28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3302 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

205. mál, hámarkslaun

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að þegar ég sá þessa þáltill. vakti hún strax athygli mína og það af tveimur ástæðum fyrst og fremst. Í fyrsta lagi virðist mér að flm. sé þarna að reyna að leita að leið til þess að ná því marki að minnka launamismun í þjóðfélaginu, og það er mál sem ég er honum sammála um að æskilegt sé að reyna að gera. Og í öðru lagi, sem mér fannst ekki síður athyglisvert, að þarna leggur flm., hv. 5. þm. Norðurl. e., til að farið sé inn á algjörlega nýja braut til að ná þessu marki, þ.e.a.s. að reyna að gera þetta með lögum og reglum. Við vitum að hingað til hafa samtök launþega lagt mikið kapp á það að möguleikar þeirra til þess að semja um sín laun séu að engu skertir með neinum slíkum reglum eða lögum. En þarna virðist mér flm. sem sagt leggja til að farið verði inn á þessa braut, að laun verði að nokkru leyti ákveðin með lögum og reglum, þ.e.a.s. það verði búinn til rammi sem gefur nokkurt svigrúm innbyrðis, en hlýtur þó að setja allmiklar skorður.

Hv. flm. rakti hér hvernig laun hefðu aukist, hversu tekjur manna hefðu orðið miklar, og þar kom fram, að 5–7 þús. manns og reyndar fleiri mundu hafa haft meira en helmingi hærri laun heldur en laun þeirra lægst launuðu. En hann nefndi ekki lágmark, lægstu launin. Og ef þessar reglur verða settar á, þá væri ekki aðeins tekinn af — við skulum segja verkfallsréttur þessa hálaunahóps til þess að hækka sín laun — heldur algjörlega bann við launahækkun.

Hér var fyrir nokkru borið fram frv. af hv. 1. landsk. þm. um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að mjólk væri hellt niður af völdum verkfalla. Það frv. mætti mikilli andstöðu. Var talað um að þar væri verið að skerða helgan rétt. En þarna virðist mér að flm. þessarar till. leggi til að verði gengið miklu lengra, þ.e.a.s. það er ekki aðeins tekinn verkfallsréttur, heldur beinlínis rétturinn til að hækka laun þessa hóps launþega. Ég bendi ekki á þetta vegna þess að ég sé þessu andvigur, heldur hins, að mér finnst þetta vera miklu fremur athyglis- og íhugunarvert. En ég er samþykkur þeirri stefnu sem kemur þarna fram hjá flm., vegna þess m.a. að ég tel að menn eigi fyrst og fremst að hafa laun eftir þeirri vinnu, sem þeir leysa af hendi, og mismunur launanna eigi þá fremur að fara eftir afköstum heldur en tegund þeirrar vinnu sem unnin er, þar sem okkar þjóðfélag er nú orðið svo flókið og samtengt að við erum hvert öðru háð og við þurfum yfirleitt á vinnu hverrar stéttar að halda.

Ég held að það sé ekki alveg rétt, það sem segir í niðurlagi grg., að það hafi alltaf nema á vinstristjórnarárunum verið unnið að því að auka launamismun hér á landi. (Gripið fram í: Síðustu 17 ár.) Já síðustu 17 ár, Mér er þetta atriði kannske sérstaklega minnisstætt vegna þess, að þegar ég kom hér fyrst inn á þing fyrir tæpum tveim árum, þá var það eitt af fyrstu verkefnunum að fjalla um lög um láglaunabætur þar sem var ákveðið með lögum — fyrst reyndar af núv. hæstv. ríkisstj. með brbl. — að laun þeirra lægst launuðu skyldu hækka án þess að laun annarra hækkuðu. Og síðan, hafði ríkisstj. undirbúið að endurnýja þau þannig að ganga lengra í þessa átt. En þá var það gert fyrir eindregin tilmæli beggja aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitenda og Alþýðusambandsins, að framlengja eða setja ekki ný lög um þetta, þar sem þeir óskuðu eindregið eftir því, báðir aðilar, að fá að semja um þetta án nokkurra slíkra takmarkana. En það var stefna núv. ríkisstj., að reyna að hækka þarna laun þeirra lægst launuðu án þess að aðrir fylgdu á eftir.

Mér er það ljóst að það hljóta að vera mikil vandkvæði á þeirri leið sem hv. flm. þáltill. leggur til. Það eru svo ákaflega mörg atriði sem þar koma til greina. Hvernig á t.d. að fara að með ákvæðisvinnu og uppmælingu? Við vitum að þar geta menn náð meira en tvöföldum launum fyrir hverja unna klst., og vitanlega er illt að bregða fæti fyrir það að menn vinni vel. Þetta er aðeins eitt af mörgum atriðum sem hlýtur að verða erfitt í framkvæmd. En enda þótt launamismunur sé hér mikill, beinn launamismunur, eins og flm. benti hér á og talaði um sexföld laun, þá er þó annað atriði eða annar þáttur sem mér hefur fundist kannske enn þá fráleitari, og það eru ýmsar greiðslur sem menn fá fyrir störf sín án þess að nokkuð sé farið eftir þeirri vinnu sem menn hafa lagt í störfin, heldur eru þær metnar sem ákveðin prósenttala af einhverri upphæð, matsupphæð, söluverði eða einhverju slíku. Ég held að þær upphæðir, sem þarna koma til, séu oft margfaldar á við það sem kemur fram í beinum launamismun á föstum launum.

Þetta eru aðeins örfáar hugrenningar í sambandi við þessa þáltill. sem mér finnst vera, eins og ég sagði áðan, mjög athyglisverð og stefna í sömu átt og ég tel æskilegt að stefnt væri.