27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2705)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Það er ákaflega ríkt hjá mönnum að vilja hafa forsjá fyrir einstaklingunum og það virðist eiga töluverðu fylgi að fagna hér á landi að banna þetta og banna hitt. Ég hélt satt að segja að þeir aðilar, sem standa að þessari till.; væru í hópi þeirra manna sem treystu einstaklingunum öðrum betur til þess að mynda sínar skoðanir og þeim væri ekki nein sérstök hætta búin þó að þeir sæju eitt og annað, hvort það væri í sjónvarpi, blaði eða annars staðar. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég er mjög andvígur þeirri stefnu sem kemur fram í þessari þáltill. Sem betur fer erum við ekki lokað land, svo að ég sé ekki fyrir hvaða leka yrði skrúfað þó að það yrði farið að banna að auglýsa erlendan varning í sjónvarpinu meðan allt úir og grúir og flæðir yfir landið af erlendum tímaritum. Enn þá er þó frjálst að kaupa erlend tímarit sem eru full af auglýsingum um þetta og annað og hitt.

Svo skulum við ekki gleyma því, að hér er um góða tekjulind fyrir Sjónvarpið að ræða þar sem er greiðsla fyrir slíkar auglýsingar, og sannarlega sé ég ekki eftir því þó að það komi dollarar, mörk eða pund fyrir slíka hluti. Í þessu sambandi vil ég einnig benda á að svo hvimleiðar hafa orðið sumar auglýsingar einmitt um erlendan varning í sjónvarpinu, að ég held að þær hafi verkað alveg öfugt. Get ég bara sem dæmi nefnt þetta með Johnson-barnið, ég held að það hafi verkað þannig að síendurtekning þeirrar auglýsingar hafi ekki aukið áhuga manna á að kaupa þá vöru. Menn voru orðnir svo þreyttir á þeim endurtekningum að það var að mínu mati algjörlega unnið fyrir gýg, en ég vil alls ekki láta stofnunina missa af þeim tekjum sem þar var um að ræða. Þetta getur verið til athugunar, og ég held að íslenskum iðnaði sé hægt að gera margan betri greiða og veita honum hagkvæmari stuðning heldur en endilega að fara að amast við því að varningur sé auglýstur í sjónvarpinu.

En úr því að ég er kominn hér í ræðustól og farinn að ræða um sjónvarpsauglýsingar, þá vildi ég gjarnan vekja athygli á því að ég tel ákaflega miður farið að það var einhvern tíma samþ. hér á hinu háa Alþ. bann við að auglýsa í sjónvarpi og fjölmiðlum tóbak og áfengi. Ég álít að þetta sé ákaflega hjákátlegt og þjóni engum tilgangi. Þarna, eins og ég sagði áðan, er sama röksemdafærsla fyrir því, að maður opnar ekki svo tímarit og annað að það sé ekki allt fullt af auglýsingum og sumum reglulega fallegum auglýsingum þar sem er verið að auglýsa áfengi og tóbak. Og ég segi fyrir mitt leyti: Ég er svo ágjarn í erlenda gjaldeyrinn að ég hefði ekkert á móti því að þetta væri leyft og vildi gjarnan stuðla að því að þeim hömlum, sem hafa verið á því að birta auglýsingar um þennan varning í opinberum fjölmiðlum, yrði hið bráðasta hrundið. Gagnvart þessum hættulegu áhrifum, sem vissulega eru um ofnotkun tóbaks og áfengis, þá vil ég bara benda á það, að ég veit ekki nema snoturlega útfærð auglýsing, þar sem sýnt er á menningarlegan hátt, hvernig fara á með áfengi, geti beinlínis þjónað uppeldislegum tilgangi þannig að hún geti verkað sem lærdómsrík kennsla fyrir almenning hvernig hann á að umgangast og meðhöndla þessa mjög svo eftirsóttu vöru.