09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (2652)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ástæðan til að ég hef kvatt mér hljóðs um það mál, sem hér er nú til umr., er m.a. sú, að ég vil bægja frá þeim misskilningi, sem ráða hefði mátt af orðum hv. þm. Ragnars Arnalds, að um það sé einhugur innan Alþb. Þvert á móti eru skoðanir flokksmanna og stuðningsmanna Alþb. skiptar um Kröfluvirkjun eins og annarra og þá fyrst og fremst um þann framkvæmdamáta sem á hefur verið hafður.

Ekki er ástæða til að eyða hér löngum tíma hv. Alþ., svo mikið sem málið hefur þegar verið rætt. En ég get tekið undir sitt hvað af því sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafa þegar sagt hér og reyndar einnig það sem hv. þm. Ragnar Arnalds sagði um þörf skipulagningar iðnaðar á Norðurlandi og víðar.

Þrennt er það einkum í þessu máli, sem vekur furðu mína, spurningar, já, og ákveðnar grunsemdir. Í fyrsta lagi er það sá flýtir sem á hefur verið hafður, sú flýting framkvæmdanna sem ekki virðist nú hægt að henda reiður á hver ákvað. Fráleitt er að kenna um Kröflunefnd einni. Þar koma vissulega fleiri við sögu eins og Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og iðnrn.

Þegar upphaflegu heimildarlögin um allt að 55 mw. gufuaflsvirkjun voru samþ. á Alþ. var rætt um að henni mætti ljúka 1978, og átti þá byggðalínan að brúa bilið 1976-1978. Vissulega hafa menn sér tilafsökunar að hafa viljað sökum þrýstings leysa á sem skjótastan hátt úr hinum geigvænlega orkuskorti á Norðurlandi, eins og það er gjarnan orðað. En hefði nú ekki verið nær fyrir hv. þm. að keppa að því að fjármagn væri fyrirliggjandi til að koma orkunni út til neytenda en að eyða í umframframleiðslu sem eftir á að kosta landsmenn alla stórhækkað raforkuverð.

Engin hagkvæmnisáætlun var gerð sem grundvöllur Kröfluvirkjunar, og greiðslu- og rekstraráætlun hefur aldrei legið fyrir. Það kostnaðarverð, sem Kröflumenn hafa veifað, þ.e.a.s. kr. 1.80 kwst., er mjög óviss tala og ævinlega hefur líka verið tekið fram af hálfu Orkustofnunar, m.a. vegna þess að reynslu skortir um rekstur sambærilegra stöðva hérlendis og allt er óvíst um nýtingu.

Og þá komum við að öðru atriði sem hlýtur að vekja undrun. Hvers vegna voru ekki hagnýttir þeir þrepamöguleikar í virkjun sem gufuaflstöð býður upp á. Þegar ráðist er í virkjun fallvatns er, eins og allir vita, vart um annað að velja en allt eða ekkert. En jarðgufuaflið býður hins vegar upp á stækkun virkjunar smám saman eftir þörfum markaðarins, og virðist það enda hafa verið haft í huga í upphafi, þegar Orkustofnun lagði 1973 fram skýrslu um frumkönnun á 8, 12, 16 og 55 mw. gufuaflsvirkjun. En hvers vegna horfið var frá þrepahugmyndinni hefur ekki verið útskýrt frekar en hitt, hvers vegna ráðist var í kaup véla með mun meiri vinnslugetu en gert var ráð fyrir í hæsta lagi í upphafi og það áður en fengnar voru nauðsynlegar niðurstöður til að byggja val vélanna á að áliti sérfræðinga. Hver átti þarna hagsmuna að gæta? er spurning sem fólk spyr nú eðlilega.

