09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka þær ítarlegu umr., sem ég tel að hér hafi að mörgu leyti farið fram í sambandi við þetta mál, og vonast til að þær hafi skýrt mál verulega fyrir Alþ. Þar á meðal þakka ég ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds þó að ég væri honum að mörgu leyti ekki sammála, þá gerði hann grein fyrir máli sínu á ítarlegan hátt, og þó að ég væri að stríða honum á eftir með því að segja að nálin hefði fest í grammófónsplötunni, þá var það meira af því, að mér þykir hann stundum nokkuð langorður og segja í mörgum orðum það sem hann gæti sagt í færri, heldur en hinu, að hann segi ekki yfirleitt greinilega það sem hann er að gera grein fyrir. Í öðru lagi vil ég taka undir þau orð hv. þm. Ingvars Gíslasonar, að norðlendingar og austfirðingar ættu að hafa betra samstarf um orkumál sín en þeir hafa gert, og að því leyti tek ég mjög undir orð hv. þm. Tómasar Árnasonar. En ég verð að játa það, að mér hefur stundum fundist liggja í orðum austfirðinganna að þeir vildu kannske ekki samstarf um eða ekki nota að svo stöddu orku frá Kröfluvirkjun, en þá bið ég afsökunar á þeim misskilningi.

Ég vil sérstaklega taka undir þau orð, sem hér féllu áðan hjá hv. þm. Vilborgu Harðardóttur, að þakka sérfræðingum okkar sem hafa tekið þátt í þeim miklu umr., blaðaskrifum, sem hafa orðið um þessi mál. Þeirra þáttur er mikill í þessu máli. Þeir hafa skýrt það ákaflega vel að minni hyggju, og ég tek ekki undir orð hv. þm. Stefáns Jónssonar, að þetta séu nokkrir „smádjöflar“. Við eigum einmitt að taka mark á sérfræðingunum, og það er það, sem ég hef verið að undirstrika í þeim umræðum, sem ég hef látið falla hér um þessi mál, að mér þykir það einn ljóðurinn á ráði Kröflunefndar að hún hafi ekki tekið mið af varnaðarorðum þeirra ýmsum, og nefni ég þar m.a. þá grg., sem er birt í Morgunblaðinu í dag um gufuöflun í sambandi við Kröfluvirkjunarsvæðið og þeir gáfu út, þessir sérfræðingar hjá Orkustofnun, eftir að gosið fór fram, og vöruðu einmitt við ýmsu og m.a. þeim hraða í framkvæmdum sem nú hefur verið hafður á þessu máli. Ég ætla ekki að tefja tímann hér við að lesa úr þessum varnaðarorðum, þó að það sé mjög fróðlegt plagg, en ég endurtek það að mér finnst að Kröflunefnd og iðnrn. hefðu átt að hlusta betur á þessa sérfræðinga.

Áður en ég held lengra máli mínu verð ég ofurlítið að fá að verja hendur mínar og undra mig um leið á því að ég, sem tel mig mikinn hæglætismann, hafi getað rótað svo upp í hæstv. orkumrh., hv. þm. Ingvari Gíslasyni og hv. þm. Stefáni Jónssyni, að þeir hafa ausið yfir mig hinu og öðru, kallað mig hér ósannindamann og fleira slíkt, rógbera, kom fram hjá einum. Ég þykist ekkert hafa sagt hér ósatt, enda held ég að orð mín hér síðast, sem iðnrh. þóttist bera til baka, hafi verið alveg sönn. Það komu þrír akureyringar suður að tala við ráðh., og þeir urðu að fara heim þann dag sem þeir komu án þess að fá viðtal við hann. Það getur vel verið að ráðh. hafi haft eðlilegar afsakanir, ég lagði engan dóm á það. Ég sagði bara hreint og klárt frá því sem gerðist. Og einhver hefði í hans sporum lítið á það að mennirnir voru komnir norðan frá Akureyri, þrír saman, vildu endilega ná tali af honum, og það hefði átt að vera hægt að finna einhvern tíma seinna um daginn til að tala við þá.

