27.04.1976
Sameinað þing: 80. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3258 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

246. mál, lánamál landbúnaðarins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. landbrh. að eigið ráðstöfunarfé Stofnlánadeildar landbúnaðarins muni verða 250 millj. á þessu ári, en lánsfé, sem deildin tekur til sín, 950 millj. Af þessu er ljóst að Stofnlánadeildin, eins og raunar aðrir fjárfestingarlánasjóðir, þó hún kannske öllu meira en sumir aðrir, verður að treysta mjög á aðfengið fé, lánsfé. Og hún hefur fengið lánað fé frá Framkvæmdasjóði Íslands. Framkvæmdasjóður er einnig þannig í stakk búinn að hann á lítið eigið fjármagn til útlána og verður að taka lán til starfsemi sinnar, og hann hefur gert það á undanförnum árum með fernum hætti: Í fyrsta lagi lánar hann örlítið af eigin fé, sem er 150 millj. á þessu ári. Í öðru lagi hefur hann tekið að láni sem svarar 10% af innlánsaukningu hjá bankakerfinu í landinu. Í þriðja lagi hefur hann tekið erlend lán. Og í fjórða lagi lán frá lífeyrissjóðunum í landinu.

Nú er alveg sýnilegt, að á næstu árum þrengist mjög um lántökur erlendis frá til framkvæmda innanlands. Í öðru lagi er verið að gera þær breytingar á lífeyrissjóðakerfinu nú að í stað svokallaðs uppsöfnunarkerfis verður tekið upp gegnumstreymiskerfi sem gerir það að verkum að lífeyrissjóðirnir liggja með miklu minna fjármagn til útlána heldur en verið hefur. Þess vegna er það alveg augljóst að mál standa þannig á næstunni — ég vildi segja næstu árum, að þær aðferðir, sem hafa verið nýttar til þess að safna saman fé til útlána til uppbyggingar, ekki aðeins hjá landbúnaðarsjóðunum, heldur öllum fjárfestingarlánasjóðunum, þær aðferðir verða ekki notaðar í þeim mæli sem gert hefur verið hingað til, sýnist mér.

Mig langaði til þess að koma þessum einföldu staðreyndum á framfæri til íhugunar fyrir hv. alþm. Ég sé ekki fram á annað heldur en það verði að leita nýrra leiða til þess að tryggja nægilegt fjármagn til uppbyggingar atvinnuvega landsmanna á næstu árum.