig að keyptir hafa verið tveir spennar fyrir Akureyri þótt fyrirsjáanlegt sé vegna breyttra aðstæðna eftir að hitaveitumál akureyringa komst á dagskrá að aðeins annar þeirra nægi næstu 10 árin.

Þannig hefur vaðið á súðum hjá Kröflunefnd án nokkurrar fyrirhyggju. N. hefur starfað eftir þeirri lífsreglu, að blindur leiði blindan. Allt hefur verið gert til þess að hlaða upp skuldbindingum, þrátt fyrir að óvissan hefur aldrei verið meiri en nú um öll atriði þessara framkvæmda. Og hvað er svo framundan? Mikið er gert úr fsp. og beiðnum á Norðurlandi um orku frá þessari virkjun. Menn hafa talað um að þeir gætu selt svona og svona mikið af orku frá Kröflu þegar Kröfluvirkjun væri komin í gagnið. En skyldu nú norðlendingar vilja kaupa orkuna án tillits til þess á hvaða verði hún er? Skyldu þeir vilja greiða fyrir orkuna eitthvað sem samsvarar greiðslubyrði á selda kwst., sem Jóhannes Nordal áætlar 8.03 kr. á árinu 1977? Skyldi vera markaður fyrir orku frá Kröflu á því verði? Að sjálfsögðu hefur Kröflunefnd enga athugun gert á því, — nefnd sem enn hefur ekki komið því í verk að ganga frá rekstraráætlun eða greiðsluáætlun fyrir þessa stórframkvæmd sína.

Þó hefur einnig komið fram að fyrirsjáanlegur reksturshalli á Kröfluvirkjun geti orðið allt að 1 milljarði á ári. Því hefur verið neitað, en engar áætlanir til þess að hrekja það lagðar fram. Það er mjög einfalt að reikna út hver rekstrarkostnaður Kröfluvirkjunar muni verða. En hitt er öllu erfiðara að vísu, að áætla hversu mikil orka verður seld frá þessari virkjun. Prófessor Jóhannes Nordal kom í sínu erindi á miðsvetrarfundi Sambands ísl. rafveitna með spá um greiðslubyrði á raforku vestan-, norðan- og austanlands og aðrar slíkar kostnaðartölur. Á bak við þessa kostnaðarútreikninga seðlabankastjórans liggur að sjálfsögðu áætlun um hversu mikla orku sé hægt að selja frá Kröflu. Hæstv. ráðh. og hv. Kröflun., ef þau hafa ekki gert slíka áætlun sjálf, þá þurfa þau ekki annað en að taka upp símann, hringja upp í Seðlabanka og spyrja Jóhannes seðlabankastjóra: Hver er áætlun þin um orkusöluna sem þú byggir þessar tölur þínar á? — og geta þá væntanlega fengið svar við því.

Hins vegar er mér kunnugt um að sú áætlun hefur verið gerð, e.t.v. ekki þarna víðs fjarri, að miðað við það að samanlagt kostnaðarverð línunnar frá Kröflu til Akureyrar og byggðatinunnar svokölluðu, — samanlagt verð verði 9.7 milljarðar kr., sem ekki mun dregið í efa, þá muni rekstrarhalli Kröflu að meðtalinni byggðalínunni verða að meðaltali á árunum 1977–1980 980 millj. kr. á ári og að reiknað er með tekjum að upphæð 400–600 millj. kr. á ári á þessu tímabili. Þetta eru þær upplýsingar sem búa að baki þeim útreikningum sem sérfræðingar hafa sett fram. Og ég vek athygli á því að það virðist svo sem þeir einir hafi gert sér eitthvað í hugarlund um slíka hluti, a.m.k. hefur ekkert slíkt komið fram hjá Kröflunefnd.

