27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal með ánægju taka það að mér að vera fulltrúi þess íslenska auðvalds, sem kom hér til umr. áðan, sem varaformaður Verslunarráðsins, ef einhver auðmaður skyldi nú leynast í röðum verslunarstéttarinnar. Hún hefur nú verið það aðþrengd undanfarið að ég skil ekki að það sé auðvelt að finna auðmenn innan hennar. En um till. sjálfa, sem liggur hér fyrir sem 51. mál, vil ég segja það, að hún felur í sér vissar hættur fyrir flm. sem ég vil leyfa mér að benda á, en ég vil þó lýsa samstöðu minni með flm. um að láta athuga eða láta könnun fara fram um samkeppnisaðstöðu innlendra framleiðenda við erlenda um auglýsingamarkaðinn hérlendis.

Í seinni hluta till. segir með leyfi hæstv. forseta: „Leiði sú athugun í ljós að innlendri framleiðslu kunni að vera hætta búin vegna ótakmarkaðs aðgangs erlendra fyrirtækja að auglýsingatíma sjónvarpsins.“ Mér skilst að flm. meini að takmarka beri meira en gert er þann auglýsingatíma sem erlendir aðilar, erlendir framleiðendur hafi í sjónvarpinu, þá í skjóli peningagetu sinnar. Ég er sammála því að íslenskur iðnaður, ef hann er hér sérstaklega til umr., — ég er þó ekki á því að hann sé sérstaklega til umr., þó að fyrrv. formaður Félags ísl. iðnrekenda sé flm. till., það er íslensk framleiðsla almennt sem vernda á og hún er á svo mörgum sviðum. Ég tel það ekki innlendan iðnað þó að það sé blandað hér tveimur efnum saman eða lögur settur á flösku. En seinni hlutinn af þessari grein er svona: „Skulu gerðar till. um, hvernig tryggja megi að sjónvarpið þjóni fyrst og fremst hagsmunum íslensku þjóðarinnar.“ Hverjir eru hagsmunir íslensku þjóðarinnar nema að framleiðendur, sem framleiða bestu vöruna og kannske þá ódýrustu um leið, komi því á framfæri svo að íslenska þjóðin geti fengið góðar vörur fyrir lítið verð, og þá er sama hvort það er innlend eða erlend framleiðsla? Þarna vil ég vara við, vegna þess að ég held að það sé visst aðhald fyrir íslenskan iðnað að góðar erlendar vörur séu á markaðnum, þótt ég sé sammála að það beri að gæta þess að með fjármagni, sem útlendingar hafa fram yfir íslenska aðila, nái þeir ekki einhvers konar einkarétti í skjóli fjármagns á auglýsingatíma sjónvarpsins. En ég vil ekki taka samkeppnina frá innlendum framleiðendum, og ég efast um að íslenskum iðnaði yrði nokkur greiði gerður með því.

Ég fagna því ávallt þegar hv. 5. þm. Norðurl. e. tekur til máls. Hann er eins og ferskur blær komi úr öðrum heimi, menn geta giskað á það hvort hann kemur ofan frá eða ekki, en alla vega er það annar blær en maður heyrir hér oft. Ég er honum afskaplega ósammála um það að verslunarauglýsingar í ríkisfjölmiðlum séu siðleysi, þar er ég honum afskaplega ósammála. Ég hef ekki séð eða heyrt í ríkisfjölmiðlunum auglýsingu sem er siðlaus. Það getur verið að það hafi farið fram hjá mér, ég skal ekki útiloka það. En fyrri parturinn af þessari fullyrðingu hans vekur athygli mína og það eru verslunarauglýsingar í ríkisfjölmiðlum. Og þá erum við komin að því. Hvers vegna er hérlendis ekki starfrækt annað en ríkisfjölmiðlar? Hvers vegna er ekki hægt að reka hér fjölmiðla án þess að hafa ríkisrekstur á þeim? Ég er þá að tala um sjónvarp og útvarp, eins og ég tók fram áðan. Ég tel ekki að það sé frjálst land sem hefur eingöngu ríkisfjölmiðla til þess að koma á framfæri því sem þarf að koma áleiðis til þjóðarinnar. Það er komið í ljós að Alþýðusambandið er mér sammála samkv. fréttum undanfarna daga. Ef Alþýðusambandið sjálft hefði fengið að reka sína fjölmiðla, Alþýðusambandið sem ég álít að sé það mesta auðvald sem við eigum á Íslandi, hefðu forráðamenn þess ekki kvartað undan yfirgangi ríkisins og einkum sjónvarpi og útvarpi. Ég ætla að taka það fram líka að það er ekki í Verslunarráði Íslands, svo að ég „representera“ það ekki.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. vildi banna allar auglýsingar og kallaði þetta samkeppni um braskmarkað. Sumir þekkja braskmarkað, sumir kalla það svartamarkað. Ég þekki hann ekki og enginn af mínum kollegum í Verslunarráði Íslands þekkir hann. En þegar við ræðum á Alþ. um samkeppni um markaði, þá er það hinn frjálsi markaður, þar sem hinar viðurkenndu atvinnugreinar lands og þjóðar keppa um að koma á framfæri framleiðslu sinni, þannig að mér finnst tal um braskmarkað ekki eiga að eiga sér stað í umr. um þessa till. til þál. Hún gefur ekki tilefni til slíks.

