28.04.1976
Neðri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

232. mál, rannsókn sakamála

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt tveimur hv. þm., þeim Jónasi Árnasyni og Karvel Pálmasyni, svo hljóðandi till. til þál. á þskj. 478:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að öll þau dómaraembætti, sem hafa með höndum rannsókn umfangsmikilla sakamála, geti ráðið til starfa nauðsynlegan fjölda lögfræðinga, rannsóknarlögreglumanna og bókhaldsfróðra manna í því skyni að hraða rannsókn þessara mála svo þeim verði lokað sem allra fyrst.“

Æskilegast hefði að sjálfsögðu verið að mál eins og þetta væri flutt af þm. allra þingflokka. Tilraunir til þess voru að vísu gerðar og borið niður hjá þm. sem mér var kunnugt um að hefðu áhuga á slíkum málum sem þessum. Það varð þó ekki að ráði að við flyttum þessa till. nema þessir þrír af ýmsum ástæðum.

Nú í vetur hefur athygli almennings mjög beinst að dómsmálum. Um fá mál hygg ég að meira hafi verið rætt manna á meðal. Málaflokkur, sem mjög hefur legið í láginni á undanförnum árum, hefur skyndilega orðið efst á baugi í allri umræðu. Þær umræður, sem fram hafa farið um þessi mál, hafa leitt í ljós ýmsa ágalla á okkar réttargæslukerfi. Ekki svo að skilja að um þau vandkvæði hafi ekki verið vitað áður af þeim sem vel fylgjast með í þessum efnum. Hins vegar held ég að það sé rétt ályktað hjá mér, að a.m.k. almenningur hafi lítt eða ekki um þá vitað.

En þessar umræður, sem orðið hafa í vetur, hafa þó orðið til þess að mínu mati að ýmsir hafa uppgötvað sér til skelfingar vandhæfi réttargæslukerfisins á að gegna því hlutverki sem því er ætlað að gegna, miðað við þær aðstæður sem nú hafa skapast og hafa verið að skapast í íslensku þjóðfélagi. Jafnframt þessu hefur í vetur orðið uppskátt um ýmislegt miður geðslegt í fari okkar samfélags sem athygli hefur vakið. Ég held að það sé vægt til orða tekið að segja að fólk sé felmtri slegið yfir þessum tíðindum, felmtri slegið yfir því hve veikt okkar ágæta réttargæslukerfi er til þess að bregðast við slíkum tíðindum sem orðið hafa og ekki síður felmtri slegið yfir því á hvaða braut íslenska þjóðin er.

Meginatriðið í þeirri þáltill., sem hér er til umr., er að Alþ. reyni að leggja sitt af mörkum til að gera einhverjar úrbætur hvað varðar fyrra atriðið, réttargæslukerfið sjálft. En áður en að því er vikið er e.t.v. ástæða til að fara nokkrum orðum um það ástand sem verið hefur að skapast umhverfis okkur og valdið okkur ugg og ótta.

Það er svo sem ekkert nýtt fyrir okkur íslendinga að í því umhverfi, sem hefur verið að skapast hér á Íslandi eins og í öðrum löndum þar sem þjóðir lífa við svipaðar kringumstæður og við, hafi ýmislegt það verið að gerast sem beri vott um að annarlegar hvatir í mannlegu eðli hafi fundið sér þar einhverja gróðrarstíu. Við erum ekki einir í heiminum, íslendingar, og fjölmargar aðrar þjóðir nær og fjær, sem búa við svipaðar félagslegar og efnahagslegar aðstæður og við, hafa reynt þetta hið sama, þó öllu óvægilegar. Við höfum einnig haft daglegar fréttir af því sem er að gerast meðal þessara þjóða. Útvarp, sjónvarp og blöð hafa daglega þulið yfir okkur fréttir af vaxandi öldu ofbeldis og hryðjuverka meðal þeirra þjóða sem okkur eru hvað skyldastar menningarlega og að lífsháttum öllum. Eitthvað það er á seyði í þessum vestrænu velferðarþjóðfélögum, sem búa þegnum sínum áður óþekkta möguleika til frelsis, viðsýnis og framfara, sem er í öfugu hlutfalli við allt það sem menn gætu ætlað af almennri skynsemi að hefði átt að vera afleiðingar þeirra félagslegu framfara og réttlætissóknar sem hafin hefur verið í þessum samfélögum. Þar gætir einhverrar fyrirlitningar á mannlegum verðleikum. Þar er um að ræða einhvern kaldrifjaðan skort á samúð og mannlegum tilfinningum, einhverja grimmd, svo kaldrifjaða og illgjarna í garð annarra mannlegra vera, að ekki verður skýrð til fullnustu.

