06.11.1975
Neðri deild: 14. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

12. mál, orkulög

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á orkulögum er samið að frumkvæði Magnúsar Kjartanssonar fyrrv. orkumálaráðh. Það var upphaflega flutt sem stjfrv. í marsmánuði 1973. Haustið 1973 var það einnig flutt sem stjórnarfrv., en náði í hvorugt skiptið að hljóta afgreiðslu hér á hv. Alþ. Það var síðan flutt sem þingmannafrv. í fyrra, en dagaði þá einnig uppi. Nú er þetta frv. enn lagt fram. Að þessu sinni var það lagt fram í upphafi þings og mæla öll rök og öll sanngirni með því að það hljóti nú afgreiðslu á þann hátt að vilji Alþ. í þessu veigamikla máli komi berlega í ljós.

Frv. þetta hefur að geyma nokkrar grundvallarbreyt. á ákvæðum gildandi orkulaga um jarðhita. Fjalla þær um skilgreiningu hans um yfirráða- og hagnýtingarrétt. Jarðhitasvæðum er í frv. þessu skipt í tvo flokka, í lághitasvæði og háhitasvæði. Með hliðsjón af þeirri skiptingu hefur frv. manna á meðal verið kallað háhitafrv. Lághitasvæðin samkv. skilgreiningu þessa frv. einkennast yfirleitt af vatnsmiklum laugum og sjóðandi hverum og eru einkum á láglendi. Hins vegar eru háhitasvæði, sem einkennast af gufuaugum og leirhverum. Við boranir í öll þau háhitasvæði, sem hingað til hafa verið könnuð, hefur fundist yfir 200 stiga hiti á minna en 1000 m dýpi, og efnarannsóknir á öðrum háhitasvæðum benda eindregið til að þar megi vænta sömu niðurstöðu. Með hliðsjón af þessu er skilgreining háhitasvæðanna ákveðin. Það telst háhitasvæði samkv. frv. ef innan þess finnst 200 stiga hiti ofan 1000 m dýpis. Samkv. þeirri vitneskju, sem nú liggur fyrir, er talið að nýtanlegt varmaafl á Íslandi skiptist þannig milli lághita- og háhitasvæða að orka lághitasvæðanna sé um 10%, en háhitasvæðanna um 90% af nýtanlegri varmaorku á Íslandi.

Kort það, sem fylgir þessu frv., gefur góða hugmynd um legu háhitasvæðanna. Þau er eingöngu að finna í gosbeltum sem liggja yfir landið frá suðvestri til norðausturs og eru hluti af jarðsprungubelti Norður-Atlantshafshryggjarins. Lághitasvæðin eru hins vegar í eldri bergmyndunum utan gosbeltanna. Á kortinu, sem er á bls. 6–7 í grg. frv., eru merkt inn þau háhitasvæði sem kunnugt er um nú í dag svo og aðrir þeir staðir sem líklegt er talið að háhiti leynist undir. Þekkt háhitasvæði eru Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll, Hengill, Geysir, Kerlingarfjöll, Hveravellir, Torfajökull, Vonarskarð, Grímsvötn, Kverkfjöll, Askja, Fremri-námur, Námafjall, Krafla og Þeistareykir. Líkleg háhitasvæði eru að mati sérfræðinga Prestahnúkur, Mýrdalsjökuli, Tindfjallajökull, Blautakvísl, Nauthagi, Kaldakvísl og Hrúthálsar. Auk þess er talið mjög líklegt að finnast muni fleiri háhitasvæði innan þeirra gosbeita sem mörkuð eru á kortinu.

