27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3265 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Varðandi það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði, þá hefur hann greinilega ekki hlustað nægilega vel á framsöguræðu mína, þegar ég ræddi um það að auglýsingar þyrftu ekki ætið að vera af hinu vonda. Auglýsingar geta verið upplýsandi og þær geta verið mjög gagnlegar og eru það oft og tíðum, ef þær eru þess eðlis að þær skýra væntanlegum neytanda frá því hvað raunverulega felist í því sem verið er að selja. Það er ekkert einstakt fyrirbrigði, að auglýsingar þekkist bara í hinum vestræna heimi eða í heimi kaupmennskunnar, eins og hv. þm. mundi væntanlega segja þegar hann talar um okkar þjóðfélag og vestrænar þjóðir. Ég þekki það vel til annars staðar, að jafnvel í hinum austræna heimi eru auglýsingar notaðar í stöðugt ríkari mæli, ekki til þess að þjóna versíunarauðvaldi þess þjóðskipulags, þar á það vist ekki að þekkjast. Þar er öðruvísi valdastétt og önnur valdaskipting en hér þekkist. Þar öðlast menn völdin með öðrum hætti, en kannske með einhverjum tilstyrk peninga, sem ég vil neita að eigi sér stað í lýðræðisríkjunum. En það er annað mál. En jafnvel í þessum ríkjum, sem ég ætla nú ekki að fara frekar út í, tíðkast það mjög að auglýsingar séu notaðar í fagtímaritum og jafnvel í dagblöðum sem flytja yfirleitt einhliða málflutning. Maður sér þar auglýstar vörur eins og t.d. bifreiðar, svo að nokkuð sé nefnt, keramik, jafnvel silfurmuni o.s.frv. Ég hef ekki komið t.d. á stærri vörumarkað heldur en vörumarkað í Austur-Evrópu svo að dæmi sé nefnt. Þar er ekkert til sparað við að ganga frá auglýsingaspjöldum eða alls konar áróðursstarfsemi til þess að láta væntanlega kaupendur eða kaupahéðna heimsins vita hvað þeir hafa að bjóða. (Gripið fram í.) Ég er aðeins að upplýsa hv. þm. um að þetta er nauðsynlegt í nútímaþjóðfélögum, hvort sem það er í austri eða vestri. En ef menn vilja hverfa til dalarómantíkur hv. þm. norður í Þingeyjarsýslu, þá er það auðvitað velkomið. En ég er ansi hræddur um að íslendingar eða aðrar þjóðir, sem eru komnar á það neyslustig eða lífskjarastig, sem við erum komnir, mundu ekki sætta sig við það. Þá mundi hjólið snúast of hægt. Við erum nú í þessu starfi okkar sem þm. til þess að hjálpa fólkinu og vinna með fólkinu þannig að verkaskipting geti fengið notið sín, og í þeirri verkaskiptingu, sem fólkið gerir kröfu til, er auglýsingin nauðsynleg. Hins vegar tók ég skýrt fram í framsöguræðu minni í sambandi við sjónvarpsauglýsingar að þær geta verið mjög hættulegar, og þær eru í eðli sínu hættulegar ef þær eru misnotaðar, sérstaklega fyrir lítil þjóðfélög eins og hið íslenska, sem er opið. Það er opið í eðli sínu. Hvað sem líður viðskiptasamningum eða viðskiptasamböndum, þá er íslenskt þjóðfélag opið og þannig höfum við viljað hafa það. Þess vegna erum við nú komin þar sem við erum í menningarlegu tilliti að mínu áliti og efnahagslega einnig. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að gera sér grein fyrir því að sjónvarpsauglýsingar, sem eru hannaðar úti í hinum stóra heimi, hvort sem er af fjármagnssterkum fjölþjóðafyrirtækjum eða ríkisfyrirtækjum sem hafa ótakmörkuð fjárráð, en þau þekkjast mörg bæði í Vestur-Evrópu og svo ekki síður í Austur-Evrópu, — þá er nauðsynlegt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því að við verðum að setja einhverjar ákveðnar takmarkandi reglur um það hvernig þessir aðilar eða umboðsmenn þeirra hér geta hagnýtt íslenska sjónvarpið. Þetta kæmi auðvitað einnig til greina gagnvart íslenskum aðilum. Það eru til fjármagnssterkir aðilar hérlendis sem vegna þess skipulags og þeirrar verndar, sem fyrirtæki þeirra njóta, geta í krafti þess haft gífurleg áhrif með sjónvarpsauglýsingum.