Hv. 6. landsk. þm. byrjaði ræðu sína á því að rekja sögu auglýsinga allt frá því að kallarar voru notaðir í fornöld og fram til þessa dags, það mikið heyrði ég af hans ræðu. Mér skildist á máli hv. 5. þm. Norðurl. e., að hann vildi afnema allar auglýsingar, og ég gat ekki betur skilið en hann vildi fara aftur til þeirra tíma sem flm. vitnaði til í upphafi máls síns, sem sagt að Ísland ætti þá að nota kallara bæði innanlands og erlendis til þess að segja fólki að við framleiðum ágætis fisk sem það ætti að borða. Ég hefði gaman af því að mála þá mynd svolítið betur. Við höfum sendiherra víða um lönd. Ég ætla ekki að rekja þá sögu, en hver og einn getur ímyndað sér hvaða stórkostlega verkefni biði sendiherra íslensku þjóðarinnar á erlendri grund.

Ég vil segja það að íslenskur iðnaður hefur tekið gríðarlega stór framfaraspor síðustu árin. Það er ekki oft sem ég fer oftar en einu sinni á vörusýningu, en ég hef farið tvisvar sinnum á þá húsgagnasýningu sem nú er í Laugardalshöllinni hér í höfuðborginni. Ég verð að segja að miðað við þær sýningar, húsgagnasýningar, sem ég hef séð erlendis, þá gefur framleiðslan íslenska erlendri framleiðslu ekkert eftir. Og það er áreiðanlega markaður erlendis fyrir þær vörur sem þar eru sýndar, enda kom fram í samtölum mínum við marga af þeim framleiðendum, sem þar eru að kynna sínar vörur, að þeir eru á leiðinni með sýnishorn af framleiðslunni til útlanda þessa stundina. Þar komu meira að segja fram djarfar hugmyndir og útfærslur á íslensku hugviti sem ég hef ekki séð annars staðar, og á ég þar við sérstakan framleiðanda sem ég kæri mig ekki um að nefna hér. En ég fann mig knúinn til þess að leita uppi hönnuðinn til þess eins að óska honum sérstaklega til hamingju með þá dirfsku sem hann sýndi þar í útfærslu og framleiðslu.

En það er annað sem er kannske enn þá alvarlegra, að við sköpum þessum íslenska iðnaði alls ekki þau samkeppnisskilyrði að hann geti verið samkeppnisfær í verði, vegna þess að t.d. á þessu sviði, sem ég er nú að tala um, húsgagnaiðnaði, eru tollar af fullunninni erlendri vöru þeir sömu og á innflutta hráefninu til smíða, en hráefni ber 10%, að mér var sagt, meiri innflutningsgjöld, 35% + 14%, heldur en fullunnin erlend vara. Og þar komum við að kjarna málsins sem ég vil leggja áherslu á. Ég tel það vera hlutverk Alþ. og verkefni okkar allra að sjá svo um að íslenskur iðnaður fái sitt hráefni, ef ekki tollfrjálst, þá a.m.k. á það vægum innflutningsgjöldum að þau verði samkeppnisfær við erlendar vörur. Ég skal viðurkenna að þessi till. á fyllilega rétt á sér, þótt ég sjái í henni vissar hættur sem ég er þegar búinn að vara við. En áður en ég lýk máli mínu þykir mér hlýða að lýsa því yfir að ég mun standa að samþykkt þessarar till., þótt bann við auglýsingum erlendra aðila komi ekki til greina.