Eins og upptalning þessi ber með sér eru flest háhitasvæðin eða öll hátt yfir sjó og heitt djúpvatn þeirra nær óvíða til yfirborðs, a. m. k. að neinu ráði. Á tveimur þekktum háhitasvæðum einungis, Reykjanesi og Svartsengi, er djúpvatnið sjór, en annars staðar ósalt grunnvatn. Nauðsynlegt er að hafa það í huga að hvert háhitasvæði er sjálfstætt rennsliskerfi og getur vinnsla á einum stað raskað rennslinu á öðrum stöðum innan sama háhitasvæðis. Þegar af þessari ástæðu er mjög mikilvægt að vinnsla jarðhita á hverju svæði sé í höndum eins aðila, en ekki margra.

Telja má fullvíst að á næstu árum og áratugum verði háhitasvæðin fyrst og fremst nýtt til hitaveitu og raforkuvinnslu í þéttbýli svo og til raforkuvinnslu handa orkufrekum iðnaði. Slík nýting yrði ekki með neinum eðlilegum eða æskilegum hætti í höndum einstaklinga, heldur yrði hún fyrst og fremst í höndum ríkis og sveitarfélaga. Varmavinnsla á háhitasvæðum er stórum erfiðari en vinnsla lághita. Vegna gufuþrýstings og mikils magns uppleystra efna í háhitavatni krefst virkjun þess vandaðs og viðamikils borholuútbúnaðar, flókins tækjabúnaðar og mikillar tækniþekkingar. Af þessum sökum er nýting varma frá háhitasvæðum svo vandasöm og svo mikið fyrirtæki að einstaklingar hafa ekki sóst eftir henni. Til þess að hægt sé að nýta þessar miklu orkulindir þarf undir öllum kringumstæðum að framkvæma umfangsmiklar og oft mjög dýrar rannsóknarboranir og tilraunir, og þetta eru tilraunir og rannsóknir sem eru þess eðlis að þær hafa lent og hljóta að lenda á opinberum aðilum. Það er ríkið eða sveitarfélögin e. t. v. í samvinnu við ríkið sem framkvæma slíkar rannsóknir og boranir, það eru þessir aðilar sem standa straum af þeim fjárhagslega. En þá kemur upp vandamál sem verður æ brýnna að leysa með friðsamlegri löggjöf þar sem grundvöllurinn hlýtur að vera almannaheill. Þar er um að ræða eignar- eða öllu heldur umráðarétt jarðhitans á háhitasvæðunum. Á þessi orka háhitasvæðanna, sem unnin er að loknum rannsóknum og með borunum djúpt í jörðu, kostuðum einvörðungu af almannafé, að vera eign þjóðarheildarinnar eða á hún að vera eign einhverra einstaklinga, landeigenda, sem engu kosta til og engin tök hafa yfirleitt á að hagnýta auðæfin sem þarna eru fólgin langt undir yfirborði?

Megintilgangur þessa frv. er sá að kveða nánar á en gert er í gildandi lögum um eignar-og hagnýtingarrétt jarðhita. Hér er tekið mjög mikið tillit til þeirra sem eiga eignarrétt á landi, þar sem svo er ákveðið að allur jarðhiti á lághitasvæðum svo og hverir og annar yfirborðsjarðhiti á háhitasvæðum sé háður einstaklingseignarrétti landeigenda. Það er einungis annar jarðhiti á háhitasvæðum, sá jarðhiti sem bora þarf til með ærnum kostnaði og fyrirhöfn, sem ætlast er til samkv. frv. að verði almannaeign. Hér er að mínu viti og að ég hygg fleiri flm. þessa frv. gengið svo langt í átt til sjónarmiða þeirra sem vernda vilja eignarrétt einstaklingsins sem nokkur sanngirni leyfir. Við flm. teljum hins vegar þjóðhagslega nauðsynlegt að binda það í löggjöf að öðrum aðilum en ríkinu eða þeim, sem ríkið heimilar, verði óheimilt að bora eftir jarðhita á háhitasvæðum eða hagnýta hann.

