26.04.1976
Efri deild: 90. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

73. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur hv. félmn. fjallað um. Frv. þetta kveður svo á að Húsnæðismálastofnun ríkisins skuli starfrækja eitt útibú frá stofnuninni á Vestfjörðum, á Norðurlandi tvö útibú og á Austurlandi eitt. Skulu útibúin veita alla sömu þjónustu og stofnunin sjálf veitir hvað snertir upplýsingar, teikningar og fyrirgreiðslu hvers konar. Í frv. er svo gerð nokkru nánari grein fyrir hlutverkum þessara útibúa.

Félmn. þótti hér hreyft merku máli, en taldi rétt að leita umsagnar hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins. Barst n. umsögn Húsnæðismálastofnunar ríkisins sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Um þessar mundir starfar n. sú að endurskoðun húsnæðislöggjafarinnar er félmrh. skipaði til þess á s.l. ári. Eðlilegast er að fjallað verði um framangreinda hugmynd um starfrækslu útibúa frá Húsnæðismálastofnuninni í tengslum við alla aðra umfjöllun húsnæðismálanna. Því vill húsnæðismálastjórn leggja til að meginefni lagafrv. þessa verði komið á framfæri við framangreinda n. og hún taki það þar til meðferðar ásamt öðrum þáttum húsnæðislöggjafarinnar. Stjórnin vill jafnframt láta í ljós þá skoðun, að komi til þess að Alþ. heimili stofnsetningu útibúa væri væntanlega æskilegast að samræmd yrði eða felld saman slík starfsemi fleiri ríkisstofnana, að svo miklu leyti sem það væri unnt og talið heppilegast. Að öðru leyti vill húsnæðismálastjórn taka fram í þessu sambandi, að hún telur nauðsynlegt að tækniþjónusta úti á landsbyggðinni verði aukin með einhverjum hætti.“

Ég sagði áðan að félmn. hefði þótt hér hreyft merkilegu máli, en n. komst að þeirri niðurstöðu að þó væri ekki rétt að rasa um ráð fram í þessu efni, heldur fara að þeim ábendingum sem húsnæðismálastjórn gaf n. og ég vitnaði til hér áður. Með tilliti til þessa er það till. félmn. að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. Einn nm., hv. 7. landsk., hafði fyrirvara á þessari afgreiðslu, en fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Eggert G. Þorsteinsson og Steingrímur Hermannsson.