Þá vil ég einnig benda á það að greiðslubyrði vaxta og afborgana við Kröflu nemur nú 20.2% af fjárfestingu. Menn gera sér vonir um það að e.t.v. verði unnt að breyta þessum lánum, skammtímalánum vegna Kröflu, í 15 ára lán. Sú lána-konvertering kostar að sjálfsögðu talsvert fé sem ekki hefur verið séð fyrir. En gerum nú ráð fyrir því að þetta takist samt sem áður, sem ýmsir telja að sé heldur bjartsýnislega spáð, — en þótt þetta takist verður greiðslubyrðin af Kröflumannvirkjunum 13% af fjárfestingu.

Hæstv. ráðh. hefur gert mikið að því að segja og segja með réttu að það sé óeðlilegt að slík virkjunarframkvæmd njóti ekki hagstæðari lánakjara heldur en hún nýtur. Það er rétt skilið út af fyrir sig. Framkvæmd af þessu tagi á það skilið að njóta hagkvæmari lánakjara. En slík lán eru einfaldlega ekki í boði. Það hefur komið fram á opinberum vettvangi hvaða lánakjörum menn mega eiga von á. Þau voru í tíð Búrfellsvirkjunar til 17 ára með 7.25% vöxtum, í tíð Sigöldu til 14 ára með 8.7% vöxtum, en lánakjörin nú eru aðeins til 7 ára og vextir 9.5%. Þetta eru staðreyndir á hinum alþjóðlega lánamarkaði sem ekki er hægt að ganga fram hjá. Þetta eru lánakjörin sem í boði eru. Önnur eru ekki í boði. Vonandi tekst hæstv. orkuráðh. að konvertera þessum lánum yfir í nokkru lengri lán, en það er almennt talið útilokað að takist að breyta þeim í lengri lán en til 15 ára. Það er a.m.k. hámark þess sem Jóhannes NordaI telur að unnt verði að gera, og að orða það þá að það sé rétt, — auðvitað er það rétt að framkvæmd af þessu tagi njóti hagstæðra lána, — en þær aðstæður eru bara ekki fyrir hendi. Það er alveg eins og það er rétt að íslendingar eiga skilið að hafa betri ríkisstj. heldur en þeir hafa í dag, en þær aðstæður eru bara ekki í landinu. Þessi ríkisstj. situr. Menn verða bara að taka því eins og það er. Menn geta vonast eftir betri ríkisstj., og það er jafnvel miklu auðveldara fyrir íslendinga að verða sér úti um betri ríkisstjórn heldur en þá sem nú situr. Það er tiltölulega mjög auðvelt. Hitt er að sama skapi torvelt fyrir hæstv. iðnrh. eða hvern mann annan, að verða sér úti um hagstæðari lánakjör heldur en almennt gerast á hinum alþjóðlega lánamarkaði, og fram hjá þeirri staðreynd er einfaldlega ekki hægt að ganga. Það er ekki hægt að setja upp einhver gleraugu vonarinnar og meta allar framkvæmdir og allar aðstæður eins og menn vildu að þær væru. Ég er ansi hræddur um að margir íslendingar vildu gjarnan að ríkisstj. stæði sig svolítið betur en hún stendur sig. En hún bara gerir það einfaldlega ekki og framan í þá staðreynd verða menn að horfa.