Í núv. mynd frv. er sveitarfélögum, sem keypt hafa lönd til vinnslu jarðhita á háhitasvæðum, tryggður réttur til slíkrar hagnýtingar áfram um langt árabil ef þau óska þess. Einnig er sveitarfélögum og samtökum þeirra tryggður endurgjaldslaus hagnýtingarréttur háhitasvæða í eigu ríkisins í nágrenni sveitarfélaganna eftir þ:i sem best samræmist grundvallarsjónarmiði frv., því grundvallarsjónarmiði að tryggja hagnýtingu jarðhitans í almannaþágu.

Þegar fyrrv. iðnrh. Magnús Kjartansson mælti fyrir þessu frv. fyrst er það var lagt hér fram árið 1973 komst hann m. a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst að það er þjóðarheill fyrir bestu að hin mikla orka, sem bundin er í háhitasvæðum, verði nýtt á skipulegan hátt, en ekki látin ónotuð eins og verið hefur að mestu fram til þessa. Nýting háhitaorkunnar telst ekki til þeirra nota af landi sem heyra til venjulegrar hagnýtingar á einkarétti yfir fasteignum. Verðmæti hennar í jörðu hafa ekki orðið til fyrir mannlega starfsemi. Landeigendur almennt hafa hvorki yfir að ráða þeirri tæknilegu þekkingu né tækjabúnaði sem þarf til víðtækra rannsókna á háhitasvæðunum til borunar og til vinnslu jarðhitans. Þar sem niðurstöður slíkra rannsókna hljóta ávallt að vera óvissar er þess ekki að vænta að einstakir landeigendur hætti fé sínu til slíkra rannsókna. Nýting jarðhita á hverju einstöku háhitasvæði þarf að lúta stjórn eins aðila, þar sem skipulagslausar boranir í sama svæði af hálfu fleiri aðila mundu leiða til óþarfrar sóunar verðmæta og árekstra, þar sem síðari boranir gætu raskað vinnslu jarðhita úr borholum sem áður hafa verið boraðar vegna þess að þarna er um að ræða samfellt kerfi. Af þessum ástæðum er frv. þetta flutt.

Að svo miklu leyti sem landeigandi verður fyrir takmörkunum á eignarrétti sínum á landi vegna borana og vinnslu jarðhita á háhitasvæði ber honum að sjálfsögðu fullar bætur fyrir.“

Á þeim tæpum 3 árum sem liðin eru síðan fyrrv. iðnrh. mælti þessi orð og fleiri fyrir frv. hygg ég að reynslan hafi alveg nógsamlega sannað að frv. var ekki að ófyrirsynju samið og flutt. Hið stórhækkaða olíuverð gerir það nú víða alveg sjálfsagðan hlut og raunar knýjandi nauðsyn að jarðvarmi verði fljótt og svo víða sem við verður komið hagnýttur til upphitunar og annarra nota í almannaþágu. Því má tvímælalaust gera ráð fyrir að spurningin um eignar- og yfirráðarétt jarðvarmans á háhitasvæðum djúpt í iðrum jarðar brenni á vörum æ fleiri manna og við þeirri spurningu verði að fást óyggjandi svar hver eigi þarna að ráða og ákveða um virkjanir.

Eitt mál af þessu tagi er þegar orðið stórmál, svo stórt mál að ég sé ekki betur en að það hafi þegar valdið íbúum þeirra sveitarfélaga, sem hlut eiga að máli, gífurlegu tjóni, ekki aðeins tjóni sem skiptir tugum millj. kr., heldur að öllum líkindum hundruðum millj. Það leiðir af þeim drætti sem orðið hefur á því að hefja framkvæmdir. Þar sem kjördæmi mitt á hér í hlut og ég þekki nokkuð til þessa máls tel rétt að rekja það, fremur stuttlega þó. Hér er einnig um að ræða mjög ljóst dæmi þess hverju við má búast og það í auknum mæli á næstu árum ef skorður verða ekki við reistar og það heldur fyrr en seinna.

