27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3257 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en það vill svo til að ég er varamaður í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins og bankaráði Búnaðarbanka Íslands, og hittist þannig á að ég sat á síðasta fundi bankaráðsins þar sem fjallað var um málefni Stofnlánadeildar. Þar var einmitt tekin ákvörðun um takmarkanir á lánveitingum til stórra framkvæmda sem hv. þm. Páll Pétursson kvartaði mjög um að ekki hefðu komist í framkvæmd. Eins og hæstv. ráðh. hefur hér sagt, þá orkar auðvitað mjög tvímælis hve langt á að ganga í þessum efnum, en ákvörðun deildarinnar var sú að miða lánveitingar við um það bil 10 milljóna framkvæmd eða sem svaraði 500 kinda fjárhúsi ásamt áburðarkjallara og tilheyrandi heygeymslum, eða 35 kúa fjósi ásamt eðlilegri aðstöðu fyrir geldneyti, mjólkurhús, áburð og fóður.

Ég verð að segja það, að ég tel það nokkuð svo harða kosti að þurfa að takmarka lánveitingar svo sem hér hefur verið greint frá. En þegar fjármagn skortir svo mjög sem nú er raun á um Stofnlánadeild landbúnaðarins og raunar ýmsa aðra fjárfestingarlánasjóði, þá er ekki um góða kosti að tefla.

Ég tel t.d. að fjósbygging fyrir 35 kýr sé lítið yfir það lágmark sem eðlilegt er að byggja fjós — það er lágmark — og raunar sé tæplega um það að tefla að byggja fjós eins og nú er í dag fyrir minna en 30–40 kýr vegna þess hve tæknibúnaður við mjólkurframleiðslu er orðinn dýr og viðamikill og smákúabú geta ekki undir þeim tæknibúnaði risið. Þess vegna eru þessi mörk, sem þarna eru sett, að mínum dómi það lægsta sem nokkur leið er að fara.