Í þessu sambandi vil ég vísa til álitsgerðar fimm sérfræðinga jarðhitadeildar Orkustofnunar, fimm sérfræðinga af sex, sem þar starfa auk deildarstjóra, og get ég reyndar ekki stillt mig um í leiðinni að láta í ljós ánægju mína með það að starfsmenn ýmissa opinberra stofnana, sem áður virðast hafa talið sig bundna einhverri óskilgreindri þagnarskyldu og því oft þagað gegn betri vitund, skuli nú farnir að láta í sér heyra þótt skoðanir þeirra stangist á við skoðanir valdhafa. Þar gáfu sérfræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar fordæmið í vetur, og nú hafa jarðfræðingar Orkustofnunar fetað í fótspor þeirra og lýst skoðunum sínum opinberlega með álitsgerð í dagblöðum. En fimmmenningarnir segja m.a. að óeðlilegt hafi verið að leggja í byggingu stöðvarhúss og vélakaup áður en fullnægjandi upplýsingar lágu fyrir um eiginleika borunar og fyrsta reynsla var fengin af vinnsluborunum. Því hafi nú skapast óvissa um hvernig til tekst með virkjunina frá tæknilegu sjónarmiði og sé þeim ekki kunnugt um að svona hafi verið staðið að byggingu jarðgufuvirkjunar áður. Þau segja vandasamasta þáttinn við byggingu gufuaflstöðva vera sjálfa gufuöflunina og krefjist undirbúningurinn að nýtingu jarðgufunnar umfangsmikilla rannsókna, m.a. með borunum. Rekja þau síðan þætti nauðsynlegra rannsókna og gufuöflunar og eðlilega röð þeirra sem ekki var fylgt. Óþarfi er að lesa hér að nýju þann kafla sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson las hér áðan, en þarna kemur sem sé fram að þeir sérfræðingar, sem gerst mega vita, hafa verið mótfallnir framgangsmáta. En á þá er bara ekki hlustað. Einhverjir aðrir telja sig vita betur. Og þegar náttúruhamfarir ógna tilveru fólks og framkvæmdum öllum á þessu svæði er ekki heldur hlustað á sérfræðinga í jarðfræði, staldrað við og málin endurskoðuð. Nei, nei, áfram skal haldið af fullkominni þrjósku og vélunum komið upp, hvað sem það kostar og jafnt þótt nú sé allsendis óvíst hve mikil gufa fæst úr holunum og hvenær svæðið hefur jafnað sig á ný eftir eldgosið. Um þetta segja áðurnefndir jarðfræðingar Orkustofnunar, með leyfi forseta:

„Í kjölfar eldgossins við Leirhnúk, sem hófst 20. des. s.l., streymdi mikil gufa út um gossprunguna. Leiddi það til þess að þrýstingur minnkaði í efri hluta jarðhitasvæðisins. Þessi þrýstingsminnkun hefur valdið því að rennsli úr einni holunni, sem tilbúin er til vinnslu, hefur minnkað um 60% og minnkar enn. Alveg er óvíst hversu langan tíma svæðið þarf til að jafna sig eftir eldgosið. Horfur á nægri gufuöflun fyrir árslok 1976 fyrir aðra vélasamstæðu virkjunarinnar eru því mun verri en fyrir eldgosið.“

Deilur eru uppi um jarðskjálftaþol stöðvarhússins við Kröflu og engar varnir hafa verið gerðar gegn hugsanlegu hraunrennsli yfir virkjunarsvæðið ef enn kemur til eldgoss, sem enginn getur þvertekið fyrir. Þá má einnig benda á að vafasamt er að þak þess þoli öskufali, sé miðað við öskufallsþol húsa í Vestmannaeyjum.

En verum nú bara bjartsýn og segjum að náttúran verði okkur hliðholl þrátt fyrir allt og ekki komi til frekari eldgosa eða harðra jarðskjálfta í bráð, sömuleiðis að gufuöflun takist framar vonum og núverandi virkjunaráætlun verði því fylgt. Hvað á þá að gera við alla þessa orku? Ég hef orðið þess vör að ýmsum þykir fráleitt að spyrja slíks eftir það orkusvelti sem stórir landshlutar hafa löngum búið við. En fyrr má nú rota en dauðrota. Orkuframleiðslan kallar á afl, og aflmiklar virkjanir bera sig ekki án þess að framleiða orku og selja hana. En hver á að kaupa? Það er reiknað með að orkuvinnslugeta Kröfluvirkjunar verði 70 mw. eða 590 gwst. á ári, að því er segir í skýrslu Orkustofnunar um orkuvinnslugetu virkjunarvalkosta á Norðurlandi. Skv. orkuspá sömu stofnunar fullnægir það nokkurn veginn samanlagðri þörf orkumarkaðar Norðurlands, Austurlands og Vestfjarða, eins og hún er áætluð árið 1980, miðað við áætlaða fulla húshitun sem er þá talsvert hærri en raunverulega er talið líklegt og notað er við spá um orkusöluna. Ég get nefnt þessar tölur fyrir 1980. Þar segir um áætlaðan orkumarkað, og ég tek enn fram að þar er miðað við fulla húshitun, að fyrir Norðurland er gert ráð fyrir 294 gwst., fyrir Austurland 169 gwst. og fyrir Vestfirði 133 gwst., samanlagt 596 gwst. Það kom fram áðan, að framleiðsla Kröfluvirkjunar er 590 gwst. Og á það ber að líta að hér eru teknar tölurnar sem miðaðar eru við áætlaða fulla húshitun, en talsverður munur er í spánni í áætlaðri og líklegri rafhitun, einkum á Austurlandi og Vestfjörðum, og eru tölurnar með líklegri hitun mun lægri. Munurinn t.d. á Vestfjörðum er 1980 með áætlaðri húshitun 133 gwst., en með líklegri rafhitun 81 gwst., og á Austurlandi eru sambærilegar tölur um áætlaða húshitun 169, en um líklega 147. Uppsett afl á Norðurlandi núna er um 28 mw., þar af er vatnsafl 25 mw., Bjarnarflag, gufuafl, 3 mw. Ég ætla ekki að telja dísilaflið hér með vegna þess að það má reiknast sem varaafl og sjálfsagt verður það svo áfram í framtíðinni. Sú aflþörf, sem spáð er á Austurlandi 1980, er 33 mw., miðað við orkuvinnsluna 147 gwst sem er líkleg tala, og sams konar aflþörf spáð á Vestfjörðum 1980 er 19 mw., miðað við orkuvinnsluna 81 gwst. Vinnslugeta vatnsaflsvirkjana á Austurlandi, miðað við fulla samtengingu, er 65 gwst. eða 11 mw., og vinnslugeta vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, miðað við samtengingu líka, er 50 gwst. Samkv. spánni um aflþörfina er viðbótaraflþörfin miðað við 1980 þannig 24 mw. fyrir Austurland og 8 mw. fyrir Vestfirði.