Ég sagði í minni framsögu að það kæmi til greina að setja reglur sem væru fólgnar í því að takmarka birtinga slíkra auglýsinga, þ.e.a.s. tíðni þeirra og tímalengd, og jafnvel kæmi til greina að skoða hvort textar hentuðu því þjóðfélagi sem hér um ræðir, íslenska þjóðfélaginu. Þetta þekkist erlendis, eins og ég gat um áðan. Þar er sjónvarp ekki galopið fyrir auglýsingum.

Um það, að ég tali hér endilega sem sérstakur fulltrúi iðnrekenda, þá tala ég hér sem þm., og ég vek athygli á því að hér eiga fleiri hagsmuna að gæta en iðnrekendur einir út af fyrir sig. Íslensk iðnfyrirtæki eru í eigu fleiri aðila en einstaklinga. Ég veit ekki betur en norður á Akureyri sé blómlegur iðnaðarbær sem hefur verið byggður upp m.a. af samvinnuhreyfingunni. Þar er öflugur iðnaður. Svo þekkjum við það fyrirbæri líka á íslandi, að iðnfyrirtæki eru í eigu hins opinbera, sem ég er ekki neinn sérstakur aðdáandi að. En ég leyfi mér að tala hér sem íslendingur varðandi þá atvinnugrein sem mér er umhugað um að eigi eftir að eflast og dafna á Íslandi í framtíðinni. Þá tala ég um íslenskan iðnað, ekki endilega stóriðju, heldur frekar um smærri iðnað sem getur bæði þróast með tilliti til innlends markaðar og svo væntanlega með tilliti til möguleika á erlendum mörkuðum.

Ég held að það sé íslendingum brýn nauðsyn að iðnaður verði efldur í landinu og það sem fyrst. Ef það reynist rétt sem fiskifræðingar spá, að fiskstofnarnir séu jafnilla staddir og þeir segja í sínum skýrslum og því miður ýmislegt bendir til, þá er mikil þörf á því að hv. alþm. skoði alla möguleika til þess að efla íslenskan iðnað og að reynt verði að koma í veg fyrir það að samkeppni í gegnum sjónvarp lengi slík fyrirtæki að velli. Ég tala hérna sem íslendingur og vegna þeirra þúsunda starfsmanna sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við iðnþróun framtíðarinnar.

Ég er ekki sammála hv. 5 þm. Norðurl. e. að það eigi ekki að gera greinarmun á erlendum og innlendum auglýsingum. Ég geri mikinn greinarmun á því. Það er ólíku saman að jafna hvað erlend stórfyrirtæki hafa yfir miklu meira fjármagni að ráða til þess að útbúa sínar auglýsingar heldur en íslenskir aðilar, hvort sem það eru iðnrekendur eða aðrir sem þurfa að auglýsa. Við vitum að íslensk fyrirtæki hafa yfir takmörkuðu fjármagni að ráða til auglýsingagerðar, en ég tek undir það; sem hv. þm. Sigurður Blöndal sagði áðan, að margar íslenskar auglýsingar eru til fyrirmyndar. Þær eru vel gerðar og þær eru öfgalausar og yfirleitt reynast þær sannari en margar af þeim erlendu auglýsingum sem birtast í okkar sjónvarpi.