09.04.1976
Sameinað þing: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3230 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

Skýrsla iðnaðarráðherra um Kröfluvirkjun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það vill nú svo til að ég er ekki alveg sammála þeirri orkumálastefnu sem þeir virðast hafa saman, hæstv. orkurh. og hv. þm. Stefán Jónsson, að virkjun á dag komi kerfinu í lag. Ég held nefnilega að þvert á móti þurfi að hafa gát á og aðlaga virkjanirnar eftirspurninni eftir orkunni, þannig að það haldist nokkurn veginn í hendur aukin eftirspurn og auknar virkjanir.

Það er svo sem ekki nýtt, eins og hæstv. orkurh. ræddi hér um áðan, að afskriftatími virkjana samræmist heldur illa þeim lánskjörum sem nú eru í boði. Þetta tók ég fram í ræðu minni fyrr í dag að er alveg rétt út af fyrir sig. Og sú skoðun hans er einnig alveg rétt, að það er ekki eðlilegt ástand á lánamörkuðum heimsins þegar ekki fæst hagkvæmara lán til virkjunarframkvæmda en 7 ára lán með 9.5% vöxtum. En þetta eru bara einfaldlega þær staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við. Og við getum ekki byggt virkjun í von um eitthvað sem kunni að bætast úr einhvern tíma seinna. Ef svo fer, sem vel getur verið, að takist að fá þessi lánskjör framlengd úr 7 árum í 15 ár, eins og Jóhannes Nordal telur að mest megi vona, — ef svo kann að fara, sem ég er alls ekki viss um, svo að maður tali nú ekki um það ef farið verður út á þá braut, sem hæstv. ráðh. var hér að lýsa, að leysa málið með því að borga þessi skömmu lán með öðrum lánum, — hvað kostar það til viðbótar? Hver verður þá vaxtabyrðin af slíkum ráðstöfunum? Það væri fróðlegt að fá að sjá. Eða halda menn að það kosti ekki neitt að konvertera slíkum lánum? Halda menn að það kosti ekkert fé að gera slíkar breytingar? Það væri mjög fróðlegt að sjá reiknað út hvað áætlað er að slík konvertering á lánum mundi kosta ef hún væri fáanleg, sem ég er alls ekki viss um.

Í þriðja lagi minntist hæstv. ráðh. réttilega á það að þegar rætt er um framleiðslukostnað á orku, þá er bara um að ræða reiknitölur, bara samanburðartölur sem verkfræðingar reikna út til þess að meta hagkvæmni tveggja ólíkra virkjana. En þessar kostnaðartölur, þessar samanburðartölur hafa bókstaflega ekkert með rekstur virkjunarinnar að gera að öðru leyti, eins og best sést á því að það er hrein firra að halda því fram að söluverð á orku verði eitthvað nálægt þessum útreiknaða framleiðslukostnaði. Þegar fyrir liggur að greiðslubyrðin á selda kwst. er 8.03 kr., þá er alveg fráleitt að halda því fram að hægt verði að selja orkuna eitthvað nálægt þessu útreiknaða viðmiðunarverði á framleiðslukostnaði orkunnar, sem er kr. 1.80. Það er gersamlega út í hött.

Það má einnig vel vera, sem hæstv. ráðh. segir, að það vanti tillögur sérfræðinga. Ég er nú ekki alveg sammála um það, vegna þess að hér liggja fyrir grg. bæði frá Orkustofnun og fimm sérfræðingum við þá stofnun þar sem mjög er varað við því að halda áfram að óbreyttum aðstæðum. Grg. Orkustofnunarinnar semja þeir Guðmundur Pálmason, Kristján Sæmundsson, Karl Ragnars, Axel Björnsson og Ingvar Birgir Friðleifsson. Auk þess bætast við 4 aðrir sérfræðingar Orkustofnunar sama sinnis. Þetta eru þeir menn sem hv. þm. Stefán Jónsson segir, að séu smádjöflar, — smádjöflar sem séu að veitast að þessum kentárum í Kröflunefnd, eins og hann lýsir þeim, og ríða þeim á slig. Þetta eru smádjöflarnir, og ég veit ekki betur en a.m.k. einn af þessum svokölluðu smádjöflum, sé flokksmaður hv. þm. og hafi flutt gagnrýni sína í málgagni þessa hv. þm., Þjóðviljanum.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að þó að ýmislegt hafi komið fram í þessum umr. er enn ósvarað öllum þeim meginspurningum sem komu fram frá mér, frá hv. þm. Braga Sigurjónssyni og frá hv. þm. Vilborgu Harðardóttur. Öllum þeim upplýsingum, sem við komum fram með og óskuðum skýringar á, er enn ósvarað. Við höfum spurt um hvort greiðsluáætlun hafi verið samin fyrir Kröflu og hverjar séu tölur hennar. Það hefur ekki komið fram enn, hvorki frá Kröflunefnd, sem hefur þó sent hingað fulltrúa upp í ræðustól í annað hvert sinn sem hér hefur maður talað, né heldur frá hæstv. ráðh., þannig að af þessu getum við ekki annað markað heldur en að engin greiðsluáætlun sé til. Við höfum spurt um rekstraráætlun fyrir þessa virkjun. Við höfum ekki fengið neitt svar við því. Hv. þm. Ragnar Arnalds var eitthvað að tala hér áðan um að það væri búið að reikna út þessar viðmiðunartölur sem hæstv. iðnrh. lýsti svo áðan að verkfræðingar notuðu sem samanburðartölur á hagkvæmni ólíkra virkjana. Þetta hefur ekki nokkurn skapaðan hlut með rekstraráætlun að gera — ekki nokkurn skapaðan hlut og er henni gersamlega óviðkomandi. Eða ætlast hv. þm. til þess að menn trúi því, að upphaf þessarar rekstraráætlunar miðist við það þegar virkjunin er komin í full not? Hver er rekstraráætlun fyrir árið 1977? Hver er rekstraráætlun fyrir árið 1978? Það er ekki gert ráð fyrir því að virkjunin sé komin í full not fyrr en árið 1980. Miðast upphaf rekstraráætlunar Kröflunefndar við árið 1980? Hefur engin rekstraráætlun verið samin fyrir árin 1977, 1978, 1979 og árið 1980? Eða ætla þeir sér ekki að byrja að framleiða orku frá Kröflu fyrr en hún getur framleitt þær 120 eða 130 gwst. sem hún á að skila á ári? Þetta er gersamlega út í hött. Þetta er engin rekstraráætlun. Það sér hver einasti heilvita maður.

