29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3376 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með öðrum þeim hv. þm., sem hér hafa tekið til máls, að frv. það til l. um Fiskveiðasjóð Íslands, sem hér er til umr., er að mínu mati mikil framför ef lögfest verður, sem ég dreg raunar ekki í efa að verði.

Fiskveiðasjóður Íslands er ákaflega merkileg stofnun og hafa umsvif sjóðsins farið vaxandi með hverju ári á undanförnum árum, og verkefni hans eru að sjálfsögðu hin þýðingarmestu í sambandi við uppbyggingu atvinnulífs þjóðarinnar. Það væri að sjálfsögðu freistandi að ræða þessi verkefni nánar. Ég mun þó ekki gera það við þetta tækifæri, en get þó ekki stillt mig um að minnast á það atriði, sem hæstv. sjútvrh. gat um í framsöguræðu sinni áðan, að það væri mjög tiffinnanlegt um þessar mundir að Fiskveiðasjóð skorti fjármagn til þessa að standa að uppbyggingu í hraðfrystiiðnaðinum eins og til hefur verið ætlast.

Eins og kunnugt er, var samþykkt fyrir nokkrum árum sérstök hraðfrystihúsaáætlun sem fjallar um mjög umfangsmikla uppbyggingu og framför á sviði hraðfrystiiðnaðarins í landinu. Samkv. þessari áætlun hafa mörg ný fiskiðjuver risið upp víðs vegar um landið og önnur hafa verið endurbætt stórlega frá því sem áður var. En það hefur hamlað nokkuð eðlilegu áframhaldi á framkvæmd þessarar áætlunar að Fiskveiðasjóður hefur ekki haft nægilega mikið fjármagn til þess að taka þátt í lánveitingum til þessarar uppbyggingar eins og til hefur verið ætlast. Það er gert ráð fyrir því að standa þannig að hraðfrystihúsaáætluninni að Fiskveiðasjóður láni allt að 60% af framkvæmdum við byggingar, Byggðasjóður láni síðan víðbótarlán, frá 10–25% eftir atvikum, og sjálfir leggi eigendur fram það sem á vantar. En það er mjög bagalegt — og ég sé ástæðu til þess að nefna það hér — að Fiskveiðasjóð skortir nú talsvert verulegt fjármagn til þess að standa, að því er ég tel með eðlilegum hætti, að framkvæmd hraðfrystihúsaáætlunarinnar, þó að gert sé ráð fyrir þó nokkru fjármagni á þessu ári í því skyni eða einhvers staðar á milli 500 og 800 millj. kr.

En það var sérstaklega eitt atriði sem ég vildi ræða stuttlega varðandi frv., eitt ákvæði, þ.e.a.s. um skipun stjórnar Fiskveiðasjóðs Íslands, eins og gert er ráð fyrir að hún verði samkv. frv.

Ég vil taka undir það, sem hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum, að ég tel framför í því að fleiri aðilar fái aðild að stjórninni en verið hefur. En ég dreg í efa að það sé eðlilegt að Seðlabankinn tilnefni sérstaklega mann í stjórn Fiskveiðasjóðs. Ef litið er í löggjöfina, sem gildir um Seðlabankann, þá er hlutverk bankans í fyrsta lagi að annast seðlaútgáfu, í öðru lagi að efla og varðveita gjaldeyrisvarasjóð, í þriðja lagi að kaupa og selja erlendan gjaldeyri og fara með gengismál. í fjórða lagi að annast bankaviðskipti ríkissjóðs, í fimmta lagi að vera banki annarra banka og peningastofnana og hafa eftirlit með bankastarfsemi. í sjötta lagi að gera sem fullkomnastar skýrslur og áætlanir um allt sem varðar hlutverk hans. Síðan segir í sjöunda lagi: „Að annast önnur verkefni sem samrýmanleg eru tilgangi hans sem seðlabanka.“

Nú kemur það fram í þessum lögum að Seðlabankanum er ætlað að vera banki annarra banka og peningastofnana. Hér er lagt til og er raunar í framhaldi af því, sem nú er gildandi í lögum, að Seðlabankinn tilnefni stjórnarmeðlimi í stjórn eins af mörgum fjárfestingarlánasjóðum landsmanna. Það gæti þá eins verið ástæða til þess að Seðlabankinn skipaði mann í stjórn landbúnaðarsjóðanna, skipaði mann í stjórn lánasjóða iðnaðarins, Lánasjóðs sveitarfélaga o.s.frv., o.s.frv. En ég tel hæpið að Seðlabankinn tilnefni sérstaklega stjórnarmann í einn af mörgum fjárfestingarlánasjóðum landsins og dreg í efa að það sé í samræmi við þau önnur verkefni sem Seðlabankanum er ætlað að sinna umfram það sem sérstaklega er talið upp í lögum.

Ég mun eiga sæti í þeirri þn. sem kemur til með að fjalla um þetta mál, og ég hef ekki í hyggju að flytja brtt. við frv., en vildi aðeins láta þetta álit koma hér fram.