27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (2707)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Sjálfur notaði ég alls ekki orðið verslunarauðvald, og kann kannske á nokkuð að vita að hv. þm. Karvel Pálmason skuli virkja á þennan dýrðlega hátt misminni eða misskilning hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar. Ég er ekki þeirrar skoðunar og fagna því að fá tækifæri til þess að leiðrétta það ef fleiri hafa skilið orð mín svo að ekki eigi að búa betur að íslenskum iðnaði og að ekki eigi að vernda hann fyrir óheilbrigðri, miskunnarlausri samkeppni erlendra auðfélaga. Ég hef verið þeirrar skoðunar frá upphafi, og ég vil aðeins rifja upp fyrir hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að þar skildi nú á milli feigs og ófeigs, að þm. Alþb. stóðu gegn inngöngunni í EFTA meðan flokkur hans fylkti sér einhuga um hana, þar sem svo var um hnútana búið að íslenskur iðnaður skyldi standa jafnfætis erlendum iðnaði um markaðinn hér innanlands. Og það eitt er víst, að ef hin smáu innlendu iðnfyrirtæki standa halloka í auglýsingasamkeppninni um vörur sínar, þá munu þau einnig fara halloka í samkeppninni um lágt vöruverð og um önnur þau atriði sem til greina koma þegar keppt er um þennan markað okkar hér innanlands.

Ég hygg, að við séum flest sammála um það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði um nauðsyn þess yfirleitt að efla innlendan iðnað. En ég vil aðeins, af því að hann minntist á íslensku fiskstofnana í þessu sambandi og hörmulegt ástand þeirra, vekja athygli hans á því að nú innan nokkurra daga er hægt að bæta stöðu íslenska sjávarútvegsins alveg stórlega, þannig að hann geti tekið við nokkrum þúsundum manna til viðbótar í sína þjónustu, með því að láta renna út, eins og heitið var í umr. í desembermánuði s.l., samninginn sem heimilar þjóðverjum að taka 60 þús. tonn af fiski á miðunum okkar hérna. Svo hörmulega er ástatt um íslensku fiskstofnana að slíkt væri ákaflega æskilegt til þess að við gætum tekið örlítið meira af fiski, svo við gætum útvegað fleira fólki starf við vinnslu úr fiskinum okkar, en úr nauð íslenskra fiskstofna verður varla bætt með þessari þáltill. hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar með skjótum hætti.