26.04.1976
Neðri deild: 90. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

112. mál, Lánasjóður dagvistunarheimila

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þar sem frsm. minni hl., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, sem skilaði sérálíti á þessu máli, er fjarverandi í opinberum erindagjörðum, þá vil ég lesa hér upphátt nál. hans, en hann leggur til að frv. verði samþ., og segir síðan í nál. hans, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalefni frv. er að afla fjár til byggingar dagvistunarheimila. Lagt er til að allir þeir, sem greiða vinnulaun og nú eru skyldir til að greiða launaskatt, greiði viðbótargjald sem nemi 0.25% af launaskattsstofni í þessu skyni. slíkt gjald mundi nema um 220–230 millj. kr. á ári.

Í frv. er við það miðað að gjald þetta renni í sérstakan Lánasjóð dagvistunarheimila undir yfirstjórn menntmrn. Lánasjóðnum er síðan ætlað það hlutverk að veita sveitarfélögum, sem hlotið hafa styrk úr ríkissjóði eða fengið samþykki fyrir styrk, viðbótarfjárstuðning til þess að koma upp dagvistunarheimilum.

Ljóst er að brýn þörf er á að styðja sveitarfélög til að koma upp dagvistunarheimilum. Bygging dagvistunarheimila er dýr og njóti sveitarfélögin ekki annars stuðnings en smávægilegra fjárveitinga á fjárlögum, eins og verið hefur, mun seint ganga að leysa það verkefni sem hér er um að ræða.

Í frv. er lagt til að atvinnurekendur greiði nokkurt gjald til stuðnings dagvistunarheimilum. Slík tillaga er eðlileg og sanngjörn. Með tilkomu dagvistunarheimila geta fleiri konur tekið þátt í hinu almenna atvinnulífi og yrði það að sjálfsögðu atvinnurekstrinum til góðs. Vegna skorts á vinnuafli í ýmsum greinum hafa atvinnurekendur þegar orðið að taka á sig nokkur útgjöld til þess að leysa dagvistunarvandamál, og sýnist því fullkomlega eðlilegt að lagt verði gjald á allan atvinnurekstur í því skyni að flýta fyrir byggingu dagvistunarheimila.“

Þannig hljóðar nál. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar.

Ég þarf ekki miklu við þetta að bæta. En það er ljóst af ræðu hv. frsm. meiri hl. að mótbárur þeirra eru yfirklór eitt. Þeir finna að því að stofnaður skuli sérstakur sjóður í þessu skyni og hann skuli eiga að heyra undir menntmrn. Það hefði vitanlega verið hægt að ná samkomulagi um að Lánasjóður sveitarfélaga hefði bæði stjórn og umsjón með úthlutunum úr þessum lánasjóði, ef um leið hefði verið tryggt að þetta fé hefði runnið til þessa verkefnis. En það er auðvitað höfuðskilyrði og höfuðtilgangurinn með stofnun sérstaks sjóðs. Við hefðum ekki getað tryggt það að sú upphæð, sem frv. gerir ráð fyrir, hefði runnið til þessa verkefnis, öðruvísi en að kveða á um sérstakan sjóð eða breyta lögum um Lánasjóð sveitarfélaga.

Meiri hl. n. hefur ekki gefið kost á neinu samkomulagi af þessu tagi, og það stafar vitanlega af því að höfuðandstaða þeirra er gegn frv., stafar af því að ganga á að atvinnurekendum um nokkurt fjárframlak til þessara mála. Í því er fólgin hin raunverulega andstaða.

Það er eftirtektarvert að þetta frv. var ekki sent Vinnuveitendasambandinu. Hefði verið sannarlega fróðlegt að heyra álit þess, þar sem, eins og raunar kom fram í máli hv. frsm. meiri hl., fjölmörg fyrirtæki eru þegar farin að greiða fé til bæði byggingar og rekstrar dagvistunarheimila, bæði ríki og einkaaðilar, og það gera þau vitaskuld af brýnni nauðsyn vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki staðið í stöðu sinni hvað framlög til þessara mála snertir og sveitarfélögin hafa ekki bolmagn til þess.

Eins og hv. alþm. vita, hljóp mikill fjörkippur í byggingu dagvistunarheimila þegar lög um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistunarheimila voru sett árið 1973. Þennan fjörkipp sjáum við á því, að á þeim þremur árum, sem liðin eru síðan, hefur verið sótt um stofnframlag til ríkisins til 49 nýrra heimila sem skiptast á 25 sveitarfélög. Á næstu fjórum árum mun ráðgert að taka í notkun 27 ný dagvistunarheimill. Áætlun menntmrn. var sú, að til stofnkostnaðar allra þessara heimila hefði þurft 165 millj. kr. Í fjárlögum þessa árs eru hins vegar ekki nema tæpar 70 millj., og það hafði í för með sér að engin ný dagvistunarheimili voru tekin á fjárlög á þessu ári. Þessi staðreynd ýtti undir bað að ég flutti þetta frv.

Meiri hl. fjh.- og viðskn. ber ekki við að neita því að fjárskortur standi þessum málum mjög fyrir þrifum. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson sagði að þetta væri eðlilegt verkefni sveitarfélaga, en þau verða þá að fá til þess fjármagn. En nú hefur hann enn einu sinni átt hlut að því að bregða fæti fyrir sveitarfélögin hvað þetta snertir og var ekki á bætandi hin „myndarlegu“ vinnubrögð ríkisstj. og stjórnarsinna sem viðhöfð voru hér fyrir jól og mönnum eru í fersku minni. Þau vinnubrögð hafa hlotið þann dóm hjá Páli Líndal. og vitna ég hér orðrétt í tímaritið Sveitarstjórnarmál þar sem Páll Líndal ræðir verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og m.a. dagvistunarmálin, en hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar ríkisstj. tók að sinna málefnum sveitarfélaganna var það með þeim hætti að þjarmað var að þeim fjárhakslega. Það hefur komið í ljós að hin fögru fyrirheit voru bara frasi í hefðbundnum stíl.“

Þetta voru orð Páls Líndals, og ég hygg að orð hv. þm. Ólafs G. Einarssonar áðan um, að þessu frv. væri vísað til ríkisstj. vegna þess að þeir treystu því að efldur yrði Lánasjóður sveitarfélaganna séu bara enn einn frasinn.