28.04.1976
Neðri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3344 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

232. mál, rannsókn sakamála

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að bæta örstuttri aths. við þær umr. sem farið hafa fram um þessa þáltill.

Ég fagna mjög jákvæðum undirtektum hæstv. dómsmrh. undir þá stefnu, sem í till. felst, og afdráttarlausri viðurkenningu hans á nauðsyn þess að úrbóta sé leitað varðandi rannsókn sakamála: það efni sem þessi till. fjallar um.

Vegna þess að hann nefndi hið merka frv. sitt um rannsóknarlögreglu ríkisins, þá get ég lýst því yfir að þingflokkur Alþfl. er reiðubúinn til að styðja það ágæta mál og stuðla að því að það nái fram að ganga þegar á þessu þingi því að það horfir tvímælalaust til mikilla bóta. Jafnframt fagna ég mjög ræðu hv. síðasta ræðumanns sem tók skynsamlega og jákvæða afstöðu til efnis þess máls sem hér er um að ræða.

En þótt hæstv. dómsmrh. tæki jákvætt undir tilgang þeirrar till. sem hér er um að ræða, þá gat ég ekki heyrt að hann mælti með samþykkt till. Hafi ég skilið það rétt að svo hafi ekki verið, þá voru röksemdir, sem hann færði fram, að sjálfsögðu þær að gildandi fjárlög gerðu ekki ráð fyrir heimild til ráðningar þeirra manna sem hér væri talað um nauðsyn þess að ráða, þ.e.a.s. lögfræðinga, rannsóknarlögreglumanna og bókhaldsfróðra manna við þau dómaraembætti sem hafa með höndum rannsókn umfangsmikilla sakamála. Það skortir m.ö.o. heimild í fjárl. til ráðningar þessara viðbótarstarfskrafta. Að þessu máli lýtur sú aths. sem ég tel nauðsynlegt að gera um form málsins. Eðli málsins ræði ég ekki frekar, því hafa þegar verið gerð svo glögg skil í þeim umr. sem fram hafa farið að þar þarf engu orði við að bæta.

Varðandi þessa formshlið málsins vil ég láta þess getið að ég lít svo á, og það hygg ég að menn hljóti að verða að gera, að ef Alþ. skorar á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að ráðnir verði nýir starfsmenn við embætti, þá felist í slíkri ráðstöfun heimild til ríkisstj. til þess að ráða slíka menn, — heimild sem síðan yrði að sjálfsögðu staðfest í fjáraukalögum. Það er öllum hv. þm. og raunar öllum, sem til stjórnarfarsmálefna þekkja, ljóst að fjárlögum er aldrei í einu og öllu framfylgt. Það hefur svo að segja undantekningarlaust verið svo á undanförnum áratugum að ríkisreikningur hefur farið fram úr fjárlögum og þær umframgreiðslur síðan verið staðfestar í fjáraukalögum. Og það er einmitt það sem ég tel hér vera að gerast og liggja að baki slíkum tillöguflutningi sem þessum, að með því að skora á ríkisstj. að ráða nýja starfsmenn sé Alþ. að heimila ríkisstj. að ráða nýja starfsmenn og sú heimild verði síðan að sjálfsögðu staðfest í fjáraukalögum. En ef heimildin verður notuð, — sem ríkisstj. gerði að sjálfsögðu mér dettur ekki annað í hug, ef Alþ. samþykkti slíka ályktun, — þá mundi hún nota heimildina til þess að verða við óskum hlutaðeigandi dómaraembætta um fjölgun starfsmanna og kostnaður við það mundi síðan verða staðfestur í næstu fjáraukalögum. Það er líka rétt hjá hæstv. dómsmrh., að eins og gildandi lög eru yrði fjölgun slíkra starfsmanna að fara fyrir svonefnda bremsunefnd, hún gæti stöðvað ráðningu þeirra, hefur til þess lagaheimild. En það hvarflar ekki að mér að bremsunefnd mundi ganga gegn yfirlýstum vilja Alþingis. Ef Alþ. hefði lýst því yfir, hefði skorað á ríkisstj. að heimila dómaraembættum að ráða vissa starfsmenn og hann lýsir yfir þeirri skoðun sinni að slík ráðning sé nauðsynleg, þá hvarflar ekki að mér eitt andartak að bremsunefnd mundi hafna slíkum tilmælum. Bremsunefnd mundi auðvitað fara að vilja Alþ. og samþykkja þau og þar með væri formshlið málsins leyst.

Ég vildi láta þetta koma fram og biðja hv. allshn., sem væntanlega fær málið til athugunar, að hafa þetta í huga við afgreiðslu málsins, að þetta formsatriði þarf engan veginn að verða því til fyrirstöðu að þær umbætur sem allir, flm. till., hæstv. dómsmrh. og hv. síðasti ræðumaður eru sammála um, nái fram að ganga.