En við skulum nú segja sem svo að hæstv. ríkisstj. fari á flot með umsóknir um lengri lán, um lán allt að 40 árum. Þegar menn ganga á fund bankastjóra undir slíkum kringumstæðum, hvað er þá það fyrsta sem bankastjórinn spyr að. Hann spyr: Hver er rekstraráætlunin fyrir framkvæmdina sem verið er að óska eftir lánum fyrir? Ég veit að hv. þm. Sverrir Hermannsson mundi spyrja að þessu: Hver er rekstraráætlunin? Viljið þið gjöra svo vel að leggja fram rekstraráætlunina. Það getur vel verið að það komi til að við veitum ykkur lán — en hvar er rekstraráætlunin, hvar er greiðsluáætlunin fyrir þessi lán sem þið eruð að biðja um? Hvorugt er til fyrir Kröfluvirkjun. Og ég er sannfærður um það að væri hv. þm. Sverrir Hermannsson bankastjóri í alþjóðlegum fjárfestingarbanka í stað þess að vera komissar uppi á íslandi, þá mundi hann ekki einu sinni veita mönnum, sem kæmu í slíkri lánaleit, viðtal hvað þá meira, ef þeir hefðu ekkert í fórum sínum annað en beiðnina um lánið, en hefðu ekki hugmynd um hvernig þeir ætluðu að greiða það né heldur hvernig þeir ætluðu að reka þá virkjun eða þá framkvæmd sem verið er að afla láns til. (Grípið fram í) Ég er alveg sannfærður um að hv. þm. Sverrir Hermannsson, væri hann kommissar hjá Alþjóðabankanum eða einhverjum alþjóðlegum lánastofnunum, mundi hann ekki einu sinni veita slíkum mönnum viðtal. (Gripið fram í.) Ég efast meira að segja um, að hv. þm. Ragnar Arnalds, sem á sæti í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, mundi taka að sér að fylgja slíkri lánveitingu eftir.

En það er ekki nóg með það að ástandið sé svona í fjármálum. Það eru ýmsar aðrar og alvarlegri blikur á lofti. Það hefur komið fram í áliti sérfræðinga, ekki bara Þorleifs Einarssonar eins, heldur í áliti þeirra fimm sérfræðinga sem ég nefndi hér áðan, að Kröflusvæðið hafi tapað geysilegri orku á nokkrum vikum í jarðskjálftunum, svo sem sjá megi af því að eina nothæfa borholan hafi misst um 60% af afli sínu. Þá er einnig sagt að ljóst sé að hiti hafi hækkað á svæðinu næst stöðvarhúsinu, og það er einnig sagt í þessu áliti sérfræðinga að enn séu mestar líkur fyrir því að næsta eldgos á Íslandi brjótist út á Kröflusvæðinu. Þá benda þeir einnig á það að engar titringsbylgjur mælist þegar jarðskjálftabylgjur fari í gegnum Kröflusvæðið, en það telur m.a. Þorleifur að bendi til þess að undir yfirborðinu kunni að vera einhvers konar fljótandi vökvi, e.t.v. hraunkvika. Á grundvelli þessara athugana og þessara niðurstaðna mæla sérfræðingarnir með því að Kröfluvirkjun verði ekki haldið áfram að svo stöddu, enda er það algjör ábyrgðarhluti að halda áfram undir slíkum kringumstæðum. En það á e.t.v. við sá gamli málsháttur um þessa framkvæmd, að þá, sem guðirnir vilja tortíma, svipta þeir fyrst vitinu.

Því hefur verið haldið fram að ekki sé hægt að stöðva þessar framkvæmdir eða slá þeim á frest. Það er rangt. Að vísu er búið nú að festa um 1000 millj. kr. í þessari framkvæmd, þar af um 300 millj. kr. í stöðvarhúsi. Þá mun einnig vera rétt að búið er að ganga frá skuldbindingum um kaup á vélabúnaði og nema þær skuldbindingar, að ég best veit, um 13.8 millj. dollara, þannig að það má segja sem svo að þarna sé búið að binda svo miklar skuldbindingar á íslenska samfélagið að því sé ekki stætt á að slá þessum framkvæmdum á frest, það yrði dýrara heldur en halda áfram. En ég vil leyfa mér að efa það. Ég tel og hef skoðanir mætra manna, sem ég treysti vel, fyrir því að náttúruhamfarirnar á Kröflusvæðinu séu þess eðlis að vel geti verið og meira að segja líklegt sé að það geti flokkast undir ákvæði um force majeure, það geti flokkast undir slík ákvæði, að vegna náttúruhamfaranna geti íslendingar jafnvel haft aðstöðu til þess að rifta gerðum samningum um vélakaup við erlenda vélaseljendur.