Sumir af þeim atburðum sem við höfum fregnað af frá umheiminum og virðast einnig eiga sér einhverjar hliðstæður hér á landi, minna á fátt annað fremur en söguna af því þegar skrattinn fór að skapa mann og gat gætt mannsímynd sína öllum eiginleikum, svo sem sjón, heyrn, smekk, litarafti, máli, öllu nema mannlegum tilfinningum. Þau óhugnaðarverk, sem drýgð eru í velsældarþjóðfélögum okkar af fólki sem hefur yfrið nóg að bíta og brenna, er vel menntað, frjálst og vel upp alið, — þessi verk mörg hver eru líkust því sem þau séu framin af gervimanneskjum sem hafi að vísu, að því er virðist, flesta mannlega eiginleika, nema hvað þær virðast gjörsneyddar öllum eðlilegum mannlegum tilfinningum, eins og á meðal okkar í þessum vestrænu velferðarþjóðfélögum gangi um einhvers konar gervimanneskjur sem beri ekki skynbragð á gott og illt vegna þess að þær skorti einhvern meðfæddan hæfileika sem gerir menn að manneskjum.

Við höfum hlýtt á frásagnir af slíkum óhugnaðarverkum meðal nágrannaþjóða okkar, fréttir af rísandi öldu hryðjuverka, líkamsmeiðinga, ofbeldis og auðgunarglæpa með sölu eitur- og fíkniefna sem leiða til hrörnunar og dauða þúsunda. Þessi tíðindi hafa vissulega snortið okkur og ýtt við okkur, en viðbrögð okkar þar sem við höfum setið í hægindum frammi fyrir sjónvarpstækinu, þegar slíkum atburðum er lýst, eða með blað í hönd, þar sem frá þeim er skýrt, hafa verið áþekk og hjá faríseanum: „Guð, ég þakka þér, að við skulum ekki vera í hópi þessara þjóða.“ En enginn maður er eyland, og á himninum yfir okkar litla og friðsæla landi hafa verið að hrannast svört kólguský að undanförnu þótt við höfum af ýmsum ástæðum ekki gefið þeim gaum. Einnig hér lesum við nú orðið svo að segja daglega fréttir af vaxandi ofbeldisverkum, líkamsárásum og ránum. Fáar vikur líða nú án þess að skýrt sé frá því að einhver einstaklingur sé barinn niður og rændur á förnum vegi hér í höfuðborg Íslands eða í heimahúsum fyrir engar sakir og síðan skilinn eftir eins og hundur liggjandi í blóði sínu. Kjörorð þessarar borgar hefur nú um nokkur ár verið: „Hrein torg, fögur borg“, en á síðustu árum hefur reynsla borgarbúa orðíð sú að þessi hreinu torg séu siður en svo örugg til umferðar fyrir blásaklaust fólk. Hér í vetur í umr. um þessi mál hef ég áður rakið dæmi þar sem ungum pilti var gerð hrein fyrirsát í því skyni að hefna á honum fyrir það sem afbrotamaðurinn taldi uppljóstrun af hans hálfu, og gengið var svo nærri heilsu þessa unglings að hann hefur enn ekki náð fullum líkamskröftum. Þá er það einnig orðið — kannske daglegt brauð, en alla vega finnast dæmi um það að alls kyns hótanir séu hafðar í frammi við menn, og einnig hefur það komið fram við rannsóknir á málum nýlega að menn, sem eitthvað misjafnt vita, eru beinlínis hræddir um líf sitt og virðast hafa fulla ástæðu til. Þá hefur það einnig komið í ljós að hér hafa verið að verki og verið gert uppskátt um hringa afbrotamanna sem t.d. hafa stundað smygl á fíkniefnum hingað til lands. Ég man eftir því að það er ekki meira en 3–4 ár síðan einn af kunnari rannsóknarlögreglumönnum þessarar þjóðar var að lýsa fyrir mér því ástandi sem við blasti í sambandi við fíkniefnainnflutning til landsins. Það fór fyrir mér eins og flestum leikmönnum; sem í mínum sporum hefðu staðið, að ég vildi ekki trúa öllu því sem mér var sagt, en þessi maður spáði því þá fyrir mér að ástandið væri komið á það alvarlegt stig að það mundu ekki mörg ár líða áður en skipulögð samtök yrðu mynduð til þess að annast innflutning á þessum efnum til landsins og dreifingu þeirra þar. Nú í vetur var skýrt frá því í íslenskum dagblöðum að rannsókn væri hafin á starfsemi tveggja slíkra hringa sem hefðu haft miðstöðvar sínar á Keflavíkurflugvelli, þannig að því miður reyndist viðkomandi rannsóknarlögreglumaður vera sannspár í þessu efni.

