29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

210. mál, orlof

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það þarf ekki lengi að ræða þetta mál. Hins vegar vil ég taka það fram, að ég sá strax þegar till. hv. þm. Alberts Guðmundssonar komu fyrir augu okkar í félmn. að þær stríddu vitanlega algjörlega á móti anda orlofslaganna frá upphafi á þann hátt, að það var ráð fyrir því gert að orlofsféð yrði greitt út jafnharðan. Andi orlofslaganna er vitanlega fyrst og fremst sá að fólk taki sér orlof, og með því fyrirkomulagi, sem á því hefur verið, og ekki síst eftir síðustu breytingu, þá á það að vera betur tryggt, — ég segi ekki fulltryggt, en það á að vera betur tryggt að fólk taki sér sitt rétta orlof.

Ég sá það hins vegar strax hvers vegna þessar till. voru fluttar, og ég virði það mjög við hv. þm. að taka þetta mál upp vegna þeirra ástæðna, þ.e.a.s. vegna þess að bæði hann og við allir hér vitum að í vissum tilfellum er um vanskil atvinnurekenda að ræða á þessu orlofsfé. Það er að vísu mjög takmarkað, mjög lág prósenta þegar allt kemur til alls, og það er vitanlega mjög fallega hugsað, svo að ekki sé meira sagt, að vilja koma í veg fyrir þessi vanskil. Það er það jákvæðasta, sem ég sé bak við þennan tillöguflutning, og hlýtur að vera meginástæðan fyrir honum. Hitt er svo annað mál, að vegna þess að þetta er ekki í samræmi við anda þessara laga og við þetta forna baráttumál verkalýðshreyfingarinnar, þá er vitanlega útilokað að samþ. það, fyrir utan svo það, sem var tekið fram af hv. formanni félmn., að hér er um samkomulagsatriði að ræða. Þessar till. voru bornar undir viðkomandi aðila. Þeir voru þeim algjörlega andvígir, sem skiljanlegt var. Við eigum auðvitað fyrst og fremst að reyna að koma þessu kerfi í það horf að þessi vanskil geti ekki átt sér stað og það sé fylgst miklu betur með því en verið hefur að atvinnurekendur komist ekki upp með þessi vanskil og hert séu viðurlög við því að þeir hrjóti þannig orlofslögin. En aðeins vildi ég taka það fram, að í sambandi við þetta frv. kom fram í máli hv. formanns félmn. í gær — eða hvenær sem þetta frv. var nú til 2. umr. — að ein meginforsendan er vitanlega sú að hér er verið að lögfesta ákvæðin um vissa vexti af þessu orlofsfé. Það er rétt að það var mikil óánægja meðal launþega með að þetta fé skyldi liggja vaxtalaust. Nú er úr þessu bætt með samkomulagi milli atvinnurekenda og verkafólks, og þó að við sjáum ekki enn hvaða vextir verða á þessu fé, þá er þetta stór bót í rétta átt.

Ég skal svo aðeins taka það fram í lokin, að það var orðin viðtekin venja, þar sem ég þekkti til. að greiða orlofsfé út með launum. Það var orðið það þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli þar um. Og þegar þessu var hætt algjörlega, fyrir þetta tekið algjörlega, þá urðu menn töluvert óánægðir að fá ekki þessa peninga jafnharðan. Undan þessu var kvartað. Og ég man eftir því að ég sem þm. stóð að þeirri lagasetningu sem kom endanlega í veg fyrir þetta, ég var skammaður töluvert fyrir þetta af fólki, að lofa því að fá þessa peninga jafnharðan. Ég get fullvissað hv. 12. þm. Reykv. um það, að í yfirgnæfandi tilfellum nú — kannske öllum eða nær öllum, þá fagnar fólk því, að fá þessa upphæð síðar, einmitt þegar það þarf á því að halda að fara í sumarfrí, fara í orlof, og ekki síður verður ánægja þess mikil þegar þetta fé liggur ekki lengur vaxtalaust, heldur er með þessum lögum verið að tryggja því allsæmilega vexti af þessu orlofsfé.