Sá lagaprófessor, sem ég bar þetta undir, vildi að vísu ekki fullyrða það og sagðist ekki geta fullyrt að hér væri um nægilegar náttúruhamfarir að ræða til þess að þær réttlættu slíka riftun kaupa. En hann sagðist sannfærður um það, að náttúruhamfarirnar væru a.m.k. það mikið atriði, það nálægt slíku, að það væri full ástæða til þess fyrir íslendinga, ef þeir tækju þá pólitísku ákvörðun að slá frekari framkvæmdum á frest, þá væri full ástæða til þess fyrir íslendinga og sannkallaður samningsgrundvöllur fyrir þá að taka upp viðræður við hina erlendu viðsemjendur, sem selja vélar og vélabúnað, um að fresta gildistöku samninganna, fresta afhendingu og greiðslum um einhvern ákveðinn tíma, á meðan séð yrði hvernig þessu ætlaði að lykta. Þessi lagaprófessor taldi það alveg ljóst að við hefðum a.m.k. mjög sterka samningsstöðu að þessu leyti til þess að slá þessum framkvæmdum á frest, ef sú pólitíska ákvörðun yrði tekin að það væri hyggilegt.

Að lokum vil ég benda á það að um áramót 1974–1975 námu skuldir þjóðarinnar í erlendum gjaldeyri sem samsvaraði 200 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Um s.l. áramót námu erlendar skuldir þjóðarinnar, einu ári síðar námu þær 320 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Á þeim örfáu mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári, hafa þessar erlendu skuldir hækkað yfir 80 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu. Erlendar skuldir nema nú 400 þús. kr. á hvern íslending. Og sú spá, sem fyrir nokkrum mánuðum var gerð um að innan 2–3 ára muni greiðslubyrði, vextir og afborganir, af erlendum lánum nema fimmtu hverri gjaldeyriskrónu, hefur nú breyst í þá veru að innan 2–3 ára er áætlað að fjórða hver gjaldeyriskróna íslendinga fari í greiðslu afborgana og vaxta. Þar með erum við búnir að spenna þetta langt yfir hættumarkið. Og það er spurning hvort þjóð, sem veðsett hefur öll sín atvinnutæki, því að það hefur verið gert með þessu móti, í hendur erlendra bankastjóra og arabískra olíufursta og auk þess horfist í augu við það að þessir aðilar, alþjóðlegir bankastjórar og arabískir olíufurstar, verða innan þriggja ára farnir að ráðstafa fjórðu hverri gjaldeyriskrónu sem íslenskir sjómenn, verkafólk og iðnverkafólk aflar, — það er spurning hvort sú þjóð haldi lengur sínu fjárhagslega sjálfstæði.

Við höfum dæmi fyrir okkur um aðra smáþjóð í Atlantshafi, fámenna þjóð eins og við erum, vel menntaða þjóð eins og við erum, þjóð sem byggði á útgerð og fiskvinnslu eins og við gerum, þjóð sem fékk sjálfstæði sitt á þessari öld eins og við, þjóð sem vildi gera allt á einni nóttu eins og við, þjóð sem hafði ríkisstj. sem ekki kunni fótum sínum forráð í fjármálum eins og við, þjóð sem bjó við flokkakerfi sem eins og sagt er í alfræði orðabókum hafði siðspillandi áhrif á þingræðið í landinu, eins og hætta er á að íslendingar geri, — þessi þjóð missti fyrst fjárhagslegt sjálfstæði sitt og síðan hið pólitíska. Þessi þjóð kaus það yfir sig sjálf þegar lánstraust hennar var þorrið erlendis og greiðslubyrðin af erlendum lánum að sliga hana, — þá kaus hún það yfir sig sjálf í neyð sinni og ótta að afsala sér sjálfstjórn í hendur embættismannastjórnar skipaðrar í London. Sú embættismannastjórn komst að þeirri niðurstöðu að þetta litla ríki væri gjaldþrota af því það hefði ekki kunnað fótum sínum forráð í fjármálum. Og slíkt var áfallið fyrir þessa litlu þjóð, að 15 árum síðar gekk hún til kosninga um það hvort hún vildi reyna við sjálfstæði á nýjan leik eða gerast fylki í Kanada, og meginhluti atkvæðisbærra manna meðal þessarar þjóðar hafði orðið fyrir slíku áfalli af efnahagslegri óstjórn að hann þorði ekki að reyna við sjálfstæðið aftur, heldur kaus að láta innlima sig i stórveldi. Þetta var þjóðin sem byggði Nýfundnaland. Sú þjóð er ekki lengur til. Hún er ekki lengur til, því að hún kunni ekki fótum sínum forráð.