Um orð Ingvars Gíslasonar, sem hann þóttist bera hér til baka, held ég að allir þm. hafi heyrt að ég hafði rétt eftir, því að hann sagðist sjálfur hafa sagt þetta. Hann sagðist hafa meint allt annað en ég hefði lagt í orð hans, En ég held að það hafi ekki verið hægt að taka orð hans á annan hátt en ég gerði. „Þú skalt ekki hafa betra af því“, sagði hann, „að tala um Kröflumálið.“

Ég verð að undra mig á orðum hv. þm. Ingvars Gíslasonar, að telja að það hafi verið við alþfl.menn fyrir norðan sem börðumst harðast fyrir Laxárvirkjun. Honum á að vera ósköp vel kunnugt að aldrei hef ég setið í stjórn Laxárvirkjunar, en form. Laxárvirkjunarstjórnar, þegar orrustan stóð sem hæst um Laxárvirkjun III, var framsóknarmaðurinn Arnþór Þorsteinsson, sem ég veit ekki annað en allir akureyringar hafi metið að góðu einu og mér þykir furðulegt að hann skuli nú fá þetta bakslag sem hér var látið ríða, orðin sem Ingvar lét sér fara um munn varðandi baráttuna fyrir Laxárvirkjun III.

Mig grunar að hið órólega skap hv. þm. Ingvars Gíslasonar og hv. þm. Stefáns Jónssonar stafi dálitið af því að samviskan sé ekki góð. Ingvar Gíslason þorði aldrei að hafa skoðun í Laxármálinu — aldrei. (Gripið fram í: Er það vegna þess að ég var ekki á þinni skoðun?) Nei, ekki vegna þess, það var bara ómögulegt að fá neina skoðun fram hjá þm., hvorki með henni né móti. Það var gallinn á hans afstöðu. Það má þó virða Stefáni Jónssyni það til heiðurs að hann hefur verið með því að sprengja og sprengja og sprengja. Hann hefur vitað hvað hann vildi. En að þessu frádregnu og af þeim orðum,sem hann sagði hér áðan, hv. þm. Stefán Jónsson, þá get ég ekki frekar en hann alveg látið hjá líða að rekja það mál örlítið, þó að það verði í mjög stuttu máli.

Mér datt í hug, af því að hann er duglegur að vitna í fornar bókmenntir og nútímabókmenntir og ég veit ekki hvað og hvað, að það er til frásögn af því þegar einn af þeim, er stóðu að Njálsbrennu, var að skýra frá hvað gerst hefði í brennunni, — „og ló hann víða frá“, segir í Njálu. Það fannst mér koma gjarnan fram hjá hv. þm., hann ló víða frá, því að hann veit ósköp vel t.d. að það hafa aldrei verið settar neinar 55 mw. vélar niður í Laxá. Hann var að tala um að þar stæði vél sem gæti framleitt 55 mw., en væri látin framleiða 12. Slík vél var aldrei sett niður, — eða þær vélar áttu nú að vera a.m.k. tvær, ef ekki þrjár, ef ég man rétt, heldur var ein af þessum vélum sett niður sem framleiðir 7–8 mw., af því að stíflan var aldrei byggð. En það var ekki síðast deilt um stóru stífluna, sem Stefán sagði frá, heldur um það hvort mætti reisa 18– 20 m stíflu, og svo einkennilega vill til, að það er til samþykkt frá Búnaðarsambandi suðurþingeyinga þar sem mælt er með þessari stíflu, og formaður þeirrar stjórnar er Hermóður Guðmundsson í Árnesi sem síðar snerist gegn þessu. Hefði þessi stífla fengist, þá hefði mátt núna framleiða í Laxárvirkjun III, sem er ekki hálfbyggð, 19 mw. og við hefðum ekki þurft að hraða okkur eins í aðra virkjun og nú hefur verið gert.

