27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3255 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil taka sérstaklega undir orð síðasta hv. ræðumanns um það að vitanlega er æskilegt að lánveitingar í landbúnaðinum stuðli beint að bættu skipulagi innan landbúnaðarframleiðslunnar. Það er rétt að taka það fram hér, að það er mikið áhyggjuefni okkar, sem í stjórn Stofnlánadeildarinnar eru, hversu slæmt fjárhagsástandið þar er.

Í fyrra varð þegar, eins og að var vikið í máli hæstv. ráðh., þá varð þegar að staldra verulega við í öllum framkvæmdum. Þá urðum við að svara nýjum umsóknum neitandi yfirleitt, og menn urðu að endurnýja sínar umsóknir þó að lánsloforð hefðu legið fyrir. Úr þessu tókst þó að mestu leyti að bæta þá, m.a. vegna þess að við svöruðum svo seint og menn voru sumpart hættir við og úr öðrum dró þessi neitun kjark.

Nú horfir þetta enn þá verr en í fyrra. Það er rétt, það er búið að svara af hálfu Stofnlánadeildarinnar umsóknunum, en þeim var svarað neitandi, bæði annars árs umsóknum sem og nýjum. Þó með þeim fyrirvara að bændur hefðu möguleika á að sækja aftur og yrðu þá að fá umsögn héraðsráðunautar varðandi það að framkvæmdin væri sérstaklega brýn.

En það alvarlegasta í þessu er það, að menn þurfa nú að endurnýja umsóknir sínar gagnvart lánsloforðum. Menn verða einnig að endurnýja umsóknir frá fyrra ári, og við sjáum ekki, ef þetta gerist fyrir utan nýframkvæmdirnar, þá sjáum við ekki möguleika á því að úr máli þessara manna verði hægt að leysa. Það er blátt áfram ekkert fé til þess í Stofnlánadeildinni í dag að sinna hvorki þeim umsóknum, sem lánsloforð lágu fyrir í fyrra, en ekki voru nýtt, eða annars árs umsóknum. Þetta er alvarlegasta málið.