29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3367 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

213. mál, veiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Efni þessa frv. er að sjútvrh. er fengið það vald að geta gefið út reglugerð og sett reglur um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, bæði til þess að framfylgja ákvæðum alþjóðasamninga, sem íslendingar eru eða gerast aðilar að, eða þá samninga sem gerðir eru milli íslenskra stjórnvalda og erlendra stjórnvalda. Við þekkjum mörg dæmi þess að íslensk skip stundi veiðar fjarri okkar eigin fiskveiðilögsögu, og þarf ég ekki annað en vitna til síldveiða íslenskra skipa í Norðursjó og reyndar allt vestur til Bandaríkjanna, sérstaklega þó á miðum undan ströndum Kanada, það er mat aðila að þótt vel hafi tekist til oft og tíðum í samningum okkar opinberu yfirvalda við bæði útgerðarmenn og skipstjóra, þá er þó talið að það sé tilfinnanlegur skortur á lagaheimild til þess að setja bátunum veiðireglur. Einnig teljum við að það þurfi að vera vald fyrir hendi til þess að við fylgjum eftir eigin ákvörðunum um veiðarfæri þau sem notuð eru af íslenskum skipum, en til þess að það sé hægt að gera utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi er talið nauðsynlegt að setja þessi lög.

Þetta frv. kemur frá Ed., en þar hefur það verið samþ. shlj. Sjútvn. þessarar hv. d, mælir eindregið með því að frv. verði samþ. óbreytt.