28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3279 í B-deild Alþingistíðinda. (2717)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara í íslenskri landhelgi var staðfest á Alþingi 28. nóv. s.l. og mun hafa tekið gildi þann dag. Í bréfi, sem prentað var sem fylgiskjal IV. með þáltill. og var hluti þess samkomulags sem hér um ræðir, var kveðið svo á að þrátt fyrir gildistímabil það, sem greint var í 9. lið aðalsamkomulagsins, mætti fresta framkvæmd þess ef bókun nr. 6 í samningi Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu hefði ekki tekið gildi innan 5 mánaða, nánar tiltekið með þeim rökstuðningi að náið samband væri milli lausnar á fiskveiðideilunni og þess að margnefnd bókun nr. 6 tæki gildi.

Um þennan hluta samkomulagsins sagði hæstv. utanrrh. í framsöguræðu sinni um þáltill. með leyfi forseta:

„Hitt bréfið er um að framkvæmd samkomulagsins megi fresta ef bókun nr. 6 við samning Íslands við Efnahagsbandalagið hefur ekki tekið gildi innan 5 mánaða, og mundi það m. a, hafa í för með sér að hólf það undan Vestfjörðum, sem ég nefndi áðan, mundi ekki opnast ef slík frestun á sér stað, og það er fullur ásetningur ríkisstj. að nota þá heimild til frestunar sem hér um fjallar.“

Þetta voru orð hæstv. utanrrh., þegar hann mælti fyrir þessari þáltill.

Í umr. um málið hér á Alþ. var þessi afstaða ríkisstj., — ekki er vafi á að hæstv. utanrrh. mælti hér fyrir munn allrar ríkisstj. — þessi afstaða var ítrekuð og kom fram hvað eftir annað vegna nánari eftirgrennslana einstakra þm. Í því sambandi mætti nefna það að hv. þm. Steingrímur Hermannsson spurði nánar um þetta ákvæði samkomulagsins og þá m.a. um það, hvort þjóðverjar mundu fara út fyrir 200 mílna mörkin ef þessu samkomulagi yrði frestað að 5 mánuðum liðnum. Hæstv. utanrrh. svaraði þessari spurningu, eins og kemur glöggt fram í prentuðum þingtíðindum, með eins atkvæðis orði, með orðinu já. Mörgum þm. þótti nokkuð mikið upp í sig tekið af hæstv. utanrrh., þegar hann tók svo stórt til orða, og spurðu hann að því með hvaða rökum hann gæti fullyrt að vesturþjóðverjar færu út fyrir mörkin ef frestun ætti sér stað 1. maí, og ég var einn þeirra sem lagði fram þá spurningu. Hæstv. utanrrh. svaraði og sagðist e.t.v. hafa verið óþarflega stuttorður, en það væri þá ágætt að leiðrétta það, og hann sagði, með leyfi forseta:

„Það, sem gerist, ef bókun 6 tekur ekki gildi eftir 5 mánuði, er það að ríkisstj. mun segja samningnum upp. Eftir það eru allar veiðiheimildir fallnar úr gildi. Og það er skoðun okkar — ég verð að taka fram að það er skoðun okkar — að þá verði þjóðverjar að sjálfsögðu að fara út fyrir landhelgismörkin, en um það segir ekki í samningnum eins og menn geta ljóslega séð.“

Í síðari ræðu sinni sagði hæstv. utanrrh. þannig að öllu sé nú til skila haldið, með leyfi forseta:

„Ég ætlaði aðeins, fyrst ég stóð upp, að leiðrétta mismæli sem mér varð á í dag þegar ég svaraði hv. þm. Ragnari Arnalds. Ég mun hafa sagt að það væri minn skilningur, að ef bókun 6 yrði ekki komin til framkvæmda, þá félli samningurinn úr gildi. Það er auðvitað ekki rétt — það var bara mismæli — þá verður honum frestað. Þetta vildi ég leiðrétta.“

Sem sagt, hæstv. utanrh. lýsti því yfir þrívegis með mjög eindregnum og skýrum orðum að hefði bókun 6 ekki komið til framkvæmda að 5 mánuðum liðnum, þá yrði samningnum frestað.