Gagnvart slíkum tíðindum er næsta eðlilegt að fólki fallist hendur. Hins vegar er ekki hægt að segja að við höfum ekki verið vöruð við. Mér er t.d. í fersku minni enn að hafa lesið viðtöl fyrir nokkrum árum við hópa götulögreglumanna hér í Reykjavík sem mér er kunnugt um að höfðu það miklar áhyggjur af þróun mála að þeir komu hópum saman á fund stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka til þess að lýsa áhyggjum sínum yfir þróun mála hér í Reykjavík og biðja um aðstoð til úrbóta. Það, sem þeir lýstu, var í stuttu máli sagt þetta:

Þeir höfðu miklar áhyggjur af því að þér í borginni færu mjög ört vaxandi ýmiss konar óspektir og bein afbrot unglinga — afbrot sem réttargæslukerfið stæði uppi magn- og ráðþrota gegn. Kvöld eftir kvöld og meira að segja oft á sama kvöldi urðu þessir götulögreglumenn hér í Reykjavík að hirða upp hópa af unglingum sem stunduðu skipulagða spellvirkjastarfsemi, óknyttastarfsemi eða hrein afbrot, og það virtist ekki vera nokkur lífandi leið að koma lögum yfir þetta fólk eða gera því skiljanlegt að það væri eitthvað til í landi sem héti landslög og mönnum bæri að hlíta. Þessir lögreglumenn höfðu ekki endilega mestar áhyggjur af því að þetta mundi fara vaxandi meðal þessa aldursflokks, heldur sögðu þeir m.a. í mín eyru að það, sem þeir hefðu áhyggjur af, væri hvað mundi gerast þegar fólk, sem ælist upp við slík viðbrögð eða réttara sagt skort á viðbrögðum þjóðfélagsins, kæmist til fullorðinsára og lenti e.t.v. út á þá braut að fara að drýgja afbrot sem fullorðið fólk drýgir. Þessir götulögreglumenn sögðust hafa miklar áhyggjur af því hvað yrði þegar þessir unglingahópar kæmust til fullorðinsára eftir að þeir höfðu alist upp við það að þeir verknaðir, sem þeir hefðu drýgt, og þau afbrot og þau spellvirki, sem þeir hefðu framið, yfir það næðu engin lög. Og því miður virðist vera svo að þessir götulögreglumenn í Reykjavík hafi verið sannspáir, því ég vil vekja athygli hv. þm. á því að í nær öllum þeim tilvikum þegar blöð skýra frá ránum eða líkamsmeiðingum hér í borginni, þá á hlut að máli ungt fólk, ungir menn aðallega, sem nýlega eru komnir á sakhæfisaldur, en voru unglingar að afbrotaleik, eins og ég var að lýsa hér áðan, fyrir nokkrum árum. Þetta var það sem götulögreglumennirnir töldu sig sjá fyrir. Það var þetta sem þeir vöruðu við. Á viðvörunarorð þeirra var því miður ekki hlustað. Því er e.t.v. komið sem komið er.

Þessi þróun mála er að sjálfsögðu ekkert nýnæmi. Þetta hefur orðið eftir nákvæmlega sömu eða svipuðum formúlum og meðal nálægra landa eða þjóða sem búa við svipað þjóðskipulag og við íslendingar gerum. Með því aðeins að fara 10–15 ár aftur í tímann getum við lesið lýsingar frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi af sömu hlutum og sömu atburðum og nú er að gerast hér, og mig hryggir það enn og aftur að þeir atburðir, sem við eru.m að lesa um þar í dag, kunni e.t.v. að eiga eftir að renna upp yfir okkur íslendinga eftir 10–15 ár, ef marka má það fordæmi sem við höfum fyrir augunum í þessum efnum. Við getum því sennilega farið nærri um það hvar þetta endar ef ekkert verður að gert. Og staðreyndin er sú, að það hefur verið sammerkt með öllum þessum þjóðum eitt og hið sama, einnig okkur. Í fyrsta lagi, þegar þessi alda hefur byrjað að rísa hefur réttargæslukerfið meðal þessara þjóða verið allsendis vanbúið að veita viðhlítandi andsvör. Í öðru lagi hafa bæði ráðamenn og almenningur í heild forðast í lengstu lög að horfast í augu við ástandið og viðurkenna það eins og það er. Og í þriðja lagi hafa aðgerðir verið dregnar það lengi og viðurkenning það lengi að loksins þegar úr hefur átt að bæta hefur það reynst næstum því ókleift.