Alllangt er síðan Suðurnesjabúar tóku að ræða um þann möguleika að hagnýta eitthvað af hinum mikla jarðvarma á Reykjanesskaga til hitaveitu fyrir kaupstaði og þorp þar syðra. Síðla árs árið 1977. hófst Orkustofnun handa um tilraunaboranir í Svartsengi í námunda Grindavíkur og var þá einkum haft í huga að virkja þar fyrir Grindavik eina. Vatnsmagn og hitastig reyndist hvort tveggja hið ákjósanlegasta á þessum stað, en vatnið, sem úr borholunni kom, var salt, u. þ. b. 2/3 af seltu sjávar. Var þá þegar sýnt, að varmaskiptastöðvar væru óhjákvæmilegar. Hins vegar benti margt til þess að á þessu háhitasvæði væri um svo mikinn jarðvarma að ræða að nægja mundi fyrir alla þéttbýlisstaði á Suðurnesjum. Rannsóknum var síðan haldið áfram og í janúarmánuði 1973 birti Orkustofnun mjög fróðlega skýrslu sem bar nafnið „Varmaveita frá Svartsengi, frumáætlun um varmaveitu til þéttbýlis á Suðurnesjum.“ Sumarið 1973 var rannsóknum fram haldið og tvær holur horaðar þarna til viðbótar við þær tilraunaholur sem áður höfðu verið boraðar. Voru þessar miklu dýpri en hinar fyrri, eða 1500 og 1700 m djúpar. Þessi borun var gerð með mjög góðum árangri og leit nú vissulega vel út með hitaveitumál suðurnesjamanna. Haustið 1973 stofnuðu sveitarfélög á Suðurnesjum með sér samstarfsnefnd og vann hún síðan ötullega að framgangi þessa máls eða undirbúningi þess í samvinnu við fulltrúa iðn.-og fjmrn. Haustið 1974 eða fyrir rúmu ári lágu síðan fyrir áætlanir og till. um hitaveitu á Suðurnesjum og virtist jafnt tæknilegur sem formlegur og jafnvel fjárhagslegur undirbúningur hafa haldist það vel í hendur að útlitið var satt að segja mjög glæsilegt í fyrrahaust. Hitaveita á Suðurnesjum virtist alveg á næsta leiti.

Snemma í desembermánuði s. l. eða fyrir tæpu ári lagði svo hæstv. núv. iðnrh. Gunnar Thoroddsen fram hér á Alþ. frv. til l. um Hitaveitu Suðurnesja. Efni frv. var í megindráttum það að ríkissjóður og 7 sveitarfélög á Suðurnesjum, þ. e. a. s. öll sveitarfélögin þar, stofna hitaveitufyrirtæki sem nefnist Hitaveita Suðurnesja. Eignarhluti ríkisins er 40%, en eignarhlutdeild sveitarfélaga 60%, skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu. Þetta frv. hlaut alveg sérlega góðar undirtektir hér á hv. Alþ. Allir þm. Reykn., þ. e. a. s. Reyknesingakórinn sem sumir hv. alþm. hafa stundum verið að nefna, fögnuðu þessu frv. alveg sérstaklega og þeir lögðu á það áherslu að hér væri um að ræða brýnasta hagsmunamál þessara byggðarlaga sem þarna ættu hlut að máli, — byggðarlaga þar sem búa fleiri menn en í hverju um sig af 4 kjördæmum landsins. Og við þm. Reykn. lögðum á það áherslu að þetta frv. þyrfti að verða að lögum sem allra fyrst svo að hægt yrði að hefjast handa um framkvæmdir. Það stóð heldur ekkert á því, að Alþ. samþ. þetta frv. Allir hv. alþm. voru boðnir og búnir til þess að greiða götu þess og það varð að lögum með mjög skjótum hætti þegar fyrir síðustu jól.

