27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3278 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

216. mál, vinnuvernd og starfsumhverfi

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Mál það, sem hæstv. forseti hefur tekið á dagskrá, flutt af þm. Alþfl., fjallar um vinnuvernd og starfsumhverfi og er að okkar hyggju stórmál fyrir allt vinnandi fólk, — mál sem við leggjum hér fram í þessu formi í fyrsta skipti þó að alllangur aðdragandi sé varðandi vinnuöryggi. Við teljum að þetta mál muni hafa mikil áhrif á kjarabaráttu vinnandi fólks á komandi áratugum og að miklar umbætur verði fyrir það gerðar á þessu sviði. Hins vegar sé ég, herra forseti, ekki ástæðu til þess að flytja langa ræðu um þetta mál þar sem aðeins 4 þm. fyrir utan hæstv. forseta eru í salnum, þar af 2–3 flokksbræður mínir sem þekkja þetta mál. Skal ég því ekki valda þjóðinni frekari aukaútgjöldum með því að halda þingfundi áfram við þessar aðstæður. Vona ég að það sé tilviljun, en ekki brögð af hálfu okkar ágæta forseta að hann notar tækifærið, þegar þingsalur er nálega tómur, að taka fyrir ályktanir frá stjórnarandstöðuflokkunum hverja á eftir annarri. (Forseti: Ég bið hv. þm. að afsaka það að þetta mál er tekið fyrir nú. Það er vegna þess að flm. margra af þeim málum, sem ég hef hlaupið yfir á dagskrá, hafa ekki verið við í dag og því ekki hægt að ræða þau mál. En ef hv. þm. óskar þess sérstaklega að beðið sé með framsögu þessa máls, þá get ég vel orðið við þeirri ósk. Hv. þm. getur ráðið því sjálfur hvort hann vill hafa framsögu um frv. nú eða verði beðið með það.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir vinsemd hans. Ég veit að hann getur ekki við því gert að ráðh. sækja ekki fund svo að flestar fsp. eru teknar út af dagskrá og önnur mál komast ekki á dagskrá af því að menn eru ekki tilbúnir að mæla fyrir þeim. En efni þessarar till. er það mikilvægt að ég mun þiggja boð hæstv. forseta og freista þess að fá að mæla fyrir henni síðar, ef ske kynni að einhver hefði áhuga á að heyra um hana rætt.