Það er líka í alfræðiorðabókum kafli um aðra litla þjóð í Norður-Atlantshafi, þjóð sem lifir á fiskveiðum, þjóð sem er vel mennt, þjóð sem er fámenn, þjóð sem vill gera allt i einu, þjóð sem býr eins og nýfundlendingar við ábyrgðarlausa ríkisstj. sem ekki sést fyrir í fjármálaráðstöfunum. Það er undir okkur komið að saga þessarar þjóðar endi ekki eins og saga nýfundlendinga. Það er undir okkur komið. Það getur vel verið að þær ákvarðanir, sem við tökum á þessum stað og þessari stundu, verði ákvarðandi um það.

Í Morgunblaðinu 2. apríl s.l. segir svo í leiðara:

„Það virðist því ekki vanþörf á að láta hendur standa fram úr ermum til að auka orkumarkaðinn eða gera aðrar ráðstafanir til þess að samræma væntanlegt framleiðslumagn raforku og hugsanlega stærð orkumarkaðar.“

Þetta er skoðun stærsta stuðningsblaðs stjórnflokkanna, en ekki þingflokks Alþfl. Í beinu framhaldi af því, sem þarna kemur fram, vil ég að verði reynt á það á Alþ.í vetur hvort ráðh. og þingmeirihluti vilji taka ábyrgð á áframhaldandi sukki og óstjórn í þessu landi með því að ganga gegn ráðleggingum og leiðbeiningum okkar mætustu vísindamanna og halda áfram virkjun Kröflu. Ég vil að sú spurning verði lögð fyrir Alþ. í vetur hvort og hverjir vilji taka ábyrgðina á því að halda áfram eða hvort menn vilji heldur bregða á það ráð að leggja kapp á að leita að nýjum orkumarkaði á Norðurlandi og fresta framkvæmdum við Kröfluvirkjun þangað til það liggur fyrir að niðurstaða af slíkri athugun sé fengin og það liggur fyrir að það sé til markaður fyrir þá orku sem framleiða á. Ég held nefnilega að afstaðan til Kröflu eða réttara sagt að gagnrýnendur Kröflu og þeir, sem áhyggjur hafa af þeirri framkvæmd, séu ekki bara í Alþfl. Ég held að þeir séu líka og það allmargir í flokki hv. þm. Ragnars Arnalds, og ég held líka að þeir séu allmargir í stjórnarflokkunum sjálfum. Það er mín skoðun að það eigi að reyna á það á Alþ. nú í vetur hvort meiri hl. er hér fyrir því að halda áfram þrátt fyrir öll þau viðvörunarorð sem mælt hafa verið, og þá verða þeir, sem það vilja, líka að taka á því fulla ábyrgð. En það er það sem virðist hafa skort í okkar stjórnkerfi um mörg ár, að stjórnmálamenn, ráðh. og embættismenn beri rétta pólitíska ábyrgð á sínum verkum.