Í mörgum slíkum tilvikum grípa menn til þeirra örþrifaráða að leita að einhverjum sökudólgum til þess að kenna þessa þróun. Mönnum kemur þá í hug að spyrja: Hverjir brugðust? Þetta hlýtur að vera einhverjum að kenna. Einhvern hlýtur að vera hægt að draga til ábyrgðar fyrir þetta. Einhver forsvarsmaður eða forsvarsmenn hafa ekki haldið vöku sinni. En í þessu máli er enginn einn sökudólgur, hvorki hér á landi né annars staðar. Enginn, hvorki meðal almennings né ráðamanna, hefur staðið gegn því að reynt yrði að svara nýjum og ógnvekjandi aðstæðum, svo sem fjölgandi afbrotum unglinga, með tilhlýðilegum hætti til að forða frá ósköpum. Það hefur enginn staðið þarna í veginum. Það, sem um hefur verið að ræða, er einfaldlega að það hefur ekki verið áhugi á þessum málum, hvorki meðal þjóðarheildarinnar né ráðamanna hennar. Það er að vísu ákaflega handhægt að reyna að velja úr einhvern ábyrgan aðila og kenna honum um og segja við hann: Þú hefur vanrækt að sinna þínu hlutverki. — En hefur sá áhugi þá verið fyrir hendi annars staðar? Hefur sá áhugi verið fyrir hendi hér á Alþ?

Hefur sá áhugi verið fyrir hendi hjá dagblöðum og fjölmiðlum? Hefur sá áhugi verið fyrir hendi meðal almennings?

Umræða um dómsmálin hefur orðið mikil í vetur. Það er von mín og býst ég við fleiri en mín að sú umr., sem vakið hefur áhuga á þessum málum, verði til þess að menn vakni til vitundar um hvað þarf þarna að gera og taki höndum saman um að reyna að leysa þau mál, en láti hins vegar niður falla persónulegar ýfingar og árásir og sakfellingar á einstökum aðilum sem ekki eru í meiri sök í þessu tilviki heldur en þjóðin sjálf, hver einn og einstakur okkar á meðal.

Meginatriði málsins er að sjálfsögðu að við gerum okkur grein fyrir því hvernig komið er og að við höfum vanrækt að gera ráðstafanir, svo sem úrbætur í réttargæslumálum, sem nauðsynlegar eru. Þær miklu umr., sem orðið hafa um þessi mál í vetur, hafa þó orðið til þess að þegar hefur verið gert nokkuð í þeim málum, m.a. hér á þessu þingi, með þeim frv., sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt. Ég vil hins vegar segja það eins og er, að ég er síður en svo ánægður með hvernig Alþ. hefur tekið á þeim málum, vegna þess að þessi frv., sem fengu hér mjög góðar undirtektir, hafa legið óafgr. í n. og fer nú að verða hver síðastur að koma þeim frá. Trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að Alþ. ætli eftir allar þessar umr. ekki að afgr. þessi mál frá sér sem horfa til mjög mikilla bóta á réttargæslukerfinu almennt. En þó að þessi frv. öll séu góð út af fyrir sig, þá held ég að við hljótum að vera sammála um að ýmislegt má betur gera. Sá er einnig tilgangurinn með þessari þáltill. Hún er flutt af vilja okkar flm. til að þoka þessum málum áfram, en ekki af einhverjum öðrum annarlegum hvötum.

Ég sagði áðan að gagnrýni á aðstöðu og skipulagi réttargæslumála þyrfti að vera flutt fram vegna þarfar á úrbótum, miðað við þá reynslu, sem fengist hefur, og þær augljósu aðstæður, sem við blasa, en ekki í þeim tilgangi, að reyna að sakfella einhvern áhrifamann eða ábyrgðaraðila, enda er það ekki tilgangurinn með þessum tillöguflutningi og er ekki gert. En þá verður líka að ætlast til þess af þeim, sem um málin fjalla, að andsvar þeirra byggist ekki á einhverjum tilbúningi um ofsóknarherferðir eða samsæri gegn ákveðnum einstaklingum eða hópum manna. Till. eins og sú, sem hér er flutt, er ekki flutt í flokkspólitískum tilgangi heldur ættu allir þm., án tillits til þess í hvaða flokki þeir eru, að geta gerst stuðningsmenn hennar hér á Alþ. þótt svo hafi ekki orðið. Ótti um, að slíkur tillöguflutningur sem þessi sé einhvers konar pólitískt samsæri gegn aðila eða aðilum, er ekki aðeins ástæðulaus, heldur einnig fráleitur og heimskulegur og síður en svo til þess fallinn að auðvelda lausn þeirra verkefna sem við alþm. þurfum að reyna að taka höndum saman um að leysa.

