29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

Umræður utan dagskrár

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég hef farið fram á það að fá leyfi til að segja hér nokkur orð utan dagskrár, er fregn, sem birtist í dagblaðinu Tímanum miðvikudaginn 28. apríl, en þar er skýrt svo frá, að Samband ísl. samvinnufélaga hafi keypt hlut í sælgætissamsteypu norrænu samvinnusambandanna. Mun þar vera að ræða um, eftir því sem stendur í þessari fregn, nálægt 1% af hlutafé umrædds fyrirtækis. Þetta er geysilega stórt og mikið iðnfyrirtæki á sínu sviði.

Ég verð að segja það, að ég hef alltaf verið málsvari þess og oft bent á bað bæði í ræðu og riti að við þyrftum að liðka til um ákvæði þau er snerta gjaldeyrisskipti við útlendinga og sérstaklega að því er snertir vegferð fjármagns að og frá landinu. Þessi fregn var mér því mjög til ánægju, að þarna hefur íslensku fyrirtæki verið gefinn kostur á að taka þátt í fjárfestingu í erlendu iðnfyrirtæki, sem ég efast ekki um að megi bera góðan árangur. Ég vil þó í þessu sambandi geta þess, að ég er ekki alls kostar ánægður með það' val sem aðilar hafa gert um þá grein iðnaðar sem þeir hafa gerst aðilar að, sem er sælgætisverksmiðja, ekki síst með tilliti til þess að það kom fram í einhverju dagblaðanna að ekki væri útilokað að hér á landi yrði sett á stofn útibú frá umræddri sælgætissamsteypu. Ég hygg einmitt að sælgætisiðnaður okkar hafi sýnt merkilega góðan og mikilvægan árangur í sinni starfsgrein. En nú er einmitt þannig ástatt hjá þeim iðnaði, að eftir um árabil eða réttara sagt frá því að við gengum í EFTA að hefur hann átt í sívaxandi samkeppni við erlenda aðila. Ég er ekki alveg öruggur um að þarna hafi verið valið hagkvæmasta verkefnið.

En hvað um það, það er þessi stefna að leyfa okkur að vera þátttakendur í erlendum atvinnurekstri sem ég vil lýsa ánægju minni yfir. Og þá kem ég að aðalefninu, sem er það að ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskrh. hvort þessa ákvörðun hlutaðeigandi gjaldeyrisyfirvalda um að gefa þarna leyfi til fjárfestingar í erlendu fyrirtæki, allverulega upphæð á íslenskum mælikvarða, beri að skoða sem einhverja stefnubreytingu hjá yfirstjórn gjaldeyrísmála á Íslandi. þannig að nú sé búið að taka ákvörðun um að slaka nokkuð til á þeim reglum sem eitt hafa um möguleika fyrirtækja og einstaklinga til þess að fjárfesta í erlendum fyrirtækjum og/eða taka upp nánara samstarf við erlenda aðila og þá gjarnan með erlendu lánsfé sem hlutaðeigendur gætu útvegað sér til slíkra framkvæmda. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ef þetta er stefnumarkandi ákvörðun, há er hér um að ræða mjög mikilvæga lyftistöng fyrir allt frjálst athafnalíf í þessu landi.