Nú var umsvifalaust skipað í stjórn hins nýja fyrirtækis. Þangað völdust 5 mætir menn, 2 fulltrúar ríkisins og 3 fulltrúar þeirra bæjar- og sveitarfélaga sem hlut eiga að máli, þ. e. a. s. bæjar- og sveitarstjórnarmenn, ágætir menn þarna sunnan að. Menn voru einhuga um að nú yrði að hafa hraðar hendur og láta þetta verk ganga rösklega því að það skipti miklu máli að það kæmist fljótlega í gagnið. Olíuverð er, eins og allir vita, enn geysihátt og engar líkur til að það lækki með skjótum hætti. Kostnaður allur við mannvirkjagerð hækkar óðfluga. Það var þess vegna vilji bæði stjórnar þessa nýja fyrirtækis og þá ekki síður allra suðurnesjabúa að nú kæmist fullur skriður á framkvæmdir og ég held, að menn hafi verið mjög vongóðir um það um síðustu áramót.

Samkvæmt þeirri grg., sem lögð var fram á Alþ. í desembermánuði, þegar frv. um Hitaveitu Suðurnesja var flutt, var áætlað að allt þetta verk, þ. e. a. s. lagning hitaveitu um öll Suðurnes, tæki 3 eða í hæsta lagi 4 ár, þ. e. a. s. að framkvæmdum yrði lokið að mestu á þremur árum og að öllu leyti á 4 árum. Auðvelt var, að því er menn töldu, að skipta þessu verki í áfanga. Á fyrsta ári, þ.e. því ári sem nú er senn liðið í aldanna skaut, skyldi jarðhitasvæðið sjálft virkjað, lagðar aðveituæðar til Grindavíkur og Njarðvíkur og hluti dreifikerfa í Grindavík, Njarðvík og Keflavík. Á öðru ári, þ. e. a. s. árinu 1976, skyldi lokið við dreifikerfi á þessum stöðum og lagðar aðveituæðar að Sandgerði og Gerðum og hluti af dreifikerfum þar. Á þriðja ári átti síðan að leggja aðveituæð að Vogum, koma upp dreifikerfi þar að hluta og ljúka við dreifikerfi í Sandgerði og Garði. Á fjórða ári átti síðan að ljúka verkinu að fullu.

En þegar hér er komið sögu fer því miður heldur að þyngjast róðurinn í þessu mikla hagsmunamáli suðurnesjabúa. Menn vissu að vísu áður en hér var komið sögu að Svartsengi, þar sem tilraunaboranirnar höfðu farið fram, þar sem ætlunin var að virkja, var ekki í eigu hins opinbera, hvorki ríkis né sveitarfélaga, heldur var það í eigu nokkurra einstaklinga. En það var eins og fáir tryðu því að þetta yrði teljandi vandamál þrátt fyrir þessa staðreynd, þar sem um svo augljósan almannahag væri að ræða að hægt yrði að nota orkuna sem þarna leyndist í iðrum jarðar. Grindavíkurhraun, illt yfirferðar, úfið og grátt, hafði fram að þeim tíma þótt heldur lítt verðmæt eign og vart seljanlegt, nema þá í þeim tilvikum þegar sérkenni þess voru komin á málverk eftir Kjarval. Engum hafði raunar dottið annað í hug en að eigendur fengju greitt hóflegt verð fyrir landssvæðið sem þarna var um að ræða og þyrfti að nota í sambandi við virkjunina, t. d. í samræmi við það sem almennt er greitt á Suðurrnesjum fyrir land undir byggingar, en það hefur gjarnan verið 50–100 kr. fyrir fermetrann síðustu 1–3 árin. Með tilliti til þess, að landeigendur áttu flestir að njóta hitaveitu eins og aðrir suðurnesjamenn og sumir þeirra voru raunar og eru fulltrúar í sveitarstjórnum og þar með trúnaðarmenn almennings, þótti mörgum enn þá ólíklegra en ella að eignaraðildin á hraunspildunni þarna gæti orðið tiltakanlegt vandamál í sambandi við þetta stóra hagsmunamál. Aðrir höfðu að vísu bent á þann möguleika að þarna gæti komið upp vandamál og höfðu lagt á það áherslu, ekki síst í sambandi við flutning þessa máls og flutning brtt. við frv. um Hitaveitu Suðurnesja, að rétt væri með lögum að ganga þannig frá þessum málum að til árekstra eða erfiðleika þyrfti ekki að koma. En það fannst ráðamönnum ekki nauðsynlegt. Þeir hafa vafalaust talið að þessi mál hlytu að leysast með góðu samkomulagi við landeigendur. En þetta hefur farið nokkuð á aðra lund. Skyndilega virtist svo sem hraunspildan í Svartsengi væri orðin ákaflega verðmætt land, geysilega verðmætt, trúlega einu verðmætasti skikinn á öllu Íslandi. Það var um það bil sem frv. þetta var orðið að lögum sem svona var breytt orðið. Landeigendur réðu til sín lögspekinga, fleiri en einn, og eftir það var ekki að sökum að spyrja. Nú var ekki aðeins um það að ræða að landeigendur fengju eðlilegar bætur fyrir landið þar sem virkjað yrði. Þeirra eign skyldi nú teljast orkan djúpt í iðrum jarðar. Hún skyldi nú jafnvel metin með hliðsjón af olíuverði, að því er sumir sögðu. Landeigendur Svartsengis voru sem sagt skv. þessum kokkabókum orðnir eins konar olíufurstar. Menn, sem ekkert höfðu lagt að mörkum til að ná orkunni og ætluðu ekkert að leggja fram til að virkja hana, töldu nú sjálfsagt að þeir græddu ótaldar fjárfúlgur á því að leyfa náðarsamlegast að hún yrði nýtt í almennings þágu.

