28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem stóðu að þessu samkomulagi við vestur-þjóðverja í fiskveiðideilu okkar við þá. Ég verð að upplýsa það að á þeim tíma, sem þessir samningar stóðu yfir, lagði ég á það alla áherslu að bókun 6 kæmi til framkvæmda um leið og þeir samningar yrðu undirritaðir. Það var ekki grundvöllur fyrir því á þeim tíma. Ég léði þessum samningum mitt lið þrátt fyrir það, vegna þess að það hvarflaði ekki að mér eitt augnablik að kæmi þessi bókun 6 ekki til framkvæmda innan þessara 5 mánaða sem samningstímabilið náði yfir, þá yrðu samningarnir áfram í gildi. Ég lýsi enn þá stuðningi mínum við þessa samninga. Ég er enn þá sama sinnis, að við eigum að semja við þjóðverjana og við eigum að semja við bretana. En þetta vopn, sem forsrh. kallar bókun 6, á nú að nota. Ég tel ófyrirgefanlegt að ríkisstj. noti ekkert af þeim vopnum, sem hún vitnar í, á þeim tíma sem hún getur notað þau. Sem sagt, ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það að forsrh. skuli nú koma fram og segja að við eigum að biða eftir skýrslu vestur-þýsku ríkisstj. um það hvað henni hafi orðið ágengt í viðleitni sinni til þess að fá bókun 6 í framkvæmd á samningstímanum. Ég lýsi hreinlega furðu minni á því að slíkt skuli koma fram, sérstaklega ef ég má lesa hér — með leyfi hæstv. forseta — fskj. VIII. Það er 80. mál, tölusett nr. 85, það er till. til þál., bréf utanrrh. Íslands til varautanrrh. Sambandslýðveldisins Þýskalands, en þar segir:

„Herra ráðherra.

Á fundum okkar í Bonn fyrir nokkru voru viðræðunefndir sammála um að æskilegt væri og raunar nauðsynlegt að bókun 6 tæki gildi svo fljótt sem verða má til þess að auðvelda sölu íslenskra sjávarafurða í Þýskalandi og innan alls Efnahagsbandalags Evrópu. Þér staðfestuð að ríkisstj. yðar mundi gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að svo mætti verða.

Ríkisstjórn íslands væntir þess að fá upplýsingar jafnóðum um viðleitni ríkisstj. Sambandslýðveldisins í þessu efni.“

Bréfinu lýkur með þessum orðum:

„Ég leyfi mér, herra ráðherra, að votta yður sérstaka virðingu mína.“

Ef íslenska ríkisstj. hefur ekki fengið að fylgjast með málum og málaleitan þýsku ríkisstj. jafnóðum eins og fram kemur í bréfi hæstv. utanrrh. til varautanrrh. Sambandslýðveldisins Þýskalands, þá hefur eitthvað farið úrskeiðis og vantar eitthvað í myndina, enda trúi ég að það sé, vegna þess að ég finn ekki í mínum gögnum hér — og held ég að þau séu í nokkuð góðri reglu — svar varautanrrh. Sambandslýðveldisins Þýskalands við þessu bréfi okkar utanrrh. En það stendur í þessu bréfi að ríkisstj. Íslands vænti þess að fá upplýsingar jafnóðum. Og á lokastundu bíðum við eftir því að fá að vita hvað hefur skeð. Þetta eru vinnubrögð sem ég hreinlega get ekki sætt mig við. Og ef ríkisstj. sýnir þá linku í þessu máli sem virðist ætla að verða, þá vil ég lýsa andstöðu minni gegn því. Það er kominn tími til þess að við sýnum festu, ekki bara í ríkisstj., heldur á Alþ. líka, í þessu máli. En ég lýsi því yfir hér að ég vil samninga við þjóðverja og ég vil samninga við englendinga líka.