Er ekki augljóst að jafnvel þótt stofnlinur yrðu komnar til Austurlands og Vestfjarða verður um umframframleiðslu að ræða? Og hvað á að gera við þessa umframorku? Það er talað um möguleika á Norðurlandi og um áhuga ákveðinna aðila og óákveðinna aðila þar. En hverjir eru raunverulegir möguleikar? Ég spyr. Hvað er reiknað með að þarna komi inn í umfram spána um þörfina? Til hve mikilla orkumöguleika svarar það, og hvenær koma þessir möguleikar til greina í fyrsta lagi? Ég beini þessum spurningum til hæstv, iðnrh.

Ég minni enn á að spáin um orkumarkað og um aflþörfina á Austurlandi og Vestfjörðum er miðuð við að komin sé samtenging frá Norðurlandi og dreifikerfi um héruð til að koma orkunni á markað. Þetta er að sjálfsögðu geysilegt verkefni og gífurlega dýrt. Er því ekki von að menn spyrji hvort ekki hefði verið nær að hefjast handa um að byggja upp stofnlínur og dreifikerfi í stað þess að sólunda millj. í umframvinnslu í Kröflu? Hvenær reiknar iðnrn. með að lagðar verði stofnlínur til Austurlands og Vestfjarða í fyrsta lagi. Meðan þær eru ekki fyrir hendi er ekki hægt að miða við orkusölu frá Kröflu nema aðeins til Norðurlands. Það má minnast á það hér líka, að á sama tíma og unnið er að Kröfluvirkjun og hún undirbúin er í undirbúningi ný virkjun fyrir Austurland, Bessastaðaárvirkjun. Í sambandi við hana hefur þegar verið lagt í mikinn kostnað, m.a. vorn settar yfir 30 millj. bara í vegagerð á Fljótsdalsheiði. Þarna er nú hálfkláraður vegur sem liggur undir skemmdum ef ekki verður haldið áfram með hann í sumar, en á hins vegar engan rétt á sér ef ekki verður farið í virkjunina. því verður að spyrja: Hvenær er gert ráð fyrir að Bessastaðaárvirkjun gæti í fyrsta lagi komið inn á kerfi Austurlands, og sé gert ráð fyrir bæði Bessastaðaárvirkjun og tengingu Kröflu til Austurlands hvaða neytandi er það þá sem við á að taka? Ekki liggur fyrir, svo að vitað sé, nein áætlun um stóriðju í þessum landshluta, — ekki svo vitað sé.

Hvernig sem á allt er lítið verður niðurstaðan sú að með vinnslugetu Kröflu einnar er annað allri raforkuþörf á samtengdu orkuveitusvæði Vestfjarða, Norðurlands og Austfjarða og þá reiknað með fullri húshitun. Suðurland er vel aflögufært, jafnvel þótt málmblendið kæmi inn og enn þá fremur komi sú verksmiðja ekki inn. Sú spurning fólks er því ekki nema eðlileg, hvort þessi framkvæmd við Kröflu eigi fyrst og fremst að leggja grundvöllinn að stóriðju og hvaða stóriðju þá. Hvaða útlendingum á nú að hleypa inn um bakdyrnar? Á að stilla okkur upp við vegg og segja sem svo: Það verður að nýta aflið, annars ráðum við ekki við rafmagnsverðið. Eina leiðin er stóriðja. Sjálf höfum við ekki fjármagn til slíks, við verðum að selja útlendingum. Ætli verðið til þeirra verði þá látið skipta máli fremur en til álversins á sínum tíma, þótt aðstæður væru þá vissulega aðrar? Ætli orkan verði ekki bara sett á útsölu? Ég vona, að hæstv. iðnrh. veiti skýr svör við þessu. Menn éta stundum yfir sig þegar þeir hafa verið lengi svangir, og kannske er sitt hvað til í því hjá Jónasi Elíassyni prófessor þegar hann talar um að við íslendingar höfum verið undir áhrifum orkuvímu, en nú sé að renna af okkur og timburmennirnir að koma í staðinn.