28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Svo fór sem fór sem flestir vissu þegar samningurinn við vesturþjóðverja var til umr. hér á hv. Alþ. í nóv. í vetur, að þeir sem fastast mæltu með honum, þeir sem báru ábyrgð á honum og þeir sem þóttust yfir alla gagnrýni hafnir í sambandi við gerð þessa samnings og það jafnvel svo að þeir leyfðu sér að stæra sig af þeirri ósvífni sinni að svara ekki framkominni gagnrýni í sölum Alþingis, þeir ætluðu sér að bregðast orðum sínum í sambandi við gerð þessa samnings. Enn hefur hæstv. utanrrh. að vísu ekki greint okkur frá breyttum forsendum frá því í nóv. í haust sem geri það að verkum að hann telur nú eðlilegt að ríkisstj. notfæri sér ekki ákvæðin sem geri henni kleift að rifta þessum samningi, að fresta honum, hvort þær ástæður séu þessi afbragðs gjöfula vertíð núna í vetur, magrasta hörmungarvertíð sem yfir Ísland hefur gengið í 32 ár, alger aflabrestur. Það kann að vera að það sé í öðrum verstöðvum fremur en Reykjavík sem hásetar harma nú hvað hæstum rómi og sárustum aflahlut sinn. En hitt fullyrði ég og hef nokkuð fyrir mér í því, að sjómönnum í öðrum verstöðvum þykir nú ekki svo sem íslenskur útvegur sé aflögufær um 60 þús. tonn af fiski á ári, góðan rekstrarársafla 20 skuttogara, á þeim tíma þegar rætt er af fullkominni alvöru og furðulegri alvöru af hálfu hæstv. ríkisstj. um að leggja íslenska togaraflotanum í 2–4 mánuði og gera aðrar ráðstafanir til þess að draga úr þeim afla, sem við kannske gætum náð með skipum okkar þrátt fyrir ástandið á miðunum, um allt að því fjórðung.

Hæstv. forsrh. las hér upp fyrir okkur tölur um afla vestur-þjóðverja frá 1. des. til marsloka, alls 18 972 tonn eða langt til þriðjung af því aflamagni sem þeir mega taka á 12 mánuðum. Aftur á móti greindi hann ekki frá heimildunum fyrir þessu aflamagni eða heimildunum fyrir þeirri skiptingu á aflanum sem fylgdi með í tölum hans.

Mér er kunnugt um það að menn úr hópi sömu ómerkinga, sem stóðu vestur-þýska togara að veiðum í Berufjarðarál fyrir skemmstu á friðuðu svæði, hafa hlustað á vestur-þýska togaraskipstjóra spjalla um það að gamni sínu í talstöðvarnar fyrir austan hvort þeir eigi nú að gefa þennan þorsk upp sem Grænlandsþorsk, Færeyjaþorsk eða Noregsþorsk, vegna þess hvað ótrúlega mikið hefur flotið með af þorski umfram e.t.v. þessi eiðsvörnu 5 þús. tonn í ársafla. Mér er líka kunnugt um það að af hálfu þessara sömu ómerkinga þarna fyrir austan, sem hafa orðið að þola hvað mestan ágang af hálfu erlendra togara undanfarna mánuði, eru áhyggjurnar ekki út af stóru svæði sem á að opna fyrir vesturþjóðverja 1. júní, þeim hefur orðið tíðræddara um stórt og þýðingarmikið friðað svæði sem var opnað fyrir vestur-þjóðverja á Austfjarðamiðum nú í vetur á þeirri forsendu hæstv. sjútvrh. að hann hefði ekki talið sér stætt á því að halda því lokuðu áfram, ekki nánar tilgreint hvers vegna eða gagnvart hverjum hann taldi sér ekki stætt á því að halda þessu friðaða svæði lokuðu áfram.

