27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3267 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það var nú ekki meining mín satt að segja að taka sérstaklega þátt í þessum umr., en samt finnst mér rétt, eftir að hafa hlustað á umr., að taka aðeins til máls um þetta. Ég held að þessi till., sem hér liggur fyrir, sé allra góðra gjalda verð og það sé rétt að samþ. í megindráttum það sem hún fjallar um, en það er að láta gera athugun á áhrifum auglýsinga erlendra fyrirtækja í íslenska sjónvarpinu á samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda. Ég held að það væri aldrei nema til bóta að slík athugun væri gerð. En hitt held ég líka að komi til greina, að skoða hvort það sé ekki ástæða til þess að meta almenn áhrif sjónvarpsins á þjóðlífið. Ég held að það fari ekki milli mála að sjónvarpið er gífurlega áhrifamikill fjölmiðill og er kannske á borð við alla aðra. fjölmiðla í landinu, blöðin og allan, annan skoðana- og umræðuvettvang í landinu, og ég held að það sé kominn tími til þess að athuga hvaða áhrif þessi vettvangur hefur á skoðanamyndun fólks og hvernig þetta fyrirtæki ríkisins er yfirleitt rekið.

Ég hef áhuga á því sem sagt að slíkar almennar athuganir séu gerðar. Það þarf ekkert að liggja á bak við það annað en að vita eitthvað um þessa hluti, eins konar fræðileg skoðun, því það hefur gildi að gera slíkt. En ég efast um að það sé endilega þörf á því að taka út úr alveg einstaka þætti. Það er ágætt að þetta sé gert sem hér er lagt til, en ég held að sú athugun sem gera mætti á starfsemi sjónvarpsins mætti vera miklu viðtækari heldur en gert er þarna ráð fyrir í þessu tilliti:

Annars er það svo um mig, að ég álít að það skipti miklu máli hvaða möguleika íslenskir framleiðendur hafa til þess að kynna sína vöru. Ég tel að það skipti okkur ákaflega miklu máli, því ég tek alveg undir það, sem hv. síðasti ræðumaður var að segja áðan, flm. þessarar till., að vitanlega er það meginmál fyrir okkur að byggja upp íslenskan iðnað. Það er gífurlega mikið hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina að við förum að byggja upp framtíðariðnað og koma okkur niður á það hvernig við ætlum að haga honum. Og ég hygg að það sé alveg ljóst að við munum ekki fara þá leið, ef til farsældar á að horfa, að byggja á erlendri stóriðju eða á miklu og nánu samstarfi við erlenda fjármagnseigendur. Við eigum auðvitað að byggja upp okkar eigin iðnað. Það getum við sannarlega gert ef við leggjum eitthvað á okkur til þess, og e.t.v. er einn þátturinn sá að gefa okkar iðnrekendum og þeim, sem um iðnað fjalla, tækifæri til þess að kynna sín mál sem best, hvort sem það er nú gert í formi auglýsinga eða á annan veg.

En ég vildi koma þessari aths. að, og þó að gott sé að kanna einstaka þætti í starfsemi og efnisflutningi sjónvarpsins, þá held ég að hitt sé fullt eins nauðsynlegt, að við gerum okkur almenna grein fyrir því hver áhrif sjónvarpsins eru og hver staða þess sé, t.d. miðað við aðra fjölmiðla í landinu. Ég held að það sé mjög gagnlegt fyrir okkur að vita þetta og það verði sérstaklega gagnlegt fyrir okkur alþm. að vita þetta. Sjónvarpið er partur af þjóðlífinu, og slík könnun getur e.t.v. komið í veg fyrir það að við höfum uppi ýmsa sleggjudóma gagnvart þessari stofnun, en verði til þess að við fáum réttari mynd af starfseminni, og það tel ég vera ákaflega mikilvægt, því hér er um mikilvæga þjóðfélagsstofnun að ræða.

En sem sagt, mér finnst að það sé rétt að þessi till. fái hér þá athugun í þinginu sem ber, en vel gæti ég hugsað mér að útfæra efni þessarar till. meira en gert er ráð fyrir.