06.11.1975
Efri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

45. mál, réttindi og skyldur hjóna

Flm. (Halldór Blöndal) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 49 að flytja frv. til l. um breyt. á l. um réttindi og skyldur hjóna. Í frv. er gert ráð fyrir að 2. tölul. 23. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna umorðist á þann veg að því sé slegið föstu að arfur, hvort sem hann er skylduarfur eða ekki, skuli vera séreign. En fram að þessu hefur verið ákveðið að arfur hvort heldur er skylduarfur eða ekki, sé hjúskapareign þess hjóna er erfir. Ástæðan fyrir því, að þessu frv. er hreyft, er sú að skilnaðir hafa farið mjög í vöxt og það hefur valdið því að minni hyggju að löggjafinn verður að taka til endurskoðunar þau ákvæði sem gilda um eignaframlag hjóna.

Ég hafði upphaflega hugsað mér að hafa frv. á þann veg að einnig skyldi vera séreign þær eignir sem hvort hjóna kæmi með inn í hjónaband, en féll frá því að athuguðu máli þar sem ég taldi að sú lagabreyting, sem ég hér legg til, sé meira virði.

Ég vil taka fram að samkv. núgildandi lögum er heimilt hvort heldur er í erfðaskrá eða í kaupmála að gera ráð fyrir því að arfur sé séreign, en ekki sameign hjóna. Reynslan hefur hins vegar sýnt að slík ákvæði, hvort sem eru í kaupmála eða erfðaskrá, eru mjög viðkvæm í augum fjölda fólks og því þykir sem með slíkum ákvæðum sé verið að varpa rýrð á alvöru sem sé á bak við stofnun hjúskapar. Þetta getur því valdið tortryggni eða sársauka í hjónaböndum, og ég veit dæmi þess að af slíkum ástæðum hefur niðurstaðan orðið sú að ekki hefur verið stofnað til séreignar af þessu tagi þótt fullur vilji hafi verið til þess af hálfu annars aðilans.

Ég legg áherslu á það, eins og hv. þdm. er kunnugt, að í venjulegu hjónabandi og undir venjulegum kringumstæðum skiptir að sjálfsögðu ekki máli hvort um séreign eða sameign er að ræða. Það hefur í flestum tilfellum eða yfirgnæfandi tilfellum engin áhrif á hjónabönd, hvorki til góðs né ills, heldur eru ákvarðanir um miklar eignatilfærslur teknar af hjónum báðum og um það ríkir samkomulag þeirra í milli. Þetta ákvæði er því í raun og veru því aðeins raunhæft að til hjónaskilnaðar komi, og ég held að það sé góð regla að hvor hafi sitt þegar menn slíta samvistir.

Eins og hv. þdm. er kunnugt er þessi löggjöf nú í endurskoðun á vegum Norðurlanda og íslensku fulltrúarnir í þeirri samræmingarnefnd hafa lagt fram till. sínar um hjúskaparlöggjöfina. Það hefur hins vegar dregist úr hömlu að þessi n. í heild skili áliti og af þeim sökum tel ég að ekki megi dragast lengur að þetta ákvæði sé tekið inn í lög. Ég tel a. m. k. nauðsynlegt að þetta mál fái skoðun og hið háa Alþ. geri sér grein fyrir hver sé stefna þess í þessum málum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Sú breyting sem hér er lögð til, er afskaplega einföld. Hún er að vísu mjög mikilsverð og ég vil því leyfa mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. allshn. og til skoðunar þeim aðilum sem þetta mál snertir, og þá fyrst og fremst þeirri samræmingarnefnd, sem fjallar um samræmingu á þessu sviði réttar meðal Norðurlandanna.