27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3252 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Fyrirspyrjandi (Ólafur B. Óskarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. landbrh. varðandi lánamál landbúnaðarins.

„1. Hve mikið fjármagn fær Stofnlánadeild landbúnaðarins til ráðstöfunar á árinu 1976?

2. Hvaða flokkar framkvæmda verða látnir sitja á hakanum um lánveitingar ef ráðstöfunarfé Stofnlánadeildar nægir ekki?

3. Hvað hyggst ríkisstj. gera til að auðvelda ungu fólki að hefja búskap.“

Um ástæður þess, að ég legg fram þessa fsp., er það fyrst og fremst að menn spyrja nokkuð gjarnan og eitthvað hefur þess gætt nú seinni part vetrar: Hvenær verður tekin ákvörðun um það hvort við fáum lán eða lán ekki? Þykir mörgum heldur seinar ákvarðanir í þessu efni. Nú er það svo að við núverandi efnahagsörðugleika hlýtur að vera nokkur skortur á lánsfé, og kemur það sjálfsagt niður á Stofnlánadeild landbúnaðarins og bændastéttinni eins og öðrum. En í ljósi þess hlýtur að vera mikið atriði að það sé tekin um það ákvörðun nokkuð fljótt og menn viti það hreint og klárt, hvort þeir geti farið út í framkvæmdir eða ekki, og eins er það gagnvart kaupfélögum og öðrum sem gjarnan lána mönnum út á byggingarreikninga með tilliti til yfirtöku á þeim lánum sem Stofnlánadeild veitir.

3. lið fsp.: Hvað hyggst ríkisstj. gera til að auðvelda ungu fólki að hefja búskap? — þá er það nú svo að mönnum hefur þótt það næsta lítið, þetta jarðakaupalán, lítils háttar, og nú upp á síðkastið einhver upphæð til kaupa á bústofni. En þetta er nú heldur lítið miðað við þá miklu fjármagnsþörf sem fyrir hendi er við stofnun búskapar. Ég held ég geri ekki frekari grein fyrir þessu að sinni og þakka fyrir.