Ég skal nú gera nokkuð langa og heldur leiðinlega sögu stutta. Eftir árangurslaust þóf og langdregna samningafundi við landeigendur og eftir umr. um að rétt væri að hefja tilraunaboranir í landi ríkisins, sem er skammt frá Svartsengi, í Eldvörpum, þá mun það hafa gerst einhvern tíma núna s. l. sumar að stjórn Hitaveitu Suðurnesja og eigendur Svartsengis gerðu með sér samkomulag þess efnis, sem nú skal greina:

Skipaðir skyldu matsmenn til að meta til verðs land- og hitaréttindi þau sem þarna var um að ræða. Þetta mat yrði síðan lagt fyrir aðila, sem hvorugur er bundinn af matinu, og hefðu þeir síðan einn mánuð til að ákveða hvort þeir vildu hlíta þessu mati, Grindavík mun hafa sérstöðu að því leyti, að varðandi orku, sem hún þarf, er matsgerðin bindandi.

Ég veit ekki betur en að þessir matsmenn sitji nú á rökstólum og velti fyrir sér því vandamáli hvernig eigi að meta orkuna djúpt í jörðu niðri til verðs þeim einstaklingum til handa sem eiga landið þarna yfir. Þeir geta varla talist öfundsverðir af þessu verkefni sínu, jafnvel þótt sú hæpna regla kunni að gilda í þessu tilviki, sem ég veit nú ekkert um, að þóknun til matsmannanna komi til með að standa í réttu hlutfalli við matsupphæðina.

Þegar samningatilraunir stjórnar Hitaveitu Suðurnesja og landeigenda strönduðu síðla vors eða snemma sumars, — ég nota það orð að þær hafi strandað, — þá var fullyrt að mikið bæri á milli. Því hefur verið fleygt, og það hefur heldur slælega verið borið til baka, að hitaveitustjórnin hafi gefið í skyn að 70–80 millj. kr. kynnu að verða boðnar fyrir réttindin, en á hinn bóginn hafi lögmenn jarðhitafurstanna helst ekki nefnt lægri tölur en svo sem 800 millj. þegar öll kurl kæmu til grafar, en það væri svo sem 75 þús. kr. skattur á hvert mannsbarn á Suðurnesjum. Ég skal taka það fram að þetta eru þær sögur sem hafa gengið um Suðurnes og verið birtar jafnvel á prenti þar í hlaði sem gefið er út á Suðurnesjum. Þær hafa gengið fjöllunum hærra og þeim hefur ekki verið mótmælt í rauninni á þann hátt, sem fullt mark er á takandi. Og nú sitja menn og bíða, að því er ég best veit, þeir bíða eftir umsögn eða dómsorði gerðardóms sem þó er í rauninni ekkert dómsorð þar sem hvorugur aðili er skuldbundinn til að hlíta úrskurði dómsins.