Ég sagði áðan að þær miklu umr., sem orðið hafa um dómsmál í vetur, hafi leitt í ljós vandhæfi réttargæslukerfisins, eins og skipulagi þess er nú háttað og að því er búið, til þess að takast á við þau verkefni sem það þarf nú að glíma við. Í slíku máli nægir að sjálfsögðu ekki að setja fram fullyrðingu. Þar verður að nefna ákveðin dæmi. Í grg. með þessari þáltill. eru nokkur slík dæmi nefnd.

Það er t.d. mjög einkennandi hversu seint og illa kerfinu gengur að eiga við meiri háttar fjársvikamál sem virðast stöðugt verða algengari hér á Ísíandi. Slík mál krefjast þess að umfangsmiklar bókhaldsrannsóknir eigi sér stað, en í þeim efnum eru dómstólar mjög vanbúnir. Má þar t.d. nefna að embætti ríkissaksóknara hefur ekki einn einasta endurskoðanda starfandi á sínum snærum, heldur verður embættið jafnan að leita til endurskoðenda, sem stunda sjálfstæða endurskoðunarstarfsemi, til þess að vinna slík bókhaldsrannsóknarstörf. Þessar endurskoðunarskrifstofur eru oftast störfum hlaðnar. Rannsóknarstörfin verða þær að taka að sér í aukavinnu sé þá á annað borð unnt að fá þær til þess, og því líður oft mjög langur tími, jafnvel mörg ár, áður en bókhaldsrannsókn er lokið. Þá hefur það einnig gerst að þegar rannsókn er komin vel á veg tengist málinu einhver viðskiptavinur endurskoðunarskrifstofunnar þannig að ekki sé talið rétt að sú endurskoðunarskrifstofa haldi bókhaldsrannsókninni áfram. Verður þá að leita til annarrar og hefja rannsókn málsins að nýju. Allt verður þetta til að tefja rannsóknarstörfin, stundum úr hófi fram. En í málum sem þessum er hætta á að afbrot fyrnist ef rannsókn liggur niðri um langan tíma. Þá verður hinn mikli dráttur á bókhaldsrannsókninni einnig til þess að aðrir þættir í rannsókn sakamáls geta dregist eða liggja jafnvel alveg niðri. Oft er hér um að ræða mjög umfangsmikil mál þar sem mjög stórar fjárhæðir koma við sögu, og þarf auðvitað ekki að lýsa því hvaða áhrif það getur haft á viðhorf almennings til réttarfarsins í landinu ef rannsóknir á mjög umfangsmiklum fjársvika- og afbrotamálum dragast óhóflega á langinn, eins og dæmi eru til um.

Af málum af þessu tagi má t.d. nefna svonefnt Klúbbmál, en rannsókn á því, þ. á m. umfangsmikil bókhaldsrannsókn, hófst haustið 1972 og lauk ekki fyrr en með birtingu ákæru nú nýverið.

Í öðru lagi má nefna mjög umfangsmikið mál Friðriks Jörgensens sem tekið var til rannsóknar árið 1966 og er enn ekki lokið.

Í þriðja lagi má svo nefna rannsókn á gjaldþrotamáli Vátryggingafélagsins hf., en sú rannsókn hófst fyrir allöngu og er ekki séð fyrir endann á henni enn.

En hvað er það sem skortir svo að hér geti verið betur að verki staðið? Þegar hefur verið nefnt eitt atriði: skortur á bókhaldsfróðum mönnum til rannsóknarstarfa og starfsliði á svo til öllum sviðum þeirra mála, allt frá rannsóknaraðilum og til ákæruvalds. Sem dæmi get ég t.d. nefnt það, og ég held að það sé rétt hjá mér, að nú sé ekki lengur neinn löggiltur endurskoðandi starfandi við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins, heldur hafi þeir allir horfið frá starfi í vetur og enginn slíkur sérmenntaður maður í bókhaldi lengur starfandi við þetta viðamikla og þýðingarmikla rannsóknarembætti.