Eins og ég hef áður sagt var samningurinn við vestur-þjóðverja staðfestur 28. nóv. af Alþ. og gildistakan miðuð við þann dag. Dagurinn í dag er því fyrsti dagurinn sem heimilt er að fresta þessum samningi. Hins vegar var hæstv. forsrh. spurður að því í sjónvarpi í gærkvöldi, hvort ríkisstj. mundi ekki standa við orð sín og hann svaraði þá, með leyfi forseta:

Ríkisstj. mun ekki gera sérstakar ráðstafanir nú þegar til að fresta framkvæmd fiskveiðisamnings við vestur-þjóðverja. Ríkisstj. telur eðlilegt að gefa þýskum stjórnvöldum færi á að gera grein fyrir því hvernig þeirri viðleitni þeirra hefur miðað innan Efnahagsbandalags Evrópu að fá þar samþykkta fulla gildistöku viðskiptasamnings Íslands og bandalagsins. Mun verða gengið eftir slíkri greinargerð og tekið mið af henni við frekari aðgerðir.“

Það er víst ekki ofmælt að þessi óvænta yfirlýsing hæstv. forsrh. hefur vakið gífurlega athygli um land allt og þá ekki minni furðu. Þrátt fyrir endurteknar algjörlega ótvíræðar yfirlýsingar virðist ljóst að ríkisstj. ætlar ekki að standa við orð sín. Vegna þessara miklu tíðinda er óhjákvæmilegt að Alþ., sem meðtók þessar yfirlýsingar ríkisstj. á sínum tíma, — yfirlýsingar sem nú er verið að svíkja, og þjóðin öll krefjist frekari skýringa en gefnar hafa verið. Og af því tilefni hef ég hér kvatt mér hljóðs utan dagskrár.

Ég vil sem sagt leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh. eftir atvikum: Hafa þýsk stjórnvöld ekki haft nægan tíma undanfarnar vikur að áliti ráðh. til að gera grein fyrir því hvernig málin standa innan Efnahagsbandalags Evrópu? Hvað hefur hindrað íslensku ríkisstj. í því að fá þessi mál á hreint, af eða á, nú áður en 5 mánaða fresturinn er útrunninn, og hefur verið gengið eftir slíkri grg.? Sem sagt, hver er hin raunverulega skýring á því að ríkisstj. hefur tekið ákvörðun um að standa ekki við fyrri yfirlýsingar sínar? Gerir hún sér ekki fulla grein fyrir því að óorðheldni af þessu tagi hlýtur að veikja stöðu okkar þegar erlendar ríkisstjórnir mega nú orðið nokkurn veginn ganga að því vísu og treysta því að ekki sé takandi mark á yfirlýsingum íslenskra ráðh. um gagnaðgerðir íslendinga í þessari hörðu deilu. Meðan engin viðhlítandi skýring á framferði ríkisstj. fæst hljóta allir, þ. á m. íslenska þjóðin og vestur-þýsk stjórnvöld að draga þá ályktun að það sé alls ekki ætlunin að nota þá heimild sem hér hefur verið gerð að umtalsefni og er í samningnum við vestur-þjóðverja, þvert ofan í fyrri yfirlýsingar.

Hæstv. forsrh. hefur að vísu, eins og ég hef nú þegar getið, gefið þá skýringu að enn sé verið að bíða eftir grg. vestur-þjóðverja. En ef hæstv. ráðh. vill að nokkur taki mark á slíkri skýringu, þá verður hann að svara því jafnframt til hversu lengi verði beðið. Það dugar að sjálfsögðu ekki að segja, eins og hæstv. ráðh. sagði í sjónvarpinu í gærkvöldi nánar aðspurður, að e.t.v. yrði beðið í nokkrar vikur. Það segir sig sjálft að nokkrar vikur eru æðiteygjanlegt hugtak og þar geta menn átt við tvær vikur alveg jafnt sem 20 vikur. Ef hæstv. forsrh. svarar ekki hér á Alþ. skýrar en hann gerði í sjónvarpinu í gærkvöldi, þá hljóta allir að draga þá ályktun að það sé afstaða ríkisstj., þvert gegn fyrri yfirlýsingum, að láta samninginn standa áfram, að þá sé yfirlýsing forsrh., sem hann gaf í gær, aðeins gamalkunn aðferð óorðheldinna manna til þess að smjúga fram hjá fyrri yfirlýsingum á sem mjúklegastan og fimastan hátt.