Framvinda þessa máls er því í fullkominni óvissu. Heilt ár er senn liðið í þjark og þóf sem enginn veit hvenær lýkur, og enginn veit í rauninni hver endalokin verða. Hitt er ljóst, að með hverju missiri og raunar má segja með hverjum mánuði sem þannig líður í aðgerðaleysi tapa suðurnesjabúar miklum verðmætum og það á tvennan hátt. Þeir tapa verðmætum í þeim mikla olíukostnaði, sem þeir verða að greiða, og þeir tapa einnig verðmætum í stórhækkuðum kostnaði við virkjun og við lagningu hitaveitukerfis. Þetta er augljóst. Mér er um það kunnugt að þolinmæði Suðurnesjabúa er nú mjög á þrotum í sambandi við þetta mál. Ég hygg að allur þorri þeirra sé kominn á þá skoðun að eðlilegasta og hreinlegasta lausn þessa deilumáls, sem tafið hefur Hitaveitu Suðurnesja nú þegar í nærri heilt ár, sé samþykkt þess frv. til breyt. á orkulögum sem hér er nú til umr.

Ég hef dvalið nokkuð við ákveðið dæmi í sambandi við háhitamálin, þ.e.a.s. við hitaveitumál Suðurnesja. Ég hef gert það vegna þess að þetta mál er alveg nýtt af nálinni og það er mjög í sviðsljósinu um þessar mundir. Ég hef einnig gert það vegna þess að þetta er býsna stórt mál og það sýnir ákaflega ljóst í hvert öngþveiti virkjunarmál hitaorkunnar geta komist, í hvert öngþveiti þau munu komast, ef ekki verða reistar við rammar skorður. Deilan um hitaréttindi á Suðurnesjum verður ekki eða tæplega eina deilan við landeigendur sem upp kemur á næstunni ef löggjafarvaldið lætur undir höfuð leggjast að tryggja almannahag á þessu sviði. Þetta er að sjálfsögðu, eins og ég hef margsagt, ekkert smámál fyrir suðurnesjamenn, hversu lengi það dregst að hefja framkvæmdir í þessu hagsmunamáli þeirra. Hér eiga í hlut á tólfta þús. manns sem búsettir eru í þessum sveitarfélögum, þ.e.a.s. íbúarnir þarna, sem bíða hitaveitu, eru fleiri en í hverju einu af eftirtöldum fjórum kjördæmum landsins: Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi, Norðurlandskjördæmi vestra eða Austfjarðakjördæmi, en mig minnir að íbúar í þessum kjördæmum séu yfirleitt um 10 þús. og kannske 11 þús. í Vesturlandskjördæmi. Hér er því ekki um neina litla hluti að ræða.

Herra forseti. Það frv., sem ég hef nú mælt hér fyrir, fjallar um afar mikilvægt mál. Það er um það að ræða, hvort auðæfi hitaorkunnar, sem fólgin eru djúpt í iðrum jarðar og ekki verða nýtt nema með frumkvæði hins opinbera komi til, hvort þessi auðæfi skuli teljast eign og þar með gróðalind tiltekinna einstaklinga eða hvort þessi eign sé þjóðareign og verði hagnýtt í almannaþágu. Hið fyrra, að hér sé um að ræða eign einstaklinga, stríðir að mínu viti gegn réttlætiskennd flestra manna og það viðurkennir löggjafinn með því og e. t. v. með því einu að lögfesta slíkt frv. sem þetta.

Ég óska þess svo, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.