En hvaða afleiðingar aðrar hefur þessi mannafla- og aðstöðuskortur en þær sem þegar hefur verið lýst? Nokkur dæmi þar um er rétt að nefna. Það hefur komið fram hjá rannsóknarlögreglumönnum, sem fjallað hafa um svonefnt Klúbbmál, að mikil ástæða hafi verið til þess að rannsaka ýmis atriði þess máls, svo sem varðandi fjárhagsleg samskipti staðarins við aðila sem grunsamleg þykja. Þetta hefur ekki verið gert. Ég hef ekki þá trú að þessi rannsókn hafi verið torvelduð á einn eða annan hátt af þeim sem með stjórn mála fara. Líklegasta skýringin er einfaldlega sú að hvorki hafi gefist ráðrúm né mannskapur til þess að sinna þessu nauðsynlega rannsóknarstarfi. Þá hefur komið fram í ákæru, sem birt er á hendur þessum aðilum, að hún er reist á bókhaldsrannsókn tveggja ára, áranna 1970–1972. Í bréfi ríkisskattstjóra til ákæruvaldsins um málið er hins vegar óskað rannsóknar allt aftur til ársins 1966, þar sem grunur er talinn leika á að lögbrotin, sem uppgötvuðust við rannsóknina yfir árin 1970–1972, eigi sér mun lengri aðdraganda. Þessi rannsókn yfir árin 1966–1970 hefur hins vegar ekki verið gerð. Hvers vegna ekki? Að því er ég kemst næst einfaldlega vegna þess að hér yrði um svo umfangsmikla bókhalds- og gagnarannsókn að ræða að frammi fyrir því verkefni féllust mönnum hreinlega hendur. Hvaða sögu segir það okkur um aðstöðu þessa réttargæslukerfis ef rökstuddur grunur er um lögbrot og ósk um rannsókn verður að leggja til hliðar vegna skorts á rannsóknaraðstöðu?

Það má enn nefna mál Friðriks Jörgensens sem er nú meira en 10 ára gamalt. Hér er um að ræða eitt umfangsmesta mál sinnar tegundar á Íslandi. Málsskjölin fylla marga kassa. Ákæra hefur að vísu verið gefin út, dags. 15. mars 1371, en rannsókn er þó enn hvergi nærri lokið og stendur enn yfir á ýmsum þáttum þess, og er enn ekki séð fyrir endann á henni. Hér er um svo umfangsmikið mál að ræða að rannsóknaraðilar og saksóknari ráða raunverulega ekki við það.

Þá má enn nefna aðrar afleiðingar af þessum aðstöðuskorti, sem sé hættuna á því að mál fyrnist vegna þess að rannsókn liggi niðri, en fjársvikamál geta fyrnst ef rannsókn er ekki haldið uppi með eðlilegum hætti og æskilegum hraða. Nú er svo komið, að því er mér er tjáð af mönnum sem ég tek fullt mark á, að við eigum það á hættu að slíkt kunni að geta gerst. Við höfum m.a. orðið fyrir því að menn hafa getað flúið land undan ákærum fyrir fjársvik án þess að eftir því hafi verið tekið fyrr en um seinan. Sjálfur var ég fyrir nokkrum árum áhorfandi að því að athafnamaður einn, sem beið dóms fyrir talsverð fjársvik og átti óafplánaða ýmsa aðra dóma, fór opinberlega og án þess að reyna nokkuð að leyna því af landi brott í sölu- og kynningarferð með milljónavirði af íslenskri framleiðsluvöru í fararteski sínu, að því er virðist fyrirhafnar- og eftirlitslaust. Sá hinn sami einstaklingur hefði allt eins getað gufað upp erlendis með verðmæti þau sem hann flutti með sér, ef hann hefði verið á þeim buxunum, hvað hann ekki var.