Þá viku þeir hv. þm. Ragnar Arnalds og hæstv. iðnrh. einnig að því sem ég ræddi um stærð virkjunarinnar. Hv. þm. Ragnar Arnalds talaði um það hvaða máli skiptu 5 mw., þó að afl einnar virkjunar væri 5 mw. meira en Alþ. hefði samþykkt. Hvað munar um 5 mw. í allri orkuvímunni? Það verður bara eins og blóðmörskeppur í sláturtíðinni og menn ættu ekki einu sinni að hafa orð á svona smáræði. Þetta getur nú numið allt að 15 mw. sem farið er fram úr leyfilegri stærð þessarar virkjunar, og það er hvorki meira né minna en allt uppsett vatnsafl á Austfjörðum. Það er hvorki meira né minna, þessi blóðmörskeppur í sláturtíðinni, heldur en allt uppsett vatnsafl á Austfjörðum. Þetta telur hv. þm. að skipti ekki nokkru máli, engin ástæða til þess að gera aths. við slíka hluti, þó að engin heimild sé frá Alþ. fyrir að gera slíkt.

Ég verð að viðurkenna það fúslega að röksemd hæstv. ráðh. er miklu meira sannfærandi heldur en þessi, enda lá í hans orðum viðurkenning á því að ég færi með rétt mál um það að hér væri verið að fara fram hjá lögum, verið að brjóta lög, verið að vinna verkefni sem engin lagaheimild væri fyrir. Hæstv. ráðh. sagði að það væri enn tími til þess að kippa þessu í liðinn, vegna þess að ekki væri enn búið að setja niður síðari vélina. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., það er enn hægt að kippa þessu í liðinn með því að hækka heimildina í lögum. En hvað skeður ef Alþ. fellir slíka breytingu og búið er að festa kaup á vélinni til þess að framleiða allt þetta afl sem ekki er lagaheimild fyrir? Þá er ég ansi hræddur um að sú vél mundi þurfa að bíða nokkuð lengur í pakkhúsi norður á Húsavík heldur en áætlað er í dag, og hver ætti þá að borga það tjón sem af því hlytist. Í orðum hæstv. ráðh. lá sem sé viðurkenning á því að þarna væri rétt mat hjá mér, að lög hefðu verið brotin með þessari framkomu. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur þm.) Þetta er enginn misskilningur hjá mér.

Eitt verð ég þó að segja hv. þm. Jóni G. Sólnes til mikils hróss. Það er það, að auk þess að vera duglegur maður er hann mjög hygginn, því að það er vissulega hyggilegt, eins og á stendur, fyrir þá Kröflunefndarmenn að beita hv. þm. Ragnari Arnalds, formanni Alþb., fyrir síg hér á Alþ. og gera hann að helsta málsvara Kröflunefndar. Þetta er herbragð sem mundi vel hafa sæmt góðum hershöfðingjum, líkt og Napóleon sáluga, og ber þess vott að Jón G. Sólnes er meira en duglegur, hann er klókur líka.

Það var sagt í vetrarstríðinu milli rússa og finna, — svo að maður fari nú alveg rétt með og allir skilji við hvað er átt, þá er það styrjöldin sem hv. flokksbræður Ragnars Arnalds samþykktu að finnar hefðu ráðist á rússa — (Gripið fram í: Flokksbræður?) Rétt er það. Ég veit ekki annað betur heldur en þeir séu flokksbræður hv. þm. Ragnars Arnalds sem samþykktu þá skoðun að vetrarstríðið hefði hafist með því að finnar hefðu ráðist á rússa. En gott og vel. Það skilja allir við hvað er átt og við hvaða styrjöld er átt. En það gekk sú saga um þetta stríð að rússar hefðu stundað það að taka finnska stríðsfanga og binda þá framan á skriðdreka sína þegar þeir sóttu inn í Finnland, því að þá væru líkur til þess að finnsku hermennirnir, sem vildu verjast innrásinni, mundu ekki skjóta. Hv. þm. Ragnar Arnalds er slíkur stríðsfangi hv. þm. Jóns G. Sólness. Hv. þm. Jón G. Sólnes bindur formann Alþb. framan á skriðdreka sinn í því skyni einu, og það er klókt hjá honum, að koma í veg fyrir að hann lendi undir of mikilli skothríð frá einum stjórnarandstöðuflokknum, flokki hv. þm. Ragnars Arnalds. Sá er þó einfaldlega munurinn á, að þar sem rússar urðu að taka finnsku stríðsfangana með valdi, þá býður stríðsfangi Jóns G. Sólness síg fram af fúsum og frjálsum vilja.