29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3364 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr., þá fagnaði ég þeim breytingum sem á húsnæðisstofnunarlögunum eru nú gerðar. Ég taldi reyndar í sambandi við 1. gr. frv. að það væri nauðsynlegt að einhver ákveðin lágmarksupphæð stæði þar eða þá a.m.k. kæmi einhver ákveðin prósenta af heildartekjum Húsnæðismálastofnunarinnar sem yrði varið til þessara verkefna, kaupa á eldri íbúðum og endurbóta á íbúðum öryrkja og, eins og nú hefur verið samþykkt eða mælt með af okkur í félmn., einnig til íbúða til lífeyrisþega eða endurbóta á þeim, en um það flutti hv. þm. Oddur Ólafsson sérstaka brtt. sem við að sjálfsögðu studdum. Ég held að ég geti fallist á það að þarna sé ekki neitt slíkt ákvæði, þó að vitanlega hefði það verið skemmtilegra og betra að menn hefðu getað gengið að því sem vísu, að t.d. einhver lágmarksprósenta af tekjum Húsnæðismálastofnunarinnar rynni örugglega til þessa verkefnis, af því að þessu verkefni hefur verið illa sinnt og upphæðirnar, sem hafa farið í eldri íbúðirnar, hafa verið allt of lágar, sbr. það að hæstv. félmrh. upplýsti hér að meðalupphæð lána hefði verið 300 þús. á s.l. ári. og þarna getur oft verið um að ræða kaup á margmilljóna eignum. En við verðum að vona, að húsnæðismálastjórnin taki sig töluvert á í till. sínum til ráðh. Auðvitað kallar þetta allt saman á aukið heildarfjármagn til húsnæðismála og á því er vitanlega full þörf, það er eitt af forgangsverkefnunum í okkar þjóðfélagi að sjá svo til að til þeirra sé veitt nægilegt fjármagn.

Við þessa umr. vék ég einnig að leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga og efndunum á þeirri heimild, sem var lögfest árið 1973, og nauðsyn á því að þetta yrði gert að forgangsverkefni í svipuðum mæli og verkamannabústaðirnir. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson vakti þá alveg sérstaka athygli á því að í stað heimildar kæmi beinlínis skylda, það verði skylt að veita þessi lán. Ég styð því mjög eindregið þá brtt. sem við höfum hér flutt um að í staðinn fyrir heimildina komi: „skal veita slík lán.“

Ég var, eins og hv. formaður félmn. veit, örlítið hugsandi varðandi töluna þarna, en sætti mig þó við hana eftir atvikum. Hér er um að ræða eigi færri en 150 íbúðir ár hvert. Það er ekkert sem mælir á móti að þær geti orðið 200, eins og ráð var fyrir gert í upphafi. Og alveg sérstaklega miða ég auðvitað við það, að núna að hálfnuðu þessu 5 ára tímabili eða við skulum segja miðað við 3 ár af þessu 5 ára tímabili, þá eru ekki samningar uppi um nema 281 íbúð og ekki einu sinni séð fyrir fjármagni til þeirra allra að fullu á þessu ári. Þá er hér auðvitað um mikla framför að ræða ef við mættum eiga von á 150 íbúðum þó öruggum á næstu 5 árum.

Því er það að ég hef stutt frv. sem slíkt og þá brtt. sem hér hefur verið kynnt af formanni n. Ég tel sem sagt þá skyldu, sem hér er lögð á Húsnæðismálastofnunina eða húsnæðismálastjórn, mjög mikilvæga, þannig að hún láti þetta verkefni nú ekki reka á reiðanum svo mjög sem gert hefur verið og setji þetta verkefni jafnhliða a.m.k. verkamannabústöðunum, þó að ég viti að það kerfi þarf að efla einnig og samhliða. Einnig fagna ég því að við skyldum getað orðið sammála um, að mæla með hinni ágætu till. hv. þm. Odds Ólafssonar.