Þá er það einnig mjög áberandi hversu langan tíma það virðist taka frá því að embætti skattrannsóknarstjóra lýkur meðferð og rannsókn á skattsvikamálum og þar til þeim lýkur með ákæru og dómi, sé sú leið valin að senda þau áfram til ríkissaksóknara í stað þess að vísa þeim til ákvörðunar skattsektanefndar. Það er eins og sum slíkra mála hreinlega týnist í kerfinu, því það mun mála sannast að eftir að skattrannsóknarstjóri eða ríkisskattstjóri sendir slík mál frá sér til ákæruvaldsins, þá hafi þeir ekki lengur hugmynd um hvað af þeim verður eða hvar þau eru stödd. Til dæmis er mér kunnugt um að mál af þessu tagi sendi skattrannsóknarstjóri frá sér um miðbik ársins 1971, en embætti hans hefur nú ekki hugmynd um hvar það er statt í kerfinu, hjá hverjum né hvað við það hefur verið gert, nema hvað það er þar einhvers staðar og málinu ekki lokið enn. Hætt er við því að í ljósi slíkrar reynslu verði sú leið frekar valin af ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra að senda mál af þessu tagi til sektarúrskurðar hjá skattsektanefnd, þó svo að þau kunni e.t.v. að vera þess eðlis að eðlilegra sé að þau séu tekin til ákærumeðferðar fyrir dómstólum.

Út úr þessum dæmum, sem ég hef hér tekið, mætti snúa svo að ég væri að veitast að þeim embættisstofnunum og þeim embættismönnum, sem um þessi mál fjalla, og ásaka þá fyrir seinagang og vanrækslu í starfi. Svo er þó alls ekki. Þessi seinagangur og óhóflegi dráttur stafar einfaldlega af því að þessi embætti skortir alla aðstöðu til þess að sinna þeim verkefnum sem til þeirra er beint í þeim mæli sem nú er gert. Lykilstofnun í þessum málum er embætti ríkissaksóknara. Þar er ástandið þannig að frá árinu 1965 hafa þar verið starfandi aðeins 4 lögfræðingar auk ríkissaksóknara sjálfs eða alls 5 löglærðir menn. Í gegnum hendur þessara fáu manna þurfa að fara öll þau mál sem tekin eru til opinberrar ákæru, m.a. þau mál sem ég hef að framan lýst, þar sem málsskjöl fylla marga kassa og væri margra mánaða starf fyrir einn mann að setja sig til fulls inn í slík mál. Svo að dæmi sé tekið um vinnuálagið á þessari lykilstofnun í réttargæslukerfinu, þá má nefna að árið 1970 voru því send alls 294 í mál, árið 1974 var málafjöldinn 3824 og 18. nóv. s.l. nam málafjöldinn á árinu 1975, það sem af var árinu, 4112. Árið 1972 ákærði ríkissaksóknari alls 409 einstaklinga fyrir ölvun við akstur. Aðeins tveimur árum síðar, árið 1974, höfðu slíkar ákærur tvöfaldast, en þá voru ákærðir 875 menn fyrir slíkt brot. Árið 1972 voru 958 einstaklingar ákærðir af ríkissaksóknara fyrir önnur afbrot. Aðeins tveimur árum síðar voru slíkir ákærðir einstaklingar alls 1372. Þrátt fyrir þetta geysilega aukna álag hefur starfsmönnum embættisins ekkert fjölgað og ítrekuðum óskum ríkissaksóknara þar um hefur ekki veríð sinnt. Bréf þess efnis hafa strandað einhvers staðar í kerfinu, svo að notað sé orðalag ríkissaksóknara sjálfs í viðtali við dagblaðið Þjóðviljann frá því í febrúarbyrjun á s.l. ári.

