28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

205. mál, hámarkslaun

Jón Helgason:

Herra forseti. Það er aðeins af því að mér virtist hv. flm. hafa misskilið það sem ég sagði áðan, að ég teldi að með þessari þáltill. væri stefnt að því að afnema verkfallsrétt. Það, sem ég a.m.k. vildi segja og hélt að ég hefði sagt, var að ég teldi að ef sú stefna, sem lagt er til að fara með þáltill., næði fram að ganga, teldi ég að þar væri gengið lengra gagnvart sumum stéttum eða starfshópum heldur en þó að verkfallsréttur væri eitthvað takmarkaður eða afnuminn, og benti á að mönnum væri beinlínis bannað að hækka sín laun nema þá að undangegnu því að laun annarra væru hækkuð, og það tel ég að sé meiri skerðing á þeirra rétti. Við vitum hvernig kjarabaráttan hefur verið a.m.k. undanfarna áratugi og ár, að hún hefur mikið einkennst af togstreitu milli stétta. Það hefur hver stétt reynt að komast sem lengst og jafnvel gengið svo langt að hálaunaðar stéttir hafa farið einar í verkföll og með aðstöðu sinni knúið fram umtalsverðar launahækkanir enda þótt laun þeirra væru miklu hærri en flestra annarra fyrir. Við höfum heyrt sífellt meira talað um sérkröfur við launasamninga, og við heyrðum það t.d. í vetur, að þessar sérkröfur gerðu ráð fyrir alveg ótrúlegri hækkun launa ef þær hefðu náð fram að ganga, en öllu slíku væru settar mjög þröngar skorður ef þetta yrði samþykkt, þessi leið, eins og hv. flm. orðaði það, að finna kerfi til skipta á þeim hlut sem launþegar fá á annað borð. Það er þetta sem ég taldi að væri athyglisvert, og ég var síður en svo að lasta það, en vildi aðeins vekja athygli á þessu.