28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3312 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

205. mál, hámarkslaun

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú reyna að stofna ekki til langra umr. milli flokksbræðra, en ég viðhafði þau orð í upphafi máls míns hér fyrr í kvöld, að ég væri hissa á því að hann sem sjálfstæðismaður skyldi taka til orða eins og hann gerði. Hann tók, að mér fannst, undir þá till. sem ég tel kolvitlausa, þá sem hér er til umr. En ég ætla að leyfa mér að taka þetta til baka og vona að það gleðji vin minn og kollega og samþm. Ég undrast það ekkert, það er fljótræði hjá mér að tala svona. Við skulum segja að ég hafi gleymt því að Sjálfstfl. hefur gerbreyst síðan ég varð fyrst fyrir áhrifum frá honum, — áhrifum sem ég er að reyna að halda í. Það undrar engan lengur þó að fleiri og fleiri þm. flokksins taki undir till. sem þessar, þó að ég voni að komi ekki að því, eins og mér skildist þó að væri ástæða til að verjast, að okkar kjörorð verði ekki lengur: „Gjör rétt, þol ei órétt“, heldur eitthvað sem hentar betur alræði öreiganna, eins og orð hv. 5. þm. Norðurl. e. og 2. þm. Reykn. bentu til áðan.

Ég vil leiðrétta það, það er misskilningur, alvarlegur misskilningur, ef það er í hugum manna að vinnuveitendur hafi óskað eftir því að till. eitthvað í þessa átt kæmi fram. Það er slæmur misskilningur, hvaðan sem hann kemur. Hitt er annað mál, að að gefnu tilefni óskuðu vinnuveitendur eftir því að miðstjórnarvald Alþýðusambands Íslands yrði styrkt þannig að þeir viðsemjendur, sem eyða hér vikum saman á dýrustu hótelum borgarinnar í samningum og undirskrifa samninga, geri það í umboði sem ekki verður vefengt þegar þeir koma heim í héruð. Það er annað mál.

Ég vil þá snúa mér að hv. 5. þm. Norðurl. e. og taka undir það, sem oft hefur komið fram á hinu háa Alþ., að það er mikill grundvallarmunur á lífsskoðun eða á lífsviðhorfum okkar tveggja, og þar af leiðandi deilum við oft hér. Ég er andkommúnisti, ég kalla hv. þm. kommúnista þótt hann vilji ekki lengur viðurkenna það. En nafnaskipti eru í mínum huga eins og að breiða yfir sig gæru.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. bað mig um að tilnefna eitthvert starf sem væri ábyrgðarmeira en starf skipstjóra. Ég lít ekki á eitt starf ábyrgðarmeira en annað. Það er ein þjóðfélagskeðja sem getur ekki án neins starfs verið. En ég þarf a.m.k. að fá miklu betri upplýsingar um það hvað hv. þm. meinar. Meinar hann að það sé ábyrgðarhluti að fara út á sjó á einhvers konar fleytu og eiga að bera ábyrgð á því að koma með mannskap og skip til baka? Meinar hann að það sé ábyrgðarhluti að vera sendur til veiða og koma kannske ekki með neina veiði til baka? Ábyrgð og ábyrgð, — það verður að gera grein fyrir því hvað er ábyrgð. Er ábyrgð skipstjóra, sem fer út á sjó með menn meiri en flugmanns sem fer upp í loftið með fólk. Mér er ekki nokkur leið að svara þessari spurningu hv. 5. þm. Norðurl. e.

Skortur á félagslegum skilningi eins og annars, þetta er líka matsatriði. Ég skal ekki segja hvor okkar hafi betri skilning á félagsstarfi né heldur hvor hefur gengið í gegnu.m meiri lífsreynslu, hvor hefur þolað meiri fátækt, hvor hefur þolað meira ríkidæmi og allt þar á milli. Menn tala af þeirri lífsreynslu sem þeir hafa hver um sig. Ég ætla ekki að fara að bera saman hvor okkar hefur meiri reynslu í aðra hvora öfgaáttina eða þar á milli. Ég held að það sé ekki til þess ætlast. Ilmur og ilmur, það er skammt á milli ilms og dauns. Ég veit hvers vegna samflokksmenn hans, samþm. eins og hann kallaði þá, vildu ekki gerast meðflm. að þessari till. Ég skil það vel þegar ég les till. Þeir lásu hana líka áður en þeir skrifuðu undir og hættu þess vegna við að skrifa undir. En ég held að svona tal eigi ekki rétt á sér.

Það er alveg rétt, við eigum að fara aðrar leiðir í efnahagsmálum. Þetta kemur vítt og breitt, sem ég þarf að svara hv. þm. Ég tek það eftir atriðum. Því miður erum við áhrifagjörn þjóð og höfum ekki lært af þeirri miklu lífsreynslu sem hlaðist hefur á herðar þjóðarinnar um aldir. Brautin hefur verið þyrnum stráð hjá mörgum og flestum fyrr á tímum. En ef við tökum mannskapinn sem byggir landið í dag, þá verð ég að segja að árangurinn, miðað við það sem við erum að búa framtíðinni, og tek ég þá bara málflutning hv. 5. þm. Norðurl. e. sjálfs, hann er ekki glæsilegur. Allar þrautirnar skapa ekki harðari mannskap í landi heldur en raun ber vitni, við viljum ekki leggja á okkur nokkurn skapaðan hlut og heimtum allt. Það voru flóttamenn frá Noregi sem komu hingað. Lífsbaráttan er hörð á Íslandi, það er alveg rétt. En heldur hv. 5. þm. Norðurl. e. að lífsbaráttan hafi ekki verið hörð í öðrum löndum og frumbýlingar hafi ekki þurft að þola hörku annars staðar líka? Eða heldur hv. 5. þm. Norðurl. e. að það sé til fátækt á Íslandi miðað við þá fátækt og eymd sem til er í þjóðfélögum sem talin eru háþróuð og nálægt okkur í Evrópu? Ef svo er, þá er það mesti misskilningur.

En ég held nú að þegar öllu karpi er sleppt, þá vil ég skilja þessa till. allt öðruvísi en hún er orðuð, vegna þess að ég hef lært að meta hinn manninn sem býr í Stefáni Jónssyni og vill sannarlega unna þeim, sem bágt eiga í þjóðfélaginu, betri lífskjara. Það er alveg rétt, það þarf að finna einhverja leið til þess að koma í veg fyrir að prósentuhækkun launa verkamanna hverju sinni leiði til meiri krónutöluhækkunar hjá hátekjumanni. Þetta er náttúrlega kapphlaup um krónurnar sem skapar sívaxandi verðbólguhraða. Það þarf að koma í veg fyrir það á einhvern hátt. En við höfum ekki fundið réttu leiðina, eða ef við höfum fundið réttu leiðina, þá höfum við ekki farið hana, því að verðbólgan eykst jafnt og þétt. Það þarf sannarlega að finna einhverja leið til að rétta hlut láglaunafólks, og það held ég að sé hugsun hv. 5. þm. Norðurl. e. öðru fremur. En ég er á móti því að gera það á þann hátt sem kemur fram í hinum prentuðu orðum till., að höggva af þeim langa til þess að bæta á þann stutta. Það held ég að sé ekki rétt aðferð. Ég vil láta alla njóta sín í hlutfalli við getu hvers og eins.

Ég held að það sé ekki ástæða til þess að orðlengja þetta frekar. Ég vona að við séum orðnir sammála um kjarna hugsunarinnar á bak við tillöguna.