Þær tölur, sem ég hef nefnt, gefa þó ekki rétta mynd af auknu álagi á þessari lykilstofnun í réttargæslukerfinu. Á þeim 10 árum, sem embætti ríkissaksóknara hefur orðíð að láta sér nægja sama fjölda löglærðra starfsmanna, hefur málum ekki aðeins fjölgað svo mjög tiltölulega, heldur einnig fjölgað mjög hinum alvarlegri málum sem krefjast mikillar vinnu af starfsmönnum embættisins. T.d. færist mjög í vöxt að starfsmenn ákæruvaldsins séu látnir fylgjast með rannsókn alvarlegri afbrotamála frá upphafi og eru þá uppteknir við það frá morgni til kvölds að gegna slíkum rannsóknum. Allt verður þetta til þess að verkefnin hlaðast upp og þessum fáu, en ágætu mönnum er um megn að leysa þau eins fljótt og vel og þeir vilja gera, þörf krefur og almenn réttlætiskennd manna gerir nauðsynlegt. Svo að eitt dæmi um þetta sé nefnt, þá get ég skýrt frá því að í nóvembermánuði s.l. voru vararíkissaksóknara afhent öll málsskjöl í máli Friðriks Jörgensens sem ég nefndi hér áðan, málsskjöl upp á marga fulla pappakassa sem tekur mjög langan tíma að kanna. Undanfarna daga hefur það komið fram í blöðum að þessi sami starfsmaður ríkissaksóknaraembættisins situr daglega yfir rannsókn þeirra mála sem nú eru hvað mest um rædd hér í borginni, og má nærri geta hvort þessi ágæti og hæfi embættismaður getur gegnt í senn báðum þessum stóru verkum.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu. Ég hef rakið nokkur dæmi því til stuðnings hvað er nauðsynlegt fyrir okkur að bregða við og gera talsverðar úrbætur í dóms- og réttarfarsmálum í landinu, og ég hef lýst ánægju minni með þau frv. um það efni sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram á Alþ. í vetur. Einn þáttur í því að bæta ástandíð í þessum málum, sá sem ég hef gert hvað mest að umtalsefni hér, en er þó aðeins einn þáttur af mörgum, er að bæta aðstöðu þeirra, sem fást við rannsókn afbrotamála, til þess að hraða allri þeirri málsmeðferð. Mér er fyllilega ljóst að slíkt verður ekki gert í einu vetfangi. En aðstæður nú eru þannig að menn fylgjast með gangi rannsókna á ýmsum þessara mála með öndina í hálsinum og hafa jafnframt fyrir sér dæmi um að rannsóknir annarra mjög alvarlegra mála hafa dregist mjög úr hömlu vegna skorts á mannafla og aðstöðu. Upplýsingar þær, sem fram hafa komið um vandhæfi kerfisins til þess að fást við slík mál, hafa orðið til þess að almenningur hefur orðið tortrygginn á réttarfarið í landinu og margir hafa áhyggjur af því að svo geti virst sem lögin í landinu taki ekki jafnt til allra. Svo er að sjálfsögðu ekki farið. En hinu verður ekki neitað að sumar réttarfarsmyllurnar mala mjög seint þótt verið geti að þær mali vel.

Eins og mál standa nú er nauðsynlegt að gerðar séu frambúðarráðstafanir til úrbóta á réttarfarsmálum í landinu og málefnum dómstóla, eins og hæstv. dómsmrh. hefur raunar þegar hafið með flutningi frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins og fleiri frv. á þingi í vetur. En mín skoðun er sú, að það þurfi einnig að gera ákveðnar og snöggar bráðabirgðaráðstafanir nú strax til þess að hraða rannsóknar- og ákærumeðferð á þeim málum sem ég hef hér nefnt og helst hafa verið gagnrýnd fyrir hve seint hafa gengið. Það kann ekki góðri lukku að stýra, að sakamál af ákveðnu tagi dragist von úr viti í meðförum, hvorki gagnvart áliti almennings á dómstólum og réttarfari né heldur gagnvart þeim sem aðild eiga að málunum og þurfa að bíða árum saman eftir að skorið sé úr um sekt þeirra eða sakleysi.

Mér er vissulega ljóst að það er ekki gert í fjárlögum ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til þess að framkvæma það sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir, þ.e.a.s. að fá þeim dómaraembættum, sem fást við rannsókn umfangsmikilla sakamála, þá aðstoð og aðstöðu sem þau kunna að þurfa til þess að fá þessum málum lokið fljótt og örugglega. En hitt veit ég, að vikið hefur verið frá ákvæðum fjárlaga um minna verða hluti en þessa, og ég er sannfærður um að ef sá er vilji þm. að þetta verði gert, þá muni þeir eigi láta á sér standa að fylgja þeim fjáröflunum sem nauðsynlegar kunna að vera til þess að standa straum af slíkum kostnaði.

Íslenska þjóðin er hart keyrð efnahagslega um þessar mundir, það er hverjum manni ljóst. Því þurfa forsjármenn hennar að gæta vel allra útgjalda. En hitt held ég þó að mönnum blandist ekki hugur um, að hvað sem öllum sparnaði liður, þá sé þeim krónum vel varið sem nú yrðu lagðar í það, að auka virkni íslenska réttarkerfisins þannig að almenningur í landinu öðlist ríkara traust og meiri tiltrú til íslensks réttarfars en mig uggir að hann hafi nú. Með því að horfa í nokkrar krónur undir þeim kringumstæðum getum við að vísu sparað eyrinn, en hversu miklu meiri verðmætum stefnum við þá ekki í hættu? Hv. Alþ. má ekki láta sinn hlut eftir liggja í því að gera úrbætur á íslensku réttargæslukerfi, og ég fyrir mitt leyti treysti hæstv. dómsmrh. vel til þess að taka vel till. eins og þessari sem kunna að koma frá einstökum þm.

Herra forseti. Ég legg svo til að þessari till. verði vísað til hv. allshn.