29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3359 í B-deild Alþingistíðinda. (2777)

210. mál, orlof

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka undirtektir hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég fór ekki fram á annað en að starfsbræður mínir hér í þessari hv. d. athuguðu vel þessar brtt. sem ég hef leyft mér að flytja hér til mikils ama fyrir hv. formann félmn. Hann talaði hér af óþolandi stærilæti í mínum augum, og skal ég færa rök að þessum orðum mínum.

Ég vil byrja á að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að ég hefði reynt að koma þessum brtt. á framfæri á flokksfundi hjá Sjálfstfl. En þessum brtt. mínum var beint inn á þessar brautir, til félmn., í staðinn fyrir að leggja þær fram, sem ég hefði að sjálfsögðu átt að gera. En sem nýr þm. verður maður að læra af reynslunni og þreifa sig áfram. Síðan skýrði ég frá því að félmn. eða formaður félmn. hefði fengið þessar till. í hendur. Ég gat ekki heyrt það á tali hans í framsögu fyrir þessu frv. til l. umr. um orlof við 2. umr.brtt. mínar hefðu komið fram eða um þær verið fjallað í félmn. Það kom ekki fram í hans framsögu, og þess vegna gerði ég athugasemdir og þess vegna kom ég með þær í því formi sem þær liggja hér fyrir nú. Ég vil líka taka það fram aftur, til þess að það verði ekki misskilningur, að ég lagði mig fram um að viðurkenna það að till. væru seint fram komnar, kannske ekki alveg á þann máta sem hæstv. forseti þessarar d. óskaði eftir. Ég hef skýrt ástæðuna fyrir því að þær komu ekki fyrr fram, og ég þakkaði d. sérstaklega fyrir að hafa samþ. afbrigði til þess að það kæmi hér á dagskrá. Þess vegna sé ég ekki að hæstv. forseti sé að gera mér einhvern persónulegan greiða eða nokkrum öðrum þm. þegar samþ. er að taka mál hér á dagskrá sem eru of seint fram komin, og slíkt stærilæti sætti ég mig ekki við af hans hálfu. Ég stend ekki í neinni þakkarskuld, hvorki við hann né aðra dm., fyrir að taka á dagskrá með afbrigðum eitt og annað mál. Ég tel ekki heldur að nokkur þm. standi í þakkarskuld við mig þó ég greiði því atkv. að mál séu tekin hér fyrir þó að þau séu of seint fram komin. Ég tel það sjálfsagt.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur nú sagt ýmislegt af því sem ég ætlaði mér að segja. Ég vil þó undirstrika það, að það hindur enginn hendur mínar úti í bæ. Þegar mál koma hér fyrir hv. Alþ., þá vil ég fá að ræða málin, og ef ég er ekki ánægður með þau mál, sem koma fram, þá vil ég fá að koma með brtt. sem gera mig ánægðan, hvort sem þær eru samþ. eða felldar.

Og svo við förum í þær brtt. sem ég hef hér lagt fram, þá hafa ræður þeirra, sem eiga sæti í félmn., aðallega snúist um það að ekki skuli greiða út það orlofsfé sem um er rætt. En það er ýmislegt annað í till. sem ég álít að sé til bóta, og skal ég ekki þreyta þessa hv. d. með því að eyða mörgum orðum eða miklum tíma í að ræða þær. En eitt vil ég þó benda á bara sem dæmi, og það er í 13. gr.

Eigum við með lögum frá Alþingi — eigum við virkilega með lögum frá Alþ. samþ. annað eins og hér segir: „Óheimilt er manni að vinna fyrir launum í starfsgrein sinni eða skyldum starfsgreinum meðan hann er í orlofi, og má setja um þetta nánari ákvæði í reglugerð“ — eigum við að fara að banna manni að vinna ef hann vill vinna í sínum frítíma? (Gripið fram í.) Þetta er í lögum, já. Eigum við þá ekki að taka það í burtu, að heft sé athafnafrelsi manna af því að við segjum að þeir eigi að hvíla sig, en þeir vilja vinna? Hvað er að ske? Ég var ekki viðstaddur, þegar það var samþ., til þess að gera athugasemdir við það. Ég hefði áreiðanlega gert það, hefði svo verið.

Það er orðið allt of mikið af boðum og bönnum í þessu blessaða þjóðfélagi. Búið er með lögum að samþ. eignarapptöku á fé sem ríkið á alls ekkert í. Orlofsfé er fé fólksins. Ef það vill eiga það inni í þessari innlánsstofnun — ég kalla þetta ekkert annað en innlánsstofnun — í meira en tvö ár, þá hefur það ekki aðgang að því lengur, það er gert upptækt. Ég óska fulltrúum alþýðunnar, sem telja sig vera, til hamingju með þessa samþykkt. Ég veit ekki hvort fólkið vill þetta. Hér stendur í 14. gr.: „Orlofsfé sem orlofsþegi hefur ekki tekið út innan tveggja ára frá lokum orlofsársins, rennur í sérstakan orlofssjóð sem nota skal til hagsbóta fyrir orlofsþega. Varsla og ráðstöfun sjóðsins er í höndum orlofsnefndar ríkisins og stendur sjóðurinn sjálfur undir kostnaði við rekstur sinn.“ Fólkið hefur ekki aðgang að sínu fé eftir tvö ár.

Ég get haldið áfram með einstakar greinar og gagnrýnt þær, eins og ég hef gert við þessar tvær greinar, til að benda á að það er ýmislegt annað en staðgreiðslur til fólksins, til lausráðinna, eins og till. mín segir til um, í þessu frv. Og ég fagna því að það skuli þó vera einn maður sem tekur undir það að frv. verði betur athugað.

Það getur vel verið að aðilar vinnumarkaðarins hafi komið á fund félmn. til þess að segja henni að skila til Alþ. að þeir hefðu samþ. eitthvað úti í bæ. En það bara hentar mér ekki sem þm. að taka við skömmtunarseðlum frá aðilum úti í bæ, jafnvel þó þeir heiti aðilar vinnumarkaðarins.