Það var augljóst mál þegar vestur-þýski samningurinn var samþ. hér á hv. Alþ. fyrir jólin í vetur að ýmsir af þeim þm., sem léðu samningnum atkv. sitt, gerðu það sárnauðugir og tíndu til í hugskoti sínu hverja þá afsökun sem þeir gætu notað gagnvart eigin sæmd og sómatilfinningum fyrir þeirra handauppréttingu, og ein þeirra var sú að samningurinn mundi frestast eða falla úr gildi við apríllok nú í vor þegar bókun 6 hefði ekki tekið gildi, vegna þess að þeir þóttust þess fullvissir að hún mundi ekki taka gildi af því að þeir trúðu ekki á samkomulag við breta á þessu tímabili.

Að gefa vestur-þjóðverjum frest til þess að skýra frá árangri af viðræðum sínum innan Efnahagsbandalagsins um það með hvaða hætti megi láta bókun 6 taka gildi, — ég fæ ekki séð að okkur komi nokkurn skapaðan hlut við hvernig þessar viðræður hafa farið fram eða hvernig þær hafa gengið. Það, sem okkur kemur við er þetta: Bókun 6 hefur ekki tekið gildi og samningurinn við vestur-þjóðverja á að falla úr gildi eða frestast nú um mánaðamótin, það er það, sem okkur varðar um. Okkur varðar líka um það og þyrftum að fá glögga skýrslu um það með hvaða hætti vestur-þjóðverjar hafa notað sér veiðiheimildina sem þeir fengu í nóv. s.l. Okkur et fullkunnugt um að rétt er, sem hæstv. forsrh. sagði, að landhelgisgæslan okkar hefur haft öðrum hnöppum að hneppa en að fylgjast með afla vestur-þjóðverja. En okkur er líka kunnugt um það að landhelgisgæslan hefur alls ekki gert það. Mér er það minnistætt að hæstv. dómsmrh. gerði mér persónulega það tilboð við umr. í nóv. að ég mætti fara um borð í þýsku togarana op. fylgjast með aflabrögðum þeirra persónulega. Ég sá mér því miður ekki fært sökum þinganna að þiggja þetta boð. En ég staðhæfi það, að af hálfri ríkisstj. hefur ekkert verið gert til þess að fylgjast með afla vestur-þjóðverjanna og allar vísbendingar um slíkt, allt sem sagt er um það að ríkisstj. hafi gert eitthvað til þess að fylgjast með þessu er blaður. Upplýsingarnar eru frá vestur-þjóðverjum sjálfum. Og hæstv. ráðh. mega trúa þeim upplýsingum ef þeir vilja. Þeir mega leggja eið út á þær upplýsingar mín vegna, en þær eru jafnóábyggilegar fyrir því.

Í upphafi þessa sumars, þegar fyrir dyrum stendur að skera niður afla fiskiskipanna okkar á þann hátt að til stórvandræða horfir í byggðarlögum kringum landið, þá ætlar hæstv, ríkisstj. að leyfa sér að framlengja samning þennan frá því í nóv. í vetur sem gerður var þrátt fyrir mótmæli tugþúsunda íslendinga, þ. á m. velflestra stærstu verkalýðsfélaga landsins, sem gerður var gegn mótmælum fjölmargra bæjarstjórna og hreppsnefnda og þó nokkurra flokksfélaga Framsfl. Ég man nú að vísu ekki eftir því að gerðar væru formlegar samþykktir í neinu flokksfélaga Sjálfstfl. um þetta mál, en það var ljóst mál að hafi nokkurn tíma verið mark takandi í sambandi við afgreiðslu mála á hv. Alþ. á samþykktum alþýðu manna á þessu landi, þá var það þá. Að vísu voru ekki liðnar margar vikur frá því að þessi samþykkt var knúin í gegn á Alþ. þar til ýmsir af formælendum hv. stjórnarflokka fóru að stæra sig af því að ekki væri nú mikið eftir af andstöðunni gegn þýsku samningunum. Ég skal ekkert segja um það hvaða sess þessir samningar skipa nú í hugum kjósenda almennt. En hitt staðhæfi ég, að það hefur þegar komið í ljós, sem við gagnrýnendur þessa samnings, andmælendur hans, héldum fram við umr. í vetur, að af hálfu stjórnarflokkanna væri þarna verið að blekkja yfir okkur helsi í landhelgismálinu og að samningunum væri staðið af óheilindum af hálfu stjórnarflokkanna.