Þá er það sprengingin mikla á stíflunni í Mývatnsósum. Þessi stífla var búin að standa svo árum skipti og enginn amaðist við. Það var ekki fyrr en „Finnagaldurinn“ í sambandi við Laxárvirkjun, sem var æst upp af ýmsum mönnum, eins og Stefáni Jónssyni og fleiri slíkum, hafði truflað svo geðró ýmissa manna í Suður-Þingeyjarsýslu, að þeir kjánuðust til að sprengja þessa stíflu. Ég hef enga trú á því að nokkurn tíma verði jafnað saman því að sprengja stífluna í Mývatnsósum og skemma þar með möguleikana á að fá betra rennsli um Laxá að Laxárvirkjun, — ég hef enga trú á því að því verði nokkurn tíma jafnað saman við það þegar þingeyingar sýndu þann manndóm að stofna með sér verslunarsamtökin sem seinna urðu að Kaupfélagi þingeyinga.

Bjartmar Guðmundsson, fyrrum þm. og bróðir Hermóðs í Árnesi, skýrir frá því í Árbók Þingeyinga sem kom út í haust, að hann sé sannfærður um að ef það færi fram kosning um það í Aðaldal, heimasveit sinni og heimasveit bróður hans, hvort reisa ætti þessa 20 mw. stíflu í Laxá svo að hægt sé að hafa fullt gagn af Laxárvirkjun III, þá mundu 80% af aðaldælum mæla með því að stíflan væri reist, og ég þekki það vel til í minni gömlu heimasveit, Reykjadal, að þar er varla til maður sem mælir gegn því að þetta væri skynsamlegt, og ég tala ekki um Akureyri og Húsavík.

Ég á að vísu ekki enn þá eða nú orðið heima á Laugum í Reykjadal eins og hv. þm. Stefán Jónsson. Ég veit að vísu ekki hvar hann á eiginlega heimili þar. Venjan er nú að menn telji sig til heimilis þar sem fjölskylda þeirra dvelur. En einhverra hluta vegna, og látum það liggja á milli hluta, þá telur hv. þm. sig eiga heima á Laugum í Reykjadal. Þar starfar hann ekkert. Þar hefur hann enga íbúð svo ég viti. Ég efast um að hann hafi nokkurt herbergi. Hann hefur kannske einhverja geymslu. En ég tel mig meiri reykdæling og þingeying heldur en Stefán Jónsson og vita betur hvað væri okkur fyrir bestu þarna fyrir norðan, og það er áreiðanlega ekki það að ekki fékkst að reisa 20 m stífluna í Laxá. Ég er enginn laxveiðimaður, og það er kannske að því leyti sem ég hef aldrei kunnað að sjá kúnstina við það að neita þeirri byggingu.

Ég skal nú ekki eyða fleiri orðum að þessu. Ég vildi aðeins senda nokkuð af því heim til föðurhúsanna sem að mér var rétt. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði í ræðu minni í fyrradag, að ég mælist til þess við Kröflunefnd og orkumrh. og Alþ. að það verði tekið tillit til hinna breyttu aðstæðna á Kröflusvæðinu, það verði tekið tillit til breyttrar markaðsaðstöðu og breyttra fjárhagshorfa frá því að þessi virkjun var upphaflega ákveðin, það verði reynt á ný að sníða virkjuninni stakk eftir vexti, miðað við þessar þrjár aðstæður, sem ég nefndi, og miðað við þær ábendingar, sem sérfræðingar okkar hafa dregið fram í dagsljósið undanfarið, og virkjunin verði látin ganga hægar fyrir sig svo að betri tími vinnist til orkusöfnunar, þ.e.a.s. borunar, betri tími til að kanna markaðinn, m.a. athuga hvort ekki sé hægt að finna einhverju iðnað sem gæti tekið hluta af hinu nýja Kröflurafmagni, kannske ylrækt, eins og er verið að segja frá í blöðunum í dag, eða eitthvað enn annað, og undir öllum kringumstæðum að sýna þá skynsemi og aðgæslu að semja fjárhagsáætlun bæði um framkvæmdina og reksturinn. Hér hefur verið bent á það hvílíkt vandræðafyrirtæki þetta er, sem hangir í lausu lofti bæði hvað framkvæmdaáætlun snertir, kostnaðaráætlun og svo loks rekstraráætlun þegar öllu er lokið.