Ég vil minna á í þessu sambandi að þörfin á því að bókun 6 í samningnum við Efnahagsbandalag Evrópu kæmi til framkvæmda var einmitt ein helsta röksemdin fyrir þessu samkomulagi við vestur-þjóðverja á sínum tíma. Flestum þótti að vísu nóg um að hér skyldi gerður samningur án þess að bókunin kæmi beinlínis þá þegar til framkvæmda, en nægilega margir gáfu samþykki sitt með hliðsjón af því að verið væri að gefa vestur-þjóðverjum 5 mánaða endanlegan frest. Það má því hiklaust fullyrða að þessi 5 mánaða frestur og þá um leið það atriði að samningurinn frestaðist ef bókun 6 kæmi ekki til framkvæmda, þetta var afgerandi forsenda fyrir samþykki Alþingis. Og nú er ljóst, hinn 21). apríl, að þessi forsenda er brostin.

Það er því ekki að ástæðulausu að ég leyfi mér að benda hér á að ríkisstj. er beinlínis bundin af þessu loforði sínu og skyldug gagnvart Alþ. að fresta framkvæmd þessa samnings nú þegar 5 mánuðir eru liðnir án þess að bókun 6 hafi komið til framkvæmda.

Í þessu sambandi vil ég enn fremur vekja sérstaka athygli á því að úrslit þessa máls eru sérstaklega mikilvæg fyrir vestfirðinga og norðlendinga og alveg vafalaust að mjög verður eftir því tekið í þessum landshlutum hvað ríkisstj. raunverulega hyggst fyrir í þessum efnum.

Frá 1. júní til 30. nóv. n.k. verður opið að öllu óbreyttu stórt og mikið hólf fyrir vesturþýska togara á Halamiðum allt upp að 34 mílna mörkunum. Þetta eru einmitt meginveiðislóðir togaraflotans á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi, og því er gífurlega mikilvægt hvort þetta svæði verður opnað 1. júní eða hvort það verður áfram lokað fyrir vestur-þjóðverjum. Einmitt sérstaklega í ljósi þessa hljóta menn að krefjast svara við þeirri spurningu sem ég lagði hér fram áðan: Hversu lengi hyggst ríkisstj. bíða? Hyggst hún bíða í 2–3 vikur? Var það það sem hæstv. forsrh. átti við í sjónvarpinu í gær? Eða hyggst hún bíða í allt sumar?

Í sambandi við þennan samning eru nokkur fleiri atriði sem æskilegt væri að fá hér skýringar á. Þegar Alþ. samþ. samninginn kom ljóst fram að það samþykki byggðist ekki aðeins á þeirri forsendu, sem Ég nú hef nefnt, heldur einnig á annarri afgerandi forsendu. Hún var sú, að íslensk stjórnvöld hefðu strangt eftirlit með veiðum og aflamagni vestur-þýskra togara á samningstímabilinu. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, 2. þm. Vestf., komst svo að orði í umr. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Ég er sannfærður um að þarna þarf að hafa mjög strangt eftirlit, en með ströngu eftirliti sýnist mér að e.t.v. megi tryggja að þarna verði ekki samningurinn brotinn.“

Og hv. þm. Austurl., Tómas Árnason, kvaddi sér sérstaklega hljóðs við nafnakall þegar greidd voru endanlega atkvæði um þetta samkomulag, og hann gerði grein fyrir atkv. sínu með svofelldum orðum:

„Herra forseti. Í trausti þess að settar verði strangar reglur um framkvæmd veiða samkvæmt þessu samkomulagi segi ég já.“

Þess vegna er ekki óeðlilegt að ég spyrji hvernig þessu eftirliti af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi verið háttað. Hvað hefur verið gert til að tryggja strangt eftirlit af hálfu íslendinga með veiðum vestur-þýskra togskipa hér við land, og hafa þessar ströngu reglur, sem hér voru nefndar, verið settar?

Loks vil ég leyfa mér að spyrja: Hvað telja íslensk stjórnvöld á grundvelli þess eftirlits, sem um var talað að haft yrði með veiðum vesturþjóðverjanna, að vestur-þýskir togarar hafi veitt mikið á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru af þessu ári? Ég trúi því ekki að þessi spurning komi hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh. svo á óvart að þeir séu ekki reiðubúnir til svara, því að hún er þess eðlis að þeir hljóta að hafa svarið á reiðum höndum, enda óhugsandi með öllu að í þeim umr., sem vitað er að fram hafa farið í ríkisstj. og í stjórnarflokkunum um hugsanlega frestun á framkvæmd vestur-þýska samningsins, hafi þessi mikilvæga staðreynd ekki legið ljóst fyrir.