29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

210. mál, orlof

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta og hv. meðdeildarmönnum mínum fyrir að samþ.brtt. mínar, sem ég hef lagt fram á þskj. 563, fái hér greiðan veg inn á dagskrá, en ég vil þó hafa örlitla forsögu um leið till. að þessum áfanga. Ég hafði reynt að vinna þeim fylgi á flokksfundi hjá okkur sjálfstæðismönnum, en mér var sagt að þær væru of seint fram komnar, samstaða væri um frv. þetta til l. um orlof og því ekki líklegt að hægt væri að ná fram breyt. á því. Síðan var mér bent á að koma þeim till. á framfæri við félmn. þessarar hv. d., svo sem ég gerði. En ég varð ekki var við það í framsöguræðu formanns n. að hann minntist á tilveru þessara brtt. og þótti mér miður, og frekar en að láta ganga þannig alveg fram hjá óskum mínum og hugmyndum um breyt. á lögunum sem lagðar eru fram í þessari hv. d. sem ég hef verið kjörinn til að starfa í, þá kaus ég að koma þeim á framfæri á þann hátt sem ég hef gert, á milli 2. og 3. umr. Að sjálfsögðu kem ég fram með þessar till. vegna þess að ég held að þær séu til bóta miðað við það frv. sem lagt hefur v; rið fram af ríkisstj. og samið hefur verið af embættismönnum og samþ. af viðkomandi stjórnarflokkum, en þær eru — með leyfi forseta — svo hljóðandi:

„1. Við 1. gr. 3. málsgr. orðist svo:

Orlofsnefnd hefur umsjón með framkvæmd orlofslaganna og afgreiðir kvartanir frá launþegum og vinnuveitendum sem telja sig misrétti beitta samkv. lögum þessum.

2. Við 6. gr. 3. málsgr. orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 4. gr. laga þessara er skólafólki heimilt að taka allt orlof sitt utan orlofstíma.“

Þetta komi í staðinn fyrir eins og það hljóðar í frv. eins og það liggur hér fyrir til samþykktar: „Þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 4. gr. laga þessara er skólafólki, sem stundar nám við viðurkennda skóla“ o.s.frv., þannig að skólafólki almennt, en ekki bara einhverju sérstöku úrvalsfólki sé veitt þessi heimild.

„3. Við 8. gr. 1. málsgr. hún orðist svo: Atvinnurekandi skal greiða e orlofsfé til lausráðinna starfsmanna 81/3% af launum“ þar við bætist: „þegar laun eru greidd.“ (Gripið fram í.) Það er almennt haft á orði að atvinnurekendur reyni að smeygja sér hjá að greiða eða tefji greiðslu á orlofsfé. En ef þau eru greidd jafnóðum til þess fólks sem talið er að atvinnurekendur svíki, þá er þar með komið í veg fyrir að það sé hægt, og fólkið sjálft getur þá ávaxtað fé sitt í bönkum, ef það áskar eftir, og notað þá bæði orlofsfé og vexti þegar þar að kemur að það tekur orlof.

Í beinu framhaldi af þessu falli niður 12,, 13. og 14. gr., greinar sem verða óþarfar, og að sjálfsögðu falli niður 3. liðir í 1. málsgr. 16. gr.

Ég hef tekið hér saman á blað, sumt af því hef ég þegar sagt hér, en ætla þó að lesa það til þess að það gæti kannske skýrt betur það sem ég hef þegar látið fylgja þessum brtt., en aths. mínar eru þá svo hljóðandi:

Með þessum brtt. er lagt til að launþegar, sem ekki eru fastir starfsmenn, fái orlofsfé sitt útborgað hjá vinnuveitendum við hverja kaupgreiðslu. Við þessa einföldun vinnst þrennt:

1. Launþegar geta nú sjálfir fylgst með því og tryggt það að þeir fái orlofsfé sitt greitt.

2. Launþegar geta ávaxtað orlofsfé sitt þar til orlof er tekið.

3. Kostnaðarsamt innheimtukerfi má fella niður.“

Í samræmi við þessa till. er gerð breyting á starfssviði orlofsnefndar í 1. gr. frv. Hið sama gildir um breytingu vegna skólafólks í 5. gr. frv.

Breytingin á 1. málsgr. 8. gr. frv. er gerð til þess að þar komi fram hvernig þessari einföldun á greiðslu orlofsfjár skuli háttað. Þar með verður 12. gr. óþörf.

Lagt er til að 13. gr. falli niður, þar sem þar virðist atriði, sem ætti að falla undir almenn mannréttindi, vera takmarkað, réttur fólks til að taka við launuðu starfi. Ég álít að við getum ekki og eigum ekki að takmarka hann. Slík takmörkun hlýtur að koma verst við þá sem hafa lágar tekjur eða lenda í sérstökum fjárhagsvandræðum. Takmörkunarákvæði sem þetta virðist því ekki eiga heima í lögum yfirleitt.

14. gr. fellur niður vegna einföldunar á greiðslu orlofsfjár. Rétt er þó að benda á að þetta ákvæði kveður á um ráðstöfun og upptöku eigna án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Eðlilegt væri að fyrningarfrestur væri ekki tvö ár, heldur væri farið með óvitjað orlofsfé á sama hátt og sparifé á sparisjóðsbókum sem eigandi vitjar ekki í 15 ár samfleytt. Ég hef reynt að kynna mér hvernig farið er með sparifé sem ekki er vitjað í ákveðinn tíma, en eftir 15 ár skilst mér eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið símleiðis frá bönkunum, að það renni inn í eignir bankans, en þessu ákvæði hefur ekki verið beitt í neinum af þeim bönkum sem ég hringdi til. Það er aðeins heimild til þess.

3. liður 1. málsgr. 16. gr. er feldur niður þar sem lagt er til að þær greinar, sem vísað er í, falli niður.

Þessar brtt. og þessar aths., eins og ég hef nú lesið þær upp, til viðbótar því sem ég sagði þegar ég fylgdi mínum brtt. úr hlaði, vélritaði ég til þess að auðvelda hv. félmn. að skilja þau gögn sem ég lagði fram svo síðbúin, en hv. frsm. félmn. sá ekki ástæðu til þess að minnast á að hafa tekið á móti þeim.

Ég hef lokið máli mínu. Ég vona að hv. félagar mínir í þessari hv. d. veiti mér þá ánægju sem starfsbræður að fella ekki að óathuguðu máli þessar brtt. mínar þótt samstaða sé um frv. án þeirra meðal stjórnarflokkanna. Ég endurtek, að sjálfur held ég að þær séu til bóta. Annars hefði ég að sjálfsögðu ekki borið þær fram og síst af öllu svo